6.11.2021 10:24

Barist gegn hagvexti

Rúsínan í pylsuendanum er svo að Úrsúla segir að hana hrylli „við þeirri hugmynd að íhaldsöflin muni yfirtaka heilbrigðis- og umhverfisráðuneytið“.

Hér var fyrir skömmu vikið að því að framkvæmdastjóri Landverndar hneykslaðist á því talin var ástæða til að ræða við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar, í Kastljósi. Vill framkvæmdastjórinn ekki að rætt sé um virkjun vatnsafls á þann hátt sem þar var gert. Það fellur jafn vel að hugmyndafræði Landverndar að banna umræður um mál öndverð skoðun samtakanna og að banna nýtingu náttúruauðlinda eða lagningu vega.

Í Fréttablaðinu birtist grein í sama dúr föstudaginn 5. nóvember eftir Úrsúlu Jünemann kennara sem hefur verið búsett hér í áratugi og kveður sér oft hljóðs í fjölmiðlum.

Úrsúla telur að þeir séu aftur að sækja í sig veðrið hér sem „þykjast bjarga heiminum með því að leggja rafstreng til meginlands Evrópu“. Hún veltir einnig fyrir sér hver standi bak við þann áróður að hér þurfi að framleiða meiri orku. Hver ætli að græða stórlega á því. Dregur hún upp mynd í anda Landverndar, að með aukinni orkuframleiðslu yrði um „skelfilega“ fórn að ræða, víðernin mundu láta á sjá „með stíflum, skurðum, vindmyllugörðum, háspennulínum “ aðdráttarafl landsins fyrir ferðamenn mundi minnka stórlega.

Hryllingsmyndir af þessu tagi eru ósannfærandi miðað við reynslu hér af virkjunum. Þær draga víða frekar að fólk en að halda því í burtu. Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti, nefndi síðast rafstreng héðan til Evrópu og setti hann í samhengi við virkjunaráform á Grænlandi. Allt eru það framtíðardraumar og ekki á dagskrá nú frekar en árið 2019 þegar þingsalurinn breyttist í málþófsstofu Miðflokksins sem háði vindmyllustríð við þriðja orkupakkann.

Idmages_1636194203543Dynjandi á Vestfjörðum

Úrsúla bendir á að Vestfirðir voru nýlega kosnir í „fyrsta sætið hjá Lonely Planet yfir áhugaverðustu landsvæðin til að heimsækja“. Spyr hún hvort vilji sé til að fórna Vestfjörðum „fyrir gróðafíkn einhverra fyrirtækja sem greiða útvöldum mönnum stórfé í arð og gæðingunum himinhátt kaup“. Um hvað er hún að tala? Fiskeldið sem hefur hleypt nýjum krafti í mannlíf á Vestfjörðum? Hugmyndir um að auka orkuöryggi á svæðinu? Landvernd beitti sér árum saman gegn bættum samgöngum til Vestfjarða með því að standa gegn vegagerð í gegnum Teigsskóg. Spillir nýr vegur þar stöðu Vestfjarða hjá Lonley Planet?

Eftir að Úrsúla hefur sent Ólafi Ragnari sneið vegna sæstrengsins snýr hún sér að Sjálfstæðisflokknum. Hann sé málsvari hagvaxtar og sé veik von að VG geti staðið gegn þeim „sem vilja hagvöxt, gróða og aftur gróða á kostnað náttúruverndar og sjálfbærni“.

Rúsínan í pylsuendanum er svo að Úrsúla segir að hana hrylli „við þeirri hugmynd að íhaldsöflin muni yfirtaka heilbrigðis- og umhverfisráðuneytið“. Ráðuneytunum hafi verið „frekar vel stjórnað á síðasta tímabili miðað við allt mótlætið sem kom hægra megin frá“. Vill Úrsúla kenna Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra um að ráðuneytin tvö hafi ekki fengið „það fjármagn sem þurfti“. Þessi kenning er álíka illa rökstudd og annað sem segir í þessari undarlegu grein fyrir málstað sem hefði það eitt í för með sér, yrði hann framkvæmdur, að enn minna yrði til skiptanna úr sameiginlegum sjóði landsmanna.