14.6.2004

Umræðustjórnmál?

Morgunblaðið 14. 06. 04.

 

 

Í síðustu viku skrifaði ég tvær greinar í Morgunblaðið til að árétta þá staðreynd, að í samþykktum um stjórn Reykjavíkurborgar er sett skilyrði fyrir því, að atkvæðagreiðsla um eitthvert mál sé bindandi fyrir borgarstjórn. Skilyrðið er sett á grundvelli heimilda í sveitarstjórnarlögum og byggist á lágmarksþátttöku kjósenda, var skilyrðið ¾  manna á kjörskrá fram til ársins 2001 en þá var kröfunni um lágmarksþátttöku breytt í 2/3 manna á kjörskrá.

 

Af viðbrögðum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur, fyrrverandi borgarstjóra, sést, að henni er ekki að skapi, að vakin sé athygli á þessari staðreynd. Hún getur auðvitað ekki hlaupist undan henni en tekur sér þess í stað fyrir hendur að túlka regluna á nýstárlegan hátt. Hún segir í grein í Morgunblaðinu laugardaginn 12. júní:

 

„Sveitarstjórnin er að leita leiðsagnar íbúanna í aðdraganda ákvörðunar. Með því að kveða yfirleitt á um bindingu var Borgarstjórn Reykjavíkur að auka rétt íbúanna og takmarka sitt eigið svigrúm..“

 

Hvað felst í hinum tilvitnuðu orðum: Jú, með því að hafa kröfu um lágmarksþátttöku er borgarstjórn, að „auka rétt íbúanna og takmarka sitt eigið svigrúm.“ Ingibjörg Sólrún telur þessu hins vegar algerlega öfugt farið, ef sömu reglu er beitt við þjóðaratkvæðagreiðslu samkvæmt stjórnarskránni. Hún segir í sömu Morgunblaðsgrein:

 

„Ef meirihlutinn á Alþingi ákveður, eftir að málið er komið til þjóðarinnar, að skilyrða atkvæðagreiðsluna t.d. við 75% þátttöku, þá er hann að takmarka þann rétt sem borgararnir eiga samkvæmt stjórnarskrá og auka sitt eigið svigrúm.“

 

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur lýst yfir áhuga á að breyta svip stjórnmálabaráttunnar. Í stað átaka komi umræðustjórnmál. Ef það eru umræðustjórnmál, að sama regla um lágmarksþátttöku hafi allt önnur og betri áhrif á rétt borgaranna sé henni beitt á vettvangi sveitarstjórnar en þegar hún nær til ríkisvaldsins, eru þau ekki til þess fallin að komast að kjarna málsins. Í aðferð Ingibjargar Sólrúnar felst að drepa máli á dreif með óskýrri hugsun og ruglandi.