20.6.2005

Tvíþætt kreppa ESB

Grein í Blaðinu 20. júní, 2005.

 

 

Vandræðin innan Evrópusambandsins (ESB) minnkuðu ekki heldur mögnuðust á leiðtogafundi þess í Brussel 16. og 17. júní. Kreppan innan ESB er tvíþætt. Hún snýst annars vegar um eftirleik þjóðaratkvæðagreiðslnanna í Frakklandi og Hollandi, þar sem stjórnarskrársáttmála ESB var hafnað. Hins vegar er kreppan vegna deilna um fjárlög ESB fyrir árin 2007 til 2013.

 

Að loknum leiðtogafundinum í síðustu viku er meðal annars dregin sú ályktun af vandræðunum, sem þar ríktu, að innan ESB takist á talsmenn tveggja meginsjónarmiða. Það er þeirra, sem vilja meiri samruna í átt til sambandsríkis Evrópu, og hinna, sem vilja, að samvinnan snúist um frjáls viðskipti innan ríkjasambands. Frakkar og Þjóðverjar auk Lúxemborgara, sem nú eru að láta af pólitísku forsæti ESB, eru taldir málsvarar sambandsríkis, en Bretar eru í forystu þeirra, sem halda fram málstað ríkjasambands.

 

Deilan um ríkjasamband eða sambandsríkis er klassísk á evrópskum vettvangi. Hið nýja er, að nú tvinnast hún inn í umræður um stjórnskipulag og fjárlög – grunnþætti alls formlegs pólitísks samstarfs, hvort heldur innan ríkja eða milli þeirra.

 

Öllum Íslendingum væri ljóst, að eitthvað mikið væri að, ef innan ríkisstjórnarinnar logaði allt í illdeilum vegna ágreinings um stjórnarskrá  og fjárlagagerð. Ráðherrar væru að glíma við vanda, sem stafaði af því, að stjórnarskrárbreytingar nytu ekki almenns stuðnings, og af því að þeir gætu ekki sameinast um grundvallarþætti við fjárlagagerð.

 

Ef slíkt ástand ríkti hér eða einhverju öðru lýðræðisríki, væri enginn í vafa um, hvað ætti að kalla það: alvarlega stjórnarkreppu. Næsta, sem við blasti, væri, að ríkisstjórn segði af sér, af því að hún hefði ekki burði til að leysa brýnustu verkefni sín.

 

Í ESB er ekki unnt að kalla neinn til ábyrgðar á sama hátt og gert er í þingræðisríkjum, þar sem ríkisstjórn getur ekki komið málum fram án stuðnings meirihluta þingmanna. Framkvæmdastjórn ESB býr ekki við neitt slíkt aðhald og pólitísk forysta innan ESB færist frá einu ríki til annars – um næstu mánaðamót frá Lúxemborg til Bretlands.

 

Þróunin hefur verið á þann veg, að ráðherrar og ríkisstjórnir ESB-ríkja láta sér vel lynda og stuðla jafnvel að því, að málefni, sem þeir vita erfið úrlausnar vegna andstöðu á þingi heimafyrir, séu gerð að ESB-málum og hrundið í framkvæmd án þingræðislegs aðhalds. Uppsöfnuð óánægja með slíka framgöngu átti sinn þátt í sigri nei-manna í Frakklandi og Hollandi á dögunum – fóki er nóg boðið, jafnvel Frökkum.

 

Vandinn innan ESB núna er vegna þess, að Brussel-valdið er ekki ótakmarkað. Embættismönnunum er stundum sú leið ein fær að taka tillit til sjónarmiða almennings í aðildarlöndunum. Frakkar og Hollendingar hafa fellt  stjórnarskrársáttmálann og ákveðið hefur verið, að öðrum þjóðum verði gefið ráðrúm fram á næsta ár til að ákveða, hvernig þær taka á málinu. Í þessari ákvörðun leiðtoganna í Brussel 16. júní felst, að þeir, sem líta á stjórnarskrársáttmálann sem dauðan bókstaf í orðsins fyllstu merkingu, hafa sigrað – útgáfu dánarvottorðsins er frestað.

 

Deilan um fjárlögin byggist að öðrum þræði á óánægju með það, sem margir telja fjáraustur vegna landbúnaðarstefnu ESB, og að hinu leytinu á kröfu um, að Bretar njóti ekki lengur rúmlega fjögurra milljarðra evra afsláttar á gjöldum til sameiginlegra ESB-sjóða.

 

Margaret Thatcher samdi um afsláttinn í þágu Breta fyrir um það bil tveimur áratugum. Nú jafngilti það pólitísku sjálfsmorði, ef Tony Blair, forsætisráðherra Breta, félli frá kröfunni um afsláttinn. Blair finnst heppilegt að binda andstöðu sína við að samþykkja breytingu á afslættinum við nýskipan landbúnaðarmála og minni útgjöld til þeirra. Samdráttur í landbúnaðarstyrkjum er fleinn í holdi Jacques Chiracs Frakklandsforseta.

 

Embættismenn í Brussel eða þingmenn á Evrópusambandsþinginu leysa ekki kreppuna innan ESB. Hún verður ekki leyst nema með samkomulagi leiðtoga stærstu ríkjanna innan sambandsins og þar skiptir mestu, hvort forystumönnum Breta, Frakka og Þjóðverja tekst að semja sín á milli.

 

Tony Blair hefur sterkari pólitíska stöðu en þeir Jacques Chirac, vængbrotinn eftir þjóðaratvæðagreiðsluna, og Gerhard Schröder, í stórhættu að tapa kanslaraembætti Þýskalands. Bretar undir stjórn Blairs verða í forsæti ráðherraráðs ESB næstu sex mánuði frá 1. júlí. Blair hlaut í síðasta mánuði endurnýjað umboð til að leiða ríkisstjórn Bretlands, þótt bakland hans í Verkamannaflokknum sé ekki eins sterkt og áður, er umboð hans miklu skýrara en Chiracs og Schröders.

 

Tekist er á um innviði og meginstefnu Evrópusambandsins og á síðasta leiðtogafundi þess breikkaði bilið milli helstu deiluaðila. Eftir fundinn geta menn ekki leynt óánægju sinni hver í garð annars og ásakanir fljúga á báða bóga. Tvíþætta kreppan er magnaðri eftir fundinn en fyrir hann.