17.4.2023 10:15

Á villgötum um bókun 35

-Undirtitill

Fyrir utan að Sveinn Óskar leggi fram spurningu í blekkingarskyni fer hann rangt með ýmsar staðreyndir og afflytur annað.

Rætt var við Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í morgunfréttum ríkisútvarpsins næu 17. apríl. Þar sagði hún réttilega að við framkvæmd á bókun 35 við EES-samninginn fælist ekki framsal á löggjafarvaldi. Bókunin brýtur ekki í bága við stjórnarskrána. Hér á síðunni má lesa tvær greinar sem ég hef skrifað í Morgunblaðið í tilefni af þessu frumvarpi, 1. apríl og 15. apríl.

Screenshot-2023-04-17-at-10.12.16

Í Morgunblaðinu í morgun birtist grein eftir miðflokksmanninn Svein Óskar Sigurðsson, B.A. í hagfræði og heimspeki, MBA og M.Sc. í fjármálum fyrirtækja, undir fyrirsögninni: Tekur ESB við sem löggjafi Íslendinga? Svarið við spurningunni er einfalt: Það gerist ekki nema Ísland gangi í ESB.

Fyrir utan að Sveinn Óskar leggi fram spurningu í blekkingarskyni fer hann rangt með ýmsar staðreyndir og afflytur annað.

Hér skal nefnt þrennt:

  • 1. Það er rangt að frumvarp utanríkisráðherra nú megi rekja til skýrslu um EES samstarfið sem við Bergþóra Halldórsdóttir og Kristrún Heimisdóttir sömdum og birtist í september 2019. Þar er ekki tekin afstaða til álitaefnisins varðandi innleiðingu bókunar 35 heldur er í kafla um dómsvaldið bent á að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hafi fyrst árið 2012 beðið íslensk stjórnvöld um að skýra hvernig þau stæðu við skuldbindingar sínar samkvæmt bókun 35. ESA fann síðan að því í áminningarbréfi í desember 2017 hvernig staðið væri að innleiðingu bókunar 35 af innlendum dómstólum. Brást þáv. utanríkisráðherra við með því að setja á fót nefnd lögfræðinga sem skilaði áliti í ágúst 2018 og taldi nauðsynlegt að breyta lögum til að bregðast við athugasemdum ESA. Núverandi utanríkisráðherra skipaði síðan nefnd lögfræðinga til að vinna að gerð þess frumvarps sem nú liggur fyrir alþingi til lausnar á þessum vanda. Við þrjú sem sömdum EES-skýrsluna frá 2019 tókum enga efnislega afstöðu til þessa álitaefnis enda hafði þáv. utanríkisráðherra aðra skýrslu um málið í höndunum.
  • 2. Sveinn Óskar skautar yfir þá staðreynd að þegar EES-málið var til meðferðar á alþingi skipaði utanríkisráðherra 14. apríl 1992 sérstaka nefnd fjögurra lögfræðinga til að meta hvort EES-samningurinn, ásamt fylgisamningum, bryti á einhvern hátt í bága við íslensk stjórnskipunarlög. Álit þessarar nefndar er dagsett 6. júlí 1992. Í stuttu máli komust nefndarmenn að þeirri niðurstöðu að EES-samningurinn bryti ekki í bága við íslensk stjórnskipunarlög. Við sem stóðum að áliti meirihluta utanríkismálanefndar við afgreiðslu laganna um EES fyrir 30 árum studdumst einkum við stjórnlagalegt mat sérstöku nefndarinnar frá 1992.
  • 3. Niðurstaða Sveins Óskars er þessi: „Við virðumst sjálf síbrotamenn við stjórnarskrána.“ Hann færir engin rök fyrir þessari einkennilegu fullyrðingu. Á 30 árum hefur margsinnis verið leitað álits sérfróðra manna um hvort innleiðing laga vegna EES bryti í bága við stjórnarskrána. Niðurstaðan hefur aldrei orðið sú að þessi skoðun Sveins Óskars standist. Að breyting á lögskýringarreglu vegna innleiðingar á bókun 35 gefi tilefni til slíkra stóryrða er fráleitt.