22.9.1998

Menntaskólinn í Kópavogi 25 ára

Menntaskólinn í Kópavogi
22. september 1998

Menntaskólinn í Kópavogi 25 ára

Ég færi Menntaskólanum í Kópavogi innilegar hamingjuóskir á þessum tímamótum.

Í aldarfjórðung hefur mikið og gott starf verið unnið innan veggja skólans. Hann hefur þróast og dafnað vel í tímans rás. Breytingarnar hafa þó orðið mestar og örastar á þessum áratug. Nægir að nefna tölur því til staðfestingar. Fjöldi nemenda var um 400 árið 1990 en nú stunda um 1000 manns nám í skólanum. Húsakostur hefur einnig tekið stakkaskiptum. Rými skólans hefur vaxið úr 3500 fermetrum í 9.350 fermetra. Skal þá ekki tíundað, hve miklu af góðum tækjum hefur verið komið fyrir í skólanum.

Tölurnar segja þó síður en svo allt, því að innra starf skólans hefur einnig tekið miklum breytingum. Þar hefur mikill metnaður setið í fyrirrúmi.

Um leið og við fögnum afmælinu höfum við ástæðu til að gleðjast yfir því, að framkvæmdum er lokið við verknámshús skólans. Kjötiðnaðardeild verður nú formlega opnuð.

Hefur það markmið náðst, að kennsla í öllum matvælagreinum fer nú fram hér í skólanum. Sérstakt fagnaðarefni er, hve gott samstarf hefur tekist við þá, sem starfa í öllum þessum greinum. Skólinn nær ekki markmiði sínu nema þetta samstarf sé náið og gott. Í fáum atvinnugreinum eru kröfur og samkeppni meiri. Endurspegli kennsla og nám ekki þessar kröfur, fá nemendurnir ekki þá menntun, sem þeir æskja.

Vil ég á þessari hátíðarstundu færa Margréti Friðriksdóttur skólameistara sérstakar heillaóskir og þakkir fyrir, hve góða og trausta forystu hún hefur veitt skólanum á þessum miklu þróunar- og framkvæmdatímum. Hún hefur ásamt samstarfsfólki sínu á ótrúlega skömmum tíma lagað gróinn bóknámsskóla að því að verða í senn bóknáms- og verknámsskóli. Get ég fullyrt, að það er flókið viðfangsefni, þar sem glíma þarf við fleiri mannleg, fagleg og fjárhagsleg úrlausnarefni en nokkurn getur órað fyrir.

Jafnframt vil ég við þetta tækifæri flytja bæjarstjórn Kópavogs þakkir fyrir framtak hennar, framsýni og áræði við allt, sem snertir framkvæmdir við skólann. Bæjarstjórn Kópavogs er svo sannarlega góð fyrirmynd, þegar litið er til framtaks hennar í mennta- og menningarmálum. Er ég viss um, að mannvirkjagerð á hennar vegum í þágu þessara málaflokka á eftir að verða einn öflugasti vaxtarbroddur bæjarfélagsins, þegar fram líða stundir.

Þess hljóta víða að sjá merki í bænum, að hingað sækja meira en 1000 nemendur á hverjum degi til að afla sér menntunar. Vegsemd skólans og Kópavogs minnkar ekki við það, að öll aðstaða til verknáms er á við hið besta sem gerist á heimsvísu.

Menntamálaráðuneytið hefur gert svonefnda skólasamninga við alla framhaldsskóla í landinu nema einn, Menntaskólann í Kópavogi. Í þessum samningum er mælt fyrir um fjárstreymi til skólanna og lagt á ráðin um þróun þeirra.

Hinn öri vöxtur Menntaskólans í Kópavogi hefur leitt til þess, að við höfum ekki, hvorki skólameistari né ráðuneyti, treyst okkur til að setjast niður og segja, að nú sé unnt að skilgreina umfang skólastarfsins og semja um það. Með þeim áfanga, sem nú hefur verið náð, skapast hins vegar forsendur fyrir skólasamningi. Nú verður unnt að átta sig á því, hver hin raunverulega fjárþörf er í samræmi við eðlilegar og metnaðarfullar kröfur.

Að mínu mati er brýnt, að setja þennan samningsbundna ramma sem fyrst. Skólinn hefur lýst áhuga á að bjóða nám á hótel- og þjónustubraut, nám fyrir starfsfólk í smurbrauði, nám í fiskiðn, nám fyrir starfsfólk í matvælaframleiðslu, nám í skyndiréttamatreiðslu, gestamóttöku og flugþjónustu og í kökugerð. Þessi listi sýnir, að margt verður unnt að læra hér á þessum stað við hinar bestu aðstæður. Vill ráðuneytið, að ákvarðanir um þetta nýja nám og annað byggist á skólasamningnum.

Verknám dafnar ekki í Menntaskólanum í Kópavogi frekar en annars staðar nema náin og góð samvinna takist á milli skólans og forystumanna í einstökum starfsgreinum eða þeirra fulltrúa, sem þær velja til að sinna fræðslumálum fyrir sig. Hér blasir hvarvetna við mikill metnaður kennara og fulltrúa atvinnulífsins. Hafa þeir lagt ómetanlegan skerf af mörkum til að gera Menntaskólann í Kópavogi að þeirri fjölbreyttu menntastofnun, sem hann er á 25 ára afmæli sínu. Sjáum við skýra staðfestingu þess í dag, þegar skólinn fær hvorki meira né minna en brauðbúð að gjöf frá Landssambandi bakarameistara, Klúbbi bakarameistara og Verslunarmannafélagi Reykjavíkur. Flestum finnst okkur nokkuð til þess koma að fá afmælistertu til hátíðarbrigða, en þessi ágæti skóli fær heilt bakarí.

Menntaskólinn í Kópavogi væri ekki öflug skólastofnun nema vegna þess að hann stendur á traustum grunni. Skólanum hefði ekki verið treyst fyrir nýjum verkefnum nema vegna þess að hann hafði áunnið sér traust. Reynslan hefur sýnt, að traustið er verðskuldað.

Ég óska skólameistara Menntaskólaskólans í Kópavogi, kennurum og nemendum öllum heilla í mikilvægum störfum þeirra. Til hamingju með daginn!