2.1.2024 10:18

Baráttan um Bessastaði

Nú má velta fyrir sér hvort reynslan af setu sagnfræðiprófessors á Bessastöðum auðveldi stjórnmálamanni að sópa að sér fylgi og sigra.

Skyndikönnun mín á líklegasta eftirmanni Guðna Th. Jóhannessyni á forsetastóli leiðir í ljós að nafn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra ber hæst.

Blaðamaður mbl.is spurði Katrínu skömmu eftir að Guðni Th. tilkynnti brottför frá Bessastöðum hvort hún hefði hug á að taka við af honum. Þetta birtist á mbl.is síðdegis 1. janúar:

„Hefur þú áhuga á því að sækjast eftir forsetaembættinu eða hefur þú tekið ákvörðun um framboð?

„Ég er bara í mínu starfi á mínum stað og brenn fyrir því og hef ekki hugsað mér til neins hreyfings.“

Spurð að því hvort hún útiloki forsetaframboð svarar hún:

„Það stendur til að kjósa nýjan forseta 2024 og þá hef ég bara í hyggju að vera í mínu embætti áfram. Það er nú þannig,“ segir Katrín og bætir við:

„Ég er bara á mínum stað og hyggst vera þar til loka kjörtímabils.“

Við þessi orðaskipti má bæta spurningunni: Hvaða uppnám hefði orðið hefði Katrín svarað á annan veg?

Forsetakosningar verða laugardaginn 1. júní. Nokkrir mánuðir eru til stefnu til að ákveða framboð. Stöðugleiki í krafti kjarasamninga til langs tíma var leiðarljós í áramótagreinum. Katrín svarar í þeim anda.

1461938Guðni Th. Jóhannesson og Katrín Jakobsdóttir (mbl.is).

Þegar Guðni Th. var kjörinn hafði stjórnmálamaðurinn Ólafur Ragnar Grímsson setið sem forseti í 20 ár. Þótti nógu mörgum tímabært að fá mann með annan bakgrunn til að taka við keflinu.

Nú má velta fyrir sér hvort reynslan af setu sagnfræðiprófessors á Bessastöðum auðveldi stjórnmálamanni að sópa að sér fylgi og sigra.

Katrín (f. 1976) hefur setið á alþingi síðan 2007, verið formaður VG frá 2013 og forsætisráðherra frá 2017. Öll sólarmerki benda til þess að persónulegt fylgi hennar sé miklu meira en flokksins sem hún leiðir. Vegna stefnu flokksins færist hann æ meira út á jaðarinn en sem forsætisráðherra hefur Katrín mun víðtækari skírskotun í málflutningi sínum og nægir þar að nefna afstöðu hennar til NATO.

Forveri VG var Alþýðubandalagið og þegar formaður þess, Ólafur Ragnar, ákvað að bjóða sig fram sem forseti var með því fyrsta sem hann gerði að sækja fund hjá Varðbergi og kynna með því víðsýni í utanríkis- og varnarmálum. Katrín þarf ekki neina slíka kynningu, hún hefur meðal annars ritað undir grunnstefnu NATO og heitið því að vinna að framgangi hennar.

Í nýársávarpi 1. janúar 2012 sagðist Ólafur Ragnar Grímsson ekki ætla að gefa kost á sér til endurkjörs þá um sumarið. Strax síðdegis þann sama daga opnaði fréttastofa ríkisútvarpsins þá glufu að kannski væri ekki alveg öruggt að Ólafur Ragnar hætti. Það reyndist rétt því að þegar dag tók að lengja taldi forsetinn fráfarandi engan frambjóðanda frambærilegan fyrir embættið og hætti við að hætta. Hann sigraði öruggleg og sat í 20 ár.

Fyrir Ólafi Ragnari vakti einnig að hindra að Jóhönnu Sigurðardóttur og stjórn hennar tækist að koma Íslandi í ESB eða kollvarpa stjórnskipaninni með nýrri stjórnarskrá. Það tókst og nýja Samfylkingin hefur hvorugt málið á stefnuskrá sinni.