14.5.2004

Þingræða I um fjölmiðlafrumvarpið

 

Herra forseti. Þessar umræður hafa snúist um marga hluti, nú síðast um það hvort engir lögfræðingar í landinu treysti sér til að fjalla um þetta mál og segja álit sitt á því og það sé enginn lögfræðingur í landinu sem treysti sér að fullyrða að sú löggjöf sem við erum að fjalla um standist stjórnarskrána.

Ég vil benda hv. þm. sem síðast talaði um þetta mál á að frv. sem við erum að fjalla um er samið á grundvelli skýrslu sem m.a. var samin af lögfræðingum og prófessor í lögfræði, sem nú er orðinn dómari í Mannréttindadómstól Evrópu. Hann hefur lýst yfir að þetta frv. falli að efni þeirrar skýrslu og sé innan þess ramma sem settur var í skýrslunni.

Ég vil líka benda hv. ræðumanni á að í nefndinni sem fjallaði um þetta í þinginu sitja a. m. k. þrír lögfræðingar. Þeir hafa rætt þetta mál og farið yfir það og við erum fleiri lögfræðingar sem höfum komið að þessu máli og erum sannfærðir um að við séum ekki, með þessu lagafrv., að brjóta í bága við stjórnarskrána. (Gripið fram í.)

Þetta mál er allt frekar einkennilegt þegar hlustað er á þessa ræðu, sérstaklega í ljósi þess að hv. þm. sem talaði hér síðast og fjallaði um málið á þessum forsendum tók þátt í umræðum um svipað efni og svipuðum deilum þegar við gerðumst aðilar að EES-samningnum. Þá stóðu menn tímunum saman, dögum saman, og fullyrtu að við værum að samþykkja lög sem brytu í bága við stjórnarskrána, að aðild okkar að EES-samningnum bryti í bága við stjórnarskrána. Það var rætt, eins og þetta mál hefur verið rætt, dögum saman. Menn hafa farið yfir alla þætti þessa máls í þinginu og skoðað það. Fyrstu umræður um málið fóru fram í þinginu hinn 28. apríl sl. Nú er kominn 15. maí og má segja að stöðugt hafi verið umræður um málið á þinginu þá daga sem liðnir eru síðan.

Í þeim umræðum sem fram fóru um EES-samninginn var hv. þm. á móti samningnum, þegar hann var lagður fyrir þingið. En þegar umræðurnar höfðu staðið yfir um skeið skipti hv. þm. um skoðun og sat hjá þegar EES-samningurinn var samþykktur, þótt deilt væri um það og fjöldi lögfræðinga héldi því fram á þeim tíma að samningurinn kynni að brjóta í bága við stjórnarskrána.

Það sama er uppi núna og kemur upp hvað eftir annað þegar við fjöllum um frumvörp á þessum vettvangi, að menn eru þeirrar skoðunar að það kunni að vera skynsamlegt í umræðunni að vera með þann hræðsluáróður við þingmenn að ef þeir samþykki eitthvert frv. séu þeir að brjóta eigið heit við stjórnarskrána og stuðla að því að stjórnarskráin sé brotin.

Forseti Íslands, núverandi, tók á þessu máli þegar hann var hvattur til þess á sínum tíma, í janúar árið 2001, að skrifa ekki undir lög varðandi öryrkja. Hann benti réttilega á það, og við þingmenn erum undir það settir eins og allir aðrir hér í þessu landi, það stjórnarskrárákvæði, að það er dómstólanna að lokum að eiga síðasta orðið um þetta. Deilur um svona mál eru því oftast settar á svið sem hræðsluáróður, í blekkingarskyni til að hræða fólk frá því að standa við sannfæringu sína þegar kemur að málum sem þessum. Það er lítið hald í því þegar upp er staðið og gleymist fljótt. Síðan kemur nýtt mál og þá er því haldið fram að menn séu enn og aftur að brjóta stjórnarskrána, en skýrasta dæmið um þetta og lengstu deilurnar voru þegar við gerðumst aðilar að EES-samningnum. Þá voru þessi mál rædd til hlítar, fengin lögfræðiálit sem stönguðust á og menn veifuðu lögfræðiálitum fram og til baka, eins og menn muna sem tóku þátt í þeim umræðum. Menn geta gert það enn og vissulega eru til lögfræðingar sem halda því fram að þetta frv. stangist ekki á við stjórnarskrána. Það liggur fyrir og lögfræðingar hafa komið að og sérfræðingar í lögum, þótt aðrir séu annarrar skoðunar eins og jafnan þegar menn deila um lagaákvæði. Enginn getur sagt þetta með vissu að lokum fyrr en á það reynir fyrir dómstólum ef til þess kæmi.

Í allri umræðunni sem farið hefur fram er mjög athyglisvert að skoða hve lágt menn hafa lagst í því að beita hræðsluáróðrinum og hvaða úrræði menn hafa notað í því skyni. Skýrasta dæmið um það er í raun að finna í Morgunblaðinu í morgun. Þar er birt er tölvubréf frá Róberti Marshall, sem er formaður Blaðamannafélags Íslands og fréttamaður á Stöð 2. Ég ætla að lesa það upp, með leyfi forseta:

,,Félagar. Stundum er nóg komið. Nú er sú stund.

Aðför stjórnvalda að starfsöryggi og starfsheiðri okkar sem vinnum hjá Norðurljósum náði hámarki í lagafrumvarpi forsætisráðherra á dögunum. Umræðan síðustu vikur hefur verið á mörkum hins vitræna.`` --- Það eru líklega þær umræður sem farið hafa fram í þinginu þar sem stjórnarandstæðingar hafa mest látið að sér kveða.

,,Við höfum horft upp á þingmenn fara hamförum með blöð og greinar; grenjandi í ræðustól um að hitt og þetta verði að stöðva. Svo ofsafengin framganga, svo einstrengingsleg afstaða, svo blind heift hefur lamandi áhrif á þann sem fyrir verður.`` --- Síðasti ræðumaður lét þess getið að hún hefði vankast síðastliðinn vetur en þessi maður lamast af blindri heift sem hann verður fyrir.

,,Slík eru áhrif sálfræðihernaðar; hann heggur að vilja andstæðingsins til að svara fyrir sig. Gerir óvininn óvirkan áður en til orrustu kemur.`` --- Þessi lýsing er í góðu samræmi við það sem hv. síðasti ræðumaður talaði um í sambandi við ummæli hæstv. forsrh. í sjónvarpi í gær.

Síðan segir í þessu bréfi:

,,Nú reynir á okkur að rísa til varnar. Að óbreyttu verður fantafrumvarpið að lögum eftir helgi. Afleiðingarnar fyrir störf okkar og afkomu eru óljósar. Við höfum eitt hálmstrá. Ólafur Ragnar Grímsson sagði í kosningabaráttunni 1996 að hefði hann verið forseti þegar rúmlega 30.000 manns skoruðu á Vigdísi Finnbogadóttur til að undirrita ekki EES-samninginn, þá hefði hann orðið við því og neitað að staðfesta lögin. Tökum nú á öll sem eitt og söfnum 35.000 undirskriftum yfir helgina á askrift.is. Við höfum tíma á meðan stjórnarandstaðan heldur uppi málþófi. Sendið tölvupóst á ALLA sem þið þekkið, hringið í fjarskylda ættingja úti á landi sem þið hafið ekki heyrt í í sjö ár. Nú er tíminn til endurnýja kynnin. Fáið fólk til að skrifa nafn og kennitölu á askorun.is Sé fólk fylgjandi frumvarpinu, fáið það samt til að skrifa undir sem persónulegan greiða við ykkur. Mætið í vinnuna á morgun og á sunnudag eða sitjið við tölvuna heima við, hringið, djöflist, látið öllum illum látum, söfnum þessum undirskriftum, fáum þessum ólögum hrundið, kaupum tíma til að fá þau í það minnsta milduð í haust. Nú reynir á. Gjör rétt - þol ei órétt.``


 

Þetta er nákvæmlega hið sama og hv. síðasti ræðumaður var að segja. Inntakið í þessu tölvubréfi er nákvæmlega sama og fram kom í ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur áðan. Hún sagði, líklega til að loka pandóruboxinu sem hún opnaði á síðasta ári: Nú skulum við taka málið út og geyma það í sumar til þess að ræða það aftur næsta haust, nákvæmlega eins.

Maður spyr sig: Hver er tengingin við þetta bréf, þar sem fólk er hvatt til þess að skrifa undir eitthvað og senda áskorun þótt það sé annarrar skoðunar? Hvaða starfshættir eru þetta sem við erum að kynnast hér hjá formanni Blaðamannafélags Íslands? Hvernig á að vera hægt að treysta mönnum fyrir að segja okkur fréttir og starfa á óhlutdrægan hátt, fréttamönnum sem þannig starfa? (ÖS: Setja hann í bann.)

Síðan þegar við skoðum efni málsins kemur í ljós að það í raun ekki ágreiningur milli þingmanna, án tillits til flokka hér á þinginu, um að það eigi að koma í veg fyrir samþjöppun á fjölmiðlamarkaði. Spurningin er, eins og hér hefur margoft komið fram: Hvernig á að ná þessu markmiði? Hvernig á að tryggja dreifða eignaraðild? Við sem stöndum að þessu frv. höfum valið þá leið sem í frv. er lýst.

Um þá leið er það að segja að hún tekur mið af þróuninni sem verið hefur hér á markaði á undanförnum árum og öllu starfsumhverfi á íslenskum markaði. Ég skil ekki það sem menn segja um það umhverfi og þá eignaraðild sem hér er um að ræða, þegar menn lesa þetta bréf frá formanni Blaðamannafélags Íslands, sem er starfsmaður Norðurljósa. Þegar menn huga að hlutdeild Baugs í öllu þessu dæmi þá finnst mér forvitnilegt að rifja það upp sem Jóhannes Jónsson, stofnandi fyrirtækisins og aðaleigandi, nefndi til sögunnar 10. janúar árið 1991.

Þá sagði hann í viðtali við Pressuna, með leyfi forseta:

,,Við ætlum ekki að safna auði af steypu. Í dag er Hagkaup stórhættulegt bákn. Í raun er engu fyrirtæki hollt að hafa meira en um 10% markaðshlutdeild. Þeir stóru geta stærðar sinnar vegna snúið á framleiðendur og innflytjendur sem á móti verða að hækka vöruverð sitt til að fullnægja kröfum risanna.``

Þetta er sagt í janúar árið 1991.

Ég hélt því fram á vefsíðu minni fyrir nokkru að hlutur Baugs í matvörumarkaðnum væri um og yfir 60%. Um og yfir 60%, sagði ég þegar ég skrifaði um þetta. Þá fékk ég bréf frá einum starfsmanni fyrirtækisins þar sem sagði, með leyfi forseta:

,,Sú fullyrðing að Hagar séu með 60% markaðshlutdeild í matvöru hefur margoft verið hrakin. Samkvæmt mælingum ACNielsen --- en ekki taka allar verslanir þátt í þeirri mælingu --- er hún um 47%. Sem sagt hlutdeildin er minni en 47%.``

Þetta fæ ég frá starfsmanni fyrirtækisins, fyrirtækis þar sem eigandinn og aðalstjórnandinn hélt því fram árið 1991 að 10% hlutdeild Hagkaupa á þessum markaði væri stórhættuleg og Hagkaup væri orðið stórhættulegt bákn. Þetta fyrirtæki viðurkennir sjálft að það sé með 47% hlutdeild á þeim markaði sem hér er um að ræða. Því er ástæða er til að spyrja: Hvert er markmiðið? Hvernig er hægt að treysta því þegar þessir menn koma síðan fram og segja að þeir hafi þau sjónarmið í fjölmiðlarekstri að þar sé bara eðlilegt að samþjöppun sé fyrir hendi, eins og hún er núna? Þeir ætla auðvitað að gína yfir meiru, eins og við sjáum á þróuninni og það er ekkert að marka orð þeirra um það.

Ég vek athygli á því, með leyfi virðulegs forseta, sem segir í hinni prentuðu skýrslu sem er forsenda fyrir þessu lagafrv. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Hafa ber í huga að hér hefur verið lýst stöðunni á íslenskum markaði eins og hún er þegar greinargerð þessi er rituð, og komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi ýmis einkenni samþjöppunar sem talin eru óæskileg út frá markmiðinu um fjölbreytni í fjölmiðlun. Er þá gengið út frá því, eins og rakið hefur verið, að fjölmiðlar gegni lykilhlutverki í lýðræðislegu þjóðfélagi sem vettvangur fyrir ólík viðhorf til stjórnmála og menningar í víðum skilningi, og sem vettvangur fyrir öflun upplýsinga og miðlun þeirra.``

Síðan segir:

,,Af mannréttindasáttmála Evrópu, eins og hann hefur verið túlkaður af Mannréttindadómstól Evrópu, leiðir að tryggja ber fjölbreytni í fjölmiðlun.``

Á öðrum stað í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

,,Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni. Einkum á þetta við samþjöppun á markaði fyrir einkarekna fjölmiðla, enda hvíla á Ríkisútvarpinu víðtækar skyldur um fjölbreytni í framboði dagskrárefnis og framsetningu þess sem ekki eiga við um einkarekna fjölmiðla.``

Ég tel að þessi orð skýrsluhöfunda og þau markmið sem þeir setja sér með starfi sínu endurspeglist í frv. sem hér er til umræðu og það þurfi ekki að draga forsendur þess í efa eða það umhverfi sem ég hef hér lýst og er staðfest lýsing mín á hættunum sem af þessu umhverfi stafa þegar lesið er og hlustað á Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóra Skjás 1, en hann sagði í Ríkisútvarpinu í viðtali fimmtudaginn 13. maí, með leyfi forseta:

,,Og þessi staða sem komin er upp, sérstaklega í kringum Norðurljósasamsteypuna síðan að hún lenti í eign Baugs. Hún er bara, það er ekki hægt að keppa við hana. Ef það er hægt að stjórna öllum fjölmiðlum og líka vera með hreðjatak á innflytjendum og heildsölum og stjórna þeirra markaðsaðgerðum og markaðssetningu í gegnum sko hillupláss í búðum þá er það bara staða sem er ekki hægt að keppa við. Og hvatinn í því kerfi er svo augljós til að misnota að það verður fullkomlega örugglega gert.``

Þetta segir hann um fyrirtæki sem er með 47% að eigin sögn á matvörumarkaði í landinu undir stjórn eiganda, sem sagði árið 1991, að 10% hlutdeild á sama markaði boðaði stórhættu, yrði hættulegt bákn sem enginn gæti keppt við.

Telja þingmenn að þetta ástand sé best fyrir þróun íslenskrar fjölmiðlunar og tryggi best þá dreifingu og það frelsi í landinu sem við öll viljum standa vörð um?

Hér hefur verið rætt um marga hluti. Á vissu stigi málsins tók umræðan m.a. þá stefnu að menn fóru ræða um fjármál stjórnmálaflokkanna. Sú umræða fjaraði náttúrlega út þegar í ljós kom hvernig Samf. hefur hagað sínum fjármálum. Það stóðst ekki gagnrýni og þá hættu menn allt í einu að ræða þann þátt málsins, þegar í ljós kom að vegna 500 þús. kr. reglunnar þá bað Samf. ekki um nema 499 þús. kr. í styrki, til þess að þurfa ekki að gefa þetta upp samkvæmt eigin reglu sem hún setti sér. (Gripið fram í.)

Það kemur mér á óvart, þegar ég les um þetta og heyri um þetta í miðlum sem eru að fjalla um þetta, í Fréttablaðinu og annars staðar, að blaðamaður sem þar starfar var einnig um tíma kosningastjóri Samf. í þingkosningunum árið 2003. Hann sendi mér afrit af tölvupósti árið 2002 sem lýsir því að hann hafi rætt við þáverandi framkvæmdastjóra Samf. vegna fjárkröfu sem hann taldi sig eiga á Jón Ólafsson, sem þá rak Norðurljós. Þessi blaðamaður, sem núna starfar á Fréttablaðinu, hefur ekki sagt frá þessu í blaðinu. Hann hefur ekki sagt frá þeim samskiptum sínum og þeim svörum sem hann fékk frá framkvæmdastjóra Samf. á þeim tíma um hvernig þeim fjárstuðningi væri háttað (Gripið fram í.) og hvernig það allt væri.

Ég get svo sem birt þetta bréf og upplýst það. Hann sendi það til formanns framkvæmdastjórnar Samf. og ég hef staðfestingu frá þeim manni, Stefáni Jóni Hafstein, um að hann fékk bréfið. Það er því engin launung yfir þessu ef menn vilja ræða það.

Ég er alveg undrandi á því að þessi frásögn, blaðamannsins á Fréttablaðinu núna, skuli ekki hafa birst í blaðinu þegar fjallað er um fjármál stjórnmálaflokkanna og hvaða samskipti eru á milli einstaklinga í því efni þegar um þessi mál er rætt. Hér er mál sem fróðlegt væri að þessi blöð fjölluðu um. En það náttúrlega hentar ekki málstaðnum. Ég spurði hér í ræðu 28. apríl: Hverra hagsmuna er Samf. að gæta í þessu? Það eru náttúrlega ekki hagsmunir þessara blaða og blaðamanna sem þar starfa að segja frá því hvernig þessum samskiptum er háttað og hvernig fjárstreymið var frá Jóni Ólafssyni til flokksins í kosningabaráttunni í borgarstjórnarkosningunum vorið 2002. Þetta bréf er dagsett 13. maí, það er tveggja ára gamalt núna. (Gripið fram í: Framlög til hvaða flokks?) R-listans og núverandi varaformanns Samf.

Ef menn vilja að ég lesi þetta bréf þá get ég gert það. Ég ætla ekki að gera það nema ég sé hvattur til þess. En það er sjálfsagt að ég lesi það hér í þinginu ef menn óska eftir því að ég fari yfir það nánar og skýri frá því sem fram kemur í þessu bréfi.

En ég hefði talið að þessi blaðamaður, sem hefur lagt sig fram um það sérstaklega að ræða um fjármál stjórnmálaflokkanna í þessum blöðum og að beina umræðunni inn á það svið, hefði hagað því svo að segja frá allri sinni vitneskju um þessi mál og upplýsa lesendur blaðsins um hana. En það hentar ekki vegna þess, eins og hér hefur margoft komið fram, að menn eru alltaf að átta sig betur og betur á því hverra hagsmuna Samf. gætir í þessu máli. Það er ekki málfrelsið og ekki frjáls upplýsingamiðlun heldur varðstaða um þögnina sem m.a. ríkir um þetta mál, þegar Fréttablaðið er að fjalla um stjórnmál og fjárstreymi til þeirra.(Gripið fram í.)

Síðan kem ég að því sem verið hefur til umræðu undanfarna daga, vegna hinnar furðulegu ákvörðunar forseta Íslands að taka ekki þátt í brúðkaupi í Danmörku, sem er náttúrlega hneisa fyrir þjóð okkar, að þjóðhöfðingi okkar skuli ekki sjá sér fært að fara þangað á einhverjum tilbúnum forsendum sem eiga ekki við nein rök að styðjast. Við vitum það best hér á hinu háa Alþingi að þessi rök þjóðhöfðingjans eiga ekki við neitt að styðjast og byggjast á forsendum sem eru tilbúnar.

Það er rætt um það hvernig túlka beri 26. gr. stjórnarskrárinnar. Forseti Íslands, sem fræðimaður við Háskóla Íslands, gaf út rit sem heitir ,,Íslenska Þjóðfélagið``. Það kom út árið 1977.

Þar segir með leyfi forseta:

,,Í 26. grein er forseta veitt heimild til að synja lagafrumvarpi staðfestingar, þar eð enginn forseti hefur beitt þessu ákvæði er það í reynd dauður bókstafur.``

Þetta er sagt árið 1977. Nú eru liðin næstum því 30 ár síðan og þessu hefur ekki verið beitt. Þannig eru enn þá sterkari rök fyrir því að þessu ákvæði eigi ekki að beita. Ef alþingismenn eiga að taka mark á því sem fræðimenn segja, eins og hér er gjarnan vitnað til þegar um þessi mál er rætt og lagt til grundvallar í umræðum um þetta mál, að það beri að taka ríkt tillit til fræðimanna, þá höfum við hér skoðun fræðimanns sem segir að það eigi ekki að beita þessu ákvæði, það sé í raun og veru orðið marklaust vegna notkunarleysis.

Síðan vaknar spurningin um það sem hér hefur komið fram: Er það vegna efnisatriða í málinu og á að krefjast þess af forseta Íslands, ef svo einkennilega vildi til að hann tæki ákvörðun um að beita þessu synjunarvaldi, á þá ekki að krefjast þess af forseta Íslands að hann upplýsi þingheim um það meðan mál eru til umræðu, að hann ætli að taka þessa afstöðu? Þessu hefur verið haldið fram í ritgerðum, að það sé nauðsynlegt þegar menn fjalla um þetta, að ef menn líti þannig á að forsetinn hafi þetta vald þá verði hann að taka efnislega afstöðu.

Hv. þingmenn hafa vafalaust heyrt það eins og ég, að þeir fræðimenn sem nú gefa til kynna að þetta ákvæði sé gilt og sjálfsagt fyrir forseta að íhuga það, hafa allir tekið fram að það ekki eigi að krefjast þess af forsetanum að hann láti í ljós neina efnislega afstöðu. Það hafa allir látið það sjónarmið í ljós að forsetinn eigi ekki að sýna þinginu þá virðingu að láta uppi fyrir fram hvaða afstöðu hann hefur í málinu svo að þingmenn geti áttað sig á því þegar fjallað er um málið hvort forseti Íslands ætli að gera þetta eða ekki.


 

Allir þessir menn sem eru að reyna að ýta undir að forsetinn taki þessa ákvörðun hafa látið í veðri vaka að hann þurfi ekki að skýra frá neinum efnislegum sjónarmiðum varðandi málið. Þetta stangast á við skoðanir manna sem hafa fjallað um þetta frá fræðilegum forsendum. Ég vitna þar sérstaklega til ritgerðar Þórðar Bogasonar sem var hér starfsmaður í þinginu og margir þingmenn þekkja --- hann var hér einn af aðallögfræðingum Alþingis á sínum tíma --- í það sem hann segir um þetta mál þegar hann fjallar um þetta út frá þingræðinu og leggur áherslu á það að forseti geti ekki beitt þessu ákvæði vegna þingræðisreglunnar. (Gripið fram í: Hvað segir Gunnar Schram.)

Þegar Þórður fjallar um þetta og menn lesa ritgerð hans þá vakna spurningar eins og þessar: Verður ekki forseti Íslands sem handhafi löggjafarvalds að vera á öndverðum meiði við aðalhandhafann Alþingi? Þetta er spurning sem vaknar þegar þetta mál er rætt. Er ekki eðlilegast að forseti sem er andvígur ákveðinni lagasetningu láti afstöðu sína í ljós sem fyrst þannig að þeim aðila sem deilir lagasetningarvaldinu með honum gefist ráðrúm til að íhuga rök hans? Er forseta heimilt að beita synjunarvaldi samkvæmt 26. gr. án nokkurs fyrirvara af hans hálfu, það er án þess að hann láti Alþingi vita fyrir fram um afstöðu sína? Þetta eru sjónarmið sem menn verða að hafa í huga þegar þetta mál er rætt. Ég tel að það séu lágmarksskilyrði til þess að forseti geti beitt þessu að þingheimur viti um þetta fyrir fram þegar verið er að fjalla um mál.

Hér er sagt að við eigum að vita að lögfræðingar kunni að hafa einhverja aðra skoðun á þessu frumvarpi heldur en við sem flytjum það, að það séu einhverjir menn úti í bæ, lögfræðingar, sem hafi þá skoðun að við megum ekki setja þessi lög vegna þess að þau brjóti í bága við stjórnarskrána. Síðan þegar kemur að því að menn fjalla um það hvort forseti geti komið í veg fyrir að lögin nái fram að ganga eða beitt sér gegn lögunum þá segja þeir: ,,Við eigum ekkert að vita um hans skoðun. Hún á bara að vera leyndarmál.``

Skýringin á því að menn tala svona um þetta núna er auðvitað sú að þingheimur veit hver skoðun forseta á þessu máli er. Hún kom hér fram árið 1995 þegar hann beitti sér fyrir því hér og í umræðum hér í þinginu að svona löggjöf yrði sett. Hann lýsti því hér yfir, varpaði fram fyrirspurnum í þingumræðum í febrúar 1995 sem gengu út á það að setja bæri svona lög. Hann hvatti ríkisstjórnina til þess að svona lög yrðu sett. (Gripið fram í.) Það hefur verið notað sem árásarefni á mig að ég væri ekki sömu skoðunar og hann um þetta. Það hefur verið notað sem árásarefni á mig að ég væri ekki sömu skoðunar. (Gripið fram í.) Ég hef hins vegar rakið hér hlutdeild Hagkaupa og Baugs á markaðnum. (Gripið fram í.) Ég hef skipt um skoðun vegna þess að ég hef þessa skýrslu (Gripið fram í.) og ég hef þessi rök. (Gripið fram í: Af hverju gerðirðu það?) Af því ég hef þessi rök sem koma fram í skýrslunni eins og ég ræddi hér 28. apríl. (BH: Hvaða vanstilling ...?) Það hefur ekkert komið í ljós sem segir mér að forseti Íslands hafi skipt um skoðun. (Gripið fram í.) Ég hef engar forsendur þegar ég fjalla um þetta mál hér á þingi til þess að draga aðra ályktun en þá að forseti Íslands sé þeirrar skoðunar að setja beri svona lög. Það er fráleitt að túlka það mál þannig að forseti Íslands geti nú allt í einu komið --- maður sem hefur lýst 26. gr. stjórnarskrárinnar dauðan bókstaf og maður sem hefur lýst því hér í þinginu að það beri að setja lög af þessum toga --- að hann geti svo komið og stöðvað framgang slíks máls (Gripið fram í.) eftir að Alþingi hefur komist að slíkri niðurstöðu. (Gripið fram í.)

Þetta eru sjónarmið sem verður að hafa í huga (Gripið fram í.) þegar þetta mál er rætt og verður ekki framhjá því komist, fyrir utan síðan þær persónulegu vanhæfisreglur sem koma til álita eins og forsætisráðherra gat um í fréttum í gær. (Gripið fram í.) Það eru málefnalegar forsendur og það eru persónulegar forsendur sem gera forseta Íslands ókleift að beita þessu ákvæði í þessu máli eins og fram hefur komið. (Gripið fram í.) Þetta held ég að menn verði að hafa í huga. Ég verð að brýna röddina, herra forseti, vegna hrópa samfylkingarfólksins sem er að verja hagsmuni Baugs í þessu máli. Og síðan þegar minnst er á forseta Íslands þá byrjar flissið og þá byrja hrópin úr öllum áttum. Hvaða hagsmuni er verið að verja? (Gripið fram í: Er frumvarpið ...?) Hvers er verið að gæta? Er verið að gæta þess að vilji Alþingis nái ekki fram að ganga? Er verið að gæta hagsmuna eins fyrirtækis sem hefur slíka markaðsyfirburði hér að sjálfur eigandinn taldi það stórhættulegt fyrir meira en tíu árum. (BH: Eru lögin um eitt fyrirtæki?) Hverra hagsmuna er verið að gæta? (BH: Eru lögin um eitt fyrirtæki?) Ég hef aldrei fengið svör við því (MÁ: Eru lögin ...) og ég krefst þeirra enn.

Ég rifja það aftur upp að síðan ef byrjað er að ræða um fjármál stjórnmálaflokkanna þá draga þeir strax í land þegar farið er að opna það pandórubox. Ég held að menn ættu að reyna að líka að loka því af hálfu Samfylkingarinnar eins og hv. síðasti ræðumaður reyndi að loka pandóruboxinu sem hún opnaði hér síðastliðinn vetur.