27.7.1997

Snorrahátíð í Reykholti

Snorrahátíð 50 ára
Reykholt í Borgarfirði, 27. júlí 1997

Góðir áheyrendur !

Við komum hér saman í dag til að minnast merkilegs atburðar á fyrstu árum íslenska lýðveldisins, þegar Norðmenn og Íslendingar tóku höndum saman og heiðruðu Snorra Sturluson.

Sjálfur ólst ég upp við það í föðurhúsum, að Snorrahátíðin í Reykholti hafi ekki aðeins verið til minningar um forna sameiginlega arfleifð heldur mikilvægt skref til að skerpa vitund nýfrjálsrar íslenskrar þjóðar um stöðu hennar og styrk í þjóðasamfélaginu.

Á fimmtíu ára afmæli Snorrahátíðar í Reykholti á þó ekki aðeins að líta til baka heldur einnig fram á veginn eins og Davíð Stefánsson skáld frá Fagraskógi gerði í hátíðarkvæðinu, sem hann flutti hér 20. júlí 1947 og sagði:


Fagna frændþjóðir
framtíð sinni,
blómlegum byggðum,
brunandi skipum,
fljúgandi fleyjum,
fossandi lífi,
vaxandi vinsemd
og vori nýju.

Þessi orð skáldsins hafa sannarlega ræst. Þau hljómuðu þó líklega allt öðru vísi árið 1947 skömmu eftir hörmungar síðari heimstyrjaldarinnar en nú á tímum. Hefur ýmsum vafalaust þótt djarflega kveðið þá um nýtt vor.

Á síðustu fimmtíu árum hafa Norðmenn og Íslendingar hins vegar haft fulla ástæðu til að fagna framgangi sínum. Þjóðirnar stóðu náið saman um farsæla friðarstefnu í utanríks- og öryggismálum á tímum kalda stríðsins. Þær hafa ræktað með sér margvísleg og náin tengsl á öllum sviðum samhliða því sem efnahagur þeirra hefur jafnt og þétt batnað.

Á hinum síðari árum, þegar þorskgengd í hafinu minnkar og spennunni milli austurs og vesturs á Norðurslóðum er lokið, verður ágreiningur milli þeirra vegna nýtingar auðlinda sjávar. Þessar hagsmunadeilur auðugra og náskyldra þjóða, sem báðar eiga mikið undir sjávarútvegi, þarf að sjálfsögðu að leysa með sameiginlegri niðurstöðu. Skugginn vegna þessa ágreinings nær ekki til þeirrar vinsemdar, sem hófst við nýjar aðstæður í sögu þjóðanna hér í Reykholti fyrir fimmtíu árum.

Sumarið 1947 sá enginn fyrir þróun Reykholts á hálfri öld og flestir hafa líklega talið, að hér yrði blómlegt skólasetur um langa framtíð. Eins og við vitum hefur skóla nú verið slitið hér í síðasta sinn og því gefst nýtt tækifæri til að leggja á ráðin um nýtingu mannvirkja og annarra landkosta til að halda fram minningu og afrekum Snorra Sturlusonar. Hin stórhuga uppbygging, sem orðið hefur í nafni Snorrastofu, vísar veginn til framtíðar ekki síður en vináttuböndin frá 1947, þegar Ólafur konungsefni og öflug fylking Norðmanna kom hingað til að heiðra minningu Snorra. Er það eindreginn vilji minn, að menntamálaráðuneytið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og heimamenn komi sér saman um þær leiðir, sem helst eru til þess fallnar að staðurinn nýtist sem best jafnt fyrir þá, sem hér búa, og hina sem lengra eru að komnir. Hefur öflugt starf verið unnið undanfarið til leggja grunn að nýju hlutverki Reykholts.

Enn í dag og ekki síður nú en fyrir 50 árum, er nauðsynlegt að leggja rækt við hinn sögulega og menningarlega arf. Vissan um hann veitir þjóðinni rótfestu til aukins alþjóðasamstarfs. Reykholt á að verða ein af þessum rótum en einnig styrkur stofn alþjóðlegs samstarfs, því að Snorri hefði aldrei náð frægð sinni og virðingu nema vegna þess að hann var hluti hins evrópska höfðingja- og menningarsamfélags samtíðar sinnar. Í samtíð og framtíð dafnar íslenska þjóðfélagið ekki nema alþjóðlegir mennta- og menningarstraumar séu virkjaðir með íslenskum höndum og hugviti. Áfram verði til ný andleg verðmæti, sem hafi víðtæka skírskotun.

Det er for mig en særlig glæde at være her i dag sammen med Lars Roar Langslet, som i 1981 blev Norges förste kulturminister, han satt på Stortinget for Høyre og er nu en af Norges störste kulturpersoner og fölger i Snorri Sturlusons fotspor med sine bøker om norske konge.

Vi har kjent hinanden i nesten tretti år men efter sit förste besøk til Island i 1970 skrev han om landet "Det er langtfra noe museumland i sagaskrud, som romantiske nordmenn innbilder sig. Allikevel er Island mer samlet om sin nasjonale erfaring og identitet en noe annet land i Norden......."

Denne nasjonale erfaring er begrunnet i de gamle skrifter som beskriver blandt andet vår fælles historie med Norge. Her i Reykholt er den ideale plass til at bekræfte denne fælles nordiske identitet. Vår nasjonale erfaring og den fælles arv styrker oss, de begge nationer, til större fremgang i den moderne tid og i fremtiden og fra min synsvinkel kan ikke skade oss at have lidt romantik også med. Vi skal ikke se på Reykholt som et museum men som et levende testament om at individer og nationer behøver Snorri Sturlusons frie tanke og vide syn for at nå resultat.

Megi þessi hátíð hér í dag og tónlistahátíðin, sem efnt er til um þessa helgi verða vísir að enn meira menningarstarfi hér í Reykholti undir forsjón góðra og framsýnna manna.