24.2.2024

Tvö ár stríðsglæpa Pútins

Morgunblaðið, laugardagur 24. febrúar 2024

Þess er minnst í dag að tvö ár eru liðin frá því Vla­dimir Pút­in Rúss­lands­for­seti gaf fyr­ir­mæli sín um ólög­mæta og til­efn­is­lausa inn­rás í Úkraínu. Að baki bjó draum­ur um end­ur­reisn rúss­neska keis­ara­dæm­is­ins, þurrka skyldi Úkraínu af kort­inu og gera út af við stjórn­end­ur lands­ins – „af­nazista­væða“ þjóðina eins og for­set­inn orðaði það.

Þegar Jon­as Gahr Støre, for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, var spurður álits á stríðinu fyr­ir skömmu svaraði hann: „Pút­in er ekki á neinni sig­ur­göngu í Úkraínu. Það eru liðin tvö ár frá inn­rás­inni og frá hans sjón­ar­hóli er ár­ang­ur­inn hrika­leg­ur. Við skul­um ekki láta blekkj­ast af eig­in tali um að banda­lag okk­ar sé að brotna.“

Í þess­um fáu orðum er vikið að tveim­ur meg­in­at­riðum sem hafa ber í huga á líðandi stundu. Ann­ars veg­ar hef­ur Pút­in mistek­ist að ná mark­miðum sín­um í Úkraínu og hins veg­ar er eins og svo oft áður alið á þeirri skoðun að Atlants­hafs­banda­lagið sé að brotna. Varn­artengsl­in séu að rofna á milli ríkj­anna í Evr­ópu og Norður-Am­er­íku.

Við blas­ir að Pút­in tekst ekki að þurrka Úkraínu út af kort­inu. Hvort hon­um tekst að halda því sem hann hafði her­numið af land­inu fyr­ir inn­rás­ina 24. fe­brú­ar 2022 kem­ur í ljós.

Landa­merki eru eitt í þessu sam­bandi en hernaðarleg­ur og stjórn­mála­leg­ur veru­leiki annað. Kost­ar það enn átök í lang­an tíma að tryggja Úkraínu­mönn­um framtíðarör­yggið sem þeir vilja? Þeir sætta sig að sjálf­sögðu ekki við sama gervifriðinn og samið var um eft­ir hernaðarbrölt Rússa árið 2014. Þá skapaðist aðeins stund milli stríða sem Rúss­ar nýttu til her­væðing­ar og und­ir­bún­ings al­hliða inn­rás­ar.


Nú hef­ur Úkraínu verið opnuð leið inn í Evr­ópu­sam­bandið og Atlants­hafs­banda­lagið (NATO) að upp­fyllt­um skil­yrðum. Ekk­ert þeirra snýr að því að Pút­in segi eitt­hvað um aðild­ina. Hann hef­ur tapað þeirri ref­skák. Um­skipt­in sem urðu í Úkraínu fyr­ir 10 árum þegar lepp­um Rússa var bolað úr valda­stól­um sneru ein­mitt að því að nýir stjórn­end­ur vildu stefna í vest­ur en ekki aust­ur. Ferðin í vest­ur verður ekki stöðvuð hvað sem Pút­in finnst.

Hann er sakaður um stríðsglæpi og get­ur ekki um frjálst höfuð strokið utan Rúss­lands vegna hand­töku­skip­un­ar frá alþjóðlega saka­mála­dóm­stóln­um, meðal ann­ars fyr­ir skipu­lögð rán á börn­um. Tugþúsund­ir barna hafa verið flutt­ar nauðugar frá Úkraínu til Rúss­lands sam­hliða fjölda­morðum.

Dauði Al­ex­eis Navalníjs sem Pút­in óttaðist mest vegna vin­sælda hans meðal Rússa og af­hjúp­ana hans á þjó­fræði Kreml­verja er enn eitt dæmið um morðæðið í þágu Pút­ins, inn­an og utan Rúss­lands. Að harðstjóri leggi fæð á heila þjóð og beiti her sín­um af blóðugu mis­kunn­ar­leysi gegn henni er of fjarri heil­brigðri skyn­semi til að hægt sé að átta sig til fulls á grimmd­inni. Hún blas­ir hins veg­ar blá­köld við í morðinu á Navalníj og felu­leikn­um með lík­ams­leif­ar hans.

Um 800.000 ung­ir Rúss­ar, flest­ir vel menntaðir, hafa flúið til að kom­ast hjá þátt­töku í stríðinu og um 300.000 hafa lent í „kjötkvörn­inni“ eins og land­her Rússa er upp­nefnd­ur vegna mann­falls­ins.

Skoðana­könn­un í 12 ESB-lönd­um í janú­ar 2024 sýn­ir mik­inn stuðning við Úkraínu­menn en þeim fækk­ar frá því í fyrra sem telja að þeir sigri Rússa. Niðurstaðan seg­ir, að sögn fræðinga, að haga eigi stuðningi Evr­ópu­ríkja við Úkraínu á þann „raun­sæja“ hátt að Úkraínu­menn öðlist var­an­leg­an samn­ings­bund­inn frið sem falli að hags­mun­um þeirra en ekki Pút­ins.

Chronicle, sjálf­stæður rann­sókn­ar­hóp­ur í Moskvu, kannaði í októ­ber 2023 af­stöðu Rússa til Úkraínu­stríðsins og hafði stuðning­ur við það minnkað um næst­um helm­ing miðað við fe­brú­ar 2023, fallið úr 23% í 12%. Þá vildu 40% að rúss­neski her­inn yrði kallaður heim frá Úkraínu þótt mark­mið stríðsins hefði ekki náðst.

Vegna óvissu um frek­ari stuðning Banda­ríkja­manna við Úkraínu hafa umræður vaxið inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins (ESB) um sam­eig­in­leg­an stuðning við Volody­myr Zelenskíj og stjórn hans. Leiðtogaráð ESB samþykkti ný­lega að verja 50 millj­örðum evra í þágu Úkraínu.

Inn­an ESB er rætt um að koma á fót embætti varn­ar­mála­stjóra í fram­kvæmda­stjórn­inni eft­ir ESB-þing­kosn­ing­arn­ar í sum­ar. Þá er einnig á döf­inni að opna ESB-fjár­fest­inga­sjóði í þágu her­gagna­fram­leiðslu.

Þótt Úkraínu­menn hafi stór­eflt eig­in skot­færa­gerð standa þeir verr að vígi en Rúss­ar, þá skort­ir til dæm­is 155 mm fall­byssu­kúl­ur þegar Rúss­ar – með aðstoð Norður-Kór­eu­manna – láta um 3.000 kúl­um á dag rigna yfir Úkraínu­her. Þá nota Úkraínu­menn fleiri Pat­riot-varn­ar­f­laug­ar á mánuði en Banda­ríkja­menn fram­leiða á ári og það er fimm ára af­greiðslu­frest­ur á pönt­un­um.

Niðurstaða átak­anna í Úkraínu ræðst hvað sem öðru líður af fram­taki Banda­ríkja­manna. Póli­tísk spenna á kosn­inga­ári kem­ur í veg fyr­ir sam­eig­in­legt átak banda­rísku flokk­anna í þágu Úkraínu. Staðan gegn Pút­in veikist og hann efl­ist í þeirri trú að hann geti sigrað fleiri en Úkraínu­menn. Þeim fjölg­ar sem ótt­ast að verða næsta skot­mark hans.

München­ar-ráðstefn­an um ör­ygg­is­mál var hald­in fyr­ir viku. Norsk­ir alþjóðamála­fræðing­ar segja boðskap­inn frá ráðstefn­unni vera að ekki nægi að auka fjár­veit­ing­ar til ör­ygg­is­mála í Evr­ópu held­ur verði að gera það með hraði.

Það kosti átak í öll­um lýðræðislönd­um við að miðla upp­lýs­ing­um og fræða al­menn­ing um nauðsyn þess að auka ör­yggi bæði hernaðarlegt og í þágu al­manna­varna. Séu for­ystu­menn inn­an NATO ekki sam­stiga þar og við kynn­ingu á ógn­um að ör­ygg­inu verði meiri vandi en ella að tryggja fjár­veit­ing­arn­ar.

Þetta á ekki síður við hér en ann­ars staðar.