4.5.2015

Páll Skúlason - minningarorð

Við Páll Skúlason hittumst fyrst 17. júní 1969 í þjóðhátíðarhófi í sendiherrabústað Íslands í Rhode-Saint-Genèse, úthverfi Brussel. Sendiherrahjónin Lóa og Niels P. Sigurðsson buðu íslensku námsmönnunum í Belgíu, Rut, síðar eiginkonu minni, Páli og Auði Birgisdóttur, konu hans, í hófið. Um tugur Íslendinga bjó í Belgíu á þessum árum. Fagnaði hópurinn þarna 25 ára afmæli lýðveldisins. Hófið gleymist engum. Íslensk kona, Hulda, varð bráðkvödd á stofugólfinu.

Auður og Páll komu frá hinni frægu háskólaborg Louvain, þar stundaði hann heimspekinám. Áður en þau héldu þangað aftur litu þau inn þar sem Rut leigði í Brussel hjá Mademoiselle Van Glabbeke, hafnarstjóradóttur frá Ostende, sem kunni sögur frá fyrri og síðari heimsstyrjöldinni. Í andrúmi þess liðna tíma ræddum við Páll lífsgátuna.

Við endurnýjuðum kynnin þegar Páll var kjörinn rektor Háskóla Íslands árið 1997. Hann reyndist farsæll rektor og framsýnn. Sýnileg merki þess má sjá víða. Honum var t.d. kappsmál að við háskólann væri staður sem sameinaði háskólasamfélagið. Draumur hans rættist með Háskólatorgi. Þeir sem þekkja Háskóla Íslands fyrir og eftir torgið átta sig vel á umskiptunum. Skólabragurinn er annar og skemmtilegri en áður.

Páll Skúlason sannfærðist ekki um að ég væri endilega á réttri braut sem menntamálaráðherra þegar samið var við einkaaðila um að stofna og reka háskóla. Ágreiningur um þá stefnu varð þó aldrei til að varpa skugga á samstarf okkar. Úrslitum réð hve málefnalega og af mikilli skynsemi hann kynnti sjónarmið sín og óskir í þágu Háskóla Íslands.

Páll lagði áherslu á að stjórnkerfi háskólans yrði skilvirkara og skjótara til viðbragða en fram til þess tíma. Studdi hann heilshugar breytingar á lögum um háskóla sem að þessu miðuðu meðal annars með gjörbreytingu á háskólaráði og þátttöku fulltrúa utan skólans í því.

Páli var einnig mikið í mun að efla framhaldsnám, meistara- og doktorsnám. Taldi hann það „dýrmætasta vaxtarbroddinn“ í starfi háskólans og fela í sér „feikilega“ möguleika til að „efla þekkingarleitina og láta hana skila ávöxtum sínum út í þjóðlífið“ eins og hann orðaði það í fyrstu stefnuræðu sinni sem rektor í september 1997.

Í samningum ríkisvaldsins við Háskóla Íslands um fjárveitingar var fallist á réttmæti sjónarmiða Páls og hinn mjói vísir er nú orðinn mikill að vöxtum. Hann ber sýn hugsjóna- og baráttumannsins fagurt vitni og hefur skilað þjóðinni ávöxtunum sem hann vænti.

Páll var sannur menningarmaður og fræðari. Ræður hans vöktu athygli langt út fyrir háskólann. Páll var afkastamikill höfundur. Trúr áhuga sínum á að mennta og fræða færði hann mér jafnan bók, eftir sjálfan sig eða aðra, þegar við hittumst, þar á meðal ritgerðasafn eftir Ralph Waldo Emerson sem hann sagði gott að lesa í flugvél, skýjum ofar – brá fyrir brosi og vinarbliki í auga þegar hann gaf mér þetta ráð. Minningin um samtöl okkar er ljóslifandi og kær.

Við Rut vottum Auði, börnum þeirra Páls og fjölskyldu allri innilega samúð.

Blessuð sé minning Páls Skúlasonar.