29.12.2020 11:55

Bólusetning hafin

Ég ber traust til þess sem opinberir aðilar segja um áhrif bóluefnisins og gæði þess og fer þess vegna til bólusetningar þegar kallið kemur.

Mikilvægt skref var stigið í morgun (29. desember) þegar fyrstu einstaklingarnir voru bólusettir hér á landi við COVID-19. Á sótt- og almannavarnasíðunni covid.is segir að markmið bólusetningarinnar sé að vernda fólk fyrir COVID-19 og ná upp hjarðónæmi sem hindri útbreiðslu faraldursins.

1248915Myndin er frá Almannavörnum og sýnir fystu bólusetningu starfsfólks heilbrigðiskerfisins að morgni þriðjudags 29. desember 2020.

Til að ná hjarðónæmi þarf að bólusetja um 60% þjóðarinnar. Á Íslandi er gert ráð fyrir að 75% landsmanna sem fæddir eru 2005 eða fyrr verði bólusettir. Bólusetning er og verður gjaldfrjáls og enginn verður skyldaður í bólusetningu.

Hraði bólusetninga ræðst af því hversu mikið magn bóluefnis kemur til landsins á hverjum tíma.

Á heimasíðu Lyfjastofnunar segir að fyrsta bóluefnið sem notað er hér á landi heiti Comirnaty (BioNTech/Pfizer) og það undirbúi líkamann undir það að verjast COVID-19. Það inniheldur svokallað mRNA sem inniheldur leiðbeiningar fyrir framleiðslu gaddapróteina (e. spike proteins). Umrædd gaddaprótein eru líka á yfirborði SARS-CoV-2 veirunnar og eru henni nauðsynleg til að komast inn í frumur líkamans. Þá segir:

„Þegar einstaklingum er gefið bóluefnið munu sumar frumur þeirra lesa mRNA leiðbeiningarnar og framleiða gaddaprótein tímabundið. Ónæmiskerfi viðkomandi lítur á þau sem framandi fyrirbæri og tekur til varna með því að framleiða mótefni og T-frumur (hvít blóðkorn) gegn þeim. Sú vörn mun síðar koma að gagni til að verja viðkomandi einstakling gegn SARS-CoV-2 veirunni, þar sem ónæmiskerfið kemur til með að þekkja veiruna og ráðast gegn henni.

mRNA í bóluefninu verður ekki eftir í líkama þeirra sem eru bólusettir því það brotnar niður fljótlega eftir bólusetningu.“

Með bóluefninu Comirnaty þarf að bólusetja hvern einstakling tvisvar með þriggja vikna hléi. Það á að veita 95% vernd gegn veirunni.

Ég ber traust til þess sem opinberir aðilar segja um áhrif bóluefnisins og gæði þess og fer þess vegna til bólusetningar þegar kallið kemur. Geng ég að því sem vísu að ekki sé látið opinbert boð út ganga um bólusetningu nema fyllsta öryggis sé gætt.

Ég lít þannig á að í raun sé brot á sóttvarnareglum að skorast undan bólusetningu þótt af opinberri hálfu sé tekið fram að enginn sé skyldaður til bólusetningar. (Spænsk yfirvöld ætla að halda skrá yfir þá sem ekki láta bólusetja sig.)

Það er í mínum huga jafneðlilegt að allir láti bólusetja sig og virtar séu sóttvarnareglur. Bólusetning er ekki aðeins vörn fyrir mig heldur liður í að hefta útbreiðslu veirunnar í samfélaginu. Þess vegna tekst vonandi að semja sem fyrst um nægilega mikið bóluefni fyrir alla þjóðina.