23.10.1998

Háskólinn á Akureyri - skóflustunga

Háskólinn á Akureyri
23. október 1998

Háskólinn á Akureyri - skóflustunga

Háskólar eru stofnanir, sem mega ekki staðna og þurfa að vera í sífelldri þróun. Innan háskóla leita menn svara við áleitnum spurningum en skólarnir verða einnig að vera ögrandi út á við. Festist þeir í eigin fari leiðir stöðnunin fljótt til hnignunar. Stjórnendur skólanna þurfa að hafa augun opin fyrir nýjum tækifærum án þess að missa sjónar á skyldunni um metnaðarfull vinnubrögð og sannleiksleit.

Á undanförnum tíu árum hefur orðið meiri breyting á háskólanámi hér á landi en nokkru sinni síðan Háskóli Íslands var stofnaður árið 1911.

Háskólinn á Akureyri hefur átt mikilvægan þátt í þessum breytingum. Má kveða svo fast að orði, að með tilvist sinni hafi skólinn skapað nýja vídd. Síðast í gær var um það rætt á Alþingi, að Háskólinn á Akureyri væri eitthvert mikilvægasta framlag síðari ára til að hefta enn meiri byggðaröskun í landinu.

Stundum er því haldið fram, að Háskólinn á Akureyri njóti sín ekki sem skyldi við hlið stóra bróður fyrir sunnan. Í fámennu landi, þar sem enginn háskóli hefur í sjálfu sér náð þeirri stærð, sem talið er lágmark fyrir fullgilda háskóla í öðrum löndum, er samstarf milli háskóla bæði nauðsynlegt og æskilegt. Samkeppni á hins vegar einnig rétt á sér við rekstur háskóla eins og á öðrum sviðum. Hin nýja upplýsingatækni gerir raunar heiminn allan að einu markaðssvæði í menntamálum, ekki síst á háskólastigi.

Innanlands keppir Háskólinn á Akureyri ekki aðeins við Háskóla Íslands. Skólinn á aðra keppinauta, Kennaraháskóla Íslands, sem hefur gengið í endurnýjun lífdaga, og þrjá einkaskóla, Samvinnuháskólann á Bifröst, Viðskiptaháskólann í Reykjavík og Listaháskóla Íslands, sem er að koma til sögunnar. Einnig er á döfinni að breyta Tækniskóla Íslands í tækniháskóla.

Stjórnendur Háskólans á Akureyri hafa sýnt áræði og dugnað við að feta inn á nýjar brautir við breyttar aðstæður á háskólastiginu. Á þessum vetri mun Alþingi væntanlega samþykkja ný lög um skólann, sem taka mið af nýrri rammalöggjöf um háskólastigið. Nýju lögin auka sjálfstæði skólans og skapa honum og stjórnendum hans ný sóknarfæri.

Eins og áður sagði er hin nýja upplýsingatækni að valda byltingu í menntamálum. Háskólinn á Akureyri hefur knúið á um fjarnám á háskólastigi. Forystumenn skólans hafa lagt áherslu á gildi fjarnáms til að treysta forsendur búsetu um landið allt. Hvarvetna sýna menn mikinn áhuga á því að efna til samstarfs háskóla, framhaldsskóla og atvinnulífs. Er spennandi að fylgjast með því hvernig þetta samstarf þróast.

Á vegum menntamálaráðuneytisins er nú unnið að því að framkvæma sífellt fleiri þætti í stefnu þess varðandi hina nýju tækni. Vil ég nota þetta tækifæri hér og þakka rektor Háskólans á Akureyri og samstarfsmönnum hans fyrir áhuga þeirra á þessum málum.

Þegar tekin er skóflustunga að nýjum byggingaráfanga fyrir Háskólann á Akureyri, er það gert á grundvelli ákvarðana, sem hafa verið vel undirbúnar. Er vissulega tímabært, að háskólinn eignist húsnæði, sem er sérstaklega hannað og sniðið að þörfum hans.

Fjármálaráðuneytið vakti máls á því vorið 1994, hvort ekki kynni að vera skynsamlegt, að Háskólinn á Akureyri nýtti sér húseignir hér að Sólborg. Gekk það eftir og fékk skólinn Sólborgarhúsið og lóðina 1. apríl 1995.

Í júlí 1995 skipaði ég starfshóp til að fjalla um framkvæmdir háskólans hér á þessum stað. Hann efndi síðar um árið til opinnar samkeppni um hönnun nýbygginga og aðlögun eldra húsnæðis hér á staðnum að starfsemi háskólans ásamt heildarskipulagi háskólasvæðisins. Voru niðurstöður í samkeppninni og skýrsla hópsins kynntar í sumarbyrjun 1996 og hefur síðan verið unnið að framkvæmdum hér í samræmi við tillögur vinningshafanna frá Glámu og Kím arkitektum í samvinnu við Ólaf Tryggva Mathiesen arkitekt.

Þegar er lokið við fyrsta áfanga af fjórum, það er að flytja bókasafn háskólans hingað. Er það samdóma álit allra, að bókasafnið rúmist ákaflega vel í þessum húsakynnum.

Er nú komið að öðrum áfanga og fyrstu nýbyggingunni á svæðinu. Í byrjun þessa árs heimilaði ég hönnun á henni. Verður ráðist í að reisa kennsluhús í þessum áfanga auk vinnuaðstöðu fyrir kennara og skrifstofur. Er nokkurt fé ætlað til þess verks í fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár. Þegar línur hafa skýrst, er æskilegt, að samið verði um framkvæmdahraða og fjárveitingar í samræmi við hann.

Vegna hinnar öru útþenslu á háskólastiginu fól ég sérstakri nefnd að fjalla um byggingarþörf á því skólastigi öllu og skilaði hún áliti í maí 1997. Þar er tekið undir tillögurnar um það, hvernig staðið skuli að framkvæmdum hér að Sólborg. Er lagt til, að í fjórða og síðasta áfanga framkvæmdanna verði ráðist í smíði rannsóknahúss.

Akureyrarbær bauðst á sínum tíma til að fjármagna rannsóknahúsið. Hefur málið verið rætt milli fulltrúa ráðuneytisins og bæjaryfirvalda. Afstaða mín er sú, að menntamálaráðuneytið eigi ekki að taka á sig allar skuldbindingar fyrir hönd ríkisins vegna rannsóknahúss. Skilgreina verði þörf háskólans á rými í húsinu og síðan greiði skólinn fyrir þá aðstöðu. Rannsóknastofnanir og aðrir verða að standa undir sínum hluta af kostnaði við byggingu hússins.

Af hálfu menntamálaráðuneytisins ber að leggja höfuðáherslu á að ljúka öðrum og þriðja áfanga framkvæmdanna hér að Sólborg. Við erum að stíga fyrsta skrefið á þeirri leið hér í dag.

Háskólinn á Akureyri leggur áherslu á að nýta tölvur og ljósleiðara til að ná til nemenda um land allt og utan landsteina. Skólinn hefur engu að síður mikla þörf fyrir nýtt kennsluhúsnæði.

Háskólinn á Akureyri er ekki fastur í neinu fari. Hann er leitandi og fús að taka að sér ný verkefni. Skólanum ber að skapa góða aðstöðu til að gegna mikilvægu hlutverki sínu. Þá aðstöðu fær hann hér að Sólborg. Ég skora á alla velunnara skólans að taka höndum saman, svo að sem fyrst rísi myndarlegt háskólasetur hér í hjarta Akureyrar.