15.4.2016

Nýr gæslumaður orðspors Íslands

Morgunblaðsgrein 13. apríl 2016

Meðal margs óvænts sem gerðist á innlendum stjórnmálavettvangi í vikunni 3. til 9. apríl var skipun Lilju Daggar Alfreðsdóttur í embætti utanríkisráðherra í stað Gunnars Braga Sveinssonar. Þótt deilt hafi verið hart á Gunnar Braga vegna afturköllunar ESB-aðildarumsóknarinnar um þetta leyti árs bæði 2014 og 2015 er hún ekki lengur til umræðu. Ágreiningur um utanríkisráðherra á þingi kallaði ekki á þessi mannaskipti. 

Það sannaðist til dæmis fimmtudaginn 17. mars þegar þingmenn ræddu árlega skýrslu utanríkisráðherra. Þar er staða utanríkismála greind og kynnt hvað fyrir ráðherranum vakir. 

Valgerður Bjarnadóttir, talsmaður Samfylkingarinnar í umræðunum, bar í upphafi ræðu sinnar lof á ráðherrann og starfsmenn hans fyrir skýrsluna  og framsetningu hennar. Þá hrósaði hún ráðherranum sérstaklega fyrir að standa af sér þrýsting um að rofin yrði samstaða með samstarfs- og vinaþjóðum um viðskiptabann á Rússa og vegna viðskiptabannsins sem Rússar settu á Íslendinga. Var tónn talsmanns Samfylkingarinnar svo lofsamlegur að næsti ræðumaður, Ögmundur Jónasson vinstri grænum, sagði í upphafi máls síns: „ Mín tilfinning er sú að það sé búið að fylla hróskvótann gagnvart hæstv. utanríkisráðherra og mun ég stilla lofsyrðum í hans garð í hóf. Hins vegar ber að lofa þessa ítarlegu skýrslu sem er vandað plagg.“ 

Með hróskvótann fullan má segja að rétti tíminn hafi verið nú fyrir Gunnar Braga að hætta sem utanríkisráðherra. Hafi hann ráðið vistaskiptunum vill hann vafalaust treysta stöðu sína á heimavelli og í eigin kjördæmi fram að kosningum sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Reynsla í alþjóðasamskiptum

Gunnar Bragi sagði eitt sinn að hann hefði ekki vitað mikið um utanríkismál þegar hann tók við embætti utanríkisráðherra. Hann teldi það ekki verra – hann hefði lært í starfinu. Raunar þótti sumum skorta á sjálfstæði hans gagnvart embættismönnum við töku ákvarðana. Arftaki hans í embætti býr hvað sem öðru líður yfir reynslu í alþjóðasamskiptum.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir (f. 1973) hlaut meistaragráðu í alþjóðahagfræði frá Columbia-háskólanum í New York að loknu námi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Meginhluti starfsferils Lilju frá 2001 hefur verið á sviði alþjóðasamskipta í Seðlabanka Íslands, hún var þó 2010 til 2013 ráðgjafi hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington og verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu 2014 til 2015. 

Alþjóðasamskipti seðlabanka eru mikil, að mestu stunduð í kyrrþey. Starfsmenn seðlabanka ræða við matsfyrirtækin áhrifamiklu. Lánshæfi ríkja og lánskjör ráðast af mati þeirra. 

Reynsla Lilju Daggar á þessu sviði setti eðlilega svip á ræðu hennar þegar ríkisstjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar kynnti stefnu sína á alþingi föstudaginn 8. apríl. Lilja sagði „mjög mikilvægt“ að standa vörð um orðspor Íslands og síðan:

„Sá stormur sem geisað hefur hér síðustu daga hefur vissulega beint sjónum að orðspori Íslands. Í ráðuneyti mínu er verið að greina áhrif þeirrar erlendu umfjöllunar sem hefur verið og sú vinna er ætíð í gangi. Brýnt er að meta skaðsemi umræðunnar og bregðast við á viðeigandi hátt. Í raun má segja að með sama hætti og Ísland var fyrsta fórnarlamb hinnar alþjóðlegu fjármálakreppu sem reið yfir á árunum 2008 og 2009 höfum við verið fyrst í skotlínunni núna. Mikilvægt er að koma öllum upplýsingum á framfæri af yfirvegun og festu. Ráðuneyti mitt mun leggja allt sitt af mörkum til þeirra mála og við munum ekki slá slöku við í þeim efnum.“

Það eitt hve skipulega og markvisst Sigurður Ingi og Bjarni Benediktsson stóðu að málum eftir afsögn Sigmundar Davíðs auðveldaði starfið sem utanríkisráðherra boðaði í orðum sínum – hjá þeim réð yfirvegun og festa. Að utanríkisráðherra njóti trausts og kunni að ræða við menn í alþjóðlega fjármálaheiminum styrkti stöðuna enn frekar. Stormurinn gekk hratt yfir.

Afturkölluð umsókn

Sé einhver einn íslenskur stjórnmálamaður upphaf og endir aðildarumsóknar Íslands að Evrópusambandinu heitir hann Össur Skarphéðinsson – hann var utanríkisráðherra þegar umsóknin var lögð fram, umsóknarferlið átti að taka að hámarki 18 mánuði. Eftir um 36 mánuði viðurkenndi Össur í verki að ferlinu væri lokið. Þegar hann frétti að Lilja Dögg Alfreðsdóttir yrði utanríkisráðherra setti hann fagnandi á FB-síðu sína: „Evrópusinnum bætist liðsauki.“

Þetta reyndist innihaldslaus yfirlýsing eins og svo margt annað sem ESB-aðildarsinnar hafa sagt undanfarin ár. Fréttamaður ríkisútvarpsins spurði Lilju: Þú hefur starfað fyrir Evrópusinna ekki satt? Utanríkisráðherra svaraði: „Jú það er rétt. En það var á sínum tíma. Og það sem ég var að gera þá var að skoða kosti og galla aðildarumsóknar. Þetta var í kringum 2005. Það hefur ýmislegt breyst, bæði í Evrópu og á Íslandi. Þannig að ég styð það fyllilega að aðildarumsóknin var dregin tilbaka.“

Það er rétt hjá utanríkisráðherra að ESB hefur tekið stakkaskiptum frá árinu 2005. Þá felldu Frakkar og Hollendingar tillöguna um stjórnarskrá ESB og hafist var handa við að leggja hjáleiðina sem endaði með Lissabon-sáttmálanum.

Enginn efi er hjá ráðherranum um að ESB-umsóknin hafi verið dregin til baka. Hún ætti að árétta það enn frekar gagnvart ESB.

Öryggismálin brýnust


Sé litið til breytinga og umróts á sviði utanríkismála í okkar heimshluta ber öryggismálin hæst. Nýi utanríkisráðherrann vék að þeim í stuttri þingræðu sinni og sagði:

„Evrópskt öryggisumhverfi stendur á ákveðnum tímamótum. Alvarlegar áskoranir eru í okkar nánasta umhverfi. Hryðjuverkaógnin hefur undanfarin missiri verið viðvarandi hjá grannþjóðum okkar og afar mikilvægt er að Ísland haldi áfram að leggja sitt að mörkum til að efla öryggi og varnir landsins. Fyrir Alþingi liggur afgreiðsla þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Hér er um að ræða tímamótastefnu og ég tel afar mikilvægt að um hana náist sátt og unnt verði að afgreiða eins fljótt og auðið er.“

Þriðjudaginn 12. apríl samþykkti alþingi með 42 samhljóða atkvæðum þjóðaröryggisstefnu í fyrsta sinn. Hún á uppruna sinn í tillögu nefndar allra flokka sem skipuð var á síðasta kjörtímabili. Í samþykktinni felst söguleg samstaða um að aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkjamenn séu grunnstoðir öryggis þjóðarinnar. Áhættumatið að baki stefnunni er að vísu úrelt og því brýnt að á vegum ráðuneyta öryggismála, innanríkis- og utanríkisráðuneytanna, verði unnið að nýju mati. Þar er ekki síður nauðsynlegt að gæta orðsporsins en á sviði fjármála.