9.7.2012

Makríll I: Makríll sækir inn á Íslandsmið

Grein í flokki á Evrópuvaktinni



Augljóst er að makríldeilan svonefnda er þröskuldur í ESB-aðildarviðræðum Íslendinga. Deilan snýst um ákvörðun Íslendinga um veiðikvóta á makríl innan 200 mílna lögsögunnar við Ísland. Innan Evrópusambandsins og í Noregi telja menn að með einhliða ákvörðun gangi Íslendingar of nærri makrílstofninum enda séu veiðar úr honum ekki lengur sjálfbærar. Hlutdeild Íslands í stofninum er 16 til 17% samkvæmt einhliða ákvörðun íslenskra stjórnvalda. ESB og Noregur gera kröfu um 90% hlutdeild í stofninum en 10% skiptist milli Íslendinga, Færeyinga og Rússa.

Hér verður í fjórum greinum fjallað um makríldeiluna. Í hinni fyrstu er gerð grein fyrir göngu makríls inn í íslenska fiskveiðilögsögu. Í grein tvö verður gerð grein fyrir réttarstöðu Íslands og óska íslenskra stjórnvalda um að Ísland hlyti viðurkenningu sem strandríki við skiptingu heildarkvóta á makríl. Í þriðju og fjórðu greinunum verður síðan skýrt frá tilraunum ESB og Norðmanna til að knýja fram lausn sér í hag.

Makríll leitar á Íslandsmið

Rannsóknir á sjávarhita á Íslandsmiðum sýna fimm mismunandi skeið síðustu 120 ár. Kalt skeið frá 1880 til 1920, hlýtt skeið frá 1921 til 1964, kalt skeið frá 1965 til 1971, breytilegt hita- og kuldaskeið milli 1972 og 1995 og loks hlýtt skeið frá 1996 til þessa dags.

Fyrst er sagt frá makríl á Íslandsmiðum árið 1895 síðan sást hann öðru hverju til ársins 1996, síðan árlega og frá 2007 í miklu magni á mörgum svæðum umhverfis Ísland. (http://icesjms.oxfordjournals.org/content/early/2012/06/03/icesjms.fss084.abstract)

Árið 2006 var makrílafli íslenskra skipa 4.000 tonn; 2007 36 þús. t.; 2008 112 þús. t.; 2009 116 þús. t.; 2010 122 þús. t. og 2011 159 þús. t.

Ísland setti sér 155 þús. tonna kvóta árið 2011, Færeyjar 150 þús. tonn en Norðmenn og ESB tóku 600 þús. tonn samtals. Alls veiddust því um 900 þúsund tonn af makríl árið 2011 en Alþjóðahafrannssóknarráðið mælti með rúmlega 600 þúsund tonna veiði til að tryggja sjálfbærni stofnsins.

Tekjur Íslendinga af makrílveiðum með lýsi og mjöli námu um 26 milljörðum króna árið 2011. Um 1.000 manns höfðu atvinnu af veiðunum það ár. Talið er að um 90% afla íslenskra skipa árið 2011 hafi farið í vinnslu til manneldis en þetta hlutfall var aðeins 20% árið 2009 en þá voru um 80% aflans brædd.

Samtals var lífmassi makríls 2010 metinn 4,85 milljónir tonna og voru um 1,1 milljón tonn í íslenskri lögsögu (23%). Árið 2011 var heildarlífmassinn um 2.7 milljónir tonna. Þar af um 1,1 milljón tonn (43%) í íslenskri lögsögu. Makríll dvelst 4 til 5 mánuði af fæðuöflunartíma á Íslandsmiðum og eykur þyngd sína þá um allt að helming.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagði í samtali við Fréttablaðið 9. júlí 2012: „Þyngdaraukningin [á makríl í íslensku lögsögunni] er gríðarleg, kannski 650 þúsund tonn. Við getum því sagt sem svo að við veiðum ekki nema um þriðjung af því sem makrílstofninn sem hér er á beit þyngist um árlega.“

Vesturstofn makríls

Í greinargerð frá sjávarútvegsráðuneytinu um makrílveiðar frá desember 2009 sem kom út í febrúar 2010 er makrílnum lýst á þennan hátt (bls. 4)

„Makríllinn er straumlínulagaður, hraðsyntur uppsjávar- og torfufiskur sem heldur sig oftast frá yfirborði sjávar að 200 m dýpi í tiltölulega hlýjum sjó (>8°C). Hann er langlífur og elstu fiskar sem veiðst hafa voru greindir a.m.k. 25 ára. Þekkt er að makríll getur orðið allt að 66 cm langur og yfir 3 kg. að þyngd en fiskar stærri en 50 cm eru mjög fátíðir. Fiskurinn er hraðvaxta og nær 20-24 cm lengd strax á fyrsta ári. Í lok fyrsta árs er fiskurinn orðinn um 27-28 cm og þyngdin er 160-170 gr. Fiskurinn verður kynþroska við 2-3ja ára aldur. Um níu ára aldur er meðallengd makríls um 40 cm og þyngdin um og yfir 600 gr. Makríllinn hrygnir í skömmtum og hrognin eru sviflæg. Makríllinn er dæmigerð svifæta og síðla vors, á sumrin og fyrri hluta hausts heldur hann sig í yfirborðslögum þar sem áta og hitastig er hagstætt. Í ætisleit sinni leggst hann í miklar göngur norður um Noregshaf, norður með Noregi og nú hin síðari ár til Íslands. Á norðlægum slóðum er rauðáta mikilvæg fæða makríls en hann er tækifærissinnaður í fæðuvali og étur annað svif og fiska. Þar sem makríllinn er sundmagalaus sekkur hann ef hann er ekki á stöðugri hreyfingu. Þegar talað er um makríl í Norðaustur Atlantshafi er um þrjár hrygningareiningar (spawning components) að ræða sem skarast verulega á ýmsum aldursskeiðum.“

Hinar þrjár „hrygningareiningar“ makríls í Norðaustur-Atlantshafi skiptast í þrjá stofna:

vesturstofn, sem er lang stærstur, suðurstofn og Norðursjávarstofn. Fiskar úr vesturstofninum ganga inn á Íslandsmið en þeir hrygna á stóru svæði frá vestur af Skotlandi að Biskajaflóa á tímabilinu mars til júní. Að hrygningu lokinni leitar makríll fæðu norður um í Norðursjó og Noregshaf/Austurdjúp og nú seinustu árin hefur hann gengið í auknum mæli inn á grunnslóð allt í kringum Ísland. Þegar haustar dregur hann sig til baka á vetursetustöðvar sem eru í köntunum norður af Skotlandi austur í Norsku rennu og norðanverðum Norðursjó.

Veiðar úr þessum stofni voru litlar á sjöunda áratug síðustu aldar en jukust jafnt og þétt í rúm 800.000 tonn árið 1993. Veiðarnar fara einkum fram í Norðursjó á haustin, Noregshafi og Austurdjúpi á sumrin og norður og vestur af Skotlandi á veturna eftir áramót. Hrygningarstofninn minnkaði úr 3 milljón tonnum á áttunda áratugnum í um 2.2 milljón tonn 1994 en stækkaði aftur í 2.7 milljón tonn 1999. Sérstakt mat á þessum stofni er ekki gert lengur en hrognatalningar á hrygningarslóð benda til að hann hafi minnkað um 14% 1998-2001 og 6% 2001-2004. Sömu rannsóknir benda til að hann hafi vaxið aftur um 5% á árunum 2004-2007. Vesturstofninn er talinn vera um 75-80% af heildarstofnstærðinni.

Mestur afli úr vesturstofni makríls hefur samkvæmt skýrslunni verið tekinn á hefðbundnum veiðislóðum í Norðursjó og vestan Skotlands og Írlands. Líta Skotar og Írar á makrílstofninn sem verðmætasta fiskstofninn við stendur sínar og telja sér til ágætis að hafa stundað sjálfbærar veiðar úr honum.

Norðmenn og Rússar hafa í áranna rás verið mestar veiðiþjóðir makríls í Noregshafi. Aflinn varð mestur 1994 eða 182 þús. tonn og 1995 og 1998 varð hann um 154 þús. og 135 þús. tonn. Aflinn í Noregshafi fór síðan minnkandi fram til 2006, einkum vegna minnkandi veiði Norðmanna.

Makríll breytir lífríki

Fram til ársins 2006 var nánast allur afli sem fékkst í Noregshafi veiddur utan íslenskrar lögsögu. Aflinn óx hratt aftur vegna veiða Íslendinga í eigin lögsögu sem veiddu rúm 36 þús. tonn (50% af aflanum) árið 2007 og rúm 112 þús. tonn (76% af aflanum) árið 2008. Afli Íslendinga árið 2009 varð rúm 116 þús. tonn og var þegar orðinn liðlega 90 þús. tonn í byrjun júlí 2009 þegar veiðar voru takmarkaðar við ákveðið meðaflahlutfall í veiðum á norsk-íslenskri síld og með svæðislokun.

Vegna komu makríls inn í íslenska lögsögu hafa menn velt fyrir sér áhrifum hans á lífríki hafsins við Ísland. Robert Fumes, prófessor við Háskólann í Glasgow, sagði í fyrirlestri í Háskóla Íslands 16. desember 2011 að ásókn makríls inn á búsvæði sandsílis hér við land væri trúlega hluti skýringarinnar á hnignun sandsílastofnsins.

„Hvort það sé aðalástæðan er ómögulegt að segja til um,“ sagði hann einnig. Í fyrirlestri sínum benti Fumes m.a. á hversu mikil fylgni væri milli sterkari síldarstofns í Norðursjó og hnignunar sandsílastofnsins við Hjaltlandseyjar. Veiðar á sandsíli hefðu sömuleiðis gengið nærri staðbundnum stofnum.

Ástand sandsílastofnsins við suður- og vesturströnd Íslands hefur verið afar bágborið undanfarin ár með þeim afleiðingum að varp hjá fuglum sem reiða sig á sandsíli, s.s. kríum og lundum, hefur gengið hörmulega illa. Engin einhlít skýring er á hnignun stofnsins en makríllinn hefur verið nefndur sem hugsanlegur sökudólgur. (http://mbl.is/frettir/innlent/2011/12/17/makrill_er_grunadur_med_odru/)

Hin mikla gegnd makríls við stendur Íslands hefur vakið verðskuldaða athygli eins og þessi frétt sjónvarpsins frá11. ágúst 2011 sýnir:

„Allt er krökkt af makríl í sjónum við strendur Íslands. Heilu torfurnar sjást úr háhýsum við Borgartún og í Hafnarfirði mátti sjá makrílinn hreinlega dansa á sjávarborðinu.

Fjöldi fólks hefur haft samband við fréttastofu og greint frá mikilli makrílgengd við strendur landsins.

Fiskisögur hafa flogið frá höfnum á Suðurnesjum og á Vestfjörðum og fólk á skrifstofum í háhýsum við Borgartún og íbúar í Laugarnesi hafa greint frá heilu torfunum af makríl í Rauðarárvík undan Borgartúni og Laugarnesi. Og torfurnar sjást úr mikilli fjarlægð sem dökkir iðandi skuggar á yfirborði sjávar.

Buslugangurinn og lætin eru þvílík að engu er líkara en að fiskurinn sé að stíga trylltan dans til að fagna komunni í íslenska lögsögu.“

Deilt um ráðgjöf

Starfsmenn hafrannsóknarstofnunar hafa lagt sig fram um að skýra landsmönnum og hagsmunaaðilum frá rannsóknum sínum á makrílnum. Þorsteinn Sigurðsson á hafrannsóknarstofnun gerði til dæmis grein fyrir ástandi makrílstofnsins á aðalfundi LÍÚ í október 2011 og sagði að hrygningarstofninn 2011 væri metinn um 2,9 milljónir tonna. Hann hefði vaxið úr 1,7 milljónum tonna árið 2002 en fallið úr 3,15 milljón tonnum árið 2009. Árgangurinn 2002 væri metinn mjög stór, árgangarnir frá 2005 og 2006 væru einnig metnir stórir Árgangurinn frá 2007-2010 taldir vera nálægt meðaltali. Ástand stofnsins væri talið gott. Veiðidánartala væri hærri en sú sem gæfi hámarksafrakstur úr stofninum. Ráðgjöf 2012 væri < 639 þús. tonn og ekki ríkti samkomulag um skiptingu aflans. (http://www.liu.is/files/Makrill_LIU_okt_2011_thorsteinn_hafro_1283333543.pdf)

Ekki eru allir sammála þessum niðurstöðum. Jón Kristjánsson fiskifræðingur hefur í áranna rás verið á öndverðum meiði við vísindamenn á hafrannsóknarstofnun vegna mats þeirra á stærð fiskstofna við Ísland. Hann dregur einnig í efa að Alþjóðahafrannsóknarráðið (ICES) hafi rétt fyrir sér þegar það veitir ráð um veiðar á makríl og leyfilegan hámarksafla á honum. Hann segir í bloggi 6. júlí 2012 að farið hafi verið „groddalega“ fram úr fiskveiðiráðgjöf ICES í Barentshafi þó stækki þorskstofninn þar og ICES elti hann með því að hækka ráðgjöf sína þvert á fyrri ráðgjöf, veiðar umfram hana hefðu átt að ganga of nærri stofninum. Jón segir:

„Stofnmæling á makríl er tóm vitleysa, hún er gerð á 3 ára fresti og þá með því að telja hrogn í hafinu. Ráðgjöfin er í samræmi við það, auk þess sem hún byggist á því að veiða lítið svo stofninn stækki. Þeir halda nefnilega að það sér best sé að veiða sem minnst svo stofninn stækki. Þeir hugsa ekkert um að fæðan takmarkar stærð fiskstofna og stór stofn getur étið sig út á gaddinn.

Norskir fræðingar sjá merki um ofbeit á átu í Norðurhafi, það sé einfaldlega ekki nóg fóður fyrir þessa stóru síldar-, makríl- og kolmunnastofna. Þetta getur verið ein ástæða þess að makríllinn sækir á Íslandsmið, það er að verða lítið að éta heima fyrir, - vegna of lítillar veiði.

Við eigum að halda okkar striki og láta ekki hræða okkur til hlýðni. Ef við veiðum sem áður, og þeir líka kemur væntanlega í ljós að stofninn þolir það enda er það eðli fiskstofna að bregðast við aukinni nýtingu með aukinni framleiðslu. Þarna kemur fæðan til sögunnar: Aukin veiði eykur framboð handa þeim sem eftir lifa, vöxturinn eykst svo og nýliðun. Stofninn fer jafnvel stækkandi (Barentshaf) vegna þess að fæðan nýtist betur.“

(http://fiski.blog.is/blog/fiski/entry/1248298/ )

Hér verður ekki tekin afstaða til þessa ágreinings. Í fyrrgreindu viðtali við Steingrím J. Sigfússon í Fréttablaðinu 9. júlí 2012 segir hann brýnt að semja um hámark veiða á makríl og að farið sé að ráðum ICES. Ráðherrann segir:

„En að sjálfsögðu viljum við lenda samningum. Við viljum ekki lenda aftur í því sem gerðist með kolmunnann, þar sem dróst mjög lengi að ná samningum og stofninn var veiddur ansi langt niður. Sem betur fer hefur makrílstofninn verið mjög sterkur og það hefur hjálpað, en það er auðvitað tekin talsverð áhætta með svona mikilli veiði umfram ráðgjöf ár eftir ár.“

Jón Kristjánsson segir hins vegar um áhrif kolmunnasamningsins í fyrrnefndu bloggi:

„Meðan ósamið var um hann var veitt langt umfram ráðgjöf og stofninn stækkaði stöðugt. Þegar búið var að koma böndum á veiðarnar með samningum 2005 var lögð til minni veiði og aflinn minnkaði. Sagt var að “gömul„ ofveiði hefði valdið því.“

Sjónarmið Jóns Kristjánssonar eiga ekki upp á pallborðið við vísindalega ráðgjöf við veiðar. Stjórnvöld taka mið af annars konar ráðgjöf. Í næstu grein verður fjallað um hvernig íslensk stjórnvöld beita lögum og alþjóðasamningum til að setja makrílveiðum íslenskra skipa skorður en jafnframt tryggja rétt Íslendinga gagnvart öðrum þjóðum.