25.8.2023

Sneypuför í landsdóm

Morgunblaðið, föstudagur, 25. ágðust 2023.

Lands­dóms­málið – stjórn­málar­efjar og laga­klæk­ir ★★★★½ Eft­ir Hann­es Hólm­stein Giss­ur­ar­son. Inn­bund­in 366 bls., myndskreytt, heim­ilda- og nafna­skrá. Al­menna bóka­fé­lagið, Reykja­vík 2022.

Því má velta fyr­ir sér hvernig umræður hefðu orðið hér um hrunið ef alþingi hefði látið nægja að setja neyðarlög til að bregðast við fjár­hags­lega áfall­inu en hvorki samþykkt að skipaður skyldi sér­stak­ur sak­sókn­ari né sett á lagg­irn­ar rann­sókn­ar­nefnd alþing­is. Ýtt hefði verið und­ir tor­tryggni með ásök­un­um um að öll­um stein­um hefði ekki verið velt í anda umræðnanna vegna söl­unn­ar á hlut rík­is­ins í Íslands­banka í mars 2022.

Þegar litið er nú til rann­sókna og mála­ferla eft­ir hrun snýr gagn­rýni frek­ar að því að of hart hafi verið gengið fram en hitt. Frá hruni er þó ekki liðinn nógu lang­ur tími fyr­ir hlut­lægt mat á öllu sem því tengd­ist. Í bók­inni Lands­dóms­málið – stjórn­málarefjar og lagaklæk­ir bregður Hann­es Hólm­steinn Giss­ur­ar­son, fyrrv. pró­fess­or, ljósi á einn óvandaðasta eft­ir­leik hruns­ins tíu árum eft­ir að hon­um lauk.

12d2f4ee-b60f-434d-be94-12896c3cc441

Bók­in skipt­ist í 14 kafla og inn­an hvers kafla eru marg­ar millifyr­ir­sagn­ir. Heim­ilda­skrá bók­ar­inn­ar er 17 blaðsíður og er víða leitað fanga. Þá er nafna­skrá og út­drátt­ur á ensku. Bók­in er myndskreytt og prentuð á góðan papp­ír. Próf­arka­lest­ur er vandaður og vald höf­und­ar á ís­lenskri tungu mikið auk þess sem hann fær­ir orðum sín­um oft stað með skír­skot­un til sögu og bók­mennta.

Höf­und­ur legg­ur sig fram um að auðvelda les­end­um að átta sig á meg­in­at­riðum þess sem um er rætt með út­drætti í upp­hafi og helstu niður­stöðum í lok­in. Hann­es Hólm­steinn beit­ir aðferðum stjórn­mála­fræðinn­ar við skrif sín sam­hliða því sem hann rek­ur fjöl­marga lög­fræðilega þræði til enda. Hann er veru­lega gagn­rýn­inn á aðild margra ein­stak­linga að viðfangs­efn­inu og fær­ir rök fyr­ir að þeir hefðu átt að lýsa sig van­hæfa til aðild­ar að því. Hver ein­stak­ling­ur fyr­ir sig legg­ur mat á hæfi sitt. Vegna kynna þess sem þetta rit­ar af mörg­um sem við sögu koma er hér látið við það sitja að stikla á stóru varðandi efn­isþætti lands­dóms­máls­ins sjálfs.

Í fyrsta sinn í sög­unni ákærði meiri­hluti alþing­is ráðherra og lands­dóm­ur var kallaður sam­an. Þetta gerðist eft­ir að rann­sókn­ar­nefnd alþing­is „hafði starfað í sex­tán mánuði, með fjölda starfs­fólks, ríf­leg­ar fjár­veit­ing­ar og nán­ast ótak­markaðar rann­sókn­ar­heim­ild­ir. En hún hafði ekki fundið eitt ein­asta brot í venju­leg­um skiln­ingi hjá þeim sjö mönn­um, sem hún sakaði um van­rækslu“ (109).

„Van­ræksla“ í lög­um um rann­sókn­ar­nefnd­ina var skil­greind á ann­an veg en gert var fyr­ir hrun. Nefnd­in leit því til at­hafna eða at­hafna­leys­is fyr­ir hrun með aft­ur­virk­um gler­aug­um, það er í ljósi þess sem gerðist en eng­inn vissi þó að myndi ger­ast.

Þegar rann­sókn­ar­nefnd­in skilaði skýrslu sinni 12. apríl árið 2010 sat við völd fyrsta „hreina“ vinstri rík­is­stjórn­in, stjórn Sam­fylk­ing­ar og Vinstri-grænna (VG).

Áður en skýrsl­an lá fyr­ir hafði alþingi samþykkt að hún yrði ekki tek­in til meðferðar í for­sæt­is­nefnd þings­ins held­ur sér­stakri níu manna þing­nefnd. Starfaði nefnd­in í þrjá mánuði áður en rann­sókn­ar­nefnd­in lauk störf­um.

Lög­fræðing­ur­inn Atli Gísla­son (VG) var formaður sér­stöku þing­manna­nefnd­ar­inn­ar.

Þegar rann­sókn­ar­nefnd­in hafði skilað af sér veittu lög­lærðir höf­und­ar henn­ar, Páll Hreins­son dóm­ari og Tryggvi Gunn­ars­son umboðsmaður alþing­is, þing­manna­nefnd­inni enga leiðbein­ingu um fram­haldið. Þeir margít­rekuðu að skýrsl­an væri ekki niðurstaða saka­mál­a­rann­sókn­ar, ásak­an­ir í henni um van­rækslu væru með til­vís­un til laga um nefnd­ina en ekki til þeirra laga sem voru í gildi fyr­ir banka­hrunið. Jónatan Þór­munds­son, fyrrv. refsiréttar­pró­fess­or, veitti þing­manna­nefnd­inni hins veg­ar „sér­fræðiaðstoð í tengsl­um við mögu­lega ráðherra­ábyrgð“ (139). Auk þess voru kallaðir til fleiri lög­fræðileg­ir ráðgjaf­ar.

Atli Gísla­son vildi ákæra fjóra fyrrv. ráðherra, tvo úr Sjálf­stæðis­flokki, Geir H. Haar­de og Árna Mat­hiesen, og tvo úr Sam­fylk­ingu, Björg­vin G. Sig­urðsson og Ingi­björgu Sól­rúnu Gísla­dótt­ur. Rann­sókn­ar­nefnd­in taldi karl­menn­ina þrjá hafa sýnt van­rækslu en Atli sagði að Ingi­björg Sól­rún hefði sem formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar og ráðherra fengið sam­bæri­lega vitn­eskju um mál og Geir H. Haar­de for­sæt­is­ráðherra. Eins og áður sagði var van­ræksl­an met­in með aft­ur­virku laga­ákvæði.

Í álits­gerð til þing­manna­nefnd­ar­inn­ar lagði Jónatan Þór­munds­son til að hún skoðaði að ákæra vegna þess að ekki hefði verið farið eft­ir 17. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar um að halda skyldi ráðherra­fundi um mik­il­væg stjórn­ar­mál­efni, vandi bank­anna hefði ekki verið sett­ur á dag­skrá rík­is­stjórn­ar­funda. Notaði Jónatan meðal ann­ars sem rök að venja við skrán­ingu fund­ar­gerða rík­is­stjórn­ar gæti ekki þokað stjórn­ar­skrárá­kvæðinu til hliðar. Hann­es Hólm­steinn fær­ir skýr rök fyr­ir því að þessi túlk­un Jónatans stand­ist ekki (155).

Spurn­ingu um umræðu um vanda bank­anna í rík­is­stjórn hafði rann­sókn­ar­nefnd­in lagt fyr­ir Geir H. Haar­de sem gerði henni grein fyr­ir málsmeðferð sinni, tók nefnd­in „greini­lega gild andsvör Geirs H. Haar­de við at­huga­semd henn­ar um þetta mál því að hún gerði það ekki að niður­stöðu um van­rækslu“ (154).

Bogi Nils­son, rík­is­sak­sókn­ari 1997 til 2007, skar sig úr hópi ráðgjafa þing­manna­nefnd­ar­inn­ar, með því að halda fast við það grund­vall­ar­atriði vandaðs réttar­fars að venju­lega væri mál rann­sakað og síðan metið hvort rann­sókn­in leiddi í ljós hvort meiri lík­ur en minni væru á sak­fell­ingu í mál­inu. Með því að alþingi ákærði ráðherra fyr­ir lands­dómi yrði fyrst tek­in ákvörðun um máls­höfðun en málið síðan rann­sakað (145). Eft­ir að Bogi skilaði áliti sínu 4. júní 2010 var ekki frek­ar til hans leitað af þing­manna­nefnd­inni. „Niðurstaða lands­dóms var efn­is­lega hin sama og Boga Nils­son­ar … eina sér­fræðings­ins, sem nefnd­in hafði kvatt til og ekki tekið mark á“ (275).

Þing­manna­nefnd­in skilaði 379 bls. skýrslu 11. sept­em­ber 2010. Þar var ekki um neina sjálf­stæða rann­sókn að ræða held­ur end­ur­sögn á og út­drátt úr skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar alþing­is með þrem­ur frá­vik­um frá meiri­hluta þing­manna­nefnd­ar­inn­ar. Þá óskaði þing­manna­nefnd­in eft­ir grein­ingu á skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar­inn­ar „frá kynja­fræðilegu sjón­ar­horni“ (162).

Þegar hér var komið sögu í sept­em­ber 2010 hófst reip­tog á alþingi um hverja skyldi ákæra. Öllum virt­ist sama um hvort meiri lík­ur en minni væru á sak­fell­ingu í mál­inu. Þing­manna­nefnd­in þríklofnaði, fimm nefnd­ar­menn í VG, Fram­sókn­ar­flokkn­um og Hreyf­ing­unni vildu ákæra ráðherr­ana fjóra sem að ofan eru nefnd­ir, tveir þing­menn Sam­fylk­ing­ar vildu ákæra þrjá (sleppa Björg­vini G. Sig­urðssyni) og tveir þing­menn Sjálf­stæðis­flokks­ins töldu ekki ástæðu til að ákæra neinn.

Hann­es Hólm­steinn lýs­ir baktjalda­makki við af­greiðslu ákæru­til­lagn­anna á alþingi síðari hluta sept­em­ber 2010. Allt lék á reiðiskjálfi inn­an og utan þing­flokks Sam­fylk­ing­ar­inn­ar þegar hindrað var að Ingi­björg Sól­rún og Björg­vin G. Sig­urðsson yrðu ákærð. Fór svo að 28. sept­em­ber 2010 ákvað meiri­hluti alþing­is að ákæra einn mann, Geir H. Haar­de for­sæt­is­ráðherra. Frá­sögn­in í bók­inni sann­ar póli­tískt eðli ákær­unn­ar, með henni átti að kveða Sjálf­stæðis­flokk­inn end­an­lega í kút­inn.

Þegar hér er komið sögu á bls. 190 í bók­inni hefst lýs­ing á lands­dómi og rétt­ar­höld­un­um sjálf­um. Lands­dóms­málið var þing­fest 7. júní 2011 og lýsti Geir H. Haar­de sig sak­laus­an af öll­um ákæru­atriðum. Aðalmeðferð máls­ins hófst 5. mars 2012 og lauk mál­flutn­ingi 16. mars 2012. Dóm­ur var kveðinn upp 23. apríl 2012.

Dóm­ur­inn vísaði frá tveim­ur af fimm sak­ar­efn­um sem sótt voru í skýrslu rann­sókn­ar­nefnd­ar alþing­is og sýknaði Geir af þeim þrem­ur sem þá stóðu eft­ir. Ákæru­atriðin voru heima­smíðuð af þing­manna­nefnd­inni og ráðgjöf­um henn­ar en eng­in til­laga um sak­sókn kom frá rann­sókn­ar­nefnd alþing­is.

Áður er hér minnst á til­lögu Jónatans Þór­munds­son­ar um að ákæra Geir fyr­ir að leggja ekki mik­il­væg stjórn­ar­mál­efni fyr­ir rík­is­stjórn­ina í sam­ræmi við 17. gr. stjórn­ar­skrár­inn­ar. Meiri­hluti lands­dóms (níu dóm­ar­ar af 15) ákvað að sak­fella Geir sam­kvæmt þess­um ákæru­lið án refs­ing­ar og var kostnaður lagður á rík­is­sjóð.

Eft­ir að hafa komið að því að semja regl­ur um skrán­ingu fund­ar­gerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar tæp­um 40 árum áður en þessi dóm­ur var felld­ur og hafa lagt fram mál inn­an ramma regln­anna í tæp 13 ár sem ráðherra kom þessi niðurstaða meiri­hluta lands­dóms þeim sem þetta rit­ar al­gjör­lega í opna skjöldu.

Til­gang­ur fund­ar­gerða rík­is­stjórn­ar­inn­ar var að festa á blað niður­stöðu um mál, borið upp af viðkom­andi ráðherra, að meg­in­reglu með vís­an til fram­lagðra gagna. Um önn­ur mál var rætt und­ir liðnum „önn­ur mál“. Þetta skýrði Geir H. Haar­de fyr­ir rann­sókn­ar­nefnd alþing­is og tók hún skýr­ing­una góða og gilda.

Í lands­dóms­mál­inu var það notað gegn Geir að „yf­ir­vof­andi hætta á fjár­mála­áfalli“ hefði ekki verið rædd á ráðherra­fund­um eða „sú mik­il­væga stefnu­breyt­ing rík­is­ins að hverfa frá að standa á bak við bank­ana“ (296).

Björg­vin G. Sig­urðsson var banka­málaráðherra árin 2007 til 2008. Það var á hans ábyrgð að leggja minn­is­blað um mál­efni banka fyr­ir rík­is­stjórn. Mik­il þverstæða fólst í því við smíði ákæru alþing­is að fella Björg­vin G. fyrst­an af ákæru­lista en bæta við ákvæði um skyldu til að bera banka­mál upp í rík­is­stjórn.

Í stjórn­ar­skrárá­kvæðinu sem meiri­hluti lands­dóms túlkaði til sak­fell­ing­ar seg­ir að halda skuli ráðherra­fundi „um ný­mæli í lög­um og um mik­il­væg stjórn­ar­mál­efni“. For­vitni­legt væri að vita hvort málsmeðferð hefði breyst í rík­is­stjórn eft­ir að lands­dóm­ur túlkaði þetta stjórn­ar­skrárá­kvæði sem snýr að þeim tíma þegar tryggja átti að ráðherra færi ekki með önn­ur mál á fund kon­ungs en þau sem rædd hefðu verið á ráðherra­fundi.

Lest­ur bók­ar­inn­ar vek­ur áleitn­ar spurn­ing­ar um hvers vegna dóm­ar­ar sem sátu í lands­dómi og sér­fræðing­ar í saka­mála­rétti hafa ekki brotið málsmeðferðina til mergjar á grunni lög­fræðilegra sjón­ar­miða. Varla dett­ur nokkr­um í hug að þetta ferli verði end­ur­tekið?

Nú hef­ur stjórn­mála­fræðing­ur brugðið mæli­stiku sinni á málið og þá sem að því komu. Að nokkru leyti fær­ist höf­und­ur of mikið í fang með breiðu sjón­ar­horni á viðfangs­efni sitt í heild. Bók­in er um miklu meira en lands­dóms­málið. Hún er til­raun til að varpa ljósi á hrun­málið allt með út­tekt á per­són­um og leik­end­um sem tengj­ast upp­gjöri á því, upp­gjöri sem náði há­marki í lands­dóms­mál­inu. Sneypu­för sem sagt er að kostað hafi skatt­greiðend­ur um einn millj­arð króna. „Sjald­an hafa jafn­marg­ir Íslend­ing­ar þurft að greiða jafn­mikið fyr­ir jafn­lítið,“ eru loka­orðin.