20.4.2000

Þjóðmenningarhús opnað

Þjóðmenningarhús opnað
20. apríl 2000.


Við komum hér saman á hátíðarstundu til að opna íslensku þjóðinni hús að nýju, sem hefur verið eign hennar og stolt í rúmlega nítíu ár. Er ég þess fullviss, að margir verða undrandi og glaðir, þegar þeir fara hér um endurnýjaða sali og kynnast glæsileik hússins. Á sínum tíma voru málsvarar þess sakaðir um „egypska byggingarsýki“ og viðleitni til að þyngja á landsmönnum með stuðningi við „luxus-fyrirtæki“.

Álíka gagnrýni er höfð í frammi enn þann dag í dag, þegar ráðist er í stórvirki fyrir opinbert fé, en fyrsti íslenski ráðherrann Hannes Hafstein lét hana ekki aftra sér og fann það ráð, að breyta fasteign í aðra fasteign eins og hann orðaði það með því að selja jarðir landsjóðsins í Reykjavík og nota tekjurnar til að reisa bókasafnsbyggingu úr steini eða steinsteypu.

Þegar við blasti á níunda áratugnum, að Landsbókasafn Íslands og Þjóðskjalasafn flyttu starfsemi sína úr húsinu, hófust umræður um, hvernig skynsamlegast væri að nýta þessa þjóðargersemi. Rætt var um, að Hæstiréttur Íslands fengi hér inni eða Stofnun Árna Magnússonar, einnig var hreyft hugmyndum um sýninga- og menningarstarf í sambúð við skrifstofu forseta Íslands. Nefndir störfuðu og skiluðu ágætum hugmyndum. Öllum var ljóst, að ekkert mætti gera, sem raskaði byggingunni sjálfri með nokkrum hætti.

Hinn 16. febrúar 1996 samþykkti ríkisstjórnin tillögu mína um þá skipan, sem fylgt hefur verið síðan varðandi endurnýjun og nýtingu hússins. Efni ákvörðunar ríkisstjórnarinnar blasir við okkur hér í dag í orðsins fyllstu merkingu og er ánægjulegt að sjá, hve vel hefur tekist að útfæra hana og hve góð sátt hefur náðst við yfirvöld húsafriðunar um framkvæmdir við húsið. Fé til þeirra hefur verið veitt úr Endurbótasjóði menningarbygginga, sem starfar á vegum menntamálaráðuneytisins. Er þetta stærsta einstaka verkefni, sem kostað hefur verið af sjóðnum undanfarin ár.

Samhliða framkvæmdum hér hafa verið teknar stefnumarkandi ákvarðanir um varðveislu bóka og skjala, sem voru í húsinu og eru bæði í eigu Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns og Þjóðskjalasafns. Bókakosti var valinn staður í Reykholti í Borgarfirði og lagt hefur verið á ráðin um nýbyggingar í þágu Þjóðskjalasafns á starfssvæði þess við Laugaveg.

Vil ég þakka öllum, sem hafa komið að því að finna farsæla lausn á mörgum flóknum álitamálum vegna þessa mikla og stórhuga átaks í þágu íslenskrar menningar. Á sínum tíma lagði ég til, að Þjóðmenningarhúsið flyttist af forræði menntamálaráðuneytis til forsætisráðuneytis og gekk það eftir, góðu heilli. Helstu rökin fyrir því voru að skipa húsinu sess með öðrum þjóðartáknum okkar. Forsætisráðuneytið fer til dæmis stjórnarfarslega með málefni Þingvalla, þá gætir það virðingar skjaldarmerkisins, fánans og þjóðsöngsins. Nú er þessari byggingu skipaður sambærilegur virðingarsess og þar á hún sannarlega heima.

Þjóðmenningarhúsið verður um aldur og ævi minnisvarði um hina miklu bjartsýni, sem einkenndi fyrstu ár heimastjórnar á Íslandi undir forystu Hannesar Hafsteins. Hann lýsti þeirri von, þegar hann lagði hornstein hússins, að í því yrðu geymdir fjársjóðir, sem ættu fyrir sér að vaxa með vaxandi viðgangi og menningu þjóðarinnar, og mælti af mikilli framsýni: 6Það er þekkingin og vísindin, sem finna upp vopnin og áhöldin til varnar og sóknar í lífsbaráttunni, baráttunni fram á við og upp á við til meira ljóss, meira frelsis, meira manngildis, sem er tímans krafa. &

Megi þessi orð vera okkur öllum leiðarljós, sem viljum auka veg og virðingu íslensku þjóðarinnar um ókomin ár.

Innilega til hamingju með Þjóðmenningarhúsið!