29.1.2011

Ekki eru allir viðhlæjendur vinir við viðræðuborðið í Brussel

Evrópuvaktin 29. janúar 2011


Frakkinn Jean-Claude Piris var um langt skeið yfirmaður lagasviðs ráðherraráðs Evrópusambandsins. Það er lykilembætti innan sambandsins. Þegar stjórnmálamenn lenda í öngstræti innan ESB, kemur í hlut lögfræðinganna að finna útgönguleið í sáttmálum ESB eða lagabálki.

Á sínum tíma kom Jean-Claude Piris að því að finna leið út úr ógöngum ESB eftir að Lissabon-sáttmálinn hafði verið felldur í þjóðaratkvæðagreiðslum í Frakklandi og Hollandi. Lögfræðingarnir fundu að lokum leið og sáttmálinn tók gildi 1. desember 2009.

Lagasvið ráðherraráðsins lét einnig að sér kveða haustið 2008 að verja regluverk ESB um banka með starfstöðvar í fleiri en einu landi. Það var gert með því að snúa upp á hendur íslenskra stjórnvalda í Icesave-málinu á eftirminnilegan hátt og krefjast pólitískrar lausnar í stað lögfræðilegrar af ótta við að regluverkið stæðist ekki skoðun þriðja aðila.

Jean-Claude Piris þekkir vel til á Íslandi. Hann hefur áreiðanlega oft reynst Íslendingum haukur í horni við töku ákvarðana á vettvangi ráðherraráðs ESB. Klemens Ólafur Þrastarson, blaðamaður á Fréttablaðinu og yfirlýstur ESB-aðildarsinni, ræðir við Piris í blaðinu 29. janúar. Þar segir hinn reyndi lögfræðingur meðal annars við Klemens Ólaf:

„Þú setur þetta svolítið upp eins og ESB brenni í skinninu að fá Ísland í sambandið meðan þið séuð að íhuga ýmsa kosti þess og galla. Gleymdu ekki að þið eruð að sækja um aðild. ESB getur lifað án aðildarríkisins Íslands og aðild landsins myndi ekki breyta miklu fyrir ESB. Það má eins spyrja hvort ESB hleypi Íslandi inn. Og hvað Ísland hafi fram að færa í ESB....

Þegar byrjað var að tala um að stækka sambandið fyrir Ísland klöppuðu auðvitað aðdáendur Íslands meðal aðildarríkja, en það eru líka lönd sem benda á að jú, við erum vinveitt Íslandi en við eigum líka vini á Balkanskaga sem vilja komast inn. Ríki eins og Serbía, Bosnía-Hersegóvína, Albanía, Svartfjallaland, Kósóvó og svo framvegis. Þetta flækir hlutina mjög mikið. Það eru aðildarríki sem vilja endilega fá þessi ríki inn en önnur sem vilja það ekki. Þessi ríki eru ekki tilbúin, því þar er spilling og lélegt dómskerfi og þess háttar. En ef vinaríki þeirra gera inngöngu þessara ríkja að skilyrði fyrir inngöngu Íslands verður þetta flókið....

Svona er þetta. Ef þið hefðuð sótt um fyrir nokkrum árum hefði þetta verið auðvelt. En núna þurfið þið að taka tillit til þess að það þarf að sannfæra fólk um að hleypa ykkur inn.“

Í þessum orðum felst raunsæi. Þau eru einnig áminning um mikla einföldun pólitískra umræðna hér á landi um ESB-aðildarferlið. ESB-ríkin líta ekki á Ísland sem eitthvert óskaland. Ríkin sem helst eru hlynnt aðild Íslands eru jafnframt þau sem vilja setja stíf skilyrði fyrir aðild Balkanlandanna. ESB-eftirgjöf gagnvart Íslandi yrði talið fordæmi gagnvart Balkalöndum.

Viðtalið við Jean-Claude Piris sýnir hve upplýsingamiðlun af hálfu íslenskra stjórnvalda um stöðu Íslands gagnvart ESB er misvísandi. Þar ber Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, höfuðábyrgð.

ps Klemens Ólafur Þrastarson hringdi í höfund og sagði honum að rangt væri að halda því fram að hann væri „yfirlýstur“ ESB-aðlidarsinni. Hann hefði aldrei lýst stuðningi við ESB-aðild Íslands. Klemens Ólafur er beðinn velvirðingar á því að hann skuli borinn röngum sökum í þessu efni. Höfundur hefur það sér til málsbóta að hann hefur dregið þá ályktun af skrifum Klemens Ólafs um ESB-málefni að hann drægi taum aðidlarsinna.