14.10.2023

Umboðsmaður og þingræðið

Morgunblaðið, 14. október 2023.

Fram til 10. októ­ber 2023 hölluðust marg­ir að því að þriggja flokka stjórn Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur sýndi lít­il tilþrif. Ágrein­ing­ur milli stjórn­ar­flokk­anna yrði sí­fellt aug­ljós­ari. Drungi væri yfir alþingi bæði hjá stjórn og stjórn­ar­and­stöðu.

Það ríkti með öðrum orðum póli­tísk deyfð.

Ástandið snar­breytt­ist hins veg­ar að morgni þriðju­dags­ins 10. októ­ber þegar Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála- og efna­hags­ráðherra boðaði til blaðamanna­fund­ar og til­kynnti að hann léti af embætti fjár­mála- og efna­hags­ráðherra. Að mati umboðsmanns alþing­is hefði hann „brostið hæfi“ til að bera ábyrgð á sölu á 22,5% hlut rík­is­ins í Íslands­banka 22. mars 2022.

Bjarni sagði að í ljósi niður­stöðu umboðsmanns væri sér gert ókleift að starfa áfram sem fjár­mála- og efna­hags­ráðherra að frek­ari sölu á eign­ar­hlut­um rík­is­ins. Þá væri afar mik­il­vægt að skapa frið um fjár­mála- og efna­hags­ráðuneytið og mik­il­væg verk­efni sem þar væru unn­in. Sér bæri auk þess að virða álit umboðsmanns, sér­staks trúnaðar­manns alþing­is, þótt hann væri ósam­mála hon­um.

Póli­tík­in leyst­ist úr dróma. Í stað drunga vaknaði ákafi eft­ir stjórn­mála­frétt­um. For­ystu­menn stjórn­ar­flokk­anna boðuðu strax að fram­hald yrði á sam­starfi þeirra. Bjarni myndi sitja áfram í rík­is­stjórn­inni.

Þegar litið er til baka til þess sem mál­svar­ar stjórn­ar­and­stöðu og stjórn­mála­fræðing­ar sögðu þenn­an þriðju­dag og þess sem sum­ir þeirra segja nú mætti ætla að fyrstu yf­ir­lýs­ing­arn­ar hefðu verið gefn­ar að óat­huguðu máli. Nú láta and­stæðing­arn­ir eins og Bjarni hafi boðað af­sögn úr rík­is­stjórn þegar hann sagðist ætla að láta af embætti fjár­mála- og efna­hags­ráðherra.

Af­sögn er orð sem varð til um þenn­an at­b­urð ann­ars staðar en hjá Bjarna. Þeir sem tóku að nota það og reiðast nú yfir að eitt­hvað ger­ist ekki sem þeir væntu eiga það við sig sjálfa. Öðrum kem­ur ekki á óvart að stjórn­ar­and­stæðing­ar fari fram úr sjálf­um sér og kenni síðan öðrum um skell­inn.

Í ávarp­inu sem Bjarni flutti 10. októ­ber kom skýrt fram hve annt hon­um er um að virða ákv­arðanir þeirra stofn­ana sem fara með lög­bundið vald í stjórn­kerf­inu. Öll fram­ganga hans vegna söl­unn­ar á hlut rík­is­ins í Íslands­banka hef­ur ein­kennst af þessu. Hann treysti á þess­ar stofn­an­ir við sölu á fyrsta hluta eign­ar­inn­ar í júní 2021. Sætti sal­an ekki gagn­rýni. Hann treysti einnig á þess­ar stofn­an­ir við söl­una á öðrum hlut­an­um 22. mars 2022.

1445431Oddvitar stjórnarflokkanna á leið til blaðamannafundar í Eddu, húsi íslenskunnar, að morgni laugardags 14. október 2023 þar sem tilkynnt var að Bjarni Benediktsson yrði utanríkisráðherra en Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármála- og efnahagsráðherra (mynd: mbls.is/Eggert Jóhannesson).

Ábyrgð ráðherr­ans var í mars 2022 sam­bæri­leg við ábyrgðina á sölu­ferl­inu í júní 2021. Þetta átti meðal ann­ars við um ákvæði stjórn­sýslu­laga um sér­stakt hæfi. Umboðsmaður hef­ur yf­ir­lýs­ingu fjár­mála- og efna­hags­ráðuneyt­is­ins um það efni þó að engu.

Þegar gagn­rýni heyrðist á söl­una í mars 2022 óskaði ráðuneyti Bjarna eft­ir því með bréfi dag­settu 7. apríl 2022 að rík­is­end­ur­skoðun gerði stjórn­sýslu­út­tekt á því hvort sala rík­is­ins á 22,5% hlut í Íslands­banka 22. mars 2022 hefði sam­rýmst lög­um og góðum stjórn­sýslu­hátt­um. Skilaði stofn­un­in skýrslu sinni 13. nóv­em­ber 2022. Þegar hún lá fyr­ir boðaði rík­is­stjórn­in gjör­breyt­ingu á fyr­ir­komu­lagi við sölu á eign­ar­hlut rík­is­ins í bönk­um.

Bjarni krafðist þess af banka­sýsl­unni að hún legði fram til birt­ing­ar lista yfir þá sem keyptu bréf í Íslands­banka 22. mars 2022. Leiddi birt­ing list­ans til mik­illa umræðna og gagn­rýni á Bjarna vegna þess að fé­lag, Hafsilf­ur, í eigu föður hans var meðal kaup­enda.

Fjár­mála­eft­ir­lit seðlabank­ans hóf í apríl 2022 at­hug­un á fram­kvæmd Íslands­banka á útboði banka­sýsl­unn­ar og lauk henni með sátt 7. júní 2023 þegar bank­inn samþykkti að greiða tæp­lega 1,2 millj­arða kr. sekt. Banka­stjór­inn sagði síðan af sér.

Umboðsmaður alþing­is hóf að eig­in frum­kvæði rann­sókn sína snemma árs 2023. Sagði umboðsmaður það gert vegna þrýst­ings frá al­menn­ingi. Í áliti hans frá 5. októ­ber 2023 seg­ir að ekk­ert hafi komið fram sem gefi hon­um til­efni til að draga í efa staðhæf­ingu ráðherra um að hann hafi ekki vitað um til­boð frá Hafsilfri þegar hann samþykkti niður­stöðu sem banka­sýsl­an lagði fyr­ir hann. Ekk­ert í þeim gögn­um sem ráðherra bár­ust frá banka­sýsl­unni, áður en hann tók ákvörðun sína, hafi gefið hon­um eða starfs­mönn­um ráðuneyt­is hans sér­stakt til­efni til að ætla að fyr­ir­tæki í eigu föður ráðherr­ans væri meðal bjóðenda. Þá seg­ir umboðsmaður:

„Þetta get­ur þó ekki haggað því að hvorki ég, né al­menn­ing­ur ef því er að skipta, hef­ur for­send­ur til að staðreyna full­yrðingu ráðherra um þetta atriði. Tek­ur úr­lausn máls­ins mið af því.“

Eft­ir mark­vissa viðleitni Bjarna Bene­dikts­son­ar frá því í apríl 2022 til að upp­lýsa alla þætti Íslands­banka­söl­unn­ar er það niðurstaða umboðsmanns að vegna skorts á gögn­um sé sér ógjörn­ing­ur að trúa ráðherr­an­um og emb­ætt­is­mönn­um hans. Ekki hafi tek­ist að sanna sak­leysi ráðherr­ans, þess vegna bresti hann hæfi. Sekt hans er hins veg­ar ekki held­ur sönnuð.

Umboðsmaður ber fyr­ir sig að ekk­ert komi „fram í sam­tíma­gögn­um máls­ins um að ráðuneytið hafi veitt álita­mál­um um sér­stakt hæfi eft­ir­tekt“. Þar vís­ar hann til fund­ar­gerða eða minn­is­blaða. Minn­ir þetta á niður­stöðu meiri­hluta lands­dóms gegn Geir H. Haar­de sem var sak­felld­ur án refs­ing­ar af því að hvergi fannst skráð í fund­ar­gerð rík­is­stjórn­ar að hrun bank­anna væri á næsta leiti.

Lög­speki af þessu tagi leiðir til þess að rík­is­ráðið hef­ur verið kallað sam­an í dag. Líf rík­is­stjórn­ar er í húfi. Þegar umboðsmaður alþing­is ákveður að vega að þing­ræðinu þurfa rök hans að vera burðugri en í þessu máli.