30.4.2003

Ársreikningur Reykjavíkurborgar 2002

Nú eru almennar reikningsskila- og framsetningarreglur í fyrsta sinn lagðar til grundvallar í reikningsskilum Reykjavíkurborgar. Þess vegna erum við borgarfulltrúar einnig að fara inn á nýjar brautir, þegar við ræðum ársreikninginn fyrir árið 2002. Við eigum ekki auðvelt með að bera saman tölur á milli ára og nota slíkan samanburð sem mælistiku á það, hvernig til hafi tekist við fjármálastjórn borgarinnar eða við meðferð á skattfé almennings.

Markmiðið með því að taka upp þessi nýju reikningsskil er að sjálfsögðu að auðvelda okkur og öllum öðrum að átta sig sem best á fjárhagsstöðunni. Er mikilvægt, að reikningsskilin stuðli að gegnsæi og stuðli að upplýstum umræðum um fjármál Reykjavíkurborgar, þar sem ekki er tekist á um skilgreiningar eða framsetningu heldur efni málsins sjálft.

Í umræðum um hinar hraðvaxandi skuldir Reykjavíkurborgar undanfarin ár hefur til dæmis verið deilt um, hvort miða eigi við skuldastöðu borgarsjóðs eins, það er A-hluta starfsemi Reykjavíkurborgar, svo að ég tali reikningsskilamál eða bæði A- og B-hluta, það er einnig fyrirtækja eða rekstrareininga, sem að hálfu eða meiri hluta eru í eigu borgarinnar og reknar eru sem fjárhagslega sjálfstæðar einingar.

Við sjálfstæðismenn höfum bent á, að skuldir A- og B-hluta, það er samstæðu Reykjavíkurborgar í heild, hafi vaxið um að minnsta kosti 1100% síðan 1993.  Hefur því verið mótmælt af talsmönnum R-listans, meðal annars hér í þessum ræðustól, að þannig sé litið á skuldaþróunina. Nærtækast sé að líta aðeins á A-hlutann, það er borgarsjóð og stofnanir sem sinna starfsemi sem að hluta eða öllu leyti eru fjármögnuð af skatttekjum.

Þegar borgarstjóri kynnti ársreikninginn á blaðamannafundi í gær lagði hann hins vegar áherslu á, að rekstrarafkoma A og B-hluta, það er samstæðunnar í heild væri jákvæð um 2,5 milljarði króna. Er skiljanlegt, að þessi leið sé valin til að bregða sem bestu ljósi á niðurstöðu rekstursins á síðasta ári, því að við skoðun á A-hlutanum einum, kemur í ljós, að ekki er ástæða til að hreykja sér af niðurstöðunni.

Þegar kynning á hinum nýju reikningsskilareglum er lesin ber hún hvergi með sér, að afkomu af B-hluta eigi að nota til að fjármagna A-hluta. Rökrétt hlýtur að vera að A-hluti standi undir sér, ekki síst þegar litið er til málsvarnar talsmanna R-listans fyrir borgarsjóð og sterka stöðu hans. Nú er reyndar dálítið fyndið, hve þeir forðast að tala um afkomu A-hluta í kynningunni á ársreikningnum. Ástæðan skýrist, þegar reikningurinn er skoðaður.

Mikill taprekstur

Rekstrartap A-hluta fyrir fjármagnsliði var um 4,0 milljarðar króna á síðasta ári. Rekstrartap A og B-hluta fyrir fjármagnsliði var um 3,3 milljarðar króna á árinu. Þetta eru þær tölur sem helst eru sambærilegar á milli ára. Í öllum rekstri vilja menn, að þessar tölur séu jákvæðar en ekki neikvæðar eins og er í ársreikningnum.  Séu þessar tölur neikvæðar stendur reksturinn sjálfur ekki undir sér og treysta þarf á að fjármagnsliðir séu hagstæðir.

Rekstrarniðurstaða A-hluta var neikvæð um 1,0 milljarð á árinu, en þá hafði verið tekið tillit til fjármagnsliða, en undir þá falla meðal annars óreglulegar tekjur vegna gengismunar, en að jafnaði er skynsamlegt, að gengismunur sé neikvæður, þ.e. skapi gjöld. Þetta segi ég vegna þess að krónan okkar hefur veikst, þegar til langs tíma er litið, sama hve langs tíma og því hefur gengismunur af erlendum lánum að jafnaði verið neikvæður.

Þróun gengis er ekki á valdi stjórnenda Reykjavíkurborgar og eru þeir þar háðir því eins og aðrir, að skynsamlega sé staðið að stjórn efnahagsmála þjóðarinnar. Hefði efnahagsstjórnin ekki verið á þann veg, sem var á árinu 2002, væri jákvæður gengismunur ekki til þess að gefa þá mynd af rekstrarniðurstöðu A og B-hluta, sem borgarstjóri tíundar sérstaklega, það er að hún er jákvæð um 2,5 milljarða króna.

Í þessu sambandi er rétt að benda á hagnað Orkuveitu Reykjavíkur, sem var 3 milljaðar króna, þar af um 2,5 milljarðar vegna jákvæðs gengismunar, hins vegar var aðeins 77 milljón króna rekstrarhagnaður af sölu rafmagns fyrir fjármagnsliði, 553 milljón króna hagnaður af sölu á heitu vatni og 168 milljón króna hagnaður af sölu á köldu vatni. Má þannig segja, að gengishagnaður Orkuveitunnar valdi því, að rekstrarniðurstaða samstæðu Reykjavíkurborgar er jákvæð!

Skuldir aukast hraðar en eignir

Skuldaklukkan gengur hraðar en eignaklukkan, sem nemur tapinu og ef leiðrétt er vegna fjármagnsliðanna, sem nefndir voru að framan, er munurinn enn meiri. Eigið fé A-hluta borgarsjóðs rýrnaði um nálægt 1,0 milljarð á árinu, en hefði rýrnað meira með leiðréttingum.

 Eigið fé A og B-hluta rýrnaði um u.þ.b. 300 milljónir, en hefði rýrnað meira með svipuðum leiðréttingum á fjármagnsliðum og áður voru nefndar. Væri æskilegt, borgarstjóri skýrði, hvað veldur þessari rýrnun, úr því að rekstrarafkoma A- og B-hluta var jákvæð eins og áður sagði.

Áætlanir standast ekki

Áætlun var um tæplega 900 milljóna rekstrarafgang af A-hluta borgarsjóðs fyrir fjármagnsliði. Niðurstaðan varð tap upp á um 4,0 milljarða króna. Þar munar 4,9 milljörðum. Mismunur kemur fram í mörgum liðum.

Áætlun var um u.þ.b. 1,6 milljarða afgang af A-hluta borgarsjóðs en niðurstaðan var tap upp á 1,0 milljarð. Þar munar 2,6 milljörðum. Munurinn væri enn meiri ef leiðrétt væri fyrir óreglulegum liðum, eins og gengismun.

Við lestur reikningsins og endurskoðunarskýrslunar er ekki auðvelt að átta sig á því, hvað veldur þessu mikla fráviki frá áætlunum. Kannski er skýringin í sumum tilvikum sú, að um sum útgjöld hafi hreinlega ekki verið gerð nein áætlun. Hér væri gott að fá frekari skýringar.

Í frétt borgarstjóra vegna ársreikningsins segir, að vegna nýrrar framsetningar reikningsins sé flókið að greina frávik frá fjárhagsáætlun í rekstri málaflokka borgarinnar eins og tíðkast hafi.  Hins vegar hafi frávikagreining  verið  leiðrétt í endurskoðunarskýrslu Borgarendurskoðunar og aðlöguð til samanburðar við fjárhagsáætlun og framsetningu fyrri ára.  Eftir aðlögun sé heildarrekstrarútkoma málaflokka 21.859,6 mkr. sem sé  0,1% undir fjárheimildum sem námu 21.876,4 mkr. Hefði ekki í þessari sömu málsgrein átt að geta þess, að með breytingum á fjárhagsáætlun oftar en einu sinni á árinu 2002 hefðu fjárheimildir verið lagaðar að útgjöldum? Hefði ekki átt að skýra fyrir lesendum, að „fjárheimildir“ eru ekki hið sama og áætlun?

Hér hafa verið nefnd þrjú meginatriði sem einkenna ársreikninginn:

  • Mikill taprekstur.
  • Hærri skuldir.
  • Frávik frá áætlunum.

Þessi atriði eru ekki ný, þegar við ræðum fjármálastjórn R-listans í Reykjavíkurborg. Ég hef áður vakið máls á því, hvort staðan í fjármálum Reykjavíkurborgar og sá vandi, sem þar er innbyggður hafi ekki ráðið miklu um þá ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur að hverfa úr stóli borgarstjóra. Hún hafi áttað sig á því, að ekki yrði lengra haldið á þeirri braut að hækka skatta á borgarbúa og auka á þeim skuldabaggana, en ekki treyst sér til að snúa við blaðinu  og þess vegna ákveðið að bjóða sig að nýju fram til þings. Þekkjum við öll þann póltíska slóða, sem sú ákvörðun hefur dregið á eftir sér. Kemur vonandi ekki að því, að óraunsæi hennar í opinberri fjármálastjórn eigi eftir að setja svip á landstjórnina.

Hvaða meginstraumar síðustu ára setja svip sinn á þann ársreikning, sem við erum að ræða hér?

Í fyrsta lagi hafa skattar ríkisins verið að lækka undanfarin ár en útsvarið hefur hækkað í Reykjavík. Fyrir launafólk skiptir máli, að skatthlutfall lækki, tekjuskattur einstaklinga hefur lækkað úr 33,15% árið 1994 í 25,75% árið 2003 eða um 7,40%. Útsvar í Reykjavík hefur hækkað úr 8,4% árið 1994 í 12,7% árið 2003. Hækkun um 4,3%, þar af 2,7% vegna flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga.

Síðast í gær deildi Ingibjörg Sólrún Gísladóttir harkalega um það við Halldór Ásgrímsson, formann Framsóknarflokksins, á fundi í Háskólanum í Reykjavík, hvort skattbyrðin hefði þyngst undanfarin ár. Fullyrti hún að svo væri og notaði þá aðferð að mæla skatttekjur miðað við landsframleiðslu. Ef mælikvarði landsframleiðslu er notaður hafa skatttekjur Reykjavíkurborgar hækkað gífurlega umfram skatttekjur ríkisins.  Undan þessari staðreynd geta stjórnendur Reykjavíkurborgar ekki vikið sér frekar en hinu, að skuldir borgarinnar hafa margfaldast á þessum sama tíma en ríkið hefur greitt niður skuldir sínar.

Skatttekjur Reykjavíkurborgar hafa hækkað um 50% á mælikvarða landsframleiðslu frá 1994 til 2002. Sé tekið tillit til flutnings grunnskólanna hafa skatttekjurnar engu að síður hækkað um 28% á mælikvarða landsframleiðslu.

Í öðru lagi vil ég vekja athygli á því atriði, sem ég ræddi í umræðunum um þriggja ára fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og lýtur að mannfjöldaþróuninni. Á árinu 2002 fjölgaði Reykvíkingum aðeins um 0,2% eða mun minna en íbúum annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, sem fjölgaði um 2,4%. Þessi þróun er áhyggjuefni undir þessari stjórn skuldasöfnunar, baggarnir lenda sífellt á færri herðum.

Árin 1982 til 1994 voru 56% af íbúafjölgun höfuðborgarsvæðisins í Reykjavík. Árin 1994 til 2002 voru aðeins 39% af íbúafjölguninni í Reykjavík. Þessar tölur segja meira en mörg orð.

Í þriðja lagi vil ég beina athygli að auknum kostnaði í stjórnkerfi borgarinnar eins og hann verður greindur við að skoða reikninga hennar. Í stuttu máli hefur kostnaðurinn við stjórn borgarinnar aukist um 54% á milli áranna 1994 og 2001 á föstu verðlagi.

Þessi þrjú atriði hækkun skatta og hækkun skulda; mannfjöldaþróunin og stóraukinn kostnaður við silkihúfurnar, svo að ég noti orð, sem ég veit, að gleður borgarstjóra, sýna, að meginstraumarnir eru ekki hagstæðir, síst af öllu þegar litið er til þeirrar afkomu í rekstrinum, sem ársreikningurinn fyrir árið 2002 sýnir.

Rekstrartap ársins var um 1 milljarður, um 2,5 milljörðum verri afkoma en gert var ráð fyrir í áætlun. Ef leiðrétt er vegna gengismunar, sem er óreglulegur, fæst neikvæð rekstrarniðurstaða upp á tæplega 2,3 milljarða, sem er um 3,8 milljörðum verri afkoma en gert var ráð fyrir í áætlun.

Ef svo er leiðrétt vegna „arðs af eignatekjum“ fæst neikvæð rekstrarniðurstaða upp á um 3,8 milljarða, sem er um 5,3 milljörðum verri afkoma en gert var ráð fyrir. Ég vil taka fram, að mér er ekki nákvæmlega ljóst, hvað í þessum lið „arður af eignatekjum“ er, en af tölum að ráða er þar vænatnlega um „arð af fyrirtækjum“ að ræða.

Ljóst er að þessi afkoma er óviðunandi, bæði í samhengi við áætlun, og skoðuð ein og sér, jafnvel þótt gert hefði verið ráð fyrir henni. 

Í árslok 2001 voru skuldir og skuldbindingar Reykjavíkurborgar 68,7 milljarðar króna en 81,7 milljarður í árslok 2002, skuldirnar hafa hækkað um 13 milljarði króna á milli ára.

Forseti!

Ég ætla ekki hér við þessa fyrri umræðu um ársreikning Reykjavíkurborgar að fara ofan í einstök atriði í reikningnum eða þeim gögnum, sem honum fylgja. Vil ég þó víkja að einum lið sérstaklega, sem nefndur er í endurskoðunarskýrslunni, þar sem rætt er um rekstur Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar og sagt, að hann hafi farið um 270 milljónum króna yfir ráðstöfunarramma, sem svarar til 12,5% fráviks. Er sú skýring meðal annars gefin, að í samræmi við leiðbeiningar um reikningsskil sé afsláttur vegna elli- og örorkulífeyrisþega á fasteignagjöldum nú færður sem félagsleg aðstoð, það er 124 milljónir króna. Á hinn bóginn er skýrt frá því, að liðirnir heimaþjónusta og liðveisla hafi farið mikið fram úr áætlun vegna aukinnar eftirspurnar.

Fyrir nokkrum mánuðum gagnrýndum við sjálfstæðismenn harðlega áform um að skerða þjónustu við eldri borgara og var fallið frá þeim eftir mikil mótmæli gamla fólksins. Er nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar við allar ákvarðanir um samdrátt í útgjöldum á þessum sviðum, því að það er frumskylda sveitarfélaganna að styðja við bakið á þeim, sem minna mega sín.

Undanfarið hefur verið látið mikið með rannsókn, sem einn af starfsmönnum Borgarfræðaseturs, Harpa Njáls, hefur gert á fátækt á Íslandi. Hún skoðar meðal annars, hvernig opinberum fjármunum er varið í þágu þeirra, sem minnst mega sín og  athugar í því sambandi, hvernig bætur hafa þróast hjá Tryggingarstofnun ríkisins annars vegar og Félagsþjónustu Reykjavíkur hins vegar.

Í bókinni á blaðsíðu 180 birtir Harpa töflu, sem sýnir greiðslur Tryggingastofnunar til lífeyrisþega að raunvirði, örorkulífeyri, tekjutryggingu og greiðslu frá Félagsþjónustu Reykjavíkur. Greiðslur ríkisins hækkuðu um 31% á árunum 1995 til 2000 en greiðsla Reykjavíkurborgar lækkaði um 32% á sama tímabili. Ástæða lækkunarinnar í Reykjavík voru breyttar starfsreglur Félagsþjónustunnar, sem tóku gildi árið 1995 ? ári eftir að R-listinn tók við stjórn borgarinnar.

Harpa Njáls dregur þá ályktun, að vaxandi ásókn til hjálparstofnana vegna fátæktar eftir 1995 hafi meðal annars aukist, vegna þess að með nýjum starfsreglum þrengdi Félagsþjónustan í Reykjavík verulega heimildarbætur, meðal annars skyndiaðstoð/neyðaraðstoð sem hafði verið veitt til fjölda ára. Vegna þessa jókst ásókn til Mæðrastyrksnefndar og Hjálparstofnunar kirkjunnar. Nú hefur R-listinn á hinn bóginn einnig ákveðið að þrengja að Mæðrastyrksnefnd með niðurskurði á rekstrarstyrki, eins og kunnugt er. Má með sanni segja, að reitt sé til höggs gegn þeim, sem helst hafi styrk til varnar.

Forseti!

Mig hefur oft undrað á hvern hátt málsvarar R-listans nálgast umræður um fjármál borgarinnar og hve ósýnt þeim er um að ræða málið á efnislegum forsendum. Hinar nýju reiknisskilareglur gera ekki aðeins kröfu um nýjar aðferðir við að leggja fjármál Reykjavíkurborgar fram. Þær ættu einnig að leiða til þess, að menn hætti að ræða fjármál borgarinnar á þann veg, að það sé eitthvert gleðiefni, að endar nái ekki saman og skuldir haldi áfram að vaxa, þótt álögur á borgaranna aukist.

Í grein í Morgunblaðinu í morgun ræðir Skúli Sveinsson, viðskiptafræðingur af fjármálasviði um fjármálastjórn Reykjavíkurborgar undir forystu Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og segir, að afstaðan gagnvart skuldaaukningu Reykjavíkurborgar á liðnum árum sé glöggt dæmi um skilningsileysi á efnahagsmálum. Þá segir orðrétt:

„Lengi vel vildi hún ekki viðurkenna að um skuldaaukningu væri að ræða en þegar hjá því varð ekki komist lengur þá tók við annar glymjandi sem er að verið sé að fjárfesta eins og um fyrirtæki sé að ræða og það komi til með að skila sér í tekjum í framtíðinni og hægt sé að selja draslið ef illa fer. Þetta er grundvallarhugsunarvilla því að með auknum fjárfestingum opinberra aðila þurfa að koma til enn meiri útgjöld til að reka þjónustuna og viðhalda til lengri tíma, sem er þveröfugt við fjárfestingar fyrirtækja byggðar á arðsemissjónarmiðum.“

Mér sýnist þetta sérkennilega viðhorf til fjármála Reykjavíkurborgar því miður enn setja svip sinn á viðhorf borgarstjóra, þótt nýr maður með reynslu úr viðskiptalífinu skipi nú embættið. Þegar hann ræddi um ársreikningin í útvarpsfréttum í gær talaði borgarstjóri að vísu ekki um að selja allar eignir borgarinnar, ef illa færi, heldur komst þannig að orði:  „Við erum 7 mánuði að vinna inn fyrir skuldunum, sem sagt skatttekjur í 7 mánuði vinna inn fyrir okkar skuldum. Þannig að við erum í mjög góðum málum, Reykjavíkurborg.“

Fyrir utan að slá því föstu, að þessi mælikvarði er í raun út í hött, þegar lagt er mat á fjárhagsstöðu sveitarfélaga, vil ég minna á, að heildarskatttekjur Reykjavíkurborgar á síðasta ári voru 26,7 milljarðar samkvæmt þeim reikningi, sem hér er til umræðu. Hvaða skatta og hvaða skuldir er borgarstjóri að ræða, þegar hann ræðir fjármál Reykjavíkurborgar á þennan hátt?

Ég er þeirrar skoðunar, að miklu skipti að ræða þennan reikning og fjármál Reykjavíkurborgar á efnislegum forsendum og gera sér grein fyrir, hvert stefnir.

Ég vil í lok máls míns þakka þeim sem hafa samið þennan reikning og lagt hann fyrir okkur ásamt endurskoðunarskýrslu til skýringar á honum. Það verk hefur verið vel unnið.