22.9.1995

Ávarp á kynningarráðstefnu um Sókrates-áætlunina

Ávarp á kynningarráðstefnu um Sókrates-áætlunina
22. september 1995.

Góðir áheyrendur.

Ég fagna því hve margir hafa komið hingað til þessarar ráðstefnu um samstarfsáætlun Evrópuambandsins sem nefnd hefur verið í höfuðið á gríska heimspekingnum Sókratesi. Ráðstefnan er haldin til að kynna þau tækifæri sem samstarfsáætlunin hefur að bjóða íslenskum námsmönnum, kennurum, skólum og stofnunum.

Mér er sérstök ánægja að bjóða velkomna til Íslands og á þessa ráðstefnu, Alan Smith, fulltrúa framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, sem ætlar að leiða okkur um það völundarhús sem Sókrates áætlunin virðist fljótt á litið, Judith Hemery frá Bretlandi, sem starfar við stofnun sem sér um námsheimsóknir og nemendaskipti, en slík samskipti eru stór þáttur Sókratesar og Annemarie Holm frá Danmörku, sem starfar á sama sviði.

Samstarfsáætlun Evrópusambandsins, Sókrates, er nú óðum að komast til framkvæmda, en hún var samþykkt af ráðherraráðinu í vor. EFTA löndin, Ísland, Lichtenstein og Noregur, eiga fulla aðild að áætluninni með sömu réttindum og skyldum og aðildarlönd Evrópusambandsins. Aðildin er á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eins og öll önnur þátttaka þessarra EFTA landa í menntamálasamstarfi Evrópusambandsins. Í þessu samstarfi eiga EFTA löndin rétt á að hafa frumkvæði við að hrinda af stað nýjum verkefnum í samstarfi við aðila í öðrum þátttökulöndum og þeim standa til boða styrkir til samstarfsverkefna, nemenda- og kennara[byte=31 1F]skipta.

Samstarfið um Sókrates byggist á Maastricht- sáttmálanum. Þar eru ákvæði um aukið samstarf aðildarríkja Evrópusambandsins á sviði menntamála, en jafnframt áréttað að forræði menntamála sé á hendi stjórna landanna. Samstarfið á að vera jákvæð viðbót og hefur reynst það, því að flest lönd Evrópu eiga við líka erfiðleika að etja innan menntakerfa sinna og eru sammála um leiðir til úrbóta.

Edith Cresson, framkvæmdastjóri Evrópusambandsins á sviði rannsókna og menntamála, setti í sumar ráðstefnu í Frakklandi þar sem Sókrates[byte=31 1F]áætluninni var formlega hleypt af stokkunum. Í upphafi máls síns sagði hún að öllum væri nú orðið ljóst að menntun væri besta fjárfesting Evrópuþjóðanna. Þessi skoðun fellur vel að sjónarmiðum, sem ég hef hreyft til að rökstyðja fjárveitingar á innlendum vettvangi til mennta- og rannsóknarmála. Í því sambandi má ekki gleyma því, að við Íslendingar verjum rúmlega 200 milljónum króna á ári í framlög til þessa evrópska samstarfs á sviði rannsókna, vísinda og menntamála fyrir utan innlendan kostnað, sem óhjákvæmilega fylgir þátttökunni. Er mikilvægt, að við nýtum þessa fjárfestingu sem best.

Markmið samstarfsáætlunarinnar Sókratesar er fyrst og fremst að bæta menntun í Evrópu með auknum skoðanaskiptum, samstarfi um nýbreytni[byte=31 1F]starf og áherslu á að læra af öðrum þar sem vel hefur tekist. Sókrates áætlunin á að gera þetta kleift en þar er lögð áhersla á nemenda- og kennaraskipti, samstarf milli menntastofnana, samstarf um nýbreytni í skólastarfi og síðast en ekki síst er lögð áhersla á að skólarnir nýti betur nýju upplýsingatæknina og verði lifandi hluti upplýsingaþjóðfélagsins, meðal annars með gerð kennsluefnis með margmiðlunartækni.

Símenntun kemur einnig við sögu innan Sókratesar, einkum sú tegund hennar sem á að gera fólk hæft til að skipta um störf nokkrum sinnum á ævinni.

Árið 1996 á sérstaklega að vekja athygli á símenntun í Evrópu. Íslendingar taka þátt í því eins og aðrar þjóðir sem aðild eiga að Evrópska efnahagssvæðinu.

Eins og innan Leonardó áætlunarinnar, sem kynnt var hér í vor og er nú komin á fullt skrið, gerir Sókrates ráð fyrir að sérstakt tillit verði tekið til þeirra sem minna mega sín innan skólakerfisins, til dæmis með skipulögðum aðgerðum til stuðnings þeim sem flosna upp úr námi.

Íslendingar hafa undanfarin ár tekið þátt í nemenda- og kennaraskiptaáætluninni Erasmusi, en sú áætlun er nú hluti Sókatesar. Evrópusambandið hefur starfrækt Erasmus frá 1987 og hafa menn sannfærst um gildi þess, að háskólanemendur og kennarar eigi kost á því að sækja hluta menntunar sinnar utan heimalandsins. Góður árangur af Erasmusi leiddi til þess að ákveðið var að innan Sókratesar yrði starfsmönnum og nemendum á öllum skólastigum gefinn kostur á að taka þátt í alþjóðlegu samstarfi. Sá hluti áætlunarinnar sem snýr að grunn- og framhaldsskólum hefur hlotið nafn Comeniusar sem var tékkneskur heimspekingur og fræðari á sextándu öld.

Auk þátttöku í Comeníusi og Erasmusi fá Íslendingar nú tækifæri, sem ekki hefur áður boðist, til að taka þátt í tungumálaáætlun Evrópusambandsins, Lingua, sem er orðinn hluti Sókratesi. Þessi áætlun, sem hefur verið starfrækt um nokkurt skeið, á rætur í þeirri sannfæringu að tungu[byte=31 1F]málakunnátta sé lykillinn að öllu samstarfi milli þjóða. Innan áætlunarinnar hafa verið gerðar árangursríkar tilraunir með aðferðir til að flýta því, að nemendur nái tökum á erlendu máli eða málum.

Sókrates-áætlunin gerir ráð fyrir að breyting verði á framkvæmd Erasmusar hlutans þannig að í stað þess að einstakir kennarar beri ábyrgð á samstarfsverkefnum liggi ábyrgðin nú á herðum stjórnenda háskólanna. Þessi breyting hefur sætt nokkurri gagnrýni og bent hefur verið á hættuna á því að frumkvæði einstaklinga glatist. Meðal annars vegna þessarar gagnrýni hefur verið ákveðið að gangast fyrir sérstakri kynningaherferð þannig að þátttakendur verði tilbúnir að tileinka sér breytta starfshætti haustið 1997. Með breytingunni er meðal annars stefnt að því að auka samstarf stjórnenda háskóla og er þess vænst að slíkt samstarf geti leitt til þess að menn þrói sameiginlega námsleiðir sem ekki eru til í Evrópu í dag. Til dæmis má nefna námsleið sem gefið hefur mjög góða raun í Bandaríkjunum þar sem fléttað er saman námi í verkfræði og viðskipta- eða hagfræði.

Þátttaka Íslendinga í samstarfsáætlunum Evrópusambandsins á sviði menntamála, COMETT og Erasmusi, hefur þegar skilað mjög góðum árangri og við væntum enn meira af Leonardó og Sókatesi, sem spanna mun víðara svið. Í rauninni allt menntakerfið. Þátttaka okkar í þessum samstarfsáætlunum gerir okkur færari um að bera okkur saman við önnur Evrópulönd og það besta sem þar er í boði á sviði menntunar. Þetta auðveldar okkur að ná því mikilvæga markmiði, að íslenskir námsmenn standi jafnfætis jafnöldrum sínum á alþjóðlegum vettvangi. Til íslenska menntakerfisins á að vera unnt að gera slíkar kröfur, þótt ljóst sé, að erfitt verður að fullnægja þeim hér með sama hætti og í stórum háskóla- og vísindasamfélögum.

Til þess að framkvæmd Sókrates áætlunarinnar á Íslandi megi verða árangursrík, þurfa þeir sem hafa áhuga á samstarfi innan hennar að eiga greiðan aðgang að upplýsingum. Einnig er mikilvægt að tengslin við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og framkvæmdaaðila í þátttökulöndunum séu góð.

Menntamálaráðuneytið ber ábyrgð á samstarfinu á sviði menntamála innan EES, en það hefur falið Alþjóðaskrifstofu háskólastigsins að hafa umsjón með framkvæmd Sókratesar hér á landi. Skrifstofan sá um framkvæmd Erasmusar með mikilli prýði og væntir menntamálaráðuneytið góðs af áframhaldandi samstarfi. Ljóst er, að í þessu efni eins og öðrum verðum við að sníða okkur stakk eftir vexti. Fjárhagurinn setur okkur hér skorður eins og endranær. Við vitum hins vegar, að hæfir starfsmenn koma að þessum þýðingarmiklu störfum.

Alþjóðaskrifstofa háskólastigsins hefur átt veg og vanda að skipulagningu þessarar ráðstefnu og af gögnunum sem hér liggja frammi og þeim upplýsingum sem veittar verða, er ljóst að þátttaka Íslendinga í Sókrates - áætluninni er hafin af fullum krafti.

Ég ítreka ánægju mína yfir því, hve margir hafa komið hingað í dag og vona, að sá fróðleikur, sem hér fæst nýtist landi og þjóð til heilla.