1.6.2022 9:23

Aflinn í 20 ár

Gunnarsæfingarnar miða að því eins og allar qigong æfingar að opna orkubrautirnar og stuðla að heilbrigðri starfsemi líffæranna sem eru grunnur í kínverskri læknisfræði.

dag eru rétt 20 ár frá því að við stofnuðum Aflinn, félag qigong iðkenda á Íslandi. Að morgni laugardags 1. júní 2002 hittust 47 iðkendur qigong undir forystu Gunnars Eyjólfssonar leikara í Skautahöllinni í Reykjavík. Æft var í tæpa klukkustund en síðan farið í Café Flóru í Grasagarðinum og félagið stofnað til að sinna hag þeirra sem hefðu hug á að stunda qigong hér á landi. Með félagsheitinu Aflinn er vísað til eldstæðis og þess að járnsmiður gætir þess að neistinn í Aflinum slokkni aldrei.

Í fyrstu stjórn félagsins voru kjörnir auk mín sem formanns, Viðar H. Eiríksson ritari og Guðni Hannesson gjaldkeri. Við Viðar höfum setið í stjórninni í árin 20 og nú er Sigurður Örn Sigurðarson gjaldkeri. Gunnar Eyjólfsson var heiðursforseti félagsins þar til hann andaðist 21. nóvember 2016.

Aflinn hefur aldrei auglýst starfsemi sína en í áranna rás hafa hundruð manna kynnst kínversku lífsorkuæfingunum, qigong, undir merkjum hans og má segja að það markmið félagsins hafi náðst að tryggja að qigong festi rætur hér á landi. Félagsmenn í Aflinum eins og Þórdís Filipsdótir, Þóra Halldórsdóttir og Þorvaldur Ingi Jónsson hafa leitt qigong-æfingar á eigin vegum utan félagsins.

Innan Aflsins höfum við ávallt fylgt æfingakerfinu sem Gunnar Eyjólfsson hannaði. Það tekur um 40 mínútur að gera allar Gunnarsæfingarnar sem miða að því eins og allar qigong æfingar að opna orkubrautirnar og stuðla að heilbrigðri starfsemi líffæranna sem eru grunnur í kínverskri læknisfræði: milta/bris, lifur, nýru, hjarta og lungu. Það eru mörg þúsund leiðir færar til að ýta undir orkuflæðið en í grunninn ber að virða agaðan líkamsburð, agaða öndun og agaða hugsun (einbeitingu).

9509-gunnarsaefingarnar-qigong_670x400Árið 2013 gáfum við út bókina Gunnarsæfingarnar þar sem saga qigong er rakin, gerð grein fyrir grunnþáttum æfinganna og lýst hvernig gera skuli Gunnarsæfingarnar auk þess sem saga Aflsins fyrstu 10 ár félagsins er kynnt.

Allt var í mjög föstum skorðum á vegum Aflsins, æft þrisvar í viku, mánudaga, miðvikudaga og föstudaga, í 40 mínútur frá 08.05 í húsi SÁÁ, Voninni við Efstaleiti. Þetta fasta kerfi raskaðist hins vegar gjörsamlega þegar öllu var lokað vegna COVID-19-faraldursins í febrúar/mars 2020. Félagið kom þó að útiæfingum með Tveimur heimum Þórdísar Filipsdóttur á Klambratúni sumrin 2020 og 202. Sóttu stundum um 150 manns útiæfingarnar.

Fyrri hluta árs 2021 tókst samkomulag við forráðamenn Markarinnar við Suðurlandsbraut um að Aflinn fengi að standa að qigong æfingum þar og 21. júní 2021 var ég með qi gong kynningu – fyrirlestur – fyrir heimafólk í Mörkinni. Um 25 manns komu og óskuðu í lokin eftir leiðsögn með Gunnarsæfingunum og reyndist besti tíminn kl. 10.00 miðvikudögum í kaffistofu Markarinnar. Voru þá nokkrir tímar. Vegna COVID-19 varð að gera hlé en 9. febrúar 2022 hófust reglulegir miðvikudagstímar þar.

Ef til vill er saga Aflsins öll nú á 20 ára afmælinu. Tilgangurinn var að kynna og ýta undir áhuga á qigong á Íslandi. Allt starf á vegum félagsins er í sjálfboðavinnu. Hingað hafa komið heimskunnir qigong meistarar á vegum félagsins. Jarðvegurinn er plægður. Nú er að sjá hvað dafnar.