13.4.2023 10:24

Áfellisbréf í Árborg – rútínubréf í Reykjavík

Það sem talið er áfellisbréf fyrir Árborg frá eftirlitsnefnd með fjárhag sveitarfélaga afgreiðir Dagur B. sem „rútínubréf“ til Reykjavíkurborgar, því verði svarað. Afneitunin er algjör. 

Í Árborg hækkuðu skuldir á kjörtímabilinu 2018 til 2022 úr 11 milljörðum í 25 milljarða. Þá sat Tómas Ellert Tómasson byggingaverkfræðingur í bæjarstjórn Árborgar fyrir Miðflokkinn og var formaður bæjarráðs. Hann var því í lykilstöðu til að sporna gegn þeim vanda sem varð tilefni fjölmenns íbúafundar Árborgar í gær (12. apríl) þar sem bæjarstjórn kynnti tillögur um leiðir út úr fjárhagsvandanum.

Tómas Ellert situr ekki lengur í bæjarstjórn. Hann lætur þó að sér kveða í umræðum um fjármál Árborgar og hefur sérstakan áhuga á launum arftaka síns á formannsstóli bæjarráðs. Þegar rætt var um fjármál Árborgar í desember 2022 ritaði Tómas Ellert grein á visir.is og sagði að fyrsta verk meirihluta sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Árborgar hefði verið „að hækka laun formanns bæjarráðs um 310%, ofan á föst bæjarfulltrúalaun“. Minnihlutinn hefði við afgreiðslu fjárhagsáætlunar ársins 2023 lagt til afturköllun þessarar hækkunar, sjálfstæðismenn hefðu fellt tillöguna og framsóknarmenn setið hjá við afgreiðslu hennar. „Norðan fjórir blés úti við fundarsalinn,“ sagði Tómas Ellert þá.

Hann sá ástæðu til að skrifa aftur um launamálið á visir.is þriðjudaginn 11. apríl til að gera lítið úr þeim sem boðuðu til fundarins um fjárhagsvanda Árborgar. Í þeirri grein sagði Tómas Ellert að laun formanns bæjarráðs Árborgar hefðu hækkað „um 210%, ofan á föst bæjarfulltrúalaun“. Hann gefur enga skýringu á lækkuninni á 310% hækkun í 210% hækkun á milli greina sinna.

Fréttastofa ríkisútvarpsins sá ástæðu til að fara í saumana á þessum fullyrðingum bæjarfulltrúans fyrrverandi og varð niðurstaðan þar sú að launahlutfall formanns bæjarráðs hefði verið hækkað úr 21% í 65% í júní í fyrra. Bættist það ofan á föst laun bæjarfulltrúans sem tækju mið af þingfararkaupi. Væri formaður bæjarráðs nú með um 1,2 milljónir í heildarlaun en var áður með 619 þúsund krónur og hefðu „launin því hækkað um 90% á einu ári“.

Ástæða er til að halda þessu öllu til haga. Tómas Ellert gegndi embætti kosningastjóra Miðflokksins um land allt í þingkosningunum 2021 og er því enginn viðvaningur þegar að því kemur að ganga í augun á kjósendum þótt það skili ekki alltaf þeim árangri sem að er stefnt.

IMG_6743Við Tjörnina að morgni 13. apríl 2023.

Af því sem að framan segir má ráða að það sé ekkert nýmæli fyrir Árborgarbúa að barist sé með þessu vopni af hálfu þeirra sem skildu bæinn eftir í skuldasúpunni. Tölur Tómasar Ellerts komast hins vegar á flug núna af því að þær breytast í haldreipi ýmissa sem leitast við að bera blak af fjármálastjórn Dags B. Eggertssonar og meirihluta hans í Reykjavík. Kemur ekki á óvart að í því liði telji menn betra að veifa röngu tré en öngvu.

Það sem talið er áfellisbréf fyrir Árborg frá eftirlitsnefnd með fjárhag sveitarfélaga afgreiðir Dagur B. sem „rútínubréf“ til Reykjavíkurborgar, því verði svarað. Afneitunin er algjör. Hún er í raun alvarlegasta hættumerkið um þessar mundir. Á meðan ekki er viðurkennt að grípa verði til ráðstafana og breyta um stefnu heldur staða höfuðborgarinnar bara áfram að versna.