13.11.2001

Tungutækni - málþing



Tungutækni,
ráðstefna í Salnum,
13. nóvember, 2001.




Ég býð ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu, sem menntamálaráðuneytið efnir til í samvinnu við verkefnisstjórn um tungutækni í því skyni að ræða brýn viðfangasefni er falla undir hið nýja hugtak, tungutækni, sem tekur mið af því, að tölvu- og fjarskiptatækni og tungumál eru að renna í einn farveg.

Á öllum starfssviðum menntamálaráðuneytisins er unnið að því að laga stefnumótun og vinnubrögð að auknum fjarskiptum í gegnum tölvur. Hið nýja þekkingarþjóðfélag byggist ekki síst á slíkum samskiptum og miklu skiptir að tengja þau og tungumálið sem best. Markmið okkar hlýtur að vera að tryggja íslenskri tungu sem öruggastan sess í hinum nýja heimi upplýsingatækninnar. Þetta gerum við ekki aðeins með vísan til þjóðernis og málverndar heldur í því skyni, að við, sem eigum íslensku að móðurmáli, njótum okkar til fulls í hinu nýja umhverfi með eigið tungumál að vopni, tungumál, sem við viljum að sé sífellt lifandi og í þróun en ekki safngripur.

Í stefnuriti menntamálaráðuneytisins frá árinu 1996, Í krafti upplýsinga, er lögð mikil áhersla á að styrkja skuli stoðir íslenskrar tungu gagnvart upplýsingatækni. Sú stefna skilaði m.a. árangri í samningum ráðuneytisins við Microsoft fyrirtækið um þýðingu á stýrikerfinu Windows 98 yfir á íslensku. Þetta framtak vakti nokkra athygli á sínum tíma en hins vegar verður ekki sagt, tölvuáhugamenn eða íslenskufólk hafi sýnt þýðingunni mikinn áhuga, þegar hún kom til sögunnar. Vantrú á, að fleiri forrit yrðu þýdd, kann að vera ein af ástæðunum fyrir þessu. Ýmsir virðast hafa gert það upp við sig, að forrita-umhverfi tölvuheimsins skuli vera á ensku. Loks eru þeir, sem eru alfarið andvígir Microsoft og telja samstarf við fyrirtækið óþarft.

Microsoft heldur mjög fast utan um hugbúnað sinn og höfundarrétt á honum. Hef ég talið það mikilvægt markmið í sjálfu sér, að fá íslenskuna viðurkennda í hugbúnaðarumhverfi Microsoft. Í framhaldsviðræðum hefur náðst sá árangur, að fyrirtækið vinnur nú að því að laga, stafsetningarleiðréttingartól, sem m.a. er notað með Word ritvinnsluhugbúnaðinum, að íslensku. Vinnur hollenskt fyrirtæki, Polderland, að þessu verki og hefur haft samband við íslenska aðila um samstarf vegna þess. Þá standa yfir viðræður milli ráðuneytisins og Microsoft um frekari þýðingar á hugbúnaði þess á íslensku. Hefur ráðuneytið lagt áherslu á, að þýðingum verði komið í skipulegan farveg þannig að nýr hugbúnaður sé þýddur jafnóðum. Til frambúðar er æskilegt að samstarf komist á milli einkaaðila á Íslandi og Microsoft um frekari þýðingar á hugbúnaði fremur en samið sé milli stjórnvalda og fyrirtækisins um slík verk. Er rétt að taka fram, að íslenska ríkið greiðir Microsoft ekki neina styrki vegna þessa samstarfs.

Annar áfangi í framkvæmd stefnu menntamálaráðuneytisins varðandi íslensku og tækni náðist þegar ríkisstjórnin ákvað að verja 104 milljónum króna til tungutækniverkefna á árinu 2001. Byggðist ákvörðunin á skýrslu, sem þeir Rögnvaldur Ólafsson eðlisfræðingur, Eiríkur Rögnvaldsson málfræðingur og Þorgeir Sigurðsson rafmagnsverkfræðingur unnu fyrir ráðuneytið. Naut ráðuneytið dyggilegs stuðnings verkefnisstjórnar um upplýsingasamfélagið og Guðbjargar Sigurðardóttur formanns hennar við að tryggja fjármagn til þessa verkefnis. Skipuð var verkefnisstjórn á vegum menntamálaráðuneytisins í nóvember 2000 til þess að koma með tillögur að ráðstöfun þessa fjár. Í henni eiga sæti: Ari Arnalds, formaður, Bjarki Brynjarsson, Höskuldur Þráinsson og Kristín Haraldsdóttir. Með henni starfar Rögnvaldur Ólafsson á vegum menntamálaráðuneytisins.

Hlutverk verkefnisstjórnarinnar er að:

· stuðla að því að íslenska verði áfram lifandi tungumál íslensku þjóðarinnar í upplýsinga- og þekkingarsamfélagi 21. aldarinnar;
· stuðla að því að til verði nauðsynleg tungutækniverkfæri fyrir þann tæknibúnað sem notaður verði í daglegu lífi og starfi;
· skapa grundvöll fyrir tungutækniiðnað á Íslandi;
· skapa grundvöll fyrir útflutning á iðnaðarframleiðslu og þekkingu í tungutækni.

Í janúar á þessu ári skilaði verkefnisstjórnin starfsáætlun sem hefur verið samþykkt. Þar er m.a. lagt til að komið verði á fót framhaldsnámi og rannsóknum í tungutækni. Hefur Háskóli Íslands nú hafið undirbúning að meistaranámi í tungutækni og gerði menntamálaráðuneytið samning við skólann um þjónustu við verkefnisstjórn í tungutækni í tengslum við það nám. Mun Eiríkur Rögnvaldsson prófessor greina frá uppbyggingu meistaranámsins hér á eftir.

Megináherslan í tillögum verkefnisstjórnarinnar er á stuðning við fyrirtæki og stofnanir vegna þróunar tungutækni. Er sá stuðningur tvenns konar. Annars vegar er gert ráð fyrir stuðningi við uppbyggingu texta- og talmálsgrunna og svokallaðra tungutæknieininga. Hins vegar er lagt til að stutt verði við hagnýt verkefni sem ætla má að skili sér í markaðshæfri vöru. Alls verður 60 milljónum króna varið til að styðja við verkefni á þessum tveimur sviðum.

Við ráðstöfun þeirra fjármuna, sem veitt er til tungutækniverkefnisins, þarf að gæta þess, að þeir nýtist sem best til að tryggja stöðu íslenskar tungu í upplýsingatækni. Því er nauðsynlegt, að starfsemi á þessu sviði verði sem mest drifin áfram af markaðnum, þ.e. af þeim aðilum, sem sjá sér hag í að uppfylla kröfur markaðarins. Vissulega eru sum nauðsynleg verkefni ekki arðbær ein og sér og má þar nefna hagnýt rannsóknarverkefni. Er brýnt að tryggja, að niðurstöður þeirra verði öllum aðgengilegar þannig að þær nýtist öllum til rannsókna og vöruþróunar.

Nú við upphaf þessarar ráðstefnu verður vefsíðan www.tungutaekni.is, sem verkefnisstjórn um tungtækni hefur unnið, opnuð. Á morgun birtist auglýsing um fjárstuðning sem veittur verður á vegum ráðuneytisins til tungutækniverkefna. Geymir vefsíðan upplýsingar um þessa styrki og margvíslegan fróðleik um tungutækni.

Hér á ráðstefnunni eru góðir gestir frá Norðurlöndum þeir Anders Nöklestad frá Tekstlaboratoriet í Osló og Björn Granström prófessor við Konunglega tæknháskólann í Stokkhólmi. Þeir munu ræða um uppbyggingu texta og talmálsgrunna. Allnokkurt samstarf er á Norðurlöndunum á þessu sviði. Árið 1999 var Ísland í forsæti í Norrænu ráðherranefndinni og þá gekkst ég fyrir því að nefndin veitti fé til þess að styrkja norrænt samstarf í tungutækni. Verkefnið nefnist Nordisk sprogteknologi og eru veittir styrkir til ýmiss konar verkefna m.a. doktorsnema til náms í tungutækni og starfsemi norrænna þekkingarneta. Verkefnið, sem hefur um 250 milljónir króna til ráðstöfunar, hófst árið 2000 og stendur í fimm ár. Fulltrúi Íslands í stjórn þess er Rögnvaldur Ólafsson.

Það er ánægjulegt að þegar hafa nokkur íslensk fyrirtæki haslað sér völl á sviði tungutækni. Munu fulltrúar þriggja þeirra þeir Björn Jónsson, Friðrik Skúlason og Örn Kaldalóns gera grein fyrir þörfum íslenskra fyrirtækja á þessu sviði.
Ég vil þakka verkefnisstjórn um tungutækni og öðrum, sem unnið hafa að undirbúningi þessarar ráðstefnu, fyrir gott starf. Það er von mín að ráðstefnan ýti undir öfluga þróun tungutækni fyrir íslensku til hags fyrir alla þætti þjóðlífsins. Hér er stigið enn nýtt skref á spennandi þróunarleið íslenskrar tungu. Ráðstefnan er sett.