22.11.2004

Ólík fjármálastjórn hjá ríki og borg

Grein í Morgunblaðinu 22. nóvember, 2004.

 

 

Ólíkt er að ræða um opinbera fjármálastjórn annars vegar á vettvangi  borgarstjórnar Reykjavíkur og hins vegar á vettvangi ríkisstjórnar og alþingis. Í borgarstjórn situr meirihluti, sem neitar staðfastlega að horfast í augu við staðreyndir. Í ríkisstjórn og á alþingi, er tekist á við fjármálastjórn af raunsæi, ábyrgð og festu.

 

Árangurinn er í samræmi við hin ólíku vinnubrögð. Um sömu mundir og R-listinn í Reykjavík ákveður að hækka álögur á borgarbúa, er lagt á ráðin um það í ríkisstjórn að lækka tekjuskatt, afnema eignarskatt og hækka barnabætur.

 

Fjármálum ríkissjóðs er stjórnað af festu með þau pólitísku markmið að leiðarljósi að seilast ekki sífellt dýpra í vasa skattgreiðenda og slaka frekar á skattaklónni en herða hana. Fjármálastjórn Reykjavíkurborgar er  án markmiða, skuldabyrðin þyngist jafnt og þétt. Og nú eru þau sannindi, að skuldir í dag séu skattar á morgun, ótvírætt að rætast á Reykvíkingum.

 

Ríkisstjórnin vinnur í skattamálum samkvæmt stefnu, sem mótuð var að loknum kosningum vorið 2003. Í kosningabaráttunni þá tók Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, af skarið um nauðsyn þess að lækka skatta. Áherslan á þetta atriði var ekki jafnþung hjá Framsóknarflokknum, en að kosningum loknum varð samkomulag um stjórnarsáttmála og eftir honum er starfað.

 

R-listinn boðaði þá stefnu fyrir borgarstjórnarkosningar 2002, að álögur skyldu ekki hækkaðar á Reykvíkinga. Sú stefna er fokin út í veður og vind  eins og loforð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að sitja sem borgarstjóri til ársins 2006. Nú stjórnar R-listinn á þeirri forsendu að finna lægsta samnefnara, hvort heldur litið er til fjármála eða vals á borgarstjóra

 

Í fjármálum birtist þessi stjórnlist R-listans í enn hærri skuldum og þyngri sköttum. Við val á borgarstjóra birtist hún í því, að enginn af svonefndum oddvitum samstarfsflokkanna, það er Alfreð Þorsteinsson, Árni Þór Sigurðsson eða Stefán Jón Hafstein, kom til álita sem borgarstjóri. Þá varð Steinunn Valdís Óskarsdóttir niðurstaðan, líklega af því að hún hafði setið lengur en þær Björk Vilhelmsdóttir og Anna Kristinsdóttir fyrir R-listann í borgarstjórn.

 

Fyrir Reykvíkinga er dapurlegt, að af R-listanum sé það tekið úr skattavasa þeirra, sem eykst í honum, vegna skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar.

 

Hitt er síðan hlálegt, að talsmenn Samfylkingar og vinstri/grænna, aðstandenda R-listans, skuli á alþingi flytja um það hræðsluáróður, að skattalækkanir ríkisstjórnarinnar auki á þenslu vegna meiri einkaneyslu.