4.6.1998

Skólaþróun og listir


Björn Bjarnason
Ráðstefna 4.-5. júní 1998 í Háskólabíói - sal 3.

Skólaþróun og listir.

Góðir áheyrendur.

Í fljótu bragði mætti ætla, að ekki væri margt sameiginlegt með tveimur höfuðþáttum ráðstefnunnar sem nú er að hefjast. Annars vegar snýst hún um skólaþróun og mat og hins vegar um skólaþróun og list. Þegar að er gáð er þó meira sem tengir þessi umræðuefni en virðist við fyrstu sýn.

Bæði hafa þau að leiðarljósi að skólastarf verði gert markvissara en verið hefur. Hugtakið ,,markviss" er lykillinn að árangursríkri umræðu hér í dag, bæði fyrir og eftir hádegi. Ráðstefnugestir munu komast að þeirri niðurstöðu í lok umræðnanna að án mats og lista verði ekki framþróun, hvorki í skólastarfi né fyrir þroska einstaklinga og samfélagsins alls.

Víkjum fyrst að skólaþróun og mati.

Á undanförnum árum hefur sjálfstæði skóla verið aukið. Það hefur meðal annars verið gert með nýrri löggjöf fyrir hvert skólastiganna fjögurra. Að sama skapi kveða hin nýju lög sérstaklega á um aukið mat og eftirlit með skólastarfi og hefur menntamálaráðuneytið tekið á sig ákveðnar skyldur í því sambandi.

Ráðuneytið hefur fylgt þessu eftir með stofnun nýrrar deildar, mats- og eftirlitsdeildar. Stærsta verkefni deildarinnar er að fylgjast með því að skólastarf fari fram samkvæmt lögum og reglugerðum, vinna að undir-búningi þess að skólar hefji reglubundið sjálfsmat, undirbúa úttektir eða mat á skólastarfi og sjálfsmatsaðferðum skóla, svo að hið helsta sé nefnt.

Mats- og eftirlitsdeildin hefur nú starfað í liðlega eitt og hálft ár og í ljós hefur komið að verkefnin eru ærin. Hún hefur staðið fyrir úttektum á ýmsum skólum á ólíkum skólastigum. Þar á meðal hefur verið gerð gagnleg úttekt á kennaramenntun í skólunum þremur sem hana veita nú.

Liður í markvissu mati og eftirliti er gott upplýsingastreymi. Það hefur verið aukið verulega af hálfu ráðuneytisins á undanförnum árum. Ísinn var brotinn þegar ég tók þá ákvörðun að upplýsingar um einkunnir nemenda í samræmdum prófum, flokkaðar eftir meðaltölum skóla, skyldu birtar opinberlega. Sú ákvörðun mætti töluverðri gagnrýni í fyrstu en nú hefur komið í ljós að þeir skólar sem höfðu lægstar meðaleinkunnir hafa tekið sig einna mest á. Gagnrýnisraddirnar hafa þagnað og ítarlegri upplýsingum er tekið fegins hendi, ekki síst af foreldrum. Ráðuneytið gaf fyrst út umfangsmikið tölfræðirit um skólastarf haustið 1996 og nýlega kom út annað rit með upplýsingum um starf grunnskóla, leikskóla og tónlistarskóla. Vefsíða ráðuneytisins gegnir einnig miklu hlutverki, en margir heimsækja hana og eru þakklátir fyrir upplýsingar sem þar eru veittar. Þetta upplýsingastreymi er forsenda þess að skólafólk og almenningur geti lagt mat á það starf sem skólar inna af hendi.

Ákvörðunin um að stofna mats- og eftirlitsdeild innan menntamálaráðuneytisins var eðlilegt framhald af auknu sjálfstæði leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla. Í staðinn fyrir að ábyrgð á rekstri skólanna væri að mestu á hendi ráðuneytisins hefur ráðuneytið í auknum mæli gerst eftirlitsaðili og nokkurs konar upplýsingaveita. Þó að þessi þróun hafi einkum orðið á þessu kjörtímabili finnst mér nú þegar að hún sé að verða barns síns tíma. Mikilvægi mats og eftirlits í skólastarfinu verður ekki dregið í efa. Þá vaknar sú spurning hvort ekki sé æskilegt að hlutlaus eftirlitsstofnun utan ráðuneytisins taki að sér þessi verkefni. Þannig megi með árangursríkari hætti fylgja matinu eftir. Þessi háttur væri einnig í samræmi við aðferðir ríkja sem eru lengst komin á þessu sviði.

Eins og ég sagði í upphafi er markvissara skólastarf eitt af meginmarkmiðum mats- og eftirlitsstarfs. Árangurinn sést víða og á efalaust eftir að verða enn greinilegri á næstu árum. Hinar nýju námskár fyrir grunnskóla og framhaldsskóla eiga að auðvelda skólum að setja sér skýr markmið. Mats- og eftirlitsstarf gerir þá kröfu að skólar fylgi þeim eftir. Einungis þannig næst viðunandi árangur. Það á við um allar námsgreinar, ekki síst listir. Á undanförnum árum og allra síðustu áratugum hafa komið fram stefnur í listkennslu sem hafa það markmið að gera hana markvissari. Lagt er upp úr skynjun barnanna, umræðum og mati. Allt ber þetta að sama brunni og hugmyndafræðin þar að baki er ekki ólík þeirri sem mótar mats- og eftirlitsstarf í skólum á Vesturlöndum.

Einn af þeim sem hefur látið að sér kveða á þessu sviði er aðalfyrirlesari ykkar hér í dag Dr. Elliot Eisner prófessor í kennslufræði og listum við Stanford háskóla en hann hefur varið starfsævi sinni að mestu leyti í að bæta myndmenntakennslu í Bandaríkjunum. Dr. Eisner hefur sagt að fagmiðuð myndmenntakennsla byggist á samþættingu fjögurra faggreina myndlistar, þ.e. listframleiðslu, listgagnrýni, listasögu og listheimspeki.

Áhersla Dr. Eisners á tengsl þessara fjögurra þátta færir okkur nær gagnrýni á það umhverfi sem börn búa við í íslenskum skólum. Þar hefur meginþunginn verið lagður á sköpunina en síður á skynjunina eða mat á listum. Metnaðarfullir listakennarar hafa víða bætt úr þessu af dugnaði og ástríðu. Engu að síður eigum við enn langt í land. Er það von mín, að nýjar aðalnámskrár grunnskóla og framhaldsskóla bæti þar verulega úr.

Skýrsla forvinnuhóps listgreina vegna nýju námskránna er metnaðarfull en þar er áréttað að í listkennslu sé verið að þjálfa þætti, sem eru nauðsynleg undirstaða alhliða tilfinninga- og vitsmunaþroska. Sagt er að fjögur ferli séu sameiginleg öllum námsgreinum sviðsins en þau eru sköpun, túlkun og tjáning annars vegar og skynjun, greining og mat hins vegar.

Virðast markmið forvinnuhópsins þannig nokkurn veginn í samræmi við kenningar Dr. Eisners. Verður þeim náð með nýjum námskrám. Síðan þarf að gera skipulagt átak á tveimur sviðum til að hrinda námskránum í framkvæmd. Vísa ég í fyrsta lagi til menntunar og endurmenntunar kennara og í öðru lagi til námsefnisgerðar.

Ýmsir og þeirra á meðal listamenn hafa haldið fram þeirri gagnrýni á kennaramenntun í listgreinum að nemar í Kennaraháskólanum séu flestir með almennt stúdentspróf, sem byggist aðallega á bóklegum greinum. Vilji þeir sérmennta sig í listgreinum sé aðeins lítill hluti námsins um listsköpun og áfram sé meginþunginn lagður á bóknám. Ég geri mér ekki grein fyrir því hvort gagnrýni þessi sé fyllilega á rökum reist en þó er ljóst að kennara-menntun þarf að kryfja þegar rætt er um að bæta listnám hér á landi.

Einnig þarf að gera átak í námsefnisgerð á þessu sviði. Áður fyrr þótti nóg að rétta nemendum blað og liti. Krafa nútímans er allt önnur. Ef ætlunin er að auka áherslu á skynjun, greiningu og mat þarf meðal annars gott námsefni og árangursríkar vettvangsathuganir til dæmis í listasöfnum landsins sem eru betur í stakk búin en áður til að taka við áhugasömum og fróðleiksfúsum nemendum.

Næstu misseri verður gerð veruleg bót á þessum tveimur þáttum nái stefna mín fram að ganga. Nú þegar hefur verið lagður grunnurinn að því innan menntamálaráðuneytisins að gera átak bæði í endurmenntun kennara og námefnisgerð til að unnt verði að starfa sem fyrst eftir nýjum aðalnámskrám innan skólanna sjálfra.

Hér inni er mörgum efalaust ofarlega í huga sú gagnrýni á nýju skólastefnuna að listgreinar fái of fáar kennslustundir. Það er því miður svo að kennslustundafjöldinn er takmarkaður og ekki er unnt að bæta miklu við nema skólaárið verði lengt. Í tillögu að nýrri viðmiðunarstunda-skrá sem sett er fram í ritinu ,,Enn betri skóli. Þeirra réttur - okkar skylda" er gert ráð fyrir að listgreinar fái sama kennslustundafjölda og nú en markmiðum námsins er, eins og ég nefndi áður, breytt allnokkuð. Þar að auki verður hvatt til þess að forskólakennsla tónlistarskóla verði felld inn í almennt nám í grunnskóla í sjö og átta ára bekk og lögð verði rækt við kórstarf. Í nýrri skólastefnu er sjálfstæði skóla og sérhæfing lykilatriði. Sveitarfélögin, skólarnir og nemendur fá því ákveðið val, 4-11 stundir á viku, sem ég hef ekki verið reiðubúinn að taka af þeim til að festa við ákveðnar námsgreinar. Svigrúmið fyrir listgreinar er því meira en í fyrstu virðist en það fer eftir áherslum á hverjum stað hvernig það er nýtt.

Unnendur listnáms mega ekki heldur gleyma þeirri breytingu sem gerð var á uppbyggingu framhaldsskólans þegar sérstakri listnámsbraut var bætt við sem fjórðu brautinni í meðferð Alþingis á nýlegum framhaldsskólalögum. Listnámsbraut er skilgreind sem 3ja ára námsbraut og veitir hún undirbúning að frekara námi í listgreinum í sérskólum eða í skólum á háskólastigi. Er það von mín að þessi braut leiði til þess að listnámi í víðtækri merkingu verði sinnt betur innan framhaldsskólanna og fleiri nemendur velji sér það sérnám.

Ég sagði í upphafi máls míns, að árangur í skólastarfi og listnám væri nátengt. Vil ég enn árétta þessa skoðun með því að minna á þá augljósu staðreynd, að í skólum ber að ýta undir sköpunargáfu nemenda. Sumir segja, að hún sé hin hliðin á því, sem á að krefjast af skólanum. Hann eigi ekki aðeins að gera nemendum kleift að leysa úr prófum heldur einnig efla með honum alhliða áhuga á að nýta krafta sína til að skapa eitthvað nýtt. Ekkert sé brýnna á á öld upplýsinga og þekkingar en rækta með sér þessa hæfileika.

Góðir ráðstefnugestir.

Söguleg þáttaskil urðu í þróun listnáms hér á landi þann 12. maí síðastliðinn. Þá varð til stjórn Listaháskóla Íslands með tveimur fulltrúum menntamálaráðherra og þremur fulltrúum Félags um listaháskóla. Þann sama dag samþykkti ríkisstjórnin umboð fyrir mig til að semja við hina nýju stjórn um fjárveitingar til reksturs skólans og vegna húsnæðis hans. Ég bind miklar vonir við að samningum við skólann ljúki á þessu ári og að hinn nýi skóli geti tekið til starfa á hinu næsta. Hér er um nýja skólastofnun að ræða, sem starfar á eigin forsendum. Listaháskólinn mun njóta góðs af því starfi, sem hefur verið unnið innan Leiklistarskóla Íslands, Myndlistar- og handíðaskóla Íslands og Tónlistarskólans í Reykjavík. Með eflingu starfseminnar og flutningi hennar á háskólastig má einnig gera ráð fyrir að háskólakennsla hefjist í nýjum greinum og nefni ég þar listdans, kvikmyndagerð og húsagerðarlist.

Ég bind miklar vonir við hinn nýja skóla og geri ráð fyrir að starfsemi hans eigi eftir að leiða til öflugra listnáms á öllum skólastigum hér á landi.

Gróskan í íslenskri menningu og listum er mikil um þessar mundir. Straumarnir sem mætast hér á landi eru öflugir og þá á ekki síður að virkja í skólastarfi en við listsköpunina sjálfa. Við eigum ekki að einangra okkur heldur nýta okkur hið besta frá öðrum og sækja ótrauð fram undir eigin merkjum. Ráðstefnan um skólaþróun og listir er til marks um slíkan sóknarhug. Ég segi ráðstefnuna setta og vona að dagarnir verði ykkur ánægjulegir og skólastarfi og listum til framdráttar.