11.11.2003

KB-einvígi Friðriks og Larsens.

Hótel Loftleiðum, 11. nóvember, 2003.

Þegar ég var að sniglast nýlega orðinn 11 ára gamall um Sjómannaskólann snemma árs 1956 og kynntist spennunni í kringum einvígi þeirra Friðriks Ólafssonar og Bents Larsens af eigin raun, grunaði mig ekki, að ég mundi standa í þessum sporum nú við upphaf þessa KB-einvígis þeirra.

Vil ég ekki láta hjá líða að þakka Skákfélaginu Hróknum framtakið og þá sérstaklega driffjöður félagsins, Hrafni Jökulssyni, en kraftur hans við kynningu skákarinnar hefur vakið mikla og verðskuldaða athygli undanfarið. Óska ég skáklistinni til hamingju með að eiga slíka menn að ekki síður en þá Larsen og Friðrik.

Alls hafa þeir Larsen og Friðrik teflt 33 skákir frá árinu 1951, aðeins þremur hefur lokið með jafntefli og hermir skáksagan, að engin dæmi séu um svo lágt hlutfall jafntefla í skákum tveggja stórmeistara. Hitt er síðan athyglisvert, að staðan milli þeirra er hnífjöfn á þessari stundu: 15 vinningar gegn 15.

Er því vel við hæfi hjá Hróknum að velja vopnahlésdaginn, 11. nóvember, til að hefja þá orrustu, sem verður háð hér næstu daga og draga mun að sér athygli langt út fyrir raðir áhugamanna um skák.  11. nóvember er raunar einnig fæðingardagur Willards Fiskes, hins bandaríska velgjörðarmanns Íslendinga, sem lagði grunn að skáklífi Íslands á 20. öld.  Í anda hans er vel við hæfi, að Skákskóli Hróksins starfar hér í hótelinu á meðan einvígið er háð og á fjórum dögum munu mörg hundruð börn úr 27 skólum í Reykjavík og nágrenni heimsækja skákskólann.

Einvíga þeirra Larsens og Friðriks verður jafnan minnst sem  stórviðburða í íslenskri skáksögu ef ekki í Íslandssögunni. Í bókinni Nordisk sjakk i 100 aar  bregður Bent Larsen ljósi á mat samtímanna á því sem gerist árið 1956, þegar hann segir:


"Den danske ambassadör, Bodil Begtrup, sagde, at jeg var den förste dansker, der siden 1944 havde gjört noget populært i Island. - Det sagde hun flere dage för matchens slutning. Jeg vandt!".

Við bíðum spennt eftir úrslitunum í KB-einvíginu, en hver sem þau verða getum við þegar slegið því föstu, að Skákfélagið Hrókurinn sé núverandi Íslandsmeistari taflfélaga.

Ég segi  KB-einvígið hafið, það mun enn sanna, að skák er skemmtileg!