19.2.2000

Hvers vegna háskólaþing?

Háskólaþing,
Hafnarborg, Hafnarfirði,
19. febrúar 2000.

Fyrst nálgaðist ég svarið við spurningunni í heiti þessarar ræðu: Hvers vegna háskólaþing? með því að ætla að fjalla um stofnanir, lög, reglur, tölfræði og fjármál, en mér snerist hugur og ákvað þess í stað að segja ykkur sögu. Hún er af ungum manni Ólafi M. Einarssyni, sem stundar nú nám í Samvinnuháskólanum á Bifröst. Hann heimsótti mig í ráðuneytið um daginn og sagði mér, að ákvörðun sín um að fara aftur í nám eftir að hafa unnið í tíu ár við verslunarstörf hefði verið ein hin stærsta sem hann hefði tekið á lífsleiðinni, ekki aðeins fyrir sig heldur alla fjölskylduna, en hann á konu og tvö börn. Sumir vina hans töldu, að hann hlyti að hafa fengið högg á höfuðið, þegar fjölskyldan seldi íbúðina og flutti í hjónagarða á Bifröst. Ólafur tók hins vegar þessa ákvörðun af því að hann vildi njóta sín betur á vinnumarkaðnum og til þess varð hann að afla sér meiri menntunar. Hann sá ekki eftir að hafa stigið þetta skref og sagði:
,,Vissulega kostar námið margar milljónir, en það á eftir að gefa mér og mínum miklu meira en fjármuni í aðra hönd. Námið í skólanum er gott, markvisst og verkefnabundið, það opnar mér tvímælalaust nýjar leiðir. Ég hvet fleiri til að láta slag standa, séu þeir í sömu sporum og ég. Jafnframt hvet ég til þess að fólki verði auðveldað að taka ákvarðanir af þessu tagi með meiri sveigjanleika í námslánakerfinu. 8

Af ákvörðun Ólafs má draga ýmsar ályktanir. Hann leit þannig á, að með meiri menntun nyti hann sín betur í lífi og starfi. Þegar hann tók þetta stóra skref, var fyrir hendi háskóli í landinu, sem bauð að hans mati hagnýtt nám og ákjósanlega aðstöðu fyrir hann og fjölskyldu hans. Honum finnst háskólastefnan hugsuð of þröngt og hið opinbera stuðningskerfi við námsmenn ekki koma nægilega mikið til móts við fólk sem hefur farið sömu leið og hann gerði, rifið sig upp úr vinnu og ákveðið að hefja nám að nýju eftir nokkurt hlé. Menntaleið Ólafs frá grunnskóla til háskóla er ekki frekar en sífellt fleiri Íslendinga bein og viðstöðulaus.

Góðir áheyrendur!

Ég bregð upp þessari mynd í upphafi háskólaþings til að minna á, að íslenskir skólar keppa ekki aðeins innbyrðis og við erlenda skóla heldur einnig við vinnumarkaðinn um athygli og áhuga fólks á öllum aldri. Æ fleirum verður ljóst, að menntun og meiri menntun er besta leiðin til að njóta sín í samtímanum. Flestir fara í háskóla til að þeim vegni betur á hinum almenna vinnumarkaði, hinir eru færri, sem hafa að markmiði að sinna vísinda- og fræðastarfi en þeim fjölgar einnig jafnt og þétt. Atvinnuleysi meðal háskólamenntaðs fólks er óþekkt í landi okkar um þessar mundir og þörfin fyrir fleira vel menntað fólk er víða mikil. Skilningur á því, að góð menntun eigi að njóta sín í launaumslaginu fer einnig vaxandi og kjaraviðræður snúast ekki einungis um beinar launahækkanir heldur einnig um úrræði til betri menntunar.

Íslenskir háskólar standa á tímamótum og starfsumhverfi þeirra er að taka á sig nýja mynd. Sjóndeildarhringurinn má ekki takmarkast við eigið land heldur verður hann að spanna heiminn allan, því að fjarlægðir eru orðnar að engu. Sérhver þjóð verður þó að móta menntastefnu í samræmi við stöðu sína og markmið. Nú þegar eru íslenskum háskólum sköpuð nútímaleg starfsskilyrði með nýjum lögum, auknu sjálfræði og markvissum, árangursstýrðum aðferðum við fjárveitingar. Um þessar mundir er verið að hrinda nýjum námskrám fyrir fyrstu skólastigin í framkvæmd. Í upphafi þessa kjörtímabils lýsti ég yfir því að næsta stórverkefni á sviði menntamála væri að styrkja háskólastigið, framkvæma nýja háskólastefnu og efla rannsóknir og vísindi.

Fyrsta háskólaþingið er boðað til að tækifæri gefist til að leggja mat á stöðu okkar og líta fram á veginn. Ég vil þakka öllu því góða fólki, sem hefur lagt starfsmönnum menntamálaráðuneytisins lið við undirbúning þingsins og leggur fram krafta sína hér í dag. Sumir eru langt að komnir og allir önnum kafnir við mikilvæg störf. Hvarvetna urðum við vör við áhuga og velvild, þegar beðið var um liðsinni vegna þingsins, sem endurspeglar í raun hinn metnaðarfulla hug, sem Íslendingar bera til menntunar.

Við komum ekki saman til að líta til einstakra skóla skólanna vegna heldur til að átta okkur á því, hvernig þeir geta best sinnt óskum og væntingum nemenda og miðlað þeim þekkingu og þjálfað þá til vísindalegra vinnubragða við úrvinnslu fjölbreyttra verkefna. Námið er í boði fyrir nemendurna og þeir líta á það í ljósi þess, hvernig þeir meta framtíðina og hvaða tækifæri þeir vilja eiga til að njóta sín sem best.

Ég vil einnig þakka þeim nemendum í háskólunum átta, sem tóku þátt í undirbúningi þingsins með því að heimsækja mig í ráðuneytið og ræða um nám sitt og skóla. Samtölin eiga eftir að auðvelda mér margt í störfum mínum og þau staðfestu enn og aftur, að námsárin eru spennandi og dýrmætur tími. Þegar ég fer yfir samtölin koma tvö atriði í hugann, sem ég vil nefna sérstaklega.

Í fyrsta lagi vilja nemendur, að skólar hafi skýr námsmarkmið og framfylgi þeim með góðri kennslu. Þeir spyrja hvaða rétt þeir hafi, ef þeim finnst kennarar ekki standast þær kröfur, sem til þeirra eru gerðar. Þeir sætta sig ekki við skipulagsleysi og vilja fá tækifæri til að segja álit sitt á því, sem betur má fara, hvernig staðið er að kennslu og ákvörðunum um skólastarfið. Í mörgum tilvikum er greinilega þörf á að auka tengsl kennara og nemenda, skýra og skerpa samskiptaferli og sýna, að tekið sé mark á ábendingum um það, sem betur má fara.

Í öðru lagi vilja nemendur fá skýr skilaboð frá háskólunum. Verð ég ekki síst var við þetta í heimsóknum mínum í framhaldsskóla landsins og á fundum með nemendum og kennurum þeirra. Fjölbreytni í háskólanámi eykst með ári hverju og nýir háskólar tileinka sér aðrar kennsluaðferðir en hinir eldri. Aukin samkeppni milli skóla kallar á, að þeir skýri vel fyrir væntanlegum nemendum hvaða kröfur eru gerðar til þeirra. Skiptar skoðanir eru meðal nemenda um, hvort háskólar eigi að gera strangar kröfur við innritun eða gefa nemendum færi á að sýna hæfileika sína eftir eina önn eða tvær í háskóladeild. Enginn telur í sjálfu sér óeðlilegt, að sett séu skilyrði við skráningu í skóla eða deildir, en miklu skiptir, að öll slík skilyrði séu rækilega kynnt.

Ég hvet forystumenn allra háskóla til að skilgreina þessi skilyrði sem best og kynna þau rækilega fyrir framhaldsskólanemum og raunar miklu víðar um þjóðfélagið því að fólk er kallað úr ýmsum áttum inn á menntabrautina. Nýskipan náms í framhaldsskóla á að opna öllum leið að stúdentsprófi, hvort heldur þeir innrita sig í bóknám eða verknám. Það hlýtur að vera lykilatriði fyrir alla, sem vilja ná árangri, að þeir viti, hvaða kröfur eru gerðar til þeirra.

Við lifum í samkeppnisþjóðfélagi en góður árangur næst þó ekki nema með því að virkja marga ólíka krafta til samstarfs og frumkvæðis. Þau fyrirtæki blómstra, þar sem leitast er við að virkja menntun margra til að finna bestu lausnirnar. Háskólar eiga að svara þessum kröfum með aukinni rækt við það, sem þeir geta best, og samvinnu sín á milli á þeim sviðum, sem skilar enn betri niðurstöðu.

Í tilefni af háskólaþingi hefur í fyrsta sinn verið leitast við að draga saman sérstöðu og sameiginlega þætti íslenskra háskóla á einum stað í Tölfræðihandbók um háskólastigið. Er það von okkar, að þessar upplýsingar nýtist við að draga skýrari mynd af þróun og framtíð þessa mikilvæga skólastigs, þar sem átta skólar bjóða nú nám, hver með sínu sniði.

Nálægð nemenda og kennara í íslenskum háskólum er mismunandi, en alls staðar meta nemendur hana mikils. Vegur hún þungt í huga margra, þegar þeir velja sér skóla, enda á akademískt nám uppruna í sambandi nemanda og lærimeistara og enn í dag ræðst árangur ekki síst af því. Líklega er nálægðin hvergi meiri í háskóla hér en í hinum minnsta, það er Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri. Raunar má líta á hann sem stórt háskólamenntaheimili, þar sem í boði er hagnýtt nám með hliðsjón af þörfum íslensks landbúnaðar og aukin áhersla er lögð á rannsóknir ekki síst í samstarfi við norrænar menntastofnanir. Ætlunin er að stíga stærri skref og auka námsframboð með augastað á landgræðslu, skógrækt og umhverfisumönnun. Landbúnaðarskólar hafa þá sérstöðu, að heyra ekki undir menntamálaráðuneytið en starfsskipulag á Hvanneyri tekur mið af nýju háskólalögunum.

Þegar ég var í Háskóla Íslands fyrir rúmum þrjátíu árum höfðu margir áhyggjur af því, að hann væri að breytast í ofurgagnfræðaskóla með auknum kröfum um hagnýtt, starfstengt nám. Þá og enn í dag er staðreyndin sú, að flestir leita sér háskólamenntunar til að búa sig undir ákveðin störf, þótt hitt ráði mjög gæðum þess, hve miklar rannsóknir og dýpt er unnt að bjóða í einstökum háskólagreinum. Doktors- og meistaranám hefur náð að þróast mest í Háskóla Íslands. Að þessu leyti eins og á ýmsum öðrum sviðum er hann fremstur meðal jafningja, enda elstur og fjölmennastur. Vísindalegt nám gefur nemendum ekki aðeins ný tækifæri heldur opnar það einnig nýjar leiðir í viðkomandi fræðigreinum og til samskipta við fyrirtæki og rannsóknastofnanir, sem þróast ekki án ungra vísindamanna. Á hinn bóginn efast ég um að stærð Háskóla Íslands nýtist honum sem skyldi nema þverfagleg samvinna milli deilda aukist. Einn nemandi hafði á orði, að Suðurgatan væri eins og Berlínarmúr milli hugvísinda og raunvísinda. Styrkur Háskóla Íslands felst ekki síst í því, að honum takist vel að brúa þetta bil milli ólíkra deilda og búa nemendur sína þannig undir að geta tekist á við viðfangsefni, sem krefjast nýrra lausna.

Enn bætist ný vídd við háskólastigið með Listaháskóla Íslands. Þar verða allar listgreinar kenndar undir sama þaki í orðsins fyllstu merkingu. Er mikil eftirvænting meðal nemenda í ólíkum greinum vegna þessa nýja tækifæris til að læra og skapa eitthvað nýtt í nábýli við nemendur á öðrum sviðum og í samstarfi við þá. Nemendur Listaháskólans minntu mig á, að listnámið væri aðeins staðfesting á því, að í öllum skólum væri verið að nota þekkingu til að skapa eitthvað nýtt, aðferðin væri í raun hið eina sem greindi myndlistarmanninn frá stærðfræðingnum. Hönnunarnám er meðal vinsælustu nýrra greina á framhaldsskólastigi og bendir margt til þess, að það eigi ekki síður eftir að kalla á marga nýja nemendur á háskólastigi. Listaháskólinn gæti þannig hæglega einnig orðið öflugur starfsmenntaskóli og stuðlað að mikilli verðmætasköpun í mörgum greinum.

Kennaraháskóli Íslands hefur tekið stakkaskiptum eftir að fjórir skólar urðu að einum undir merkjum hans í ársbyrjun 1998. Þar hefur með markvissum hætti verið unnið að því að flytja þrjá gamalgróna framhaldsskóla á háskólastig. Fjölbreytni hefur aukist og kraftar hafa verið sameinaðir til nýrrar sóknar. Skólinn hefur einnig haft forystu um framhaldsnám með fjarnámi, þar sem höfðað er til starfandi kennara víða um land. Ég spjallaði við einn nemanda í fjarnáminu sem sannaði enn á ný fyrir mér hve fólk er reiðubúið að leggja hart að sér til að öðlast meiri menntun og finnur fljótt, hversu gefandi það er í starfi. Ég er þeirrar skoðunar, að þessi þáttur þróunarstarfs í öllu íslenska skólakerfinu sé vanmetinn. Í kennaranáminu eru margar nýjar hugmyndir að gerjast og vilja æ fleiri fá tækifæri til að hrinda þeim í framkvæmd.

Í meira en áratug hefur Háskólinn á Akureyri verið að þróast og hefur námsframboð hans aukist ár frá ári. Hefur skólinn rutt brautina í ýmsum greinum nú síðast í námi fyrir leikskólakennara og iðjuþjálfara á háskólastigi. Skólinn hefur í vaxandi mæli skilgreint sig sem landsbyggðarskóla, bæði vegna þess hvar hann er og einnig hvernig hann höfðar til nemenda. Hann hefur opnað mörgum leið til háskólamenntunar, sem annars hefðu farið á mis við hana. Framtak skólans og þróun er í takt við þá augljósu staðreynd, að hvergi þróast gott mannlíf án menntunar og menningar. Er ómetanlegt fyrir sérhvert byggðarlag að fjölga háskólamenntuðu fólki innan vébanda sinna og skapa því viðundandi starfsaðstöðu. Stækkun skólans og reynsla ætti einnig að stuðla að því að innan hans verði lögð meiri rækt við að dýpka nám með auknum rannsóknum og framhaldsnámi.

Samvinnuháskólinn á Bifröst sýnir glöggt, hve mikil áhrif skóli megnar að hafa í dreifbýli og hve þar er unnt að skapa örvandi umhverfi til náms og menntunar. Þar hefur verið lögð rík áhersla á nýjungar í skólastarfi eins og sannast nú síðast með fartölvuvæðingunni, sem hefur gjörbreytt öllum kennsluháttum. Styrkur skólans felst að verulegu leyti í því, að hann er afskekktur, þótt það kunni að virðast þverstæða, þegar tekið er mið af því, sem oft ber hæst í umræðum um byggðamál.

Háskólinn í Reykjavík breytti ímynd sinni á einum degi með nýju nafni. Minnir það enn á, hve mikilvægt er að skilaboðin til nemenda og alls umhverfisins séu skýr og ótvíræð. Ég skil nýja nafnið á þann veg, að ætlunin sé að bjóða fjölbreyttara nám við skólann en fyrra nafn gaf til kynna. Mikill sóknarandi setur svip sinn á nemendur skólans, sem líta jafnvel frekar á sig sem hluta af menntunarfyrirtæki en hefðbundnum skóla. Er greinilegt að nemendur hljóta mikla hvatningu frá kennurum sínum og skólastjórnendum til að ná settu marki.

Sami sóknarhugur einkenndi nemendur sem ég hitti frá Tækniskóla Íslands. Þeir eru fullir eftirvæntingar vegna fyrirhugaðra breytinga á skólanum, ef hann flyst frá ríki til einkaaðla, þar sem Alþýðusamband Íslands og Samtök iðnaðarins búa sig undir að taka að sér rekstur skólans eða framboð náms á starfssviði hans. Nemendur telja nám sitt mjög hagnýtt og vita, að kraftar þeirra eru eftirsóttir á vinnumarkaðnum að því loknu. Trésmiður, sem ákvað eftir fimm ára starf við iðn sína að hefja háskólanám, sagði, að frumgreinadeild Tækniskóla Íslands væri frábær kostur fyrir menn með sína grunnmenntun. Hún væri nauðsynleg til þjálfunar í fræðilegum vinnubrögðum og þar gæfist tækifæri til að laga sig að auknum kröfum, ekki síst í stærðfræði.

Góðir áheyrendur!

Hvað sýnir þessi stutta yfirferð okkur? Hún sýnir mikla fjölbreytni, sem veitir mörg spennandi tækifæri, en krefst þess einnig, að við stillum saman strengina. Á tiltölulega skömmum tíma höfum við gjörbreytt allri aðstöðu til háskólanáms á Íslandi. Stig af stigi erum við að hverfa frá frekar þröngri háskólastefnu og stækka faðm skólanna. Þeir spanna þegar vítt svið og dýptin í náminu mun aukast jafnt og þétt. Við rekstur háskóla nýtast í senn kraftar einkaaðila og ríkisins.

Við komum ekki saman til háskólaþings til að leggja á ráðin um að stofna nýja skóla heldur íhuga og ræða, hvernig við virkjum kraftana sem best með þeim skólum, sem við eigum nú þegar. Þingið er haldið til að árétta hina miklu fjölbreytni, hin nýju tækifæri ungra Íslendinga til að leita sér æðri menntunar. Við viljum að skólarnir séu virkir þátttakendur í að skapa Ísland nýrra tækifæra í heimi, þar sem menntun, menning, vísindi og rannsóknir skipta sköpum fyrir árangur einstaklinga og þjóða.

Með stolti er unnt að vísa til mikillar grósku í háskólamenntun á Íslandi. Við hikum ekki við að kynna og ræða, hvar við stöndum. Við minnum á, að hin stöðuga þekkingarleit er forsenda þess, að við getum svalað áhuga sífellt fleiri á að fá betri og fleiri tækifæri til menntunar. Vissulega er víða þörf á auknu fé til að gera betur og hlutur ríkisins til stuðnings við grunnrannsóknir og menntun ungra vísindamanna á að verða meiri. Mestu skiptir þó, að við vitum og sýnum, að fjármunum sé vel varið og að tími nemendanna, sem eru þungamiðja alls þessa starfs, nýtist þeim sem best.

Undir lok máls míns ætla ég, að segja ykkur aðra sögu en hún er af ungri konu Evu Hlín Dereksdóttur sem er fjórða árs nemi í vélaverkfræði í Háskóla Íslands. Hún sagðist hafa verið í Verslunarskóla Íslands og spurði ég hana, hvort ekki hefði verið erfitt að fara í verkfræðina vegna krafna þar um mikla stærðfræðikunnáttu. Hún sagði það ekki hafa aftrað sér enda kom í ljós að samhliða námi kenndi hún dæmatíma í skorinni hjá sér og bjó sig undir að sækja um skólavist til frekara náms í Bandaríkjunum. Eva Hlín sagði, að það ætti þó ekki að vera mjög erfitt að fá inngöngu í skóla, því að víða væri það svo við bandaríska háskóla, að prófessorar sæktust eftir því að fá nemendur frá Íslandi vegna þess að reynslan sýndi, að þeir hækkuðu að jafnaði meðaleinkunnina þar, sem þeir væru.

Ég spyr: Er unnt að fá betra veganesti en þetta úr skólakerfi eigin lands? Kjarkur íslenskra námsmanna og dugnaður vekur í senn aðdáun og eftirvæntingu. Það er ekki síður spennandi að fylgjast með þeim en afreksfólki á öðrum sviðum. Við eigum að setja okkur það mark, að þetta fólk fái að njóta krafta sinna sem best og geti einnig nýtt þá á öllum sviðum íslensks þjóðlífs.

Að lokum skýr skilaboð til ykkar, sem hingað eruð komin í dag: Ótrauð eigum við að ýta undir fjölbreytni og samkeppni. Fámenni þjóðarinnar kallar þó einnig á það, að íslenskir háskólar standi saman að því að bjóða hið besta, sem á þeirra valdi er. Með því að virkja fjölbreytnina næst bestur árangur. Undir því leiðarljósi eigum við að að móta háskóla, sem starfa af hugrekki og krafti, bjartsýni og metnaði.