28.3.2002

Kosningastefnan skýrð - Morgunblaðsgrein




Reykjavík í fyrsta sæti!

Við náum ekki sameiginlegum árangri í mannlegum samskiptum nema með gagnkvæmri virðingu og samstöðu um leiðir að markmiðum öllum til heilla. Í stjórnmálum ber að hafa þetta að leiðarljósi, en þar er tímanum því miður oft sóað með innantómu orðaskaki og deilum.

Við, sem skipum lista Sjálfstæðisflokksins, D-listann, í borgarstjórnarkosningunum í vor, gerum okkur glögga grein fyrir því, hve mikilvægt er að setja stefnu okkar fram með hagsmuni allra Reykvíkinga í huga og leita umboðs hjá þeim með það fyrir augum að sameinast um leiðir að heilladrjúgum markmiðum. Við ætlum að setja Reykjavík í fyrsta sæti í samvinnu við alla Reykvíkinga.

Við höfum nú kynnt kosningastefnuskrá okkar. Þar lýsum við framtíðarsýn okkar og leggum hana fyrir kjósendur. Við ætlum jafnframt að ganga lengra til móts við kjósendur með því að leggja síðar fram samning við Reykvíkinga. Samning, sem ég rita undir fyrir hönd okkar frambjóðendanna og Reykvíkingar geta falið okkur að framkvæma með atkvæði sínu á kjördag, setji þeir X við D. Aldrei fyrr hefur kjósendum á Íslandi verið boðinn slíkur kostur.

Samningurinn byggist á kosningastefnuskránni og snýst um að efla grunnskólann og leikskólann, atlögu gegn biðlistum, lækkun skatta, góða fjármálastjórn, umbætur í skipulagsmálum, endurreisn miðborgarinnar, fjölgun lóða, stuðning við eldri borgara og þá sem minna mega sína, aukið öryggi borgaranna, blómlegt menningarlíf og öflugt íþróttastarf. Stefna okkar og samningurinn eru til marks um, að við viljum leggja mikið af mörkum í þágu Reykvíkinga og leitum samstarfs um það við þá alla.

Öll eru ákvæði samningsins á þann veg að unnt er að ljúka því, sem þar er nefnt á fjórum árum, eða koma á góðan rekspöl. Þess vegna snýst hann til dæmis ekki um Reykjavíkurflugvöll, sem hefur verið samið um að verði á sínum stað að minnsta kosti til ársins 2016. Á hinn bóginn þarf að taka upp ný og markvissari vinnubrögð til að borgaryfirvöld, ríki og hagsmunaaðilar sameinist um það, sem gerist eftir 2016, og þar verði tekið mið af flugöryggi, samgönguþróun og þörf Reykjavíkur fyrir aukið land í Vatnsmýrinni.

Öflug tengsl við Reykvíkinga

Á fundum mínum með Reykvíkingum um ýmis sérgreind viðfangsefni síðustu vikur, hefur hvað eftir annað komið fram, hve fólki mislíkar viðmót meirihluta R-listans í borgarstjórn. Þar virðist hugarfarið, við ein vitum, ráðandi með skorti á umburðarlyndi gagnvart sjónarmiðum annarra. Fátt er þó mikilvægara en að hlusta á aðra, þegar um sveitarstjórnarmál er að ræða, því að þau standa nærri hverjum og einum og snerta oft persónulega hagsmuni.

Það eitt, að taka upp aðra stjórnarhætti en R-listinn hefur mótað með ærnum tilkostnaði, fjölgun milliliða og sífellt meiri fjarlægð kjörinna fulltrúa, er framfaraskref í samskiptum borgaryfirvalda og kjósenda. Jafnframt er full ástæða til að huga að öllu innra eftirliti í borgarkerfinu í ljósi þess, hve illa gengur fyrir borgarfulltrúa, og hvað þá aðra, að nálgast upplýsingar um fjárhagsleg og stjórnsýsluleg álitamál innan þessa kerfis, sem verður sífellt flóknara. Er með öllu óviðunandi, að það taki margar vikur eða mánuði að fá gögn í hendur um ákvarðanir innan borgarkerfisins eða fyrirtækja á vegum Reykjavíkurborgar.

Nýlegt dæmi um þetta eru erfiðleikar borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við að fá upplýsingar vegna Strætó bs, en í ljós kom, að undir forystu borgaryfirvalda í Reykjavík var staðið að málum með ámælisverðum hætti og í andstöðu við góða stjórnsýslu. Það var fyrst eftir að þessara upplýsinga var aflað, að stjórnarmenn í Strætó bs. fengu vitneskju um 4,5 milljóna króna sérsamning við stjórnarformanninn.

Þörf á betri þjónustu

Þjónusta sveitarfélags felst í því að koma til móts við íbúana og skapa þeim aðstæður til að njóta sín sem best í leik og starfi. Nýlega kannaði Gunnar Helgi Kristinsson, prófessor við Háskóla Íslands, afstöðu fólks til félagslegrar þjónustu í sveitarfélögum og þar fær Reykjavík, undir stjórn R-listans, vondan dóm.

Hvað sem líður ástæðunum fyrir megnri óánægju Reykvíkinga, er hitt staðreynd, að ekki hefur tekist með miklu fé og sífellt fleiri stjórnendum að sætta Reykvíkinga við þjónustustigið, Hér er því enn eitt dæmið um að mikið verk þarf að vinna til að koma til móts við þarfir borgarbúa, hlusta á sjónarmið þeirra og taka mið af þeim.

Skuldasöfnun í góðæri

Fjármálastjórn R-listans hefur einkennst að viðleitni til að veðsetja allar sameiginlegar eignir Reykvíkinga og segja fjármálin í lagi, af því að inneign sé á tékkheftinu. Skuldir hafa áttfaldast á Reykjavíkurborg í góðærinu. Þegar kemur síðan að því að taka á brýnum úrlausnarefnum eins og að fullnægja óskum um aðgang barna að leikskólum, er svarið á þann veg, að til þess skorti fé.

Skuldir hinna öflugu orkufyrirtækja Reykvíkinga hafa hækkað úr 125 milljónum króna fyrir átta árum í um það bil 20 milljarða króna eða 160 faldast. Þessum háu tölum verður ekki mótmælt, og hin gífurlega skuldasöfnun verður ekki skýrð á þeim forsendum, að þessum miklu fjármunum hafi öllum verið varið til arðbærra orkuframkvæmda.

Reykvíkingar eiga kröfu á hendur pólitískum stjórnendum Orkuveitunnar og Reykjavíkur, að þeir standi þeim reikningsskil vegna ótrúlegrar skuldaaukningar, án þess að þyrlað sé upp áróðursmoldviðri.

Gegn kyrrstöðu og doða

Við erum mörg ný á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík og komum með ólíka reynslu og viðhorf til einstakra málefna og hvernig best sé að taka á þeim. Hefur verið ánægjulegt að taka höndum saman undanfarnar vikur með nýju frambjóðendunum og þeim, sem áður hafa setið í borgarstjórn fyrir flokkinn, og móta stefnuna, sem við höfum nú kynnt, viljum ræða við kjósendur næstu vikur og fylgja fram á komandi kjörtímabili.

Við höfum einsett okkur að skýra stefnu okkar með málefnalegum rökum og berjast við keppinauta okkar á jákvæðum forsendum, um leið og við stöndum að sjálfsögðu við þá skyldu stjórnarandstöðu, að benda á það, sem hefur miður farið hjá valdhöfunum. Ef lýsa á tökum þeirra á stjórn málefna borgarinnar um þessar mundir, koma tvö orð í hugann: kyrrstaða og doði. Í ljósi þess er holur hljómur í þeim fyrirheitum R-listans, að nú, eftir átta ára meirihlutasetu hans, eigi loksins eitthvað nýtt að fara að gerast.

Í umræðum um stjórnmál, koma völd gjarnan fyrst í huga fólks. Þegar litið er til stóru framboðanna í Reykjavík, Sjálfstæðisflokksins og R-listans, er auðvelt að komast að þeirri niðurstöðu, að annars vegar sé listi, sem einfalt er að skilgreina með vísan til sameiginlegra hugsjóna og stefnu, og hins vegar listi, þar sem hugsjónum er ýtt til hliðar í því eina skyni að ná völdum – takist ekki að halda völdunum yfir Reykvíkingum, leysist R-listinn upp í pólitískar frumeindir.


Skýr og opin stefna

Nú þegar um það bil tveir mánuðir eru til kosninga leggjum við frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins stoltir fram kosningastefnuskrá okkar.

Í upphafi hennar segjum við:

„Við ætlum að setja nýjan kraft í borgarlífið. Við ætlum að gera borgina aftur að miðstöð menningar og þjónustu, höfuðborg, sem vekur stolt borgarbúa og allra Íslendinga. Borg sem stenst alþjóðlegan samanburð og styrkir samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Við ætlum að treysta fjárhagsstöðu Reykjavíkur, með hagræðingu og sparnað í rekstri að leiðarljósi. Við ætlum tryggja öryggi íbúanna og stuðla að því að þeim líði vel í borginni sinni. Við ætlum að lækka skatta, sérstaklega á eldri borgara. Við ætlum að bjóða reykvískum börnum bestu menntun. Við ætlum að gera miðborgina fjölskylduvæna og fallega. Við ætlum að setja Reykjavík í fyrsta sæti.“

Við viljum

1. efna til stórátaks í menntamálum með því að tryggja reykvískum börnum í leik- og grunnskólum bestu menntun sem völ er á. Skólinn er hjartað í hverju hverfi borgarinnar, miðstöð mennta og menningar;

2. hlú vel að eldri borgurum og tryggja hag þeirra sem bestan;

3. tryggja afkomu þeirra sem þurfa á aðstoð borgarinnar að halda;

4. treysta fjárhagsstöðu Reykjavíkur, með hagræðingu og sparnað í rekstri að leiðarljósi;

5. treysta byggð í borginni og tryggja að fólk og fyrirtæki sem vilja búa og starfa þar eigi þess kost;
6. treysta mannlíf í miðborginni með öflugu átaki og gera hana fjölskylduvæna á ný;

7. tryggja að Reykjavík verði á ný í forystu að því er varðar þjónustu, verslun og viðskipti;

8. að Reykjavík sé í orði og verki höfuðborg menningar í fremstu röð;

9. efla íþróttastarf í Reykjavík og virkja sem flesta til þátttöku með aukinni samvinnu við íþóttafélög í borginni;

10. gera Reykjavík að öruggri borg fyrir alla íbúa hennar;

11. að umferð í borginni sé greið og borgararnir geti ferðast innan hennar með þeim hætti sem þeir helst kjósa;

12. hlú að umhverfi borgarinnar og tryggja að íbúarnir geti notið náttúru hennar sem víðast.

Þetta eru tólf höfuðþættir í stefnu okkar, sem við höfum útfært nánar í mörgum liðum. Við leggjum þessi málefni hiklaust fram til umræðu og erum fús til að ræða þau og skýra.

Við skorum á Reykvíkinga að ganga til liðs við okkur með hið sameiginlega markmið okkar að leiðarljósi: að Reykjavík verði á ný í fyrsta sæti.