16.5.2019 11:34

Björn Leví skýrir lögfræðiálit

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, skrifar mest upplýsandi greinina af sjö um þriðja orkupakkann (O3)  í Morgunblaði dagsins.

Líklega hefði ég lengi hafnað fullyrðingu einhvers í þá veru að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, myndi skrifa mest upplýsandi greinina af sjö um þriðja orkupakkann (O3) sem birtust sama daginn í Morgunblaðinu. Þetta gerist þó í dag, fimmtudaginn 16. maí.

Sex greinanna eru í andstöðu við O3. Þær eru mismunandi langt frá því að fjalla um efni málsins. Rökstuðningurinn er heimasmíðaður, það er greinarhöfundar gefa sér einhverja eigin forsendu um hvað felst í O3 og leggja síðan út af henni. Niðurstöðurnar verða mismunandi skrautlegar. Þetta er í anda umræðuhefðar Miðflokksins undir leiðsögn formanns hans, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar.

Þingmenn Miðflokksins stóðu í ræðustól alþingis í alla nótt og töluðu hver eftir annan og við annan um þessar kenningar Sigmundar Davíðs. Í morgun hringdi svo ósofinn Jón Valur Jensson, helsti áróðursmaður Orkunnar okkar í netheimum, í útvarpsstöð hópsins, Útvarp Sögu, og ræddi við Pétur Gunnlaugsson útvarpsstjóra sem lýsti hneykslun þegar hann heyrði að þingmenn Miðflokksins hefðu þurft að leggja þetta á sig, það sannaði þó hvað þeim væri málstaður meistara síns kær.

7591d02bfcfbdf807eba8ad77d965f8fd303_9-1024x658Málþóf að næturþeli er ekki endilega það sem Miðflokkurinn þarf til að bæta ímynd sína. Þingmennirnir ráða þessari ferð hins vegar sjálfir eins og þeir réðu því sem sagt var á Klaustur-bar 20. nóvember 2018. Að þeir snúi einhverjum á sitt band með framgöngu sinni í þingsalnum er af og frá.

Morgunblaðsgreinin eftir Björn Leví snýst um lykilatriði í umræðu um málið, hvort þar sé framselt illa skilgreint og íþyngjandi vald, komi sæstrengur. Hann fer í saumana á lögfræðilegri álitsgerð Friðriks Árna Friðrikssonar Hirsts og Stefáns Más Stefánssonar sem er mikið haldreipi Miðflokksmanna í málatilbúnaði þeirra (Sigmundur Davíð rangfærir að vísu meginniðurstöðu þeirra, hún er sú að innleiðing O3 brjóti ekki í bága við stjónarskrána). Björn Leví segir:

„Þar [í álitsgerðinni] er farið í þýðingu á orðunum „shall include“ og sagt að það útiloki ekki fleiri atriði og sé valdaframsalið [til ESB] því ekki vel afmarkað og skilgreint þar sem hægt væri að bæta við fleiri atriðum í listann um skilmála og skilyrði. Þegar það á við í ensku er hins vegar venjulega sagt „shall include but not limited to“. Ekki trúa mér, trúið Dönum. Reglugerðin á dönsku notar orðin „omfatter“ og „og“. Það þýðir tæmandi listi. Sama í sænsku, „inbegripa“ og „och“. Lykilorðið þarna er þetta „og“. Ef það mætti taka tillit til fleiri atriða á dönsku væri það skrifað „omfatter bl.a“. Miðað við þetta er listinn vel afmarkaður og skilgreindur og því er valdaframsalið það líka.“