29.1.2022

Uppgjör Ögmundar

Bókarumsögn - Morgunblaðið, laugardagur 29. janúar 2022.

Rauði þráðurinn ***½-

Eft­ir Ögmund Jónas­son. Innb. 539 bls., nafna­skrá, ljós­mynd­ir. Útgef­andi: Sæmund­ur, Sel­fossi, 2022.

Að jóla­bóka­vertíðinni lok­inni sendi Ögmund­ur Jónas­son, fyrrv. ráðherra, frá sér bók­ina Rauði þráður­inn . Af meg­in­stefi henn­ar gegn markaðs- og frjáls­hyggju má álykta að hon­um hafi ekki þótt við hæfi að taka þátt í kapp­hlaup­inu um kaup­end­ur á loka­vik­um árs­ins. Hann fékk hins veg­ar góða aug­lýs­ingu um ára­mót­in þegar frétt­ir um bók­ina birt­ust. Var hann forsíðuefni Frétta­blaðsins og prýddi alla forsíðu sunnu­dags­blaðs Morg­un­blaðsins .

Ögmund­ur Jónas­son (f. 1948) er með MA-próf frá Ed­in­borg­ar­há­skóla í sagn­fræði og stjórn­mála­fræði 1974. Hóf að skrifa þar doktors­rit­gerð í sagn­fræði um frjál­synd­is­stefnu í ís­lensk­um stjórn­mál­um nítj­ándu ald­ar. Hann ákvað hins veg­ar „að taka doktors­prófið gráðulaust á frétta­stofu Sjón­varps“ (39) árið 1978. Tíu árum síðar þegar stóll frétta­stjóra féll öðrum í skaut bauð Ögmund­ur sig fram sem formaður Banda­lags starfs­manna rík­is og bæja (BSRB) og gegndi þeirri trúnaðar­stöðu frá 1988 til 2009. Hann sat á alþingi frá 1995 til 2016 fyrst sem óháður en síðar fyr­ir Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð (VG). Heil­brigðisráðherra 2009, dóms­mála- og mann­rétt­indaráðherra og sam­göngu- og sveit­ar­stjórn­ar­ráðherra 2010, inn­an­rík­is­ráðherra 2011-2013.

Þetta er glæsi­leg­ur fer­ill. Um hann snýst bók­in öðrum þræði. Þar er einnig að finna hug­leiðing­ar Ögmund­ar um stjórn­mál og stefn­ur. Hon­um ligg­ur mikið á hjarta eins og lengd bók­ar­inn­ar sýn­ir. Hann er vel rit­fær en text­inn er stund­um tor­melt­ur og öll sag­an er ekki alltaf sögð. Lang­ar nafnarun­ur ein­kenna fyrri hluta bók­ar­inn­ar, nafna­skrá bók­ar­inn­ar er 11 síður. Í bók­inni er fjöldi mynda. Heim­ilda er getið neðan­máls en með of smáu letri.

Ögmund­ur er góðviljaður maður og vill ekki skilja óvin­sam­lega við þá sem hann nefn­ir í bók­inni. Hann teyg­ir sig meira að segja stund­um yfir flokk­spóli­tísku lín­una og bregður skildi fyr­ir menn.

Um bylt­ing­ar­kennda brott­vís­un Davíðs Odds­son­ar og annarra seðlabanka­stjóra úr embætt­um eft­ir valda­töku vinstri stjórn­ar­inn­ar 1. fe­brú­ar 2009 hef­ur hann „mikl­ar efa­semd­ir“. Tal stjórn­ar­inn­ar um kerf­is­breyt­ingu á bank­an­um hafi verið „til mála­mynda“. Upp­stokk­un­in „reynd­ist þegar allt kom til alls fyrst og fremst snú­ast um brottrekst­ur seðlabanka­stjóra“. (290)

Hann seg­ir að beitt hafi verið svik­um til að mál færu á þann veg í at­kvæðagreiðslu á þingi að Geir H. Haar­de varð einn ákærður í lands­dóms­mál­inu. Ögmund­ur greiddi at­kvæði með ákær­unni en seg­ir: „Minn góði vin­ur, Björn Kjart­ans­son ráðherra­bíl­stjóri hef­ur minnt mig á að ég hafi sagt þegar ég kom í bíl­inn til hans í bíla­kjall­ara Alþing­is­húss­ins að at­kvæðagreiðslunni lok­inni, að nú hefði ég unnið mitt versta verk á þing­ferli mín­um, ég væri sek­ur um níðings­verk.“ (444)

Þetta er mann­lega hliðin á Ögmundi, mann­in­um sem stend­ur að af­drifa­rík­um ákvörðunum um menn og mál­efni en síðan sæk­ir að hon­um efi um hvort hann hafi gert rétt. Þegar kem­ur að stjórn­málakredd­unni ef­ast hann ekki. Ögmund­ur sveig­ir ávallt til vinstri sé um tvo kosti að velja á vinstri helm­ingi stjórn­mála­manna. Hann læðist stund­um inn á miðjuna en yfir hana, til hægri, skal aldrei stigið. Þar sér hann óvini á fleti fyr­ir.

GS417A1K9Eim­reiðar­hóp­ur­inn er til dæm­is oft nefnd­ur sem full­trúi gróðahyggj­unn­ar. Kenni hann ein­stak­linga í frá­sögn sinni við hóp­inn skil­ur les­and­inn að hætta er á ferðum. Hann fær­ir hins veg­ar fleiri í hóp­inn en þar voru.

Í ut­an­rík­is­mál­um á hann and­stæðinga und­ir merkj­um Varðbergs, sam­taka um vest­ræna sam­vinnu og alþjóðamál.

Þótt Ögmund­ur væri „óháður“ þegar hann bauð sig fyrst fram til þings átti hann sér póli­tísk­an bak­hjarl í Stefnu, fé­lagi vinstri manna. Þetta fé­lag vildi; „Fljúga til baka til að taka stöðuna á ný fyr­ir flug­tak inn í framtíðina.“ Og Ögmund­ur bæt­ir við: „Ég geri það að til­lögu að horft verði til þess sem menn ætluðu sér upp úr seinna stríði, að láta al­manna­hag ráða smíði og gerð sam­fé­lags­ins en ekki gróðahags­muni.“ (523)

Ögmund­ur seg­ir þetta und­ir lok bók­ar sinn­ar. Þetta skýr­ir til dæm­is óvild hans í garð Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins. Með hon­um var tek­in allt önn­ur stefna við stríðslok en fell­ur að skoðun Ögmund­ar um „al­manna­hag“. Sömu sögu er að segja um þró­un­ina í Evr­ópu sem leiddi til aðild­ar Íslands að EES-samn­ingn­um. Síðan er þverstæðan: Ögmund­ur samþykkti um­sókn­ina um aðild að ESB árið 2009 en vildi hana ekki!

Ögmund­ur er heil­brigðisráðherra í nokkra mánuði 2009 en seg­ir af sér vegna and­stöðu við Ices­a­ve-samn­ing­inn. Þjóðin hafnaði lög­um um samn­ing­inn í at­kvæðagreiðslu í mars 2010.

Ögmund­ur gerði sér grein fyr­ir að stjórn­in væri rúin öllu trausti. Hann vildi hins veg­ar aldrei að Ices­a­ve felldi rík­is­stjórn­ina og sótt­ist eft­ir að fá þar sæti að nýju sem gekk eft­ir í lok sept­em­ber 2010, þá hafði hann verið eitt ár utan stjórn­ar.

Lýs­ing­in á stjórn­ar­hátt­um Jó­hönnu og Stein­gríms J. er dap­ur­leg. Aug­ljóst er að for­sæt­is­ráðherr­ann hef­ur enga þol­in­mæði gagn­vart Ögmundi og treyst­ir hon­um ekki. Jó­hanna tel­ur að hún geti, án sam­ráðs, ruðst inn á svið annarra ráðherra. Ögmund­ur sér við þess­ari áráttu henn­ar þegar hann snýst gegn henni í deil­unni um hvort Huang Núbo megi kaupa Grímsstaði á Fjöll­um. Sam­fylk­ing­unni var ekk­ert heil­agt til stuðnings Núbo.

Ögmund­ur vann að því sem óháður að stofna Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð und­ir lok 20. ald­ar. Var hann þar á báti með Stein­grími J. Sig­fús­syni og Hjör­leifi Gutt­orms­syni. Svavar Gests­son stóð álengd­ar enda á leið úr stjórn­mál­um. Ögmund­ur, Stein­grím­ur J. og Svavar hafa skrifað póli­tísk­ar end­ur­minn­ing­ar og þegar VG varð 20 ára 2019 kom út saga flokks­ins: Hreyf­ing rauð og græn .

Í öll­um bók­un­um er lýst ein­hverju sem ekki varð. Stóru vatna­skil­in hafa ekki orðið. Það er erfitt að þókn­ast sjón­ar­miðum Stefnu, að snúa til baka í leit að framtíðinni. Katrín Jak­obs­dótt­ir sýn­ir mikið póli­tískt þrek með því að leiða slík­an flokk til for­ystu í rík­is­stjórn. Ögmund­ur Jónas­son gef­ur lítið fyr­ir það af því að Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn er þar til sam­starfs. Það er skrýt­in mein­loka.