1.4.2000

Saga Reykjavíkur - Árbæjarsafn

Saga Reykjavíkur
Frá býli til borgar
Árbæjarsafn, 1. apríl 2000.


Veturinn 1918 var Reykvíkingum og allri þjóðinni ákaflega erfiður vegna spönsku veikinnar og mikilla kulda. Hann var einnig sögulegur í því tilliti, að þá varð Ísland fullvalda og í fyrsta sinn var litið á Reykjavík sem höfuðstað í ríki á Norðurlöndunum. Af því tilefni ræddu menn um þróun bæjarins og minntu á, að í Reykjavík vantaði ýmsar opinberar byggingar og jafnvel stofnanir, sem hver höfuðstaður yrði að hafa.

Indriði Einarsson spurði meðal annars af þessu tilefni: ?Þurfum við ekki 2 ráðherrabústaði í viðbót? Þurfum við ekki Landsspítala? Þurfum við ekki leikhús, tollbúð, háskóla og fleira, ef við eigum að komast hjá því, að útlendingar, sem komi hér, hlægi upp í opið geðið á okkur, þegar við segjum þeim, að bærinn sé fjórði höfuðstaðurinn á Norðurlöndum? "

Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þannig var spurt. Við höfum eignast húsin og stofnanir, sem Indriði nefnir og miklu meira, Reykjavík nýtur sín vel sem höfuðborg sjálfstæðs ríkis, þótt enn standi aðeins einn Ráðherrabústaður innan borgarmarkanna.

Saga Reykjavíkur endurspeglar að sjálfsögðu þróun íslenska þjóðfélagsins. Upphaf hennar er að öðrum þræði helgisaga, því að Ingólfur valdi sér búsetu hér að tilvísun guðanna. Goðsvarinu fylgdi heill og hamingja Ingólfs og ættmenna hans, sem áttu síðan þátt í því að Íslendingar tóku kristni árið 1000.

Áður en þungamiðja hins veraldlega valds í landinu, verslunar og iðnaðar fluttist til Reykjavíkur bárust héðan annars konar straumar um allt þjóðlífið, þannig varð klaustur Ágústínusarreglunnar í Viðey eitt hið ríkasta í landinu og áhrifa þess gætti víða hér og erlendis. Við siðaskiptin fyrir 450 árum réð það miklu um framvindu mála, þegar menn konungs náðu eignum klaustursins undir sig.

Góðir áheyrendur!

Öflugt og fjölbreytt mannlíf hér í Reykjavík er forsenda þess, að við Íslendingar fáum notið okkar í samfélagi þjóðanna. Allar áherslur í atvinnulífi og gildismati eru að breytast örar en við, sem lifum þessa miklu breytingatíma, getum skynjað. Nú eru það spurningar um menntun, vísindi, rannsóknir, menningu og listir, sem menn spyrja, þegar þeir meta stöðu þjóðfélaga, borga og fyrirtækja. Við þurfum að velta svörunum við þessum spurningum fyrir okkur núna. Að þessu leyti eru við í sömu sporum og þeir, sem stöldruðu við og litu í eigin barm eftir að fullveldi fékkst árið 1918 eða nýr siður kom til sögunnar árið 1550.

Við sjáum mörg merki þess, að íslenska þjóðfélagið er að sækja inn á nýjar brautir í atvinnumálum og búa í haginn fyrir enn öflugri starfsemi í mörgum nýjum greinum. Við þurfum að koma til móts við þessar greinar með því að skapa sterkt borgarsamfélag, sem stenst samkeppni við borgir meðal miklu fjölmennari þjóða. Þar er ekki síst krafist góðra skóla og spennandi lista- og menningarstarfs. Enginn hefði til dæmis talið sér fært að hefja hér vísindalegt starf á heimsmælikvarða í líftækni eða erfðagreiningu án þess að hér væru háskólar og sjúkarhús eða fjölbreytt menningarlíf.

Haldi Reykjavík ekki áfram að dafna á öllum þessum sviðum og laga sig að breyttum kröfum staðnar allt íslenska þjóðfélagið og þar með hefst afturför. Með þetta í huga er sýning Árbæjarsafns um sögu Reykjavíkur frá býli til borgar tímabært framtak, því að hér getum við á einstæðan hátt kynnst sögu og þróun, sem sýnir hve miklu er unnt að áorka við ólíkar og oft mjög erfiðar aðstæður. Á þeirri öld, sem við erum að kveðja, hafa framfarirnar orðið mestar og þar hefur ekki skipt minnstu fyrir Reykjavík, að henni hefur lengst af verið stjórnað af samheldni og stórhug.

Ég óska Margréti Hallgrímsdóttur borgarminjaverði og samstarfsfólki hennar í Árbæjarsafni innilega til hamingju með þessa metnaðarfullu sýningu og vona, að sem flestir fái notið þess, sem hér er til sýnis, því að allt er það kynnt af mikilli alúð. Lýsi ég sýninguna opna.