23.4.2023 8:09

Amalfi-ströndin – Ravello

Strandlengjan þykir einstaklega falleg og fjölbreytileg að nátturufari. Hún dregur nafn sitt af bænum Amalfi sem var áður setur þeirra sem þarna fóru með völd.

Amalfi-ströndin (ítalska: Costiera amalfitana) er strandlengja á suðurhluta Ítalíu sem snýr að Tyrrenahafi, hluta Miðjarðarhafs milli Ítalíu, Sardiníu, Korsíku og Sikileyjar, og Salernoflóa.

Strandlengjan þykir einstaklega falleg og fjölbreytileg að nátturufari. Hún dregur nafn sitt af bænum Amalfi sem var áður setur þeirra sem þarna fóru með völd. Nú er hún mikið sótt af ferðamönnum sem fara á farartækjum sínum eftir þröngum vegum í óteljandi beygjum í hlíðunum með Miðjarðarhafið á aðra hönd.

Fræga fólkið varð til þess að draga fleiri en ella að ströndinni og þar má sjá hús sem Sophia Loren reisti sér. Varð það til þess að keppinautur hennar, Gina Lollobrigida, eignaðist athvarf í dálítilli fjarlægð.

Hefðarmenn og Evrópumenn í efri stétt lögðu leið sína til Amalfi strax á 18. öld og þeir sem fóru í grand tour um Evrópu eins og Fjölnismaðurinn sr. Tómas Sæmundsson (1807-1841), prestur á Breiðabólstað í Fljótshlíð, höfðu þar gjarnan viðkomu. Amalfi-ströndin var sett á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997.

Uppi í hæðunum fyrir ofan Amalfi er smábærinn Ravello sem nú dregur einkum að sér ferðamenn vegna byggingarinnar Villa Rufolo sem Richard Wagner heimsótti árið 1880 og hreifst svo að garði villunnar að hann fékk innblástur til að semja annan þátt óperunnar Parsifal þar sem garðurinn Kligsor kemur við sögu. Í 70 ár hefur verið efnt til sumarhátíðar með tónlist eftir Wagner og aðra meistara í garði Villa Ruolfo og Ravello kallar sig bæ tónlistarinnar.

Lá beint við að Íslendingarnir sem horft höfðu á Valkyrjuna eftir Wagner legðu leið sína til Amalfi og Ravello frá Napólí laugardaginn 22. apríl. Hér eru nokkrar myndir úr ferðinni:

AD1DBC64-4878-4A77-A3A9-EEDE17428729Amalfi-bær

4248D0D2-F983-4D79-8EEA-B047E50265DDHús Sophiu Loren

E768C009-9A4A-4BD0-91F6-6061A5FD1A91Hús Ginu Lollobrigidu

3896424E-3027-4372-969F-65A9DC5D676EHótel undir helli á klettóttri strönd.

28CDF0F3-53A2-4FA7-96EF-B8415AE7B0D5Litskrúðug hús.

AD54331A-28FC-4F22-8D49-E0E6E9596394Frá garðinum í Ravello.

DE529FC4-BDF2-41E5-B154-66103C70994CFrá villunni sem Wagner heimsótti.