12.4.2003

Eftir fall Saddams

Vettvangur í Morgunblaðinu, 12. 04. 03.

 

 

ALLUR heimurinn fylgdist með því í beinni útsendingu á hnattrænu sjónvarpsstöðvunum, þegar Írakar klifruðu upp á Saddam-styttuna í Bagdad síðdegis á miðvikudag. Þeir settu reipi um háls hennar og tóku síðan að brjóta stallinn með sleggju til að auðvelda sér að fella hann. Þeir gáfust upp við barsmíðina en fengu aðstoð bandarískra landgönguliða, sem færðu bómu að haus styttunnar, settu keðju um háls hennar og felldu táknmynd einræðisherrans. Æstur mannfjöldinn stappaði sigri hrósandi á brotunum, og hausinn var dreginn um borgarstrætin til að staðfesta fall Saddams og fólkið fékk útrás fyrir áralangt innibyrgt hatur og gremju.

Fréttamaður BBC-heimssjónvarpsins sagði þetta minna sig á fall Berlínarmúrsins, uppreisnina í Prag, sem leiddi til falls kommúnistastjórnarinnar í Tékkóslóvakíu, og atburðina fyrir framan þinghúsið í Moskvu, þegar Boris Jeltsín klifraði upp á bryndrekann og var hafinn til valda en Kremlverjum kommúnista ýtt til hliðar. Allt eru þetta táknrænir atburðir um heimssöguleg þáttaskil í stjórnmálum samtímans.

Á 21. degi tókst herafla samstarfsþjóðanna undir forystu Bandaríkjamanna og Breta að brjóta andstöðu harðstjórnar Saddams Husseins á bak aftur og tryggja Írökum aðra framtíð en undir forystu einræðisherrans. „Leiknum er lokið," sagði dapurlega sviplaus, Mohammed al-Douri, sendiherra Íraks hjá Sameinuðu þjóðunum, að kvöldi miðvikudagsins 9. apríl. Í Bagdad gufaði hinn digurbarkalegi talsmaður Íraksstjórnar upp eins og aðrir stjórnendur Saddams.- Í tómarúminu hófust gripdeildir samhliða fögnuði fólksins yfir frelsun sinni.

Átökin við Saddam Hussein hafa náð tilgangi sínum á mun skemmri tíma en flestir ætluðu. Þegar á reyndi stóð harðstjórn hans hernaðarlega á brauðfótum. Allt frá fyrstu sprengjuárásinni var ljóst, að ætlunin væri að "afhöfða" stjórnkerfi Saddams en valda sem minnstu tjóni á fólki og almennum mannvirkjum. Markmið hernaðaraðgerðanna hefur verið tvíþætt: að svipta Saddam völdum yfir gjöreyðingarvopnum og búa í haginn fyrir lýðræðislega og mannúðlega stjórnarhætti í Írak. Leiðin að seinna markmiðinu felst ekki í því að sprengja allt og eyðileggja.

Hér verða ekki rifjaðar upp magnaðar hrakspár þeirra, sem snerust gegn því, að ályktunum Sameinuðu þjóðanna um afvopnun Saddams yrði fylgt eftir með valdi. Spárnar hafa ekki ræst og síst af öllu, að uppreisn gegn Vesturlöndum yrði gerð í Arabalöndunum eða milljónir manna legðu á flótta frá Írak. Þvert á móti hefur brotist út hneykslan meðal Araba yfir vanmætti Saddams og getuleysi hans við stjórn herafla síns, 430.000 hermönnum auk 600.000 varaliða, gegn mun fámennari herjum samstarfsríkjanna,.

Álíka mikil svartsýni einkenndi málflutning talsmanna friðkaupa við Saddam og andstæðinga þess, að gripið yrði til vopna haustið 2001 gegn talibönum í Afganistan. Þá var sagt, að vetrarkuldi og öflug andspyrna myndi spilla áformum Bandaríkjamanna og samstarfsþjóða þeirra. Nú var sagt, að ofurhiti eyðimerkurinnar og enn öflugri andspyrna en nokkurn óraði fyrir myndi kalla hinar mestu hörmungar yfir innrásarliðið í Írak og landsmenn þar. Við fall Saddams er staðan allt önnur.

Að þessu sinni er okkur Íslendingum eins og öllum öðrum, sem búa við frjálsa fjölmiðlun, miklu fleiri leiðir opnar til að afla okkur frétta af viðburðum heima fyrir og erlendis en nokkru sinni áður. Þegar Persaflóastríðið var háð fyrir 12 árum, gripu Stöð 2 og sjónvarp ríkisins til þess ráðs að endursenda viðstöðulaust það, sem hnattrænu stöðvarnar Sky og CNN birtu. Var reglum um íslenskun á sjónvarpsefni í innlendum stöðvum breytt til að auðvelda þessa fréttamiðlun.

Nú eru tugþúsundir Íslendinga áskrifendur að þessum erlendu stöðvum fyrir tilstuðlan Stöðvar 2 eða Breiðbandsins og við hlið Sky og CNN starfar nú BBC World sjónvarpsstöðin og sendir viðstöðulausar fréttir allan sólarhringinn. Þar að auki er að minnsta kosti á höfuðborgarsvæðinu unnt að hlusta á BBC World Service, hina margrómuðu útvarpsstöð, á FM 90.90.

Netið er nú í fyrsta sinn notað til að miðla upplýsingum við heimsatburði af þessum toga. Er ævintýri líkast að fylgjast með því, hve mikla áherslu BBC World Service leggur á Netþjónustu sína og að hlustendur noti hana, símtöl og SMS boð til að láta í sér heyra til að gera athugasemdir eða segja skoðun sína. Gagnvirku útvarpi af þessum toga höfum við ekki kynnst hér á landi.

Ósanngjarnt er að bera þessar öflugu, hnattrænu útvarpsstöðvar saman við íslenskar stöðvar. Þær hafa fréttaritara um allt og aðgang að öllum helstu sérfræðingum heims. Spurningin er miklu frekar, hvort hlustandanum finnst hlutlægt mat ráða eða skoðanamyndandi viðhorf fréttamanna eða skýrenda. Bæði hér og erlendis verður hlustandinn að vera vel á varðbergi, svo að hann blekkist ekki af villuljósi.

Þegar vika var liðin, frá því að fyrsta sprengjuárásin var gerð á Bagdad, hófst mikil gagnrýni á hernaðaráætlunina og hver át eftir öðrum, að hún væri út í bláinn. Var spjótunum ekki síst beint að Donald Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Látið var í veðri vaka, þegar barist hafði verið í viku, að Tony Blair, forsætisráðherra Breta, hefði ákveðið að fara til fundar við George W. Bush, forseta Bandaríkjanna, í Camp David til að þeir gætu leitað styrks hvor af öðrum vegna erfiðleika á vígvellinum.

Rumsfeld svaraði gagnrýni á áætlunina fullum hálsi og sagðist ekki hafa átt síðasta orðið um hana heldur Tommy Franks, yfirhershöfðingi herja samstarfsríkjanna, en hann er þekktur fyrir fjölmiðlafælni. Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, sagði eftir fall Saddams, að gangur stríðsins sýndi, að sófahershöfðingjar útvarpsstöðvanna hefðu ekki haft erindi sem erfiði í gagnrýni sinni. Áætlun Franks hershöfðingja hefði reynst betur en hugarburður þeirra.

Hernaðaráætlunin og framkvæmd hennar er allt annars eðlis en einkennt hefur hernað Bandaríkjamanna til þessa, vegna þess hvernig landher, flugher og stýriflaugum frá skipum á hafi úti er beitt. Átökin hafa enn staðfest, að engin þjóð kemst í hálfkvisti við Bandaríkjamenn, þegar litið er til tæknilegra yfirburða á öllum sviðum njósna, hernaðar og sóknarafls.

Jacques Chirac, forseti Frakklands, hefur verið leiðtogi þeirra, sem hallmæltu hernaðaraðgerðunum undir forystu Bush og Blairs. Að morgni fimmtudagsins 10. apríl sagði Chirac, að Frakkar væru eins og allar lýðræðisþjóðir ánægðir yfir því, að harðstjórn Saddams Husseins væri fallin og vonuðu, að á skjótan og markvissan hátt mætti binda enda á átökin. Nú bæri að gera Írökum kleift að öðlast virðingu sína á ný í endurheimtu frelsi.

Um helgina er Chirac í St. Pétursborg, þar sem þeir Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, og Vladimir Putin, forseti Rússlands, sitja reglulegan tvíhliða fund. Á dagskrá þriggja-ríkja fundarins ber hæst, hvernig eigi að endurreisa Írak. Hefur Putin einnig boðið Kofi Annan til St. Pétursborgar þessa daga.

Þjóðarleiðtogarnir þrír eru gjarnan kenndir við "gagnpólinn" til að árétta andstöðu þeirra við einpóla-áhrif Bandaríkjamanna á alþjóðavettvangi. Andstaðan mótaði öðrum þræði afstöðu þeirra í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og hvernig Frakkar og Þjóðverjar tóku á málum innan Atlantshafsbandalagsins (NATO) og Evrópusambandsins (ESB).

Eftir fall Saddams er ekki aðeins brýnt að vinna að endurreisn Íraks. Samskipti ríkja verða ekki skilgreind á sama hátt og áður, hvorki fyrir botni Miðjarðarhafs og Persaflóa né við Atlantshaf. Ríkjasamskipti í öryggismálum hafa tekið á sig nýja mynd. Hrundið hefur verið í framkvæmd hernaðarstefnu Bandaríkjanna, sem byggist á hernaðarlegri íhlutun til að tryggja öryggishagsmuni, án þess að þeim hafi verið ógnað með árás eða hótun um hana.

Að ræða þessi umskipti á alþjóðavettvangi á þeirri forsendu, að þau séu einskonar samsæri hauka í kringum George W. Bush er álíka fánýtt og að hlusta á sófahershöfðingjana gagnrýna hernaðaráætlanir, sem þeir hafa ekki séð og þekkja ekki.