23.1.2024 10:38

Bjarni í hlutdræga Silfrinu

Það var á þessum tilbúnu og órökstuddu forsendum sem rætt var við Bjarna í Silfrinu. Slík fréttamennska er að sjálfsögðu óboðleg hjá stofnun sem á lögum samkvæmt að gæta óhlutdrægni.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, gagnrýndi tjaldbúðir á Austurvelli sem meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur leyfði aðgerðarsinnum að reisa til stuðnings málstað Palestínumanna og til að heimta að íslensk stjórnvöld færu inn á Gaza og næðu þar í skyldmenni þeirra sem í tjöldunum hafa búið.

Vegna þingsetningar eftir jólaleyfi síðdegis mánudaginn 22. janúar efndi hópur fólks til aðgerða á Austurvelli í anda tjaldbúanna. Fengu aðgerðirnar mikið rými í sjónvarpsfréttum er engu líkara en stofnað hafi verið til keppni milli fréttastofa ríkisútvarpsins og Stöðvar 2 um stuðningsfréttir við tjaldbúana.

Bjarni sat fyrir svörum í Silfri ríkissjónvarpsins að kvöldi mánudagsins 22. janúar og spurði Sigríður Hagalín fréttamaður hann í anda aðgerðasinnanna. Er hún ekki eini ríkisfréttamaðurinn í Evrópu sem gengur þessara erinda. Í Bretlandi ákváðu stjórnendur BBC að kröfu stjórnmálamanna í umboði hlustenda að í fréttum skyldi hætt að tala um Hamas eins og um hvern annan hóp eða samtök. Nú er því bætt við orðið Hamas að stjórnvöld í Bretlandi og ýmsum öðrum löndum telji um hryðjuverkasamtök að ræða.

IMG_9277Sigríður Hagalín og Bjarni Benediktsson í Silfrinu mánudaginn 22. janúar.

Hér er ekki haldið uppi neinum slíkum aga á ríkisfréttastofunni heldur valsa fréttamenn um eins og þeim sýnist og kynna viðkvæm mál oft frá svo furðulega hlutdrægu sjónarhorni að öll skynsemi virðist víðs fjarri. Fréttatímar eru eftir því og val á viðmælendum.

Þessi fréttamennska er þóknanleg Samfylkingunni eins og kemur meðal annars fram í grein Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmann Samfylkingarinnar og formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar alþingis, í Morgunblaðinu í dag þegar hún fullyrðir að með því að lýsa skoðun sinni á tjaldbúunum á Austurvelli og málstað þeirra hafi Bjarni Benediktsson skrifað „sig út úr ábyrgri og lýðræðislegri umræðu um málefni útlendinga hér á landi með ósmekklegri samsuðu útlendingaandúðar og hræðsluáróðurs“.

Það var á þessum tilbúnu og órökstuddu forsendum sem rætt var við Bjarna í Silfrinu. Slík fréttamennska er að sjálfsögðu óboðleg hjá stofnun sem á lögum samkvæmt að gæta óhlutdrægni.

Í frétt á ruv.is sem reist er á samtalinu í Silfrinu er það talið fréttnæmast að spyrjandi dró í efa að hugur fylgdi máli hjá Bjarna, hann væri bara að færa Sjálfstæðisflokkinn til hægri til að ná í atkvæði. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, dylgjar einnig um að þetta eitt kunni að vaka fyrir Bjarna. Miðflokksformaðurinn hefur ekki þrek til að taka slaginn með Bjarna.

Formaður Sjálfstæðisflokksins lét ekki eftir fréttamanninum að fara með umræðurnar inn á þessa áróðursbraut heldur hélt sig við efni málsins.

Spurningarnar og fréttin á ruv.is sýna á hinn bóginn að fréttastofan skynjar andrúmsloftið í sinn garð vegna framgöngu hennar í þessum þætti útlendingamálanna á þann veg að henni þykir líklegt að fylgi við Sjálfstæðisflokkinn aukist vegna einarðrar andstöðu formanns hans við tjaldbúðirnar og varnaðarorð hans um hættuna af andvaraleysi í útlendingamálunum. Gegn því er vegið af RÚV á þennan léttvæga hátt.