14.2.2021 10:17

Átök um grunngildi í Washington

Hvar annars staðar hefði verið glímt á þennan hátt um grunngildi frjálslyndra lýðræðisríkja?

Donald Trump komst öðru sinni hjá sakfellingu í öldungadeild Bandaríkjaþings laugardaginn 13. febrúar 2021. Að þessu sinni greiddu 57 öldungadeildarþingmenn með sakfellingu en alls þurfti 67 atkvæði til hennar. Jafntefli er í þingmannafjölda deildarinnar milli demókrata og repúblikana, 50:50.

Donald Trump hefur haft hægt um sig frá því að hann hvarf frá Washington til seturs síns í Flórída 20. janúar 2021. Að lokinni atkvæðagreiðslunni iðraðist hann einskis heldur sagði að hreyfing sín væri „rétt að byrja“. Hann lýsti málsókninni sem enn einum „kafla í mestu nornaveiðum í sögu lands okkar“.

Fulltrúadeildarþingmenn demókrata fluttu málið fyrir öldungadeildinni og sýndu á nákvæman og áhrifamikinn hátt hvað gerðist í árásinni á þinghúsið í Washington 6. janúar 2021 og hvernig Trump hefði hvað eftir hvatt til árása á lögmæt yfirvöld landsins með ásökunum um að kosningaúrslitunum 3. nóvember 2020 hefði verið „stolið“. Með svikum ætti að bola sér úr embætti og það yrði aldrei þolað. Færð voru rök fyrir því að ætlun uppreisnarmanna hefði verið að drepa Mike Pence varaforseta og Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildarinnar, til að hindra að þingið legði blessun sína yfir niðurstöðu kjörmanna sem lýstu Joe Biden réttkjörinn forseta.

SenjpgMynd tekin af sjónvarpsskjá af öldungadeildarþingmönnum repúblikana ráða ráðum sínum í hléi á málaferlunum 13. febrúar 2021.

Mitch McConnell, þingflokksformaður repúblikana í öldungadeildinni, greiddi atkvæði gegn sakfellingu en kvaddi sér síðan hljóðs og flutti harða gagnrýni á Trump, hann væri óneitanlega sekur um „smánarlega vanrækslu á skyldu sinni“ 6. janúar 2021 þegar hann hvatti til og gerði síðan ekkert til að stöðva mannskæða árás á Capitol - bandaríska þinghúsið.

„Á því er enginn vafi – enginn – að í verki og siðferðilega ber Trump ábyrgð á að hvetja til þess sem gerðist þennan dag,“ sagði McConnell og einnig: „Við höfum ekki vald til að sakfella og gera vanhæfan fyrrverandi embættismann sem er nú almennur borgari.“

Í þessum orðum McConnells birtist meginröksemd repúblikananna sem vildu ekki sakfella Trump: þingið hefði ekki heimild til að taka ákvörðun um að refsa fyrrverandi forseta jafnvel þótt hann hefði brotið lög á meðan hann sat í embætti, það væri almennra dómara að fjalla um slík mál en ekki þingmanna.

Hröð málsmeðferð gegn Trump, ákvörðun um að kalla ekki vitni til að komast hjá að málið tefði öldungadeildina frá brýnum verkefnum og almennt flokkspólitískt yfirbragð þessa málareksturs vekur spurningu um hvort ákæruferli þingsins impeachment hafi misst gildi sitt sem refsileið og breyst í hefðbundin stjórnmálaátök – eins og landsdómsferlið hér eftir málið gegn Geir H. Haarde.

Hvað sem öðru líður er ljóst að lýðræðislegi öryggisventillinn dugði til að sýna bandarísku þjóðinni og raunar öllum sem fylgdust með umræðunum í öldungadeild Bandaríkjaþings styrk lýðræðisins og réttarríkisins. Hvar annars staðar hefði verið glímt á þennan hátt um grunngildi frjálslyndra lýðræðisríkja?