17.5.2021 10:57

Blinken á norðurslóðum

Sömu dagana og Blinken heimsækir Danmörku, Ísland og Grænland er John Kerry, sérlegur loftslagsfulltrúi Bidens, á ferð til páfans í Róm og um Evrópu.

Í vikunni beinist athygli stjórnmálamanna, fræðimanna og blaðamanna að utanríkisráðherrafundi Norðurskautsráðsins hér í Reykjavík fimmtudaginn 20 maí þegar formennska í ráðinu flyst frá Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra á herðar Sergeijs Lavrovs, utanríkisráðherra Rússlands.

Í dag, 17. maí, er Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, í Kaupmannahöfn, þar sem hann hittir Margréti II. drottningu, Mette Frederiksen forsætisráðherra, Jeppe Kofod utanríkisráðherra og Jenis Av Rana og Pele Broberg utanríkisráðherra Færeyja og Grænlands.

Blinken flýgur hingað til Íslands í kvöld. Á morgun, þriðjudag hittir hann forseta Íslands, forsætisráðherra og utanríkisráðherra. Tekur þátt í fundi Norðurskautsráðsins á miðvikudag og fimmtudag og heldur að honum loknum til Grænlands með Jeppe Kofod og Pele Broberg.

Title-1manglerJeppe Kofod utanríkisráðherra, Margret II. Danadrottning, Antony Blinken utanríkisráðherra og Friðrik króprins í Amalienborg í Kaupmannahöfn að morgni mánudags 17. maí.

Mike Pompeo, forveri Blinkens, heimsótti Danmörku í fyrra og í dönskum fjölmiðlum segir að þessar heimsóknir bandarísku utanríkisráðherranna séu til marks um áhugann í Washington á norðurslóðum bæði með vísan til öryggismála og loftslagsmála. Ríkisstjórn Joes Bidens leggur allt aðra áherslu á síðari málaflokkinn en stjórn Donalds Trumps og þegar rætt er um öryggismál er grunntónninn vissulega óbreyttur en viðmótið annað frá því að Trump sagðist hafa áhuga á að kaupa Grænland.

Árið 2019 blés Trump af heimsókn til Danmerkur á síðustu stundu. Framganga hans í garð danskra stjórnvalda er talin skýra hvers vegna drottningin hitti Antony Blinken núna en ekki Mike Pompeo í fyrra.

Sömu dagana og Blinken heimsækir Danmörku, Ísland og Grænland er John Kerry, sérlegur loftslagsfulltrúi Bidens, á ferð til páfans í Róm og um Evrópu til að kynna sóknarstefnu Bidens-stjórnarinnar í loftslagsmálum. Hann sagði í BBC-sjónvarpsviðtali í gær að vísindamenn hefðu sagt sér að 50% af þeim samdrætti í útblæstri sem væri nauðsynlegur til að nálgast núllið 2050 eða 2045 yrði með tækni sem enn væri ekki fyrir hendi.

Hvað sem líður ágreiningi um réttmæti þessara ummæla sýna þau að Bandaríkjastjórn leitar allra leiða til að ná umsömdum alþjóðamarkmiðum í loftslagsmálum en blæs ekki á þau eins og Trump gerði. Hér ætti að gefast kostur á að kynna Blinken tækni og annað til að binda kolefni í þágu loftslagsmarkmiða.

Þegar John Kerry var tilnefndur loftslagserindreki í febrúar 2021 rifjuðu bandarískir fjölmiðlar upp að í október 2019 hefði hann sætt gagnrýni fyrir að fljúga á einkaþotu hingað til lands til að taka á móti viðurkenningu á Arctic Circle – hringborði norðurslóða – fyrir framlag sitt til loftslagsmála.

Jóhann Bjarni Kolbeinsson, fréttamaður ríkisútvarpsins, spurði Kerry að því í október 2019 hvort hann hefði valið umhverfisvænan ferðamáta hingað til lands. Kerry réttlætti þá einkaflugið með þeim orðum að það væri „eini kosturinn“ fyrir einhvern eins og hann sem ferðaðist um heiminn til að sigra loftslagsorrustuna. Á árinu 2015 hefði hann í umboði Baracks Obama forseta náð samkomulagi um Parísar-samninginn til varnar loftslaginu.