15.5.2004

Þingræða II um fjölmiðlafrumvarpið

 

Herra forseti. Sagt hefur verið að við stjórnarsinnar og talsmenn þessa frv. höfum lítið látið til okkar heyra þar til núna. Ég minnist þess að í vikunni, þegar þessar umræður höfðu staðið í nokkra sólarhringa, birtist leiðari í Morgunblaðinu sem sagði: Hvernig væri að taka til við að ræða efni málsins? (Gripið fram í.)

Þannig er málið vaxið núna að það er ekki fyrr en í dag kannski sem við förum að ræða efni málsins. Hvað kemur þá í ljós? Þá kemur það m.a. í ljós að hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur við þær athuganir sem fram hafa farið komist að þeirri niðurstöðu að frv. brjóti ekki í bága við stjórnarskrána (Gripið fram í: Eignarréttarákvæðið.) og hann hefur lýst þeirri skoðun hér eins og fram hefur komið að umræðurnar hafi þróast á þann veg að hann telji frv. ekki brjóta í bága við stjórnarskrána. Það tel ég mjög mikilvægt og það er gott að þessi tími gafst til þess en það er ekki fyrr en núna, á þessum degi, sem þetta sjónarmið kemur fram. Það er mikilvægt sjónarmið þegar litið er til þeirra málefna sem hér hafa verið til umræðu og sérstaklega hefur verið talið gagnrýnisvert af stjórnarandstöðunni.

Síðan hefur líka verið vikið að því að ómaklegt sé af okkur talsmönnum frv. að ræða um það hvernig forseti Íslands komi að þessu máli. Ég vil minna á það að strax fyrsta kvöldið þegar hér var haldinn útbýtingarfundur og menn áttu ekki von á sérstökum umræðum í tilefni af því að nefndarálit meiri hluta allshn. yrði lagt fram tók hv. þm. Kristján L. Möller, starfandi þingflokksformaður Samf., til máls og sagði, með leyfi forseta:

,,Ég held að verið sé að setja af stað leikrit. Við munum núna taka þátt í og sjá, og landsmenn allir, framhaldsleikrit sem hófst á heimastjórnarafmælinu. Það skyldi þó ekki vera að stjórnarmeirihlutinn þegi þunnu hljóði það sem eftir er í umræðu um málið og enginn taka þátt í umræðunni. Stjórnarandstöðuþingmenn munu að sjálfsögðu taka þátt í henni. Hver er svo tilgangurinn, herra forseti? Er það kannski tilgangurinn að forseti Alþingis geti setið í forsæti og undirritað þessi skrýtnu lög sem eru ekkert annað en ólög? Er það svo að vegna þess að forseti Íslands er að fara í brúðkaupsveislu til Danmerkur að forseti Alþingis og þeir sem fara með handhafavald forseta í fjarveru hans eigi að klára málið um helgina?``

Þetta sagði hv. starfandi þingflokksformaður Samf. að kvöldi 10. maí. Þá hófust umræður um það hvað forseti Íslands mundi gera og við vitum öll hvað síðan gerðist, hann dvaldist hér á landi þegar þetta brúðkaup fór fram í gær. Mér finnst hins vegar undarlegt að enginn hafi minnst á annað í þessum umræðum sem hefur líka gerst í þessari viku, hvað sem líður þessum umræðum sem ekki er lokið enn og ástæðulaust fyrir forseta að fara ekki úr landi vegna þess, að til sögunnar kom nýr frambjóðandi sem sækist eftir að verða forseti Íslands, Baldur Ágústsson. Það skyldi þó ekki vera að forseti Íslands hafi talið nauðsynlegt vegna þess að snúa til landsins til að styrkja stöðu sína og bæta aðstöðu sína hér meðal kjósenda? Ég verð að segja að þau fyrstu skref sem hann hefur stigið í þeirri kosningabaráttu hafa verið heldur óhöndugleg og sú staða sem hér er uppi er sérkennileg. Ef forseti Íslands hefur snúið til landsins og getur ekki farið úr landinu og ekki tekið þátt í brúðkaupsveislum erlendis vegna þess að það er kominn fram nýr frambjóðandi, Baldur Ágústsson sem býður sig fram til forseta, finnst mér að forseta Íslands hafi mistekist algerlega fyrstu skrefin í kosningabaráttunni.


 

Ég vil einnig nefna að það hefur komið fram í umræðunni að ómaklegt sé að nefna sérstaklega til sögunnar eitt fyrirtæki. Þegar við lesum nál. minni hluta allshn. sem er upp á 94 prentaðar síður þá er allt frá bls. 48 frá Norðurljósum, allt frá því fyrirtæki og umsögn þess hefst með þessum orðum, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að efni fyrirliggjandi frumvarps beinist að rekstri Norðurljósa og dótturfélaga þess þó svo að það sé klætt í búning hins almenna. Félagið hefur ítrekað leitað eftir að koma sjónarmiðum sínum á framfæri við stjórnvöld vegna umfjöllunar um lagasetningu á fjölmiðla.``

Það er alveg ljóst að fyrirtækið sjálft og það er birt í nál. minni hluta allshn. lítur þannig á að frv. snerti bara hag þess og ekkert annað. Þess vegna eru þær spurningar og þau viðhorf sem fram hafa komið þegar rætt er um stöðu forseta Íslands og spurninguna um synjunarvaldið mjög rökréttar hjá hæstv. forsrh. þegar hann segir og spyr: ,,Hvað með hæfi forseta til að koma að slíku frumvarpi?``

Það er m.a. grein sem birtist í Morgunblaðinu 14. maí sl., í gær, eftir Hrafnkel A. Jónsson sem segir að hann hafi verið stuðningsmaður Ólafs Ragnars Grímssonar til framboðs í embætti forseta Íslands veturinn 1996 og hann segir einnig, með leyfi forseta:

,,Á úthallandi vetri``--- þ.e. fyrir fáeinum dögum eða vikum --- ,,var mér boðið að rita nafn mitt á meðmælendalista Ólafs Ragnars vegna komandi forsetakosninga, eftir að hafa skrifað nafn mitt spurði ég út í undirbúning framboðsins og var þá sagt að því stjórnaði sem fyrr núverandi forstjóri Norðurljósa hf., Sigurður G. Guðjónsson. Þegar ég lýsti óánægju minni með þessi nánu tengsl forsetans við Baugsveldið uppskar ég dómadagslestur um illsku forsætisráðherra, dómsmálaráðherra, ríkissaksóknara, ríkislögreglustjóra og fleiri meintra óvina Baugsauðhringsins. Eftir að hafa setið undir þessari framboðsræðu strikaði ég nafn mitt út af listanum.`` --- segir þessi greinarhöfundur í Morgunblaðinu, Hrafnkell A. Jónsson.

Síðan kemur fram í frétt í Morgunblaðinu í morgun, sem er undir fyrirsögninni ,,Lögmaður Norðurljósa umboðsmaður Ólafs Ragnars.`` Þar snýr blaðið sér til forstjóra Norðurljósa, Sigurðar G. Guðjónssonar, sem er sagður skráður forsvarsmaður félags sem unnið hefur að kosningu Ólafs Ragnars Grímssonar í embætti forseta Íslands. Hann segir hér að félagið sé skráð undir nafninu ,,Stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímss.`` Síðan segir, með leyfi forseta:

,,,,Ég vann að kosningum hans 1996 mjög ötullega. Ég vann að kosningunum hans árið 2000. Síðan hef ég bara haldið mig til hlés,`` segir Sigurður. Samtökin séu þó enn skráð en engir fundir verið haldnir.

Ásamt því að halda utan um fjáröflun fyrir forsetaframboð Ólafs Ragnars var Sigurður einnig umboðsmaður gagnvart kjörstjórnum og dómsmálaráðuneytinu.

Núverandi umboðsmaður Ólafs Ragnars fyrir forsetakosningarnar í júní er Gunnar Jónsson hæstaréttarlögmaður. Hann er jafnframt lögmaður Norðurljósa.`` --- Segir í fréttinni og þess er einnig að geta að hann hefur setið í stjórn félagsins.

En hvað er nú með rannsóknarblaðamennskuna á Baugsmiðlunum? Skyldu þeir rannsaka hvernig þetta fer saman sem Hrafnkell A. Jónsson segir annars vegar, um að honum hafi á úthallandi vetri verið boðið að rita nafn sitt og þá hafi honum verið sagt að Sigurður G. Guðjónsson stýrði kosningabaráttunni, en síðan stendur í Morgunblaðinu að hann hafi í raun hætt afskiptum af þeim málum árið 2000. Ég held að þetta sé þáttur sem þurfi að skoða líka þegar málin eru rædd og hvernig þarna er í pottinn búið.

Ég las hér og sagði frá því og það kemur að lokapunktinum í ræðu minni, herra forseti, og lýtur að þessari fréttamennsku því ég sagði frá því að það hefði verið fjallað um fjármál flokkanna. En mig undraði að það hefði ekki verið sagt frá því eins og vitneskja mín væri um að fréttamenn á Fréttablaðinu eða blaðamenn hefðu vitneskju um. Ég spurði hvort menn vildu að ég læsi þetta bréf sem ég fékk í tölvupósti dags. 13. maí 2002 en vegna láta í salnum heyrði ég ekki að það var einn þingmaður sem bað mig um að lesa bréfið, hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir. Ég ætla að segja frá því að það gerðist þannig að blaðamaðurinn Þröstur Emilsson, í kosningabaráttunni fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2002, hafði tal af mér og sagði mér frá samskiptum sínum við Jón Ólafsson sem kenndur er við Skífuna, og síðan sendi hann mér þetta bréf og ég ætla að lesa það, með leyfi forseta, fyrst ég hef verið beðinn um það. Bréfið er sent Stefáni Jóni Hafstein, en það er svohljóðandi:

,,Heill og sæll. Ég rita þér þessar línur í þeirri von að svör fáist frá þér. Ég hef reynt að senda tölvupóst til ISG [þ.e. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur] vegna málsins en annað tveggja skilar pósturinn sér ekki eða ISG kýs að svara ekki erindinu. Þetta snýst um fullyrðingar framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar sem lúta að fjárstuðningi Jón Ólafssonar við ISG, R-listann.

Forsagan í stuttu máli er sú að í aðdraganda formannskjörs Samfylkingarinnar fyrir nokkru lét ég tilleiðast og gekk í Samfylkinguna og fékk þar með atkvæðisrétt. Allt af greiðasemi við ÖS [og það mun vera Össur Skarphéðinsson] og ekkert til að skammast sín fyrir og algengt hjá þeim sem í slíku standa, þ.e. að smala.

Þegar formannskjör var yfirstaðið dróst hjá mér að segja mig úr flokknum því ekki stóð til að vera þar áfram af vissum ástæðum. Þegar svo í aðdraganda kosninga nú fóru að berast bréf og gíróseðlar og fleira ákvað ég að senda framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar formlega úrsögn. Þar setti ég fram ákveðnar skýringar sem tengjast Jóni Ólafssyni og meintum fjárstuðningi hans við stjórnmálaaflið, skýringar sem líka tengjast störfum mínum fyrir fyrirtæki Jóns Ólafssonar og svikum hans.

Framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar hafði samband við mig í síma um leið og honum barst úrsögnin og kvaðst vildu leiðrétta þetta bull í mér, eins og það var orðað. Samfylkingin hefði ekki fengið krónu frá Jóni Ólafssyni og oftar en einu sinni afþakkað allan stuðning úr þeirri áttinni. Framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar fullyrti hins vegar, þegar ég maldaði í móinn, að ISG hefði vissulega þegið umtalsverða fjármuni úr vasa Jóns Ólafssonar en hún kæmi Samfylkingunni og þar með R-listanum ekkert við og mætti alls ekki setja það undir sama hattinn í þessu máli, þ.e. umfjöllun um borgarstjórnarkosningar og fjármál.

Gott og vel, en ljótt ef satt er. Hafi ISG þegið verulega fjármuni úr vasa Jóns Ólafssonar þá þykir mér það undarlegt. Þessi sami Jón Ólafsson er nefnilega að svína á fyrrverandi starfsfólki sínu, hefur ekki staðið skil á launum eða öðru slíku svo mánuðum skiptir eða frá því í september 2001. Vitaskuld eru allir gengnir út, allt klabbið komið í lögfræðiinnheimtu og þar tefur sá sami Jón Ólafsson málið með öllum tækum ráðum.

Síðasta útspil hans og jafnframt það subbulegasta sem ég hef heyrt um dagana er tilboð til lúkningar kröfum. Þeir settust nefnilega niður félagarnir, Jón Ólafsson, Kristján Jónsson og Siguður G. Guðjónsson, og reiknuðu út hve mikið Ábyrgðasjóður launa greiddi ef þeir létu fyrirtækið sem ég og fleiri unnum hjá fara í gjaldþrot. Þá sömu tölu og þeir fengu út buðust þeir til að greiða mér og ekki krónu meir eins og það var orðað.

Þetta er siðferðið sem þar er stundað. Svo þú sjáir hver munurinn er á ,,tilboði`` Jóns Ólafssonar og raunverulegri kröfu minni þá stóð hún í 3,3 millj. kr. um miðjan mars en ,,tilboðið`` hljóðaði upp á að greidd yrði rösklega 1,1 millj. Skýrt liggur fyrir að engum lið kröfunnar hefur verið mótmælt og því ekki hægt að lækka hana af þeim sökum.

Nú kanntu að velta fyrir þér hvers vegna þú fáir þessar upplýsingar. Já, þetta snýst um siðferði og heiðarleika. ISG hefur, eftir því sem framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar fullyrti, þegið umtalsverðar fjárhæðir beint frá Jóni Ólafssyni á sama tíma og hann stundar slíkt athæfi eins og ég lýsti. Ekki einasta að hann svíni á starfsfólki sínu heldur gerir maðurinn út á Ábyrgðasjóð launa. Er þetta það siðferði sem þið hjá R-listanum samþykkið og teljið til eftirbreytni? Að halda eftir launum starfsmanna eins fyrirtækis Jóns Ólafssonar og setja a.m.k. þá upphæð í kosningasjóð hjá R-listanum er að mínu mati afar undarlegt framferði svo ekki sé meira sagt.

Svo er auðvitað allt annað mál og alvarlegra þegar kemur að þiggjendum fjárins. Vill eitthvert stjórnmálaafl binda trúss sitt við slíkan hæl svo ekki sé fastara að orði kveðið? Vænt þætti mér um að fá einhver svör frá þér hið allra fyrsta. Ég tel rétt að önnur framboð og sömuleiðis almenningur viti af þessu máli og öðrum sem tengjast Jóni Ólafssyni þar sem fyrir liggur að hann er verulega stór styrktaraðili R-listans, ISG, og vísast þar enn og aftur til fullyrðinga framkvæmdastjóra Samfylkingarinnar.

Virðingarfyllst,

Þröstur Emilsson.``

Þessi maður var síðan ráðinn kosningastjóri Samf. í Suðurk. É hef grennslast fyrir um það hjá Stefáni Jóni Hafstein sem fékk þetta bréf og hann segist minnast þess að hafa séð það eða svipað bréf vorið 2002, en hann hafi ekki tekið það alvarlega. Hvers vegna taka menn slík bréf ekki alvarlega? Hvers vegna er það svo að menn tala um siðferði og fjármál flokka og segja að allt sé uppi á borðinu og allt liggi ljóst fyrir og taka slíkt mál ekki alvarlega þegar á það er bent? Hvers vegna er ekki sagt frá þessu þegar fjallað er um fjármál flokkanna í þeim blöðum sem eru núna að berjast, eins og þau segja, fyrir lífi sínu og telja nauðsynlegt að koma ríkisstjórninni fyrir kattarnef til þess að halda því lífi? Er það svo að sama siðferði ráði gagnvart því starfsfólki sem nú er beitt fyrir áróðursvagninn og réð þegar þeir voru að gera upp við þetta fólk? Er sama hugarástandið hjá þessum mönnum? Hér er nefndur til sögunnar Sigurður G. Guðjónsson sem er núna forstjóri Norðurljósa og lýst á þann veg að hann geri út á Ábyrgðasjóð launa og neiti að standa í skilum við fólk sem á réttmætar kröfur á hendur honum.

Herra forseti. Ég tel að öll rök mæli með því að frv. verði samþykkt og skora á þingmenn að styðja það.