3.5.2019

Skýrsla vegna vinafélags Múlakots

Fjórði aðalfundur Vinafélags gamla bæjarins i Múlakoti var haldinn föstudaginn 3. maí klukkan 17.30 að Kvoslæk í Fljótshlíð. Þar flutti ég þessa skýrslu stjórnar:

Vinafélag gamla bæjarins í Múlakoti var stofnað 21. febrúar 2015. Tilgangur þess er að styðja sjálfseignarstofnunina Gamli bærinn í Múlakoti til að endurbæta, varðveita og sjá um rekstur gamla bæjarins í Múlakoti á þann veg að sem mest starfsemi geti farið fram í húsinu og tengdum mannvirkjum til að standa undir rekstrarkostnaði. Þá skal stefnt að því að komið verði fyrir í húsinu myndum og munum sem tengjast sérstaklega sögu hússins og e.t.v. fleiru sem vel þykir fara innan húss og utan. Fjár til starfseminnar skal afla með félagsgjöldum og frjálsum framlögum félagsmanna ásamt styrkjum frá opinberum aðilum.

Untitled-6113-1024x683Ljósakvöldið 2019 af síðunni mulakot.is

Samkvæmt félagatali eru félagsmenn alls 106 þar af 4 fyrirtæki og 7 makar.

Í fyrra var aðalfundurinn haldinn 17. maí og að honum loknum kom stjórn félagsins saman og skipti með sér verkum:

Björn Bjarnason var kjörinn formaður, Kristín Þórðardóttir ritari og Sigríður Hjartar gjaldkeri. Meðstjórnendur eru Þórður Helgason og Hans G. Magnússon, í varstjórn eru Hrefna Jónsdóttir og Óskar Pálsson.

Vil ég þakka þessu ágæta fólki gott samstarf á liðnu starfsári og þó sérstaklega Sigríði Hjartar sem heldur á einstakan hátt sambandi við félagsmenn með tölvubréfum sínum og miðlun upplýsinga um það sem gerist í Múlakoti. Fyrir utan allt annað sem hún og Stefán Guðbergsson, maður hennar, gera á staðnum. Í fyrra greiddu til dæmis 220 manns fyrir leiðsögn í Múlakoti og hvílir hún að mestu á Sigríði.

Starfsemi félagsins er í föstum skorðum og ber þar ljósakvöldið sem haldið er fyrsta laugardag í september hæst. Á þessu ári verður það laugardaginn 7. september og hefst klukkan 19.30.

Í fyrra var ljósakvöldið 1. september, gestir voru um 80 eins og áður þrátt fyrir leiðinlegt veður fyrr um daginn. Les ég hér úr lýsingu á kvöldinu sem Sigríður sendi félagsmönnum í tölvubréfi:

„Við fengum nokkrar fyrirspurnir um hvort ekki ætti að blása af Ljósakvöldið vegna veðurs en við þráuðumst við. Og viti menn, klukkan 19:30 hætti að rigna. Það var hlaupið út og þurrkað af nýju borðunum og bekkjum og á mínútunni kl. 20 setti Björn Bjarnason, formaður vinafélagsins, hátíðina. [...] Síðan talaði Vigdís Jónsdóttir um sín tengsl við staðinn [...] Loks lék Grétar Geirsson staðarlistamaður dillandi tónlist á harmonikku. Grétar er alveg ómissandi á Ljósakvöldi.

Hápunktur kvöldsins var þó í höndum Þuríðar Lárusdóttur og Hrefnu Jónsdóttur sem sáu um kaffiveitingarnar, en Hrefna bakaði ástarpunga ásamt Arndísi Finnsson.

Nýju húsgögnin úr reynivið úr garðinum, smíðuð af Skúla Jónssyni, voru tekin í notkun. Sama má segja um „nýja“ hliðið sem stjórnarmaðurinn Hans Magnússon hefur gefið nýtt líf.

Veðrið hélst gott allan tímann þótt fáeinir regndropar féllu.

Þrír nýir félagar skráðu sig til leiks um kvöldið, þeir eru boðnir hjartanlega velkomnir.“

Nýju húsgögnin sem þarna eru nefnd eru garðhúsgögn sem Skúli Jónsson á Þykkvabæ í Landbroti smíðaði, 3 stór borð, 2 m á lengd, 6 bekkir við borðin, 2 minni borð og bekkir við og svo lítill bekkur með baki, sem fékk strax nafnið harmonikkubekkurinn, með Ljósakvöldin í huga. Styrkti vinafélagið gerð húsgagnanna í fyrra og nú í ár viðbót við þau úr trjám í Fanneyjarlundi austan málarastofu Ólafs Túbals. Er mikil prýði af þessum húsgögnum í garðinum fyrir utan notagildi þeirra.

Annað verkefni sem ég vil nefna hér er ákvörðun stjórnarinnar um að sækja um styrk í uppbyggingarsjóð Suðurlands til þriggja verkefna sem stjórnin telur miklu skipta í samræmi við tilgang vinafélagsins:

1. Vinnu við að safna efni frá þeim sem eiga minningar úr Múlakoti þegar þar var rekið gisti- og veitingahús. Starfsemi vinafélagsins hefur leitt í ljós hve margir bera hlýjan hug til Múlakots vegna æskuminninga þaðan. Því fólki fækkar sem á þessar minningar. Hugmyndin er að safna slíkum minningabrotum og birta þau á́ vefsíðunni mulakot.is. Æskilegt er að ráða einhvern til að vinna þetta verk á tiltölulega skömmum tíma

2. Vegna gesta sem leggja leið sína til að skoða Guðbjargargarð og annað sem Múlakot hefur nú að bjóða telur vinafélagið æskilegt að taka saman stuttan bækling, fjórblöðung með texta og myndum, til að miðla til þeirra sem sækja staðinn heim en þeim fjölgar ár frá ári. Þá mætti einnig nýta kynningarblaðið til að vekja athygli á staðnum með því að leggja blaðið fram með öðru kynningar- og fræðsluefni fyrir ferðamenn.

3. Til að standa betur að kynningu á ljósakvöldinu og einnig til að umbuna listamönnum eða fyrirlesurum sem koma þar fram.

Er skemmst frá því að segja að vinafélagið fékk 200.000 kr. styrk til þessara verkefna og er næsta skref að ýta vinnu við þau úr vör.

Ég er þeirrar skoðunar að kynningarstarf vegna endurreisnarinnar sem nú er unnið að í Múlakoti skipti mestu til að markmið verkefnisins náist. Segja má að það selji sig best sjálft og þess vegna eigi að gera það eins sýnilegt og kostur er.

Í fyrra gerðist það til dæmis skömmu eftir ljósakvöldið að vinahjón Sigríðar og Stefáns gáfu félaginu höfðinglega gjöf, hvorki meira né minna en 500.000. krónur. Fyrir hana skal nú formlega þakkað fyrir hönd félagsins.

Á fundi 16. febrúar 2019 fól stjórn formanni að hafa samband við Skógrækt ríkisins og vekja máls á nauðsyn þess að hugað yrði að umhirðu vegna trjásafns skógræktarinnar við Múlakot þar sem gagnkvæmir hagsmunir væru af góðri umhirðu þess og umsýslu vegna gesta í Múlakoti.

Þröstur Eysteinsson, skógræktarstjóri ríkisins, brást vel og hratt við þessari málaleitan og sagði brýnast að fjarlægja kofann „Hnotukot“, um 80 ára gamlan. Hann væri úr asbesti og því þyrfti að finna aðila með sérstakt leyfi til að rífa hann. Þess vegna yrði verkið líka dýrt. Yrði leitað tilboða í það. Stefna Skógræktarinnar væri að Múlakotsreiturinn yrði svæðinu og Skógræktinni til sóma.

Í sumar, laugardaginn 20. júlí, flytur Einar E. Sæmundsen landslagsarkitekt erindi hér að Kvoslæk sem hann nefnir Konan í garðinum en í fyrra sendi hann frá sér bókina Að búa til ofurlítinn skemmtigarð. Í erindinu víkur hann að Guðbjargargarði í Múlakoti og verður farið í skoðunarferð þangað.

Að lokum má geta þess að starfandi er Danmerkurdeild í vinafélaginu og sumardaginn fyrsta 2019 var formaður hennar, Vibeke Nörgård Nielsen, heiðruð í Jónshúsi í Kaupmannahöfn með verðlaunum Jóns Sigurðssonar í þakklætisskyni fyrir störf hennar við kynningu á Íslandi og íslenskri menningu í Danmörku. Vibeke flutti ávarp við stofnun Vinafélagsins á sínum tíma. Við færum henni þakkir og heillaóskir.

Ég ítreka þakkir mínar til stjórnar vinafélagsins og flyt félagsmönnum öllum þakkir fyrir hollustu þeirra við félagið og markmið þess.