2.12.2017

Stórverkefni í utanríkis- og öryggismálum hjá nýrri ríkisstjórn

Morgunblaðið 2. desember 2017.

Stóra myndin má ekki hverfa fyrir aukaatriðum í umræðum um ríkisstjórnina sem mynduð var í gær.

Í fyrsta sinn í stjórnmálasögunni taka höndum saman við stjórn landsins flokkar sem eru fulltrúar þriggja meginása stjórnmálanna: Sjálfstæðisflokkurinn til hægri, Framsóknarflokkurinn í miðjunni og Vinstri grænir (VG) til vinstri. Rúm 100 ár eru frá því að þessi skipting varð í íslenskum stjórnmálum. Slík stjórn hefur aldrei fyrr verið mynduð. 

Í fyrsta sinn í stjórnmálasögunni skipar fulltrúi flokksins lengst til vinstri sæti forsætisráðherra. Í ríkisstjórninni sem jafnan er kölluð Stefanía, stjórn Alþýðuflokks, Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks 1947 til 1949, var Stefán Jóhann Stefánsson Alþýðuflokki forsætisráðherra. Sú stjórn beitti sér fyrir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu (NATO) gegn andstöðu þeirra sem skipuðu sér lengst til vinstri.

Þjóðaröryggisstefna

Nú verður Katrín Jakobsdóttir (VG) forsætisráðherra og formaður Þjóðaröryggisráðs í ríkisstjórn sem fylgir eftirfarandi stefnu í öryggismálum:

„Ríkisstjórnin leggur áherslu á að öryggismál þjóðarinnar séu í traustum skorðum. Þjóðaröryggisstefna Íslands sem samþykkt var af Alþingi verður höfð að leiðarljósi.“

Upphafsorðin í þessum kafla stjórnarsáttmálans verða ekki túlkuð á annan veg en þann að haldið verði áfram óbreyttri stefnu sem felst í aðild að NATO og varnarsamstarfi við Bandaríkin. Þjóðaröryggisstefnan er alveg skýr og ótvíræð að þessu leyti.

Þar er aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu lýst sem „lykilstoð í vörnum Íslands“; að varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 tryggi varnir Íslands og þróa skuli varnarsamstarfið á grundvelli samningsins þar sem tekið verði mið af hernaðarlegum ógnum, sem og öðrum áhættuþáttum þar sem gagnkvæmir varnar- og öryggishagsmunir séu ríkir. Þá skuli unnið að því að efla og þróa enn frekar norræna samvinnu um öryggis- og varnarmál og tryggja að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland standi frammi fyrir í öryggis- og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands.

Þessi stefna leggur ríkar skyldur á herðar íslenskra stjórnvalda til að leggja sitt af mörkum innan NATO, til sameiginlegs öryggis þjóðanna þar og Norðurlandanna, Finnlands og Svíþjóðar, sem standa utan NATO. Innan bandalagsins er unnið að mótun nýrrar herstjórnar til að takast á við aukin verkefni á Norður-Atlantshafi.

Vinna verður nýtt áhættumat fyrir Ísland í öryggismálum í ljósi gjörbreyttra aðstæðna miðað við matið frá árinu 2009. Í því starfi gegnir þjóðaröryggisráðið undir formennsku forsætisráðherra lykilhlutverki.

Ekkert um ESB-aðild

Með aðild Samfylkingarinnar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum vorið 2007 hófst markviss viðleitni af hálfu utanríkisráðherra Íslands til að koma landinu í Evrópusambandið. Krafa Ingibjargar Sólrúnar um þetta efni varð enn skýrari eftir að bankarnir hrundu í október 2008. 

Í nóvember 2008 hratt Geir H. Haarde, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, af stað könnun innan Sjálfstæðisflokksins undir forystu Kristjáns Þórs Júlíussonar alþingismanns á afstöðu Sjálfstæðismanna til aðildar að ESB. Meirihluti flokksmanna vildi ekki aðild að sambandinu. Varð þetta með öðru til þess að Samfylkingin sleit samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og til sögunnar kom 1. febrúar 2009 minnihlutastjórn Samfylkingar og VG með hlutleysi Framsóknarmanna á alþingi.

Eftir að Samfylking og VG unnu meirihluta í þingkosningum vorið 2009 var stefnt á aðild að ESB með umsókn sem alþingi samþykkti 16. júlí 2009. Umsóknin var sett á ís af Samfylkingarmanninum Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra í janúar 2013. Í mars 2015 lýsti Framsóknarmaðurinn þáverandi Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra yfir því við fulltrúa Evrópusambandsins að Ísland væri ekki lengur í hópi ESB-umsóknarríkja og ætti sambandið að taka mið af því.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er nú staðfest, sem raunar lá ljóst fyrir í kosningabaráttunni í haust, að aðild að ESB er ekki lengur á dagskrá íslenskra stjórnmála. Í sáttmálanum segir:

„Hagsmunum Íslands er best borgið með því að standa áfram utan Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin telur það vera eitt mikilvægasta hagsmunamál Íslands að sinna framkvæmd EES-samningsins vel og Alþingi þarf að vera virkara á því sviði. Gæta þarf vel að hagsmunum Íslands við úrsögn Breta úr Evrópusambandinu þar sem Bretar eru ein af okkar helstu viðskiptaþjóðum. Frjáls og opin alþjóðaviðskipti eru til hagsbóta fyrir lítil opin hagkerfi og auka velsæld þeirra.“


ESB-málið er einfaldlega ekki á dagskrá þessarar ríkisstjórnar. Hvergi er að finna ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu hvorki vegna nýrrar ESB-aðildarumsóknar né um framhald viðræðna sem í raun hefur verið slitið. Óheillaferlinu sem hófst skipulega fyrir 10 árum er lokið. Vilji einhverjir hefja það að nýju á íslenskum stjórnmálavettvangi verða þeir að byrja frá grunni. Vangaveltur um hvernig ESB túlkar erindi utanríkisráðherra Íslands frá mars 2015 eru raunhæft verkefni um innri starfshætti ESB. Sambandið ræður engu um efni utanríkisstefnu Íslands.

Klofningur í VG

Fyrir kosningar birtist könnun sem sýndi töluverðan áhuga meðal fylgismanna VG á aðild að ESB. Innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var ESB-áhuginn enginn. 

Tveir þingmenn VG treystu sér ekki til að samþykkja stjórnarsáttmálann á flokksráðsfundi VG miðvikudaginn 29. nóvember. Annar þeirra, Albert Ingi Jónsson, bar fyrir sig þjóðaröryggisstefnuna og sagði: „Það hefði nú þurft að segja mér það tvisvar að Nató og varnarsamningurinn yrðu leiðarljós í stefnu ríkisstjórnar Vinstri grænna.“

Þingmaðurinn gerir sér líklega ekki grein fyrir að frá árinu 1978 átti forveri VG, Alþýðubandalagið, oftar en einu sinni aðild að ríkisstjórn án þess að krefjast úrsagnar úr NATO eða uppsagnar varnarsamningsins. Var það þó á þeim tíma þegar hugmyndafræðilegi ágreiningurinn milli austurs og vesturs var í fullu gildi og mótaði afstöðuna til öryggismála.

Ástæða er til að velta fyrir sér hvort andstaða þessara tveggja þingmanna VG við stjórnarsáttmálann kunni að stafa af afstöðu þeirra til ESB. Þeir líti á sig sem fulltrúa kjósenda flokksins á höfuðborgarsvæðinu sem helst hafa áhuga á að Ísland gangi í ESB.

Norðurslóðir

Þriðja mikilvæga verkefnið á sviði utanríkismála sem nefnt er í stjórnarsáttmálanum snýst um norðurslóðir og loftslagsmál. Þar segir:

„Ísland mun gegna formennsku í Norðurskautsráðinu 2019–2021. Málefni norðurslóða snerta nær allar hliðar íslensks samfélags og eru forgangsmál í íslenskri utanríkisstefnu. Ísland mun á vettvangi Norðurskautsráðsins einkum leggja áherslu á heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, loftslagsmál og málefni hafsins.“


Miðað við þróun mála verður Norðurskautsráðið sífellt mikilvægari samstarfsvettvangur og ábyrgðin mikil hjá þeim sem sest þar í pólitíska forystu. Það skiptir því höfuðmáli fyrir orðspor Íslendinga á alþjóðavettvangi að vel og skipulega sé staðið að öllu er varðar forystu í ráðinu.

Í stuttu máli bíða þrjú augljós stórverkefni nýrrar ríkisstjórnar í utanríkis- og öryggismálum: Aðlögun að nýrri stöðu í öryggismálum á Norður-Atlantshafi, aðlögun að nýju viðskiptaumhverfi við brottför Breta úr ESB, forysta í Norðurskautsráðinu.