26.12.2016

Stjórnmálaleg staða Trumps og repúblíkana er ótrúlega sterk

Kjarninn 26. desember 2016

Furðulegt var að hlusta á umræður í sunnudagsþáttum bandarísku sjónvarpsstöðvanna 18. desember, daginn áður en kjörmennirnir 538 komu saman til að greiða atkvæði um hver yrði næsti forseti Bandaríkjanna. Látið var að því liggja að hugsanlega fengi Donald J. Trump ekki nægan stuðning, 270 eða fleiri atkvæði. Hvort þeir sem drógu það í efa trúðu eigin orðum eða voru aðeins í hlutverki spunaliða er óvíst.

Eftir talningu atkvæða á kjördag 8. nóvember hafði  Donald J. Trump 306 kjörmenn á hendi og Hillary Clinton 232 – lokatölur eftir kjörmannafundi 19. desember voru 304 atkvæði fyrir Trump en 227 fyrir Hillary, tveir kjörmenn yfirgáfu Trump og fimm Hillary.

Í aðdraganda kjörmannafundanna hafði verið hert á áróðrinum um að efasemdir sæktu að einhverjum um réttmæti þess að kjósa Trump, hann hefði sigrað með stuðningi erlendra aðila, Rússa. Fyrir utan þinghúsið í Flórída stóð maður með skilti sem á stóð Trump is too Rusky og var það myndskreytt með hamri og sigð. Í þinghúsinu í Wisconsin var hrópað að kjörmönnunum þegar þeir komu saman til formlegs fundar: „Við verðum allir sendir í opinn dauðan í stríði, þökk sé þér!“

Ofangreindar frásagnir birtust þriðjudaginn 20. desember í The New York Times (NYT) og þar var einnig sagt frá því að kjörmaður að nafni William Jefferson Clinton hefði sótt kjörmannafundinn til að kjósa konu sína, Hillary, og komið út af honum með þau orð á vörunum að Donald J. Trump hefði aðeins sigrað vegna ytri afskipta af kosningunum:

„Við höfðum Rússana og FBI, hún gat ekki sigrað þá, en hún gerði allt annað og vann að lokum með 2,8 milljónum atkvæða,“ sagði Clinton ákveðinn í að láta brosið leyna reiði sinni.

Að morgni miðvikudags 21. desember sagði Trump á Twitter:

„Að berjast til þess að vinna meirihluta kjörmanna er miklu erfiðara & flóknara en að hljóta meirihluta kjósenda. Hillary beindi athyglinni að röngum ríkjum!“

Trump sagði einnig:

„Ég hef ekki heyrt neina álitsgjafa eða skýrendur ræða þá staðreynd að ég eyddi MIKLU MINNA FÉ til að sigra en Hillary til að tapa.“

Þarna segir Trump að Hillary hafi beint athygli að „röngum ríkjum“. Í því sambandi er forvitnilegt að sjálfur fór Trump aldrei í kosningaferð til fjölmennasta ríkisins Kaliforníu og repúblíkanar buðu ekki einu sinni fram í kosningunni um tvo öldungdeildarþingmenn fyrir Kaliforníu, þaðan koma tveir demókratar til Washington.

Newt Gingrich, fyrrverandi fulltrúardeildarþingmaður repúblíkana, lýsti þessu þannig í sjónvarpsviðtali 21. desember: „Við töpuðum því í fjölmennasta ríkinu. Skipti engu máli. Þú nærð í forsetaembættið á þennan hátt. Trump verður nú forseti. Hún verður ekki forseti. Þetta heitir að vinna leikinn.“

Eins og ummæli Bills Clintons hér að ofan bera með sér trúa demókratar þeirri kenningu Hillary og hennar manna að tölvuhernaður Rússa gegn Hillary og íhlutun forstjóra FBI 11 dögum fyrir kjördag, sem blés að nýju lífi í meðferð Hillary á tölvugögnum á meðan hún var utanríkisráðherra, hafi kostað hana sigurinn í kosningabaráttunni.

Með kenningu demókrata er dregin athygli frá því að Hillary Clinton reyndist einfaldlega ekki nógu öflugur frambjóðandi þegar á hólminn var komið. Þá er einnig ljóst að almennt njóta demókratar lítilla vinsælda í lok átta ára stjórnartíðar Baracks Obama. Hann hefur reynst mistækur forseti.

Vorið 2016 var ég í hópi þeirra sem töldu Trump gjörsamlega óhæfan frambjóðanda vegna framkomu hans og orðbragðs. Taldi ég einsýnt að yrði hann frambjóðandi repúblíkana og Hillary Clinton frambjóðandi demókrata mundi hún gjörsigra. Í stuttu máli hafði ég skömm á Trump.

Kosningarnar fóru á annan veg eins og nú er ljóst þegar Trump siglir hraðbyri í Hvíta húsið. Í ljós kom að Hillary var einfaldlega með of þunga fortíðarbagga á bakinu, bagga tengda valdamiðstöðinni í Washington, störfum hennar sem utanríkisráðherra og fjármálaumsvifum eiginmanns hennar eftir að hann hætti sem forseti.

Almennir Bandaríkjamenn líta þá sem halda um taumana í Washington svipuðum augum og Evrópumenn líta á Brusselmenn, teknókrata Evrópusambandsins sem hafa þræði 27 þjóða í höndum sér og ætla að gera Bretum eins erfitt og þeir geta að segja skilið við sambandið.

Munurinn er þó sá að í Bandaríkjunum geta menn kosið um hver á úrslitavaldið í Washington og skipt um menn á toppnum með atkvæði sínu sem ekki er unnt þegar Brusselmenn eiga í hlut. Þeir sitja af sér kosningar og setja jafnvel sína menn í embætti forsætisráðherra einstakra ríkja í vanda eins og gerðist fyrir fáeinum árum á Ítalíu. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru eitur í þeirra beinum.

Donald Trump ákvað að stilla sér upp gegn Washington-elítunni í kosningabaráttunni og í því efni gat hann ekki valið sér betri andstæðing en Hillary Clinton. Hann hafði betur við val á kjörmönnum þótt hún hefði fengið fleiri atkvæði, hann sigraði einfaldlega í fleiri ríkjum en hún.

Hér á landi býsnast menn oft yfir misjöfnu vægi atkvæða. Í Bandaríkjunum birtist þetta misvægi meðal annars í kjörmannakerfinu og í öldungadeild Bandaríkjaþings. Til að halda ríkinu saman og jafna aðstöðumun vega atkvæðin misþungt. Stórsigur Hillary Clinton í Kaliforníu gerði gæfumuninn fyrir hana þegar litið er til heildarfjölda atkvæða.

Sé litið yfir kort af Bandaríkjunum sem litað er með rauðum lit repúblíkana og bláum lit demókrata nær rauði liturinn yfir allt landið, á einstaka stað eru bláir blettir og með vesturströndinni, það er í Kaliforníu, og norðausturströndinni, New York, eru mjóar bláar rendur á þéttbýlustu svæðum landsins.

Hillary Clinton sigraði í Kaliforníu með 4,2 milljón atkvæðum og í New York með 1,6 milljón atkvæðum. Fyrir utan þessi vinstrisinnuðu ríki var meirhluti Trumps 3 milljónir atkvæða.

Hvort sem það var vegna eðlisávísunar Trumps eða vegna ráða frábærra kosningastjóra náði hann að virkja almenna borgara til meiri stuðnings við sig en Hillary tókst. Hann hélt einnig þannig á málum að fjölmiðlar fylgdu honum hvert fótmál til að finna misfellur í ræðum hans sem slá mætti upp í þeim tilgangi að gera veg hans sem minnstan eða furðulegastan. Þessi uppsláttur allur reyndist honum að lokum til framdráttar.  Hann kom jafnan standandi til jarðar  úr fjölmiðlaátökum. Þætti honum ekki næg athygli beinast að sér, greip hann til þess ráðs að nota Twitter til að tryggja sér sviðsljósið að nýju.

Eftir að Trump sigraði sneri hann við blaðinu og friðmæltist við þá sem hann hafði áður sagt að fara norður og niður, jafnt fólk innan eigin flokks og meðal demókrata. Þeir sem hér á landi reisa pólitíska sérstöðu sína á dauðahaldi í það sem þeir telja svikin kosningaloforð andstæðinga sinna hljóta að líta með hryllingi til bandarískra stjórnmála – þar eru svikin kosningaloforð svo mörg að ekki er unnt að hafa tölu á þeim. Þar virðist látið gott heita að eitt sé að berjast til sigurs í kosningum og annað að standa við allt sem sagt var í hita leiksins.

Fyrirheit Trumps sem hann hefur enn í hávegum er að tryggt sé að Bandaríkin séu fremst í röðinni í mikilleik sínum. Höfðað er til þjóðerniskenndarinnar á sama tíma og aðrar þjóðir eru látnar hafa hitann í haldinu. Með vali á mönnum í ríkisstjórn sína ögrar Trump viðteknum skoðunum. Enginn veit þó enn hvernig tekið verður á málum þegar hann sest loks að völdum 20. janúar 2017.

Demókratar hóta Trump og hans mönnum að þeim verði ekki hlíft í 100 daga eða svo eftir 20. janúar eins og venja er heldur verði hjólað í þá strax á fyrsta degi enda sé forsetinn kosinn á ólögmætum forsendum og hann sé auk þess stórhættulegur. Að Trump neitar að taka mark á þeim sem segja að Rússar hafi blandað sér í kosningabaráttuna honum í vil og val hans á mönnum í ráðherraembætti hefur enn hert demókrata í andstöðu sinni við hann.

Fram á sumar 2016 ræddu menn hvernig repúblíkanar ætluðu að bjarga eigin flokki eftir að Trump hefði rústað honum. Að loknum kosningum sitja demókratar eftir með sárt enni, flokk í rúst, minnihluta í báðum deildum Bandaríkjaþings og aðeins 18 af 50 ríkisstjórum. Brátt verður meirihluti Hæstaréttar Bandaríkjanna skipaður dómurum að skapi repúblíkana. Þeir eru nú taldir hafa mesta pólitíska vald í Bandaríkjunum á sinni hendi síðan árið 1928 þegar Herbert Hoover var kjörinn forseti.

Repúblíkanar hafa ekki ráðið meiru í einstökum ríkisþingum og þeir gera núna síðan í borgarastríðinu 1865. Repúblíkanar hafa meirihluta í 68 deildum í þingum einstakra ríkja en demókratar aðeins í 31. Repúblíkanar eiga meirihluta í báðum deildum 32 ríkisþinga sem ná til 61% af íbúum Bandaríkjanna. Demókratar hafa hins vegar aðeins meirihluta í báðum deildum 13 ríkja sem ná til 28% íbúa landsins.

Skýringar demókrata á tapi Hillary Clinton hljóta ekki mikinn hljómgrunn. Könnun sýnir að aðeins 29% Bandaríkjamanna (ekki nema 14% repúblíkana) segja að Rússar hafi örugglega staðið að baki tölvuárásum til að auðvelda Donald Trump að ná kjöri sem forseti. Alls segja 46% að ómögulegt sé að vita hver hafi staðið að þessu.

Lokadagar undirbúnings valdatöku Donalds Trumps eru að hefjast. Árangur hans í stjórnmálabaráttunni á þessu ári hefur verið með ólíkindum. Á nýju ári reynir á hann í ábyrgðarmiklu forsetaembættinu og sem æðsta yfirmann öflugasta herafla heims. Miðað við hve ósennilegt ég taldi að hann yrði forseti Bandaríkjanna læt ég hjá líða að spá um framtíðina undir hans forsetastjórn. Stjórnmálaleg staða hans og repúblíkana er ótrúlega sterk. Fyrir alla heimsbyggðina skiptir miklu að þeir rísi undir ábyrgðinni.

 

 

.