23.8.2023 8:42

Afrekshugur á Hvolsvelli

Nú er Afrekshugur öllum til sýnis á Hvolsvelli. Við afhjúpun hennar ríkti sérstök eftirvænting og mikil hrifning braust út meðal fjölmennis í einstakri veðurblíðu þegar listaverkið ljómaði í sólarbirtunni.

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og elstu nemendur í leikskóla Hvolsvallar afhjúpuðu listaverkið Afrekshuga eftir Nínu Sæmundsson á Hvolsvelli þriðjudaginn 22. ágúst.

Nína er fyrsta íslenska konan sem gerðist myndhöggvari. Eftir nám í Konunglegu dönsku listaakademíunni fluttist hún til Bandaríkjanna þar sem hún m. a. sigraði árið 1930 í keppni með þátttöku 400 tillagna um listaverk yfir aðalanddyri Waldorf-Astoria hótelsins við Park Lane í New York. Nefnist listaverkið The Spirit of Achievement – Afrekshugur – og var sett upp 1931.

IMG_7889Þarna fellur tjaldið af Afrekshuga 22. ágúst 2023 á Hvolsvelli. Við stöpilinn stendur Friðrik Erlingsson sem stóð í  fylkingarbrjósti þeirra sem að framtakinu stóðu til minningar um Nínu Sæmundsson.

Í Heimilisblaðinu Vikunni birtist 28. mars 1946 grein, líklega eftir Jón H. Guðmundsson ritstjóra, um Nínu og hófst hún á þessum orðum:

„Stundum virðist það vera alger tilviljun, að hæfileikar, sem búa í fólki, komi í ljós og fái að þroskast. Telpa, fædd og alin upp í Fljótshlíðinni, yngst fimmtán systkina, flytur til Reykjavíkur 13 ára gömul og hefur þá um skeið fundið til innvortis sjúkleika, sem er svo alvarlegur, að hún fer 18 ára að aldri til Kaupmannahafnar til að leita sér lækninga. Þar átti hún frænku, þær voru systkinadætur, sem hún gat farið til. Stúlkan tekur að læra tannsmíði og hefir nærri lokið því námi, er hún veikist aftur. Á spítalanum liggur hún í stofu með konu frá Jótlandi og kunningskapur þeirra verður á þá lund, að jóska konan býður stúlkunni úr Fljótshlíðinni heim til sín, út á Jótland, þegar spítalalegunni lýkur. Og þar verður örlagadísin á vegi hennar. Hún kynnist konu, sem er myndhöggvari, fær sér sjálf leir og mótar barnshöfuð og verður gagntekin af listinni. Þegar listakonan sér verkið hvetur hún stúlkuna til að hefja listnám og sýna barnshöfuðið forstöðumanni listaháskólans í Kaupmannahöfn. Stúlkan gerir það. Forstöðumaðurinn spyr hana, hvar hún hafi lært. Hún segir honum eins og er að hún hafi engrar tilsagnar notið í listinni. Studdi þessi kennari og frænka stúlkunnar, Helga Guðmundsdóttir, hana til náms í listaháskólanum.

Þetta er í stuttu máli sagan um það hvernig Nína Sæmundsson frá Nikulásarhúsum í Fljótshlíð fór út á listabrautina.“

Þegar endurbætur á Waldorf Astoria hótelinu hófust, 2016, var stytta Nínu tekin niður og sett í geymslu. Árið 2017 lögðu Kristín Þórðardóttir og Birkir Arnar Tómasson fram tillögu í sveitarstjórn Rangárþings Eystra um að kannað yrði hvort sveitarfélagið gæti eignast afsteypu af Afrekshuga. Í framhaldinu sendi sveitarstjórn undir forystu Ísólfs Gylfa Pálmasonar bréf til hótelstjóra Waldorf Astoria í New York og var tillögunni vel tekið. Friðrik Erlingsson, rithöfundur á Hvolsvelli, leiddi síðan verkefnið þar til styttan var afhjúpuð.

IMG_7912Stjórn styrktarfélagsins Afrekshuga: Anton Kári sveitarstjóri, Friðrik stjórnarformaður, Hrafnhildur Inga listmálari, Rut fiðluleikari og Guðjón Halldór organisti og kórstjóri. Félagið var lagt niður eftir að styttan hafði verið afhjúpuð. 

Eigandi stytturnnar, AB Stable LLC í New York, lét gera þrívíddarskönnun af styttunni og var hún notuð við gerð afsteypu hjá Skulpturstöberiet í Danmörku. Styttan er 263 sentimetrar á hæð í fullri stærð. Styttan hefur öðlast ódauðlegan sess sem eitt af einkennistáknum New York borgar og er auk þess einkennandi verk fyrir þetta tímabil í listasögunni, sem kennt er við Art Deco.

Nú er Afrekshugur öllum til sýnis á Hvolsvelli. Við afhjúpun hennar ríkti sérstök eftirvænting og mikil hrifning braust út meðal fjölmennis í einstakri veðurblíðu þegar listaverkið ljómaði í sólarbirtunni. Skiptust viðstaddir á hamingjuóskum yfir heimkomu Nínu.

Í The New York Times var 22. ágúst sagtrækilega frá framtakinu.