27.10.2019 10:47

Á gráum lista vegna peningaþvættis

Á sínum tíma vakti nokkra undrun þegar orðið peningaþvætti var tekið inn í íslenskt lagamál.

Nú er hafin rannsókn á vegum stjórnkerfis- og eftirlitsnefndar alþingis á því hvers vegna Ísland lenti á gráum lista hjá alþjóðasamtökum ríkja og alþjóðastofnana sem berjast gegn peningaþvætti. Á sínum tíma vakti nokkra undrun þegar orðið peningaþvætti var tekið inn í íslenskt lagamál. Money laundering heitir fyrirbærið á ensku og í málfarsbanka Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum segir:

„Frekar er mælt með orðinu peningaþvætti en peningaþvottur um það þegar illa fengnu fé er komið í almenna notkun í gegnum ósaknæma starfsemi.“

Þá er orðið fjárboðun einnig notað um þessa háttsemi.

Lög um peningaþvætti voru fyrst sett í maí 1993. Má rekja setningu laganna til aðildar Íslands að evrópska efnahagssvæðinu sem kom til sögunnar 1. janúar 1994. Síðan hefur íslensk löggjöf um peningaþvætti tekið mið af ESB-löggjöf um þetta efni.

HSBC-Featurespace-1024x440Árið 1994 kom hingað alþjóðleg eftirlitsnefnd á FATF, samtaka ríkisstjórna og nokkurri alþjóðastofnana í skjóli OECD í París. FATF hefur nú sett Ísland á gráa listann. Við úttektina 1994 var ekki talin hætta á að Ísland yrði alþjóðlegur vettvangur peningaþvættis, hættan væri helst í tengslum við fíkniefnaviðskipti. Var hvatt til varúðar af opinberri hálfu og lögð áhersla á að starfsmenn fjármálastofnana fengju fræðslu um eðli og hættur vegna peningaþvættis.

Á árinu 2006 voru sett lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Um var að ræða innleiðingu ESB-tilskipunar reist var á vinnu FATF. Þegar lögin voru sett hér hafði tilskipunin ekki verið tekin upp í EES-samninginn en íslensk stjórnvöld ákváðu hins vegar að innleiða hana um leið og nýjar reglur um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Með þessari lagabreytingu var lagður grunnur að nýrri umgjörð varðandi peningaþvætti. Forvitnilegt er að kynna sér afstöðu lögmanna til þessara laga því að þeir höfðu af því áhyggjur að með þeim yrði vegið að trúnaðarsambandi þeirra við skjólstæðinga sína.

Samtök banka og verðbréfafyrirtækja birtu heilsíðu auglýsingar í blöðum í tilefni lagasetningarinnar um að nú yrði krafist persónuskilríkja við bankaviðskipti. Í auglýsingunni sagði meðal annars:

„Stjórnvöld hafa sett ströng lög gegn því alþjóðlega vandamáli sem stafar af peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Lögin gera fjármálafyrirtækjum skylt að afla glöggra upplýsinga um viðskiptavini.“

Í tilefni af nýju lögunum var í júlí 2006 rætt við Ólöfu Emblu Einarsdóttur, lögfræðing í iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu. Sagði hún í lok samtalsins:

„Meðal mála sem eru á borði FATF um þessar mundir eru úrræði til að fylgjast með starfsemi félaga sem rekin eru undir merkjum góðgerðarstarfsemi, hvernig þau afla fjár og hvert fjármunirnir renna. Það er ekki óþekkt að á bak við slík félög standi óheiðarlegir aðilar, sem beita þeim tilpeningaþvættis.“

Athyglisvert er að í von um að bjarga sér frá því að lenda á gráa listanum nú í október 2019 samþykkti alþingi nær umræðulaust og með hraði frumvarp til laga 9. október 2019 sem tekur á þeim vanda sem lýst var sem viðfangsefni FATF árið 2006.