19.10.2021 11:06

Bitur flokksformaður

Biturleiki yfir döprum örlögum í stjórnmálum tekur á sig ýmsar myndir. Menn sigrast ekki á honum með því að skammast út í aðra – þeir verða að líta í eigin barm.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson varð formaður Framsóknarflokksins í nauðvörn flokksins í janúar 2009 þegar leitað var í dyrum og dyngjum að frambjóðanda í embættið. Fyrsta stórafrek hans var að styðja minnihlutastjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar 1. febrúar 2009 þegar Samfylkingin sleit samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn.

Samfylkingin þoldi ekki áraunina vegna hrunsins og taldi Íslendingum fyrir bestu að ganga í Evrópusambandið. Við andstöðu sjálfstæðismanna við ESB-áformin komu í ljós leyniþræðir milli manna í Samfylkingu og VG. Þegar Sigmundur Davíð lagði plottinu gegn Sjálfstæðisflokknum lið var gengið til stjórnarslita og myndunar minnihlutastjórnar. Á lokametrunum reyndist Sigmundur Davíð brokkgengur en hrökk í gírinn eins og Steingrímur J. lýsir eftirminnilega í bók sem rituð var í tilefni af 20 ára afmæli VG.

Jóhönnustjórnin lét það verða sitt fyrsta verk að reka seðlabankastjórana. Sá Sigmundur Davíð til þess að framsóknarmenn á þingi styddu það og allt annað sem Jóhanna tók sér fyrir hendur, ekki síst misheppnaða tilraun hennar til að svipta alþingi stjórnarskrárvaldinu.

Eftir kosningar 2013 varð Sigmundur Davíð forsætisráðherra í stjórn með Sjálfstæðisflokknum. Hann hélt illa á eigin málum í sjónvarpsþætti og hrökklaðist úr ráðherraembættinu og var síðan hafnað af eigin flokki. Þá stofnaði hann Miðflokkinn með nokkrum flóttamönnum frá frá framsókn og fékk menn kjörna á þing 2017 en galt afhroð í kosningunum 25. september 2021.

Signal-2021-06-08-145121_003Sigmundur Davíð Gunnlaugsson flytur ræðu á landsþingi Miðflokksins 2021 (mynd: vefsíða Miðflokksins).

Í Fréttablaðinu í dag er vitnað í samtal við Sigmund Davíð á sjónvarpsstöðinni Hringbraut þar sem hann segist ekki ætla í annan flokk eða finna kröftum sínum nýjan farveg. Dauðastríð Miðflokksins sé ekki hafið. Þá hneykslast hann á tímasetningunni vegna úrsagnar Birgis Þórarinssonar úr Miðflokknum og aðild hans að þingflokki sjálfstæðismanna. Tímasetningar við flokkaflakk hafa hins vegar ekki vafist fyrir Sigmundi Davíð sjálfum til þessa.

Í samtalinu fílósóferar formaður Miðflokksins um Sjálfstæðisflokkinn og þá sem þar eru og segir meðal annars til marks um breidd flokksins að þar sitji saman „Bryndís Haraldsdóttir og Birgir Þórarinsson og alls konar fólk“ án þess að orð hans séu skýrð nánar i Fréttablaðinu. Hann veltir jafnframt upp spurningum um hvort sjálfstæðismenn hafi bara áhuga á eigin þingsæti eða mögulegu ráðherrasæti í stað einhverrar stefnu. Gleði sjálfstæðismanna hafi verið mikil eftir kosningarnar, þrátt fyrir lítið fylgi gætu þeir setið áfram í ríkisstjórn.

„Pólitíkin er því miður farin að snúast allt of mikið um það að menn séu í einhverjum embættum til þess að leika þar einhver hlutverk, frekar en að breyta landinu,“ er haft eftir Sigmundi Davíð sem þykir berin greinilega súr. Hann vildi jú breyta landinu með dreifingu á afgangsfé ríkissjóðs til almennings og ókeypis heilbrigðisskoðun allra á þriggja ára fresti.

Biturleiki yfir döprum örlögum í stjórnmálum tekur á sig ýmsar myndir. Menn sigrast ekki á honum með því að skammast út í aðra – þeir verða að líta í eigin barm.