29.5.2020

Varnarmannvirki fyrir NATO og Norðurlöndin

Morgunblaðið, 29. maí 2020

Umræður um fram­kvæmd­ir tengd­ar varn­ar­mál­um vegna hug­mynda­vinnu á vett­vangi rík­is­stjórn­ar­inn­ar um COVID-19-efna­hags- og at­vinnu­málaaðgerðir á Suður­nesj­um beina at­hygli að breyt­ing­um frá því að Kefla­vík­ur­stöðin laut stjórn og for­sjá Banda­ríkja­manna.

Með brott­hvarfi Banda­ríkja­hers árið 2006 skuld­bundu ís­lensk stjórn­völd sig til að sjá um rekst­ur og viðhald mann­virkja NATO hér á landi. Mann­virkja­sjóður NATO stend­ur straum af kostnaði við gerð mann­virkja og búnað í þágu varn­ar­hags­muna Atlants­hafs­banda­lags­ins í heild enda séu þær um­fram varn­arþarf­ir hlutaðeig­andi rík­is. Hér hef­ur Banda­ríkja­her átt hlut að fjár­mögn­un annarra varn­ar­fram­kvæmda.

Þetta kem­ur fram í grein­ar­gerð sem varn­ar­mála­stofn­un tók sam­an um varn­ar­skuld­bind­ing­ar Íslands í árs­byrj­un 2010. Þar sagði einnig að þá ætti NATO 152 mann­virki í land­inu. Þeim hef­ur fækkað síðan. Varn­ar­mála­stofn­un vísaði til skýrslu mann­virkja­nefnd­ar NATO frá nóv­em­ber 2007 um að frá upp­hafi til 2006 hefði NATO fjár­fest sem sam­svaraði 550 millj­ón­um evra í varn­artengd­um mann­virkj­um á Íslandi. Af upp­hæðinni fóru 250 millj­ón­ir evra í upp­bygg­ingu ís­lenska loft­varna­kerf­is­ins (IADS) og um 300 millj­ón­ir evra í önn­ur verk­efni sem nýt­ast ekki aðeins hernaðarlega.

Íslensk stjórn­völd gerðust aðilar að mann­virkja­sjóði NATO eft­ir brott­för varn­ar­liðsins 2006 og tóku að sér rekst­ur ör­ygg­is­svæðis­ins á Kefla­vík­ur­flug­velli, rat­sjáa mann­virkja­sjóðs auk ann­ars í eigu NATO á Íslandi. Fer Land­helg­is­gæsl­an þar með dag­lega stjórn í umboði ut­an­rík­is­ráðuneyt­is­ins. Ber ís­lensk­um stjórn­völd­um að sjá til þess að hér séu ör­ugg­ar bygg­ing­ar til að þjóna loft­rýmis­eft­ir­liti á veg­um NATO.

Í hlut­verki Íslands sem gisti­rík­is felst að taka á móti liðsafla og búnaði á veg­um NATO eða annarra ríkja sem koma að aðgerðum á ís­lensku yf­ir­ráðasvæði eða ferðast um Ísland. Þá ber ís­lensk­um yf­ir­völd­um að heim­ila að búnaður og stofn­an­ir NATO séu starf­rækt­ar hér og veita þeim stuðning.

Varn­ar­mann­virki hér eru ekki öll eign NATO. Sum voru í eigu Banda­ríkja­manna en í skila­samn­ingi Íslands og Banda­ríkj­anna við brott­för varn­ar­liðsins var varn­ar­svæðum og banda­rísk­um mann­virkj­um og búnaði skilað til ís­lenskra yf­ir­valda. Þau skil höfðu eng­in áhrif á NATO-mann­virki og búnað hér­lend­is að öðru leyti en því að land und­ir þeim rann úr samn­ings­bund­inni um­sjá Banda­ríkja­manna til Íslend­inga.

Tví­hliða varn­ar­samn­ing­ur Íslands og Banda­ríkj­anna frá 1951 er í gildi. Í 7. gr. hans skuld­binda Íslend­ing­ar sig til ann­ast annaðhvort sjálf­ir nauðsyn­legt viðhald á mann­virkj­um og búnaði eða heim­ila Banda­ríkja­mönn­um að gera það.

IndebTvær bandarískar B-1-sprengjuvélar á æfingu með fjórum sænskum Gripen-orrustuþotum yfir sænsku landi 20. maí 2020.

Til­laga um átaks­verk­efni

Í sjötta tölulið þings­álykt­un­ar um þjóðarör­ygg­is­stefnu Íslands seg­ir að stjórn­völd skuli „tryggja að í land­inu séu til staðar varn­ar­mann­virki, búnaður, geta og sér­fræðiþekk­ing til að mæta þeim áskor­un­um sem Ísland stend­ur frammi fyr­ir í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um og til að upp­fylla alþjóðleg­ar skuld­bind­ing­ar Íslands.“

 

Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra sendi 19. mars 2020 til­lög­ur „um átaks­verk­efni í ljósi efna­hags­legra af­leiðinga heims­far­ald­urs“ til fjár­málaráðuneyt­is­ins, ann­ars veg­ar um að ís­lensk stjórn­völd legðu til 250 millj. kr. á ári á tíma­bil­inu 2021-2025 auk 125 millj. kr. í ár, sam­tals 1.450 millj. kr., til end­ur­bóta á hafn­araðstöðunni í Helgu­vík og hins veg­ar um að fram­kvæmd­um við gist­i­rými á ör­ygg­is­svæðinu í Kefla­vík yrði flýtt. Það hefði falið í sér 330 millj. kr. aukn­ingu fram­laga til verk­efn­is­ins á ár­un­um 2021-2022 en heild­ar­upp­hæðin hefði verið óbreytt.

Eft­ir að frétt­ir birt­ust hér í blaðinu um að til­lög­urn­ar um átaks­verk­efn­in hefðu ekki náð fram að ganga sem hluti COVID-19-aðgerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar hafa umræður um þær farið út og suður vegna þess að það var fyrst í þingum­ræðum mánu­dag­inn 25. maí sem skýrðist til fulls um hvað þær sner­ust.

Í þingum­ræðum 18. maí sökuðu for­menn Miðflokks­ins og Viðreisn­ar Katrínu Jak­obs­dótt­ur for­sæt­is­ráðherra um að hafa snú­ist gegn þjóðarör­ygg­is­stefn­unni með and­stöðu við til­lög­urn­ar. For­sæt­is­ráðherra skýrði af­stöðu sína og sagði meðal ann­ars:

„Í fyrsta lagi hef­ur því verið haldið fram að Vinstri­hreyf­ing­in – grænt fram­boð standi gegn þjóðarör­ygg­is­stefnu fyr­ir Ísland. Ég hef ekki séð nein rök færð fyr­ir þeirri staðhæf­ingu og minni þar á að í kjöl­far yf­ir­lýs­ing­ar sem ís­lensk stjórn­völd und­ir­rituðu með banda­rísk­um stjórn­völd­um árið 2016, þar sem boðuð var ákveðin upp­bygg­ing á Kefla­vík­ur­velli og í kjöl­far henn­ar sam­eig­in­leg­ur skiln­ing­ur stjórn­valda á ár­inu 2017 um það hvað sú upp­bygg­ing skyldi snú­ast um, hef­ur staðið yfir á Kefla­vík­ur­velli upp­bygg­ing fyr­ir 12 millj­arða kr. Sýn­ir það ekki að Vinstri­hreyf­ing­in – grænt fram­boð stend­ur við þær ákv­arðanir sem tekn­ar eru og byggj­ast á mati á varn­ar­hags­mun­um sem fram fór í kjöl­far þeirr­ar yf­ir­lýs­ing­ar sem gef­in var út 2016?“

Kjarn­inn í af­stöðu for­sæt­is­ráðherra er að þjóðarör­ygg­is­stefn­unni skuli fylgt. Hug­mynd­ina um nýj­ar fram­kvæmd­ir nú eigi ekki að skoða „með mikl­um hraði“ við gerð fjár­auka­laga vegna COVID-19.

For­sæt­is­ráðherra minnti á að viðhald mann­virkja und­an­far­in þrjú ár á varn­ar­svæðinu á Kefla­vík­ur­velli hefði verið meira en frá ár­inu 2002. Rík­is­stjórn henn­ar hefði „svo sann­ar­lega“ fylgt þjóðarör­ygg­is­stefn­unni bet­ur eft­ir en fyrri rík­is­stjórn­ir.

Und­ir lok þingum­ræðu um málið 25. maí sagði ut­an­rík­is­ráðherra að ekki mætti gleym­ast hvernig varn­ar­mann­virki nýtt­ust þjóðinni og nefndi flug­braut­ir, rat­sjár­kerfið, ljós­leiðarann og Helgu­vík­ur­höfn. Öll þyrftu þessi mann­virki viðhald, frá­leitt væri að gera það tor­tryggi­legt. Og hann sagði:

„Hér hef­ur verið gengið fram eft­ir þjóðarör­ygg­is­stefn­unni. Því verður haldið áfram. Ég mun hafa enn meira frum­kvæði að því að ræða þessi mál því að það er full þörf á því, hvort sem það er í þjóðarör­ygg­is­ráði eða ann­ars staðar.“

 

NATO og Norður­lönd­in

Öll banda­lags­ríki Íslands inn­an NATO efla nú viðbúnað sinn vegna auk­inna um­svifa Rússa á norður­slóðum. Minna frétt­ir á ní­unda ára­tug­inn þegar varn­ar­fram­kvæmd­ir voru mest­ar hér á landi í seinni tíð.

Nú í byrj­un maí sigldu tvö banda­rísk her­skip og eitt breskt ásamt banda­rísku birgðaskipi inn á Bar­ents­haf sem Rúss­ar líta á sem „sitt“ haf og kaf­báta sinna. Um miðjan ní­unda ára­tug­inn fylgdi John Lehm­an, flota­málaráðherra í stjórn Ronalds Reg­ans Banda­ríkja­for­seta, fram nýrri flota­stefnu á norður­slóðum og stuðlaði að falli Sov­ét­ríkj­anna með því að senda her­skip inn á Bar­ents­haf.

Aðstaða Banda­ríkja­manna og NATO hér var að baki þess­ari stefnu. Þung­inn í fram­kvæmd henn­ar minnkaði álagið á GIUK-hliðið og þar með Ísland.

Á þeim tíma vildu Sví­ar og Finn­ar að skil væru á milli sín og NATO, að minnsta kosti á friðar­tím­um. Nú taka her­ir þjóðanna á hinn bóg­inn þátt í æf­ing­um með NATO. Fyr­ir rúmri viku efndi sænski flug­her­inn í fyrsta sinn í sög­unni til æf­inga með B-1-sprengju­vél­um frá Banda­ríkj­un­um yfir sænsku landi.

Öflug varn­ar­mann­virki hér þjóna ör­ygg­is­hags­mun­um okk­ar í NATO og nán­ustu samarfsþjóða banda­lags­ins, Svía og Finna.