10.5.2003

Nýtum tækifærið!  Betri framtíð!

Vettvangur í Morgunblaðinu, 10. 05. 03.

Gunnar Eyjólfsson leikari sagði á dögunum í sjónvarpssamtali við Gísla Martein Baldursson, að mestu skipti að nýta nú-ið. Við gætum hvort sem er ekki breytt fortíðinni og vissum því síður, hvað framtíðin bæri í skauti sér.

Í þessu felst afstaða hins ábyrga og lífsreynda manns, sem horfir á stöðu sína eins og hún er, þegar hann tekur ákvarðanir. Þótt við vitum ekki, hvað gerist á morgun, getum við búið í haginn fyrir morgundaginn með því, sem við gerum í dag. Við þann undirbúning er mikils virði að taka mið af því, sem áður hefur gerst. Ef við lærum ekki af sögunni, er líklegra en ella, að við þurfum að ganga í gegnum erfiða reynslu hins liðna.

Á kjördag er nauðsynlegt að leiða hugann að þessum algildu sannindum. Með atkvæði okkar í dag leggjum við grunn að framtíðinni og dæmum stjórnmálastörfin síðustu fjögur ár. Við ákveðum, hverjir fari með stjórn mála okkar. Höfum til leiðsagnar, hvernig staðið hefur verið að málum á liðnum árum og jafnvel áratugum.

***

Á liðnum vetri kom til snarpra umræðna milli ritstjóra Morgunblaðsins og Steingríms J. Sigfússonar, formanns vinstri/grænna, vegna þeirra ummæla hans á flokksstjórnarfundi 15. nóvember, að flokkurinn vildi gerbreytta stefnu í landsmálum, sem fælist í vinstri stefnu og myndun velferðarstjórnar og eðlilegir samherjar flokksins í baráttu fyrir gerbreyttri stjórnarstefnu væru hinir stjórnarandstöðuflokkarnir, Samfylkingin og Frjálslyndi flokkurinn.

Morgunblaðið sagði  vegna orða hans ástæðu til að staldra við og spyrja, hvort vinstri flokkarnir væru líklegri til að stuðla að öflugra velferðarkerfi en núverandi stjórnarflokkar. Taldi blaðið Steingrím J. Sigfússon handhafa hinnar flokkspólitísku, sósíalísku arfleifðar, en hún hefði frá upphafi til þessa dags komið lítið við sögu í uppbyggingu velferðarkerfisins á Íslandi. Handhafar þessarar arfleifðar á vettvangi stjórnmálanna gætu ekki stært sig af þeim áhrifum, sem verkalýðshreyfingin hefði haft í þágu velferðar. Þess vegna væru hugmyndir Steingríms J. Sigfússonar marklausar.

Í kosningabaráttunni hafa þessar hugmyndir um velferðarstjórn til vinstri verið á dagskrá, eftir að ljóst varð, að samkvæmt könnunum kynnu stjórnarandstöðuflokkarnir þrír, frjálslyndir, Samfylking og vinstri/grænir að fá nægilegan þingstyrk til að mynda slíka meirihlutastjórn.

Steingrímur J. Sigfússon og Guðjón Arnar Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, eru áhugasamir um stjórnina. Össur Skarphéðinsson tók hugmyndinni vel í sjónvarpsumræðum en Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur slegið úr og í.

Vegna ummæla Ingibjargar Sólrúnar í tilefni af spurningum um þátttöku Samfylkingarinnar í hugsanlegri vinstri stjórn hefur Morgunblaðið lent í svipuðum ritdeilum við hana um stjórnmálasöguna síðustu daga og við Steingrím J. í nóvember. Ingibjörg Sólrún leitast við að eigna vinstri stjórnum árangur, sem náðst hefur að frumkvæði forystumanna innan verkalýðshreyfingarinnar og meðal atvinnurekenda.

Hér er enn að sannast, að sósíalistar í framboði, hvort heldur undir merkjum vinstri/grænna eða Samfylkingarinnar, vilja frekar umskrifa stjórnmálasöguna en gera upp við söguleg mistök á heiðarlegum og málefnalegum forsendum. Flótti undan eigin sögu og stefnumiðum er hvorki gott veganesti fyrir talsmenn stjórnmálaflokka né þá, sem vilja veita þeim traust til framtíðarverka.

Guðrún Helgadóttir, rithöfundur og fyrrverandi alþingismaður Alþýðubandalagsins, segist heiðarlegri og lýsir þessum afstöðu skoðanasystkina sinna á þennan hátt í nýju viðtali við Birtu: „Eftir fall Sovétríkjanna þurftu menn hér uppi á Íslandi að þvo sér í framan og mála sig græna af ótta við að vera kennt um svívirðileg verk sem einhverjir gervisósíalistar frömdu í heimalöndum sínum. Syndir þeirra eru mér óviðkomandi með öllu og breyta engu um það að sósíalismi sé siðferðilega rétt og eðlilegt lífsviðhorf.“

***

Af hálfu andstæðinga Sjálfstæðisflokksins, ekki síst í Samfylkingunni, er sagt fullum fetum, að sjálfstæðismenn megi ekki sitja í ríkisstjórn að kosningum loknum. Á hinn bóginn hopar þetta sama samfylkingarfólk, þegar bent er á þann ríkisstjórnarkost, sem við blasir, fái Sjálfstæðisflokkurinn ekki nægilegt fylgi í kosningunum. Þá hefst gjarnan af-því-bara-tal um breytingu, breytingarinnar vegna.

Ef í breytingu felst tækifæri til að gera eitthvað betur, er til lítils að mæla gegn henni. Að minnsta kosti er almennt ekki auðvelt að gera það með sterkum og sannfærandi rökum. Ef aðeins er rætt um breytingar breytinganna vegna, kemur hinn holi hljómur fljótt fram.

Samfylkingin talar um nauðsyn breytinga, án þess að hún geti rökstutt, að breytingin sé til nokkurra bóta, þegar litið er til þjóðarhags. Þess vegna er gagnrýni á hinn innantóma málflutning svarað með hrópinu: hræðsluáróður, hræðsluáróður!

Rökin fyrir því, hvað gerist, ef Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki sterkur frá kosningunum, eru skýr, þegar litið er til sögunnar. Hvorki Steingrímur J. né Ingibjörg Sólrún breyta sögunni, þótt þau leitist við að umskrifa hana á þann hátt, að víst hafi vinstri stjórnir einhvern tíma náð einhverjum árangri.

***

Í ljósi þess, að andstæðingar Sjálfstæðisflokksins hafa um nokkurt árabil farið með stjórn Reykjavíkurborgar, er merkilegt til þess að líta, að í kosningabaráttunni hafa þeir ekki nefnt árangur við fjármálastjórn þar sem fyrirmynd í landstjórninni.

Í Morgunblaðsgrein laugardaginn 3. maí nefndi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, fyrrverandi borgarstjóri, stjórnir jafnaðarmanna í Svíþjóð og Bretlandi til sögunnar auk Bills Clintons, þegar hún vildi sanna, að vinstri menn gætu varðveitt efnahagslegan stöðugleika! Hún gleymdi að vísu Þýskalandi, eimreiðinni í efnahagskerfi Evrópusambandsins, sem höktir um þessar mundir undir stjórn jafnaðarmanna.

Þegar fólk er ráðið í vinnu, er spurt hvað það hafi áður gert og hvernig það hafi staðið sig í starfi – en Ingibjörg Sólrún bendir í staðinn á það, hvernig einhverjir aðrir menn í útlöndum hafi staðið sig. Skýringin er einföld: skuldir og skattar Reykjavíkurborgar hafa hækkað undanfarin ár á sama tíma og ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins hefur lækkað skuldir og lækkað skatta.

***

Sumardaginn fyrsta ritaði Atli Harðarson, heimspekingur og aðstoðarskólameistari á Akranesi, grein í Morgunblaðið, þar sem sagði meðal annars: „Þegar ríkisstjórn stendur sig vel virðist fólki að þjóðarskútan sé á lygnum sjó og það sé lítill vandi að stýra henni. Undanfarin ár hefur leiðin þó oft verið þröng milli brims og boða .... Í tólf ár hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið forystuflokkur í ríkisstjórn. Þessi ár eru framfaraskeið og framfarirnar má að miklu leyti þakka farsælli stjórn. Höldum áfram á réttri braut.“

Reynsla síðustu ára hefur sýnt og sannað, að Ísland er land tækifæranna. Hagsæld og framfarir hafa almennt orðið meiri hér á landi en í ríkjum Evrópusambandsins. Nýir stjórnarhættir hafa aukið rétt borgaranna inn á við og opnað þeim leiðir til að láta að sér kveða á alþjóðavettangi, hvort sem um er að ræða listir eða íþróttir, vísindi eða viðskipti. Nýjar atvinnugreinar hafa skotið rótum og þróast við hlið þeirra, sem fyrir voru. Menntarkefið hefur tekið stakkaskiptum og bylting orðið á sviði rannsókna og vísinda.

Atkvæðinu skulum við beita með hliðsjón af því, sem vel hefur verið gert, og án þess að stofna góðum árangri í hættu. Í dag getum við nýtt tækifærið og lagt grunn að enn betri framtíð. Brautin hefur verið mörkuð!