10.3.2009

Breyting á stjórnarskrá - fyrri þingræða.

Það er sérkennilegt að ræða hér á þessum tímum um breytingar á stjórnarskránni og hlusta á hv. þingmenn sem á undan hafa talað á þann veg að þessar breytingar sem eru til umræðu snúist að einhverju leyti um bankahrunið og þann efnahagsvanda sem þjóðin stendur í. Við ræddum fyrir nokkrum dögum um breytingar á kosningalögunum. Þá stóðu upp stjórnarþingmenn og stuðningsmenn stjórnarinnar og töluðu á þann veg að sú breyting væri lykill að því að takast á við vandann vegna bankahrunsins. Hvorttveggja er alrangt. Hvorttveggja er til marks um einhverja sýndarmennsku sem gripið hefur um sig meðal einhvers ákveðins hóps stjórnmálamanna sem telur að með tillöguflutningi af þessu tagi sé unnt að slá ryki í augu fólks, telja því trú um að þessar breytingar séu til þess fallnar að auka áhrif almennings, eins og það er orðað, og koma til móts við sjónarmið hans.

Að sjálfsögðu er það rétt sem hv. þm. Pétur H. Blöndal sagði áðan að ef farin yrði sú ótrúlega leið að kjósa sérstakt stjórnlagaþing mundu stjórnmálaflokkar koma að því að undirbúa þær kosningar. Þeir eru þau skipulögðu samtök borgaranna sem láta sig slík mál varða. Á vettvangi stjórnmálaflokkanna er rætt um stjórnskipan og breytingar á henni. Það var einmitt þess vegna sem þetta mál kemur upp, að framsóknarmenn settu það sem skilyrði fyrir stuðningi sínum fyrir því að verja núverandi ríkisstjórn vantrausti að hún tæki upp á sína arma hugmyndir þeirra um stjórnlagaþing. Hv. þm. Geir H. Haarde minnti á það í ræðu sinni að í aðdraganda kosninga 2007 tóku framsóknarmenn það upp hjá sér að samþykkja á flokksþingi skilyrði gagnvart Sjálfstæðisflokknum að stjórnarsamstarfi yrði slitið nema þeir stæðu að því með framsóknarmönnum að breyta stjórnarskránni varðandi eignarhald á náttúruauðlindum. Þetta er sami leikurinn, ef þannig má að orði komast, í stjórnmálunum. Er mjög varhugavert að stjórnmálamenn skulu gera sér það að leik að taka sjálfa stjórnarskrána og setja hana í gíslingu þegar dregur að kosningum til að reyna að ná sér í sérstaka aðstöðu gagnvart ríkisstjórninni og innan ríkisstjórnar.

Þegar maður hugsar um þetta frumvarp í ljósi allra umræðnanna sem verið hafa á undanförnum árum um veg og virðingu Alþingis og spurninguna um stöðu Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, undrast maður að þeir menn sem mest hafa talað um að verið sé að styrkja stöðu Alþingis og efla á alla lund, skuli standa að tillögu sem miðar að því að veikja Alþingi meira en nokkru sinni, að svipta Alþingi valdinu til að breyta stjórnarskránni. Það er lokahnykkurinn í valdastöðu Alþingis í stjórnskipulagi okkar að Alþingi hafi vald til að breyta stjórnarskránni. Nú koma þeir menn, sem talað hafa um það hér að verið sé að setja Alþingi niður, og flytja tillögu um að svipta Alþingi þessum rétti og fela það einhverjum öðrum. Ég tel að það séu mörg sjónarmið sem þarf að ræða þegar þessi mál eru tekin til umræðu. Það er mjög einkennandi fyrir þær ræður sem flutningsmenn eða stuðningsmenn þessa máls hafa flutt að þeir hafi ekki rætt um efni málsins heldur gefið almennar yfirlýsingar um að hér sé verið að takast á við eitthvert vandamál sem hafi komið upp sérstaklega við hrun bankanna.

Ég tel að í þessu máli hafi komið fram tvö ólík sjónarmið varðandi leiðir við breytingu á stjórnarskránni. Ég hef hingað til talið að stjórnlagafræðingar og þeir lögfræðingar sem komu að því að fjalla um stjórnarskrármál væru þeirrar skoðunar að það bæri að gefa sér tíma og það bæri að leita samstöðu og samráðs. Það bæri að standa þannig að öllum málum varðandi stjórnarskrána að ekki væri verið að skapa fleiri lögfræðileg vandamál eða með túlkun en þörf væri á af því að búið væri að greina málin vel fyrir fram og leggja niður fyrir sér, skýra í greinargerð og skýra á öðrum stöðum hvað við væri átt með einstaka breytingum. Nú virðist það sjónarmið hafa horfið. Nú er rokið í það á nokkrum vikum að skrifa textabreytingar í þremur greinum og síðan viðbótarákvæði við stjórnarskrána sem á að gilda um stundarsakir og það lagt fram og ætlast til þess að þingmenn afgreiði þetta, þó undir því fororði að það megi helst ekki ræða það í þinginu. Við höfum heyrt ræður stjórnarsinna sem ganga út á að þegar við sjálfstæðismenn tökum til máls um mál af þessum toga eða önnur stórmál sem eru til umræðu, séum við að tefja fyrir þingstörfum. Þeir menn sem þannig tala og telja að svona mál tefji fyrir þingstörfum eigi ekki að leggja þau fram. Þeir eiga að halda þeim hjá sér og reyna að ná samstöðu um þau í viðræðum milli flokka og meðal almennings eins og hv. þm. Geir H. Haarde lýsti varðandi breytingarnar 1995. Við sem þá sátum á þingi munum eftir því hve mikið var reynt að ná víðtækri samstöðu, bæði innan þingsins og einnig við hópa utan Alþingis. Nú er það allt annað. Þegar menn tala um slíkt er talið að þeir reyni að tefja fyrir að gripið sé til nægilega öflugra ráðstafana til að bægja frá voða vegna bankahrunsins. Það er ágreiningur um þessar aðferðir meðal stjórnmálamanna og það er einnig ágreiningur meðal lögfræðinga. Þegar einn hópur lögfræðinga virðist ætla að ganga fram með þeim þunga sem kemur fram í því að afgreiða skuli frumvarpið hvað sem tautar og raular, segir annar hópur lögfræðinga: Við skulum fara varlega.

Í Fréttablaðinu hinn 4. mars sl. birtist grein eftir Skúla Magnússon lögfræðing sem nú er framkvæmdastjóri EFTA-dómstólsins í Lúxemborg — hann hefur verið héraðsdómari og kennari við lagadeild Háskóla Íslands — undir fyrirsögninni „Enginn veit hvað átt hefur.“ Með leyfi virðulegs forseta ætla ég að lesa upphaf greinarinnar. Skúli Magnússon spyr:

„Hefur stjórnskipun Íslands brugðist samfélaginu í grundvallaratriðum? Hefði kvótakerfi í fiskveiðum, stóriðjuframkvæmdir, einkavæðing fjármálafyrirtækja, eftirlit með fjármálafyrirtækjum, breytingar á skattalögum, stjórn peningamála og ríkissjóðs — svo einhver dæmi séu tekin um ætlaða sökudólga — orðið með öðrum hætti ef stjórnskipun Íslands hefði verið „lýðræðislegri“, geymt ákvæði um „sameign þjóðarinnar á auðlindum“, umhverfisvernd, o.s.frv.? Ef miðað er við stjórnlög eins og þau tíðkast í hinum vestræna heimi, verður ekki séð að önnur og nútímalegri stjórnskipan hefði nokkru breytt um þessi atriði. Það stenst ekki heldur samanburð við önnur vestræn samfélög sem kenna sig við lýðræði og mannréttindi, að halda því fram að stórkostleg slagsíða hafi verið og sé enn á íslenskri stjórnskipun hvað þessi atriði varðar.“

Þetta segir Skúli Magnússon lögfræðingur. Hann segir einnig í þessari grein sinni, með leyfi forseta:

„Texti stjórnarskrár er í besta falli einn þáttur í þeirri viðleitni að koma á ákveðinni samfélagsskipan. Ef stjórnarskrá er ekki framfylgt og hlýtt af heilindum af öllum þeim sem í hlut eiga, ekki síst (en þó ekki eingöngu) valdhöfum, duga hástemmdar valdreifingar-, lýðræðis- og mannréttindayfirlýsingar skammt. Án hollustu við grunngildi stjórnskipunarinnar — tilgang hennar, grunnrök, þá grundvallarhagsmuni sem hún á að þjóna — verður engin stjórnarskrá samfélaginu til bjargar, hversu ítarleg og vel orðuð hún er. Þetta mætti styðja með dæmum úr almennri sögu stjórnarskráa en auk þess er íslensk stjórnarskrársaga ekki síður lærdómsrík að þessu leyti. Það er hættulegur barnaskapur að halda að ný og fögur stjórnarskrá muni verða allra meina bót.“

Það eru þessi varnaðarorð sem hafa ber í huga þegar fjallað er um stjórnarskrána, líka þá ábendingu sem kemur fram í þessum orðum lögfræðingsins, að það er ekki textinn einn sem ræður. Það er framkvæmdin sem skiptir mestu máli þegar á reynir. Komið hefur í ljós á undanförnum árum, þegar við skoðum hvernig stjórnarskrá íslenska lýðveldisins hefur verið framkvæmd, að það er mun brýnna að breyta öðrum ákvæðum í henni en þeim sem vikið er að í breytingartillögunni frá fulltrúum fjögurra stjórnmálaflokka og er hér til umræðu.

Það er mun brýnna að velta fyrir sér t.d. hvernig 26. gr. stjórnarskrárinnar hefur verið beitt þegar kemur að því að forseti synjar lögum framgangs. Það er mál sem við þingmenn ættum að ræða. Það er spurningin um þingræði en þeir menn sem standa í þessum ræðustól og flytja hástemmdar ræður um að það bjargi öllu að afsala Alþingi valdi til þess að breyta stjórnarskránni, hafa að sjálfsögðu ekki miklar áhyggjur af því þótt forseti Íslands hafi samþykktir Alþingis að engu og synji þeim framgangs. Það eru þau sjónarmið sem við þingmenn þurfum að velta fyrir okkur, að menn mega ekki umgangast stjórnarskrána á þann veg að þar sé undirrót alls þess vanda sem að steðjar núna.

En hins vegar eru ákvæði í stjórnarskránni sem þarf að skoða og er eðlilegt að skoða, eins og t.d. spurningin um þingræðið sjálft og þingbundna stjórn, þá aðferð sem notuð er til að mynda þá stjórn sem nú situr og það þegar forseti Íslands fór þá leið að gefa strax umboð til myndunar minnihlutastjórnar í stað þess að láta á það reyna að mynda meirihlutastjórn eins og forverar hans hafa gert. Þá er að sjálfsögðu spurning fyrir Alþingi hvort það eigi að hafa ákvæði í stjórnarskrá eins og er í stjórnarskrám margra ríkja, að leitað sé umboðs frá Alþingi í formlegri kosningu hvort ríkisstjórn nýtur meirihlutastuðnings eða ekki. Það eru þessi atriði, virðulegi forseti, sem ég vil ekki að fari úr sal Alþingis án þess að þau séu rædd og reifuð og teknar ákvarðanir um þau sem bornar eru undir þjóðina á þann veg sem ákveðið er í stjórnarskrá.

Hér eru tillögur um að það skuli gert í þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er sjálfsagt að skoða hvort eðlilegt sé að eftir að Alþingi hefur komist að niðurstöðu sinni um breytingar á stjórnarskrá sé það borið undir þjóðaratkvæðagreiðslu frekar en að efnt sé til þingkosninga og kosið nýtt þing. Það er sjónarmið út af fyrir sig og með slíkri leið er komið til móts við þjóðina og miklu nær að gera það frekar en að afsala þinginu því valdi sem það hefur til að breyta stjórnarskránni.

Ég skil það svo og þessi tillaga, um að þjóðaratkvæði komi til sögunnar ef stjórnarskrártillaga nær fram að ganga á þinginu, hefur verið túlkuð þannig af stuðningsmönnum um aðild Íslands að Evrópusambandinu að það auðveldi ákvörðun varðandi þá aðild. Þannig hefur þetta verið lagt upp, þannig hefur þetta verið túlkað af talsmönnum tillögunnar. Það kemur fram í greinargerð með frumvarpinu, þar sem fjallað er um eignarhald á náttúruauðlindum o.fl., í 1. gr. frumvarpsins, sem að mínu mati er allt of ítarleg og eiginlega brot á öllum þeim reglum sem ég tel að eigi að gilda um breytingar á stjórnarskrá, en á bls. 26 í greinargerð segir, með leyfi forseta:

„Mikilvægt framlag hins nýja stjórnarskrárákvæðis er að þegar auðlindir falla á annað borð undir hugtakið þjóðareign“ — ég tek það fram að mikill ágreiningur er um hugtakið þjóðareign — „verður tryggt að þeim verði ekki afsalað varanlega til einstaklinga eða lögaðila, sbr. regluna sem fram kemur í 2. mgr. ákvæðisins. Eins mundi það koma í veg fyrir að einkaeignarréttur stofnist á auðlindum í þjóðareign fyrir hefð. Loks getur þessi yfirlýsing haft gildi í tengslum við mögulega aðild Íslands að Evrópusambandinu að því leyti sem þar kynni að reyna á eignarhald náttúruauðlinda á borð við nytjastofna á Íslandsmiðum. Þótt íslenska ríkið mundi gangast undir framsal fullveldisréttar til stofnana Evrópusambandsins“ — sem virðist vera ósk þessara manna — „hvað varðar stjórnun fiskveiða og ráðstöfunarrétt nytjastofna í tengslum við úthlutun veiðiheimilda mundi stjórnarskrárákvæðið hindra að eignarréttur þjóðarinnar að fiskveiðiauðlindunum færðist yfir til Evrópusambandsins eða annarra ríkja.“

Virðulegi forseti. Ég tel að þetta sé röng túlkun. Ég tel að þetta standist ekki. Í fyrsta lagi er deilt um það hvað felst í hugtakinu „þjóðareign“ og í öðru lagi sýna allar dómsniðurstöður Evrópusambandsdómstólsins að hann hefur óskhyggju eins og þessa að engu. En þarna er gælt við það, og líklega til að milda Vinstri græn, sem eru flutningsmenn tillögunnar, að þetta stjórnarskrárákvæði mundi veita einhverja vernd varðandi forræði okkar á auðlindunum ef við gengjum í Evrópusambandið. Það er með ólíkindum að lesa þetta.

Ég held að rétta niðurstaðan varðandi þessar breytingar og Evrópusambandið komi fram í leiðara í Fréttablaðinu í dag sem Þorsteinn Pálsson ritstjóri ritar en eins og við vitum er hann eindregið talsmaður þess að Ísland fari inn í Evrópusambandið. Hann segir, með leyfi forseta:

„Forsætisráðherra Samfylkingarinnar getur ekki málað auðmýkingu flokksins sterkari litum en með því að opna stjórnarskrármálið án þess að opna möguleika á aðild að Evrópusambandinu. Á sama tíma og heilbrigðisráðherra boðar niðurskurð ætlar forsætisráðherra að fjölga þingmönnum þjóðarinnar í 104 og efna til fimm kosninga á næstu tveimur árum án þjóðaratkvæðis um afstöðu til Evrópusambandsins.“

Þetta segir ritstjórinn Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sendiherra, dóms- og kirkjumálaráðherra og sjávarútvegsráðherra. Þetta er túlkun hans á þessu ákvæði, að þarna sé Samfylkingin niðurlægð með þessari stjórnarskrárbreytingu miðað við allt það sem hún hefur sagt til þessa um nauðsyn þess að skapa forsendur fyrir aðild að Evrópusambandinu. En síðan er í greinargerð frumvarpsins sjálfs verið að gæla við það að flókið og næsta illskiljanlegt ákvæði um vernd náttúruauðlinda þýði það að við höfum yfirráð yfir þeim þótt við göngum í Evrópusambandið. Þetta er einkennilegur málflutningur, virðulegi forseti, og rekst hvað á annars horn. Það er óskiljanlegt að þingmaður Vinstri grænna skuli leggjast í þann leiðangur, ef þannig má að orði komast, að reyna að fá þetta mál í gegn á þessum veiku forsendum.

Það er líka mjög sérkennilegt þegar litið er til umræðnanna sem fóru fram 2007, um ákvæði í því stjórnarskrárfrumvarpi sem þá lá fyrir, um eignarrétt og þjóðareign á náttúruauðlindum, þegar lesnar eru ræður hv. þingmanna Samfylkingarinnar frá þeim tíma, Lúðvíks Bergvinssonar, eða Vinstri grænna, Kolbrúnar Halldórsdóttur, og gagnrýni þeirra á það ákvæði sem þá átti að fara inn í stjórnarskrána um eignarrétt á náttúruauðlindum, um að þær væru þjóðareign. Ég held að þetta mál sé lítt ígrundað að þessu leyti og þarna sé verið að leika sér með verðmæti og leggja upp með rökstuðning sem er mjög hættulegur þegar að því kemur að gæta þessara mikilvægu hagsmuna. Að gefa til kynna að með svona yfirlýsingum sé hægt að tryggja sig að einhverju leyti gagnvart Evrópusambandinu í þessu efni er í raun og veru óttalegt blekkingarstarf sem ber að vara við.

Virðulegi forseti. Hvar sem ég kem niður varðandi þetta mál þá finnst mér það illa ígrundað. Mér finnst í verulegum atriðum beinlínis varasamt að mæla með framgangi þess eins og það er lagt fyrir okkur, bæði að því er varðar mikilvæga hagsmuni þjóðarinnar, yfirráð hennar og eignarrétt á náttúruauðlindum, og einnig að því er varðar stöðu Alþingis og spurninguna um stöðu þingsins í stjórnkerfinu og að þingmenn skuli ætla að afsala sér því valdi sem í því felst að Alþingi fari með stjórnarskrárvaldið.

Virðulegi forseti. Í greinargerðinni kemur fram að hugmyndin um stjórnlagaþing sé ekki ný af nálinni hér og á það er minnt að við undirbúning lýðveldisstofnunar hafi komið til umræðu á Alþingi að kalla saman stjórnlagaþing og því hafi verið hreyft snemma árs 1941 af Jónasi Jónssyni, alþingismanni frá Hriflu. Það kann að vera að Framsóknarflokkurinn sé í sinni tilvistarkreppu að leita að rótum sínum og átta sig á því hvaða stöðu hann eigi að skipa í samfélaginu og hvar hann komist helst í tengsl við rætur sínar og staldri þá við Jónas frá Hriflu, staldri við þessa hugmynd um stjórnlagaþing sem Jónas lagði fram þegar unnið var að því að Ísland yrði lýðveldi og það var rætt um það. Þá hefði verið skynsamlegra en nú að koma á þjóðfundi og Jónas frá Hriflu vísaði til þess og skírskotaði til þjóðfundarins árið 1851, og hér segir, með leyfi forseta:

„Þjóðfundarhugmyndin var mjög rækilega rædd, einkum sumarið 1942 þegar þingmenn og ríkisstjórn ræddu ýmsa kosti um hvernig stofnun lýðveldisins yrði best tryggð. Ekki varð þó af þessu, m.a. vegna ótta um að málið gæti valdið töfum. Þá voru aðstæður með þeim hætti að rétt þótt að bíða með heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar, eins og áður var rakið. Þess í stað var ákveðið að leggja frumvarp til nýrrar stjórnarskrár í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Þannig var gengið frá þessu máli þegar lýðveldið var stofnað. Síðan hafa orðið breytingar á stjórnarskránni og þær viðamestu á árunum frá 1991 fram til okkar daga. Ég man eftir því að þegar Gunnar Thoroddsen kom aftur til starfa í stjórnmálum 1971 gerði hann það undir þeim formerkjum að hann ætlaði að vinna að því að breyta stjórnarskránni. Það kemur réttilega fram að árið 1972 kemur hann fram með hugmynd um breytingar á stjórnarskránni og gerð er breyting árið 1983. Þegar hann er búinn að vera forsætisráðherra er gerð breyting á stjórnarskránni. Það er slíkur tími sem þarf.

Hæstv. forsætisráðherra sagði fyrr í dag, þegar rætt var um kostnað vegna stjórnlagaþings — og hér nefnir ritstjóri Fréttablaðsins að miðað við þessar tillögur þurfi að fjölga þingmönnum þjóðarinnar í 104 og efna til fimm kosninga á tveimur árum. Ef ég man rétt er í fjárlögum gert ráð fyrir 170–200 millj. kr. kostnaði vegna kosninga þegar til þeirra er efnt þannig að fimm kosningar — kannski getur eitthvað af þessu fallið saman en þar er verið að tala um mikinn kostnað og slegið hefur verið á að kostnaður við framkvæmd á þessum hugmyndum sé á bilinu 1–1½ milljarður. Þá segir hæstv. forsætisráðherra: Menn verða að sætta sig við að lýðræðið kosti peninga.

En það hefur líka verið sagt, og er ekki síður mikilvæg setning, að lýðræðið kostar tíma. Það á líka að gefa sér tíma til að ná lýðræðislegri niðurstöðu. Það á að gefa sér tíma til að ræða mál og fara yfir þau og það hafa menn gert á Íslandi þegar fjallað hefur verið um stjórnarskrána. Margir öflugir stjórnmálamenn hafa komið á vettvang með hugmyndir um breytingar á stjórnarskránni og þeir hafa orðið að sætta sig við að það fer í samráðsferli allra flokka í landinu og menn gefa sér tíma til að ræða málið. Í þessari tillögu er gert ráð fyrir því að menn gefi sér engan tíma og gert er ráð fyrir því að þeir sem um þetta mál fjalla kasti málinu frá sér og vísi því eitthvað annað.

Þegar sagt er: Stjórnmálaflokkarnir munu örugglega koma að því að velja menn á stjórnlagaþingið er sagt: Það getur ekki verið. Þannig að það er alls kyns blekkingaleikur í kringum þetta mál sem er að mínu mati sýndarmál þegar litið er til þess vanda sem íslenska þjóðin stendur frammi fyrir. Það er alls ekki til þess fallið að greiða neitt úr þeim vanda og það er alls ekki til þess fallið að hér verði betri stjórnarhættir. Þó að efnt verði til stjórnlagaþings er það engin trygging fyrir því að þar verði menn betur í stakk búnir til að komast að sameiginlegri niðurstöðu á skömmum tíma en aðrir menn sem hafa komið að þessu, góðir menn í áranna rás og áratuganna rás, sem hafa sýslað með það að breyta íslensku stjórnarskránni.

Jón Bjarnason, þingmaður vinstri-grænna, veitti andsvar við ræðu minni og hér fara svör mín við athugasemdum Jóns.

 Ég er miklu hlynntari því að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskránni og vísa málinu þannig til almennings en að kalla saman stjórnlagaþing og afsala Alþingi þessu valdi. Ef menn vilja leita málamiðlunar í þessu tel ég að hún eigi að felast í því að Alþingi hafi frumkvæðisrétt og fjalli um málið, komist að sinni niðurstöðu og síðan, samkvæmt einhverjum formúlum, verði unnt að bera það undir þjóðina og fá samþykki hennar. Það þurfi ekki endilega að vera hluti af því að rjúfa þing og efna til nýrra þingkosninga.

Ég tek undir það sjónarmið sem fram hefur komið, og mér finnst að það sé skynsamlegt sjónarmið, að yfirleitt hverfa stjórnarskrárbreytingar í skuggann af hinni almennu kosningabaráttu og stjórnmálabaráttu þegar efnt er til kosninga. Til þess að árétta mikilvægi þess að verið sé að breyta stjórnarskránni finnst mér að það eigi að skoða það til þrautar að breyta þessu. En ég er ekki hlynntur því og skil ekki það metnaðarleysi þingmanna sem koma hér og tala um að það sé lífsnauðsynlegt að afsala Alþingi valdinu til þess að leggja tillögurnar fram og móta og gera þær.

Varðandi náttúruauðlindirnar var ég í ríkisstjórn sem flutti frumvarp árið 2007 varðandi þjóðareign á náttúruauðlindum þannig að ég hef ekki lagst gegn því. Hins vegar tel ég að skilgreiningin á hugtakinu „þjóðareign“ sé mjög óljós en ég tel að þessi grein eins og hún er hér, þessi langa 1. grein, sé algjörlega óhæf til þess að fara í stjórnarskrá. Hún er allt of flókin til þess að eiga erindi í stjórnarskrá og kallar á meiri vanda en hún leysir með því að stjórnarskrárbinda svona flókinn texta.

 

Í þessum greinum eru ákveðnar hugmyndir sem er endilega ekki deilt um á milli stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka en deilt er um aðferðina og deilt er um orðalagið. Það er gífurlega mikilvægt þegar verið er að fjalla um texta af þessu tagi að það sé alveg klárt hvernig orðalagið er og hvernig þetta á að gera úr garði.

Það er mjög heimskulegt að gera svona mál að einhverju togstreitumáli á milli stjórnmálamanna eins og mér heyrist hv. þingmaður vera að gera. Ég hef alveg skoðanir á þessu, ég tel að það sé eðlilegt að líta til náttúruauðlinda þegar stjórnarskráin á í hlut. Ég tel líka — ég hef skrifað um það og sagt skoðun mína á því — að það sé ekkert athugavert við að setja almennar reglur um þjóðaratkvæðagreiðslu og menn verða þá að koma sér niður á það. Ég sé ekki heldur að það eigi að vera flokkspólitískt mál eða gera menn eitthvað tortryggilega í því, heldur eiga þeir að setjast niður og reyna að finna sem víðtækasta sátt innan veggja Alþingis um þessi mál en ekki að kasta þeim út og segja að einhverjir aðrir verði að leysa þetta. Því er ég á móti og ég tel að það sé gífurlegt veikleikamerki hjá þeim þingmönnum sem finnst sjálfsagt þegar kemur að þessum punkti, eftir að hafa árum saman kvartað undan því að framkvæmdarvaldið vaði yfir þingið, að kasta þessu frá sér og fela það einhverjum öðrum að ákveða hvernig stjórnarskráin eigi að vera.

Þingið á að gera það og það getur gert það með því fororði að síðan verði það lagt undir þjóðaratkvæðagreiðslu. En auðvitað þarf fólk að koma sér saman um alla umgjörð þjóðaratkvæðagreiðslunnar og það þarf að gera í almennum lögum sem verða afgreidd á þingi ef einhverjar tillögur koma fram um það.