7.1.2006

Nýskipan lögreglumála - álitaefni reifuð.

Grein í Morgunblaðinu 7. janúar, 2006.

Undirbúningur að þeim tillögum, sem ég hef nú kynnt um nýskipan lögregluumdæma í landinu, hefur verið unninn af kostgæfni og í samvinnu við sveitarstjórnarmenn, sýslumenn og lögreglumenn.

Stefán Eiríksson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu, leiddi verkefnisstjórn með þeim Ragnheiði Ríkharðsdóttur, bæjarstjóra í Mosfellsbæ, og Skúla Magnússyni, núverandi héraðsdómara. Skilaði hún vandaðri og ítarlegri skýrslu í janúar 2005.

Síðan leiddi Stefán framkvæmdanefnd með þeim Óskari Bjartmarz, þáverandi formanni Landssambands lögreglumanna, og Kjartani Þorkelssyni, sýslumanni á Hvolsvelli. Nefndin hafði það verkefni að vinna tillögur á grundvelli skýrslu verkefnisstjórnar. Skilaði hún tillögum sínum 24. október 2005 og voru þær þá birtar opinberlega en daginn eftir fól ég framkvæmdanefndinni að efna til kynningarfunda um málið um land allt og boða til þeirra sveitarstjórnarmenn, lögreglumenn og sýslumenn. Efnt var til sjö funda dagana 7. til 17. nóvember með þátttöku hátt á fjórða hundrað manns.

Nefndin eða formaður hennar hefur einnig sótt fjölda annarra kynningarfunda með sveitarstjórnum, lögreglumönnum og öðrum, sem eftir upplýsingum hafa óskað. Framkvæmdanefndin kynnti mér lokatillögur sínar og frásögn af kynningarfundunum með bréfi dags. 9. desember 2005.

Á þessum langa umræðu- og samráðstíma hafa tillögur um málið jafnan verið aðgengilegar á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins. Samkvæmt upplýsingum umsjónarmanns hennar hafa mörg hundruð afrit verið tekin af þeim gögnum. Þá hafa sveitarstjórnarmenn, lögreglumenn og sýslumenn komið á minn fund vegna málsins, sent mér ályktanir, formleg bréf og tölvubréf.

Allt í minnisblaði mínu um málið til ríkisstjórnarinnar hinn 3. janúar 2006, þegar ég kynnti niðurstöðu mína, hafði áður verið reifað á einn eða annan veg við þá, sem hlut eiga að máli. Markmið alls þessa starfs hefur verið að eyða ágreiningsatriðum í því skyni að tryggja sem mesta og besta samstöðu um skynsamlegustu úrræðin til að auka öryggi borgaranna með öflugri og betri löggæslu.

Eftir kynningu á lokatillögunum hefur gagnrýni ekki beinst að efnisþáttum málsins. Umræður í fjölmiðlum snúast um: a) hvort sameining lögregluliða á höfuðborgarsvæðinu tryggi jafngóða löggæslu og nú er í Hafnarfirði, Garðabæ og Kópavogi; b) hvort lykilembætti á Austurlandi eigi frekar að vera á Seyðisfirði eða Eskifirði; c) hvort lykilembætti á Vesturlandi eigi frekar að vera í Borgarnesi eða á Akranesi.

Nýskipan lögreglustjórnar á höfuðborgarsvæðinu verður til þess að efla löggæslu þar enn frekar, bæði hina sýnilegu löggæslu, sem snýr daglega að borgunum, og störf rannsóknarlögreglu, sem ekki eru jafnsýnileg en skipta öryggi borgaranna miklu og eiga stærstan þátt í því, að unnt sé að uppræta afbrotastarfsemi með því að koma höndum yfir þá, sem hana stunda.

Allur undirbúningur að skipulagi á hinu nýja, stóra lögregluembætti á höfuðborgarsvæðinu verður unnin í nánu samráði við sveitarstjórnir þar og gefur þeim einstakt tækifæri til að koma sjónarmiðum og óskum sínum á framfæri við slíkt mótunarstarf. Sveitarstjórnirnar hafa öðlast reynslu af breytingum af þessu tagi með sameiningu slökkviliðs á höfuðborgarsvæðinu og almenningssamgangna.

Framkvæmdanefndin gerir góða grein fyrir því í lokatillögum sínum, hvers vegna hún telur að frekar eigi að velja Eskifjörð en Seyðisfjörð, sem lykilembætti á Austurlandi. Þar segir:

"Tillögur nefndarinnar gera ráð fyrir staðsetningu lykilembættis á Seyðisfirði (Egilsstöðum), en þar var fyrst og fremst horft til staðsetningar og verkefna embættisins í tengslum við alþjóðlega umferð um flugvöll og ferjuhöfn. Á hinn bóginn er til þess að líta að rannsóknardeild hefur verið starfrækt með góðum árangri hjá embætti sýslumannsins á Eskifirði um mun lengri tíma en hjá sýslumanninum á Seyðisfirði, og gert er ráð fyrir að yfirstjórn löggæslu í umdæmi sýslumannsins á Höfn hverfi til embættisins á Eskifirði. Með hliðsjón af því leggur nefndin til að lykilembætti fyrir Austurland verði á Eskifirði. Nauðsynlegt er engu að síður að undirstrika sérstöðu embættisins á Seyðisfirði og byggja upp sérhæfingu og sérþekkingu þar á sviði útlendingamála, landamæraeftirlits og fíkniefnamála. Með hliðsjón af því leggur nefndin til að ekki verði um tilfærslu að ræða á fjárveitingu vegna rannsóknarlögreglumanns milli embættanna tveggja. Jafnframt er að mati nefndarinnar nauðsynlegt að byggt verði upp náið samstarf milli embættisins á Seyðisfirði og embættisins á Keflavíkurflugvelli, t.d. með samstarfssamningi."

Ég féllst á tillögu nefndarinnar og tók ákvörðun um, að lykilembætti á Austfjörðum yrði á Eskifirði en samhliða skyldi unnið að því að efla embættið á Seyðisfirði í samræmi við tillögurnar.

Um lykilembætti á Vesturlandi og valið milli Borgarness og Akraness segir í lokatillögum nefndarinnar:

"Á Vesturlandi gerði nefndin þá tillögu að lykilembætti yrði í Borgarnesi og var það gert með hliðsjón af landfræðilegri stöðu og því að tillögurnar gerðu ráð fyrir því að löggæsla í umdæmum sýslumannanna í Búðardal og Hólmavík hyrfi til sýslumannsins í Borgarnesi, sem og löggæsla í Reykhólahreppi. ... Á fundi nefndarinnar í Borgarnesi kom fram skýr andstaða af hálfu lögreglumanna, lögreglustjóra og sveitarstjórnarmanna á Akranesi við þessa ráðstöfun. Þau málefnalegu rök voru færð fyrir því að í dag væri mest reynsla af þeirri starfsemi sem ráð er fyrir gert að verði á lykilembætti hjá embættinu á Akranesi, og það hefði í för með sér röskun á starfsemi þess liðs ef ráðist yrði í umræddar breytingar, en tillögurnar gera ráð fyrir tilflutningi eins rannsóknarlögreglumanns frá embættinu á Akranesi til Borgarness. Nefndin leggur því til, með vísan til framangreinds, að lykilembætti fyrir Vesturland verði staðsett á Akranesi."

Auk þessara röksemda benti nefndin á, að í upphaflegum tillögum hennar hefði verið gert ráð fyrir, að lögreglustjórn á Hólmavík og í Reykhólahreppi auk Búðardals yrði færð undir Borgarnes, en nefndin hefði að ósk heimamanna horfið frá þessu varðandi Hólmavík og Reykhólahrepp. Lega Borgarness vægi því ekki jafnþungt og áður.

Með vísan til þessara raka samþykkti ég lokatillögu nefndarinnar og Akranes varð fyrir valinu á Vesturlandi.

Stefán Skarphéðinsson, sýslumaður í Borgarnesi, er ekki sammála niðurstöðu minni og nefndarinnar og gefur ekkert fyrir hin faglegu vinnubrögð. Þvert á móti kveður hann svo fast að orði í Morgunblaðinu 5. janúar, að sér virðist, að "öllum faglegum rökum hafi verið snúið á haus". Embætti sitt sé miðsvæðið og með sérþekkingu í hálendiseftirliti og í veiðieftirliti. Þá hafi embættið í Borgarnesi verið með mun fleiri mál til rannsóknar en embættið á Akranesi, þrátt fyrir að síðarnefnda embættið hafi á að skipa fleiri starfsmönnum. Stefán segir að mikil ólga sé í sveitarfélaginu vegna þessara tillagna. Fólk hringi hissa í sig, landafræðin hafi ekki breyst síðan í október og þá kunni það að hafa ráðið niðurstöðu nefndarinnar og mín, að engir þingmenn séu búsettir í héraðinu!

Sýslumanni er ljóst, að val á lykilembætti breytir engu um hálendiseftirlit eða veiðieftirlit á hans vegum. Honum er einnig ljóst, að fyrirhuguð stærð Borgarness-umdæmisins hefur minnkað, frá því sem áður var, með brotthvarfi Hólmavíkur og Reykhólahrepps, þótt Borgarnes hafi að vísu ekki verið flutt á landakortinu.

Í hádegisfréttum hljóðvarps ríkisins 5. janúar flutti Gísli Einarsson, fréttamaður í Borgarnesi, þá frétt, að á fundi stjórna fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Mýrasýslu og stjórna Sjálfstæðisfélags Mýrasýslu, Sjálfstæðiskvennafélags Borgarfjarðar og Félags ungra sjálfstæðismanna hefði að kvöldi 4. janúar verið samþykkt samhljóða ályktun þar sem ákvörðun mín um lykilembætti á Akranesi hefði verið harðlega gagnrýnd. Sjaldan hefði sést jafn fátæklegur rökstuðningur fyrir jafn veigamikilli breytingartillögu (það er að velja Akranes í stað Borgarness). Í fréttinni sagði, að í ályktun fundarins væri athygli vakin á, að á síðustu sex árum hefðu borist þriðjungi fleiri ákærumál frá sýslumanninum í Borgarnesi en frá kollega hans á Akranesi eða 300 á móti 200. Þetta gerðist þótt 12 starfandi lögreglumenn væru á Akranesi auk rannsóknarlögreglumanns en í Borgarnesi aðeins sjö. Það hlyti að vera ljóst að þar sem gefnar væru út kærur væru mál rannsökuð og þar með safnaðist upp reynsla.

Mér finnst lofsvert og ánægjulegt, að flokkssystkini mín í Mýrasýslu sýni svo mikinn áhuga á löggæslumálum. Gildi tölfræðinnar í ályktuninni er þó lítil. Ákærumálin verða langflest áfram á forræði sýslumanns í Borgarnesi, það er umferðarlagabrot og önnur minni háttar brot. Með hliðsjón af legu Borgarness er eðlilegt, að þar séu fleiri teknir fyrir of hraðan akstur en á eftirlitssvæði lögreglunnar á Akranesi.

Á árinu 2004 voru 169 hegningarlagabrot skráð á Akranesi en 78 í Borgarnesi.

Til lykilembættis lögreglustjóra fara rannsóknir fárra mála en með eflingu þeirra er unnt að treysta því betur en áður, að þjálfaðir kunnáttumenn komi að lausn þeirra. Verkaskipting af þessu tagi tryggir jafnframt, að almennir lögreglumenn hafa meira svigrúm en ella til að sinna öðrum löggæsluverkefnum, þar sem rannsóknir stórra og flókinna mála eru oftast tímafrekar.

Umræður um nýskipan lögreglumála halda áfram og alþingi á síðasta orðið. Mikilvægt er, að ekki verði horfið frá þeirri vandvirkni, sem einkennt hefur ferlið allt til þessa.