8.11.1996

Setningarávarp á málþingi Handverks um listhandverk, menntun og atvinnu

Setningarávarp á málþingi Handverks um listhandverk, menntun og atvinnu.
2. nóvember 1996.

Það er mér ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur nokkrum orðum í upphafi þessa málþings um handverk. Í ritgerð um Ufsakrossinn kemst dr. Kristján Eldjárn meðal annars svo að orði:

“Hin fyrsta kristna list hlaut hvarvetna að styðjast við heiðnar erfðir. Þess vegna er fullvíst, að fyrstu líkneskin, sem Íslendingar gerðu af Kristi, hinum nýja guði, hafa ekki líkst öðru meira en myndum Þórs og Óðins, þeim er fyrir skemmstu var steypt af stalli í hofunum. Þótt hinn nýi, útlendi guð væri óskyldur hinum gömlu goðum, þá var handbragð heimalandsins hið sama fyrir og eftir kristnitöku, og það hefur hlotið að setja sama svipmót á hvort tveggja."

Handbragðið var hið sama og hefur þróast með sínum hætti hér á landi og að ýmsu leyti annan en í nágrannalöndum, þótt viðfangsefnin verði æ líkari og fjarlægðir verði að engu. Þetta handbragð markar enn í dag hlut okkar Íslendinga í evrópskri menningararfleifð og fyrir það þurfum við ekki að skammast okkar.

Vil ég þakka þeim, sem að þessu málþingi standa og hafa auk þess á undanförnum árum markvisst unnið að því að hefja íslenskt handbragð eða handverk til vegs og virðingar, fyrir ómetanlegt starf þeirra.

Það er skoðun mín að í handverki og hönnun, sé að finna eina af þeim auðlindum Íslendinga, sem við höfum nýtt illa og ekki sinnt sem skyldi. Hún hefur þó þann kostinn umfram flestar aðrar auðlindir að af henni eyðist það ekki, sem af er tekið, heldur þvert á móti.

Nýlega tók ég þátt í umræðum á erlendum vettvangi um þróun vísinda og tækni. Er ekki efi í mínum huga um að sú skoðun er rétt, sem þar kom fram, að það verður handbragðið, hönnunin og handverkið, sem ræður úrslitum um hagsæld þjóða í meira mæli en áður. Til hvers er að ráða yfir miklum náttúruauðlindum, ef menn kunna ekki með þær að fara?

Við sjáum það einnig í samtímanum, að þeim þjóðum vegnar vel efnahagslega, sem ráða yfir takmörkuðum náttúrauðlindum. Bendi ég á Dani í nágrenni okkar, Japani í meiri fjarlægð, eða smáríki eins og Singapúr, sem leggur líklega mest allra af mörkum til menntamála.

Hitt er ekki síður ánægjulegt, að ástundun góðs handverks er að jafnaði einnig rækt við hið varanlega í verkmenningu og listsköpun, sem teygir rætur sínar langt aftur í þjóðarsöguna. Baðstofuvinna verður að atvinnu, sem krefst markaðar og þar með kynningar, en hún vekur aftur víðtækari áhuga á gömlu handbragði og innlendum efnivið. Laðar að sér jafnt innlenda sem erlenda viðskiptavini.

Að þessu leyti lít ég á það starf, sem unnið er undir merkjum Handverks, sem íslenska menningariðju. Það er þó ekki einungis á sviði listhandverks, sem við byggjum á því liðna. Það ætti að vera hverri iðn, sem stendur á gömlum merg, metnaðarmál að viðhalda kunnáttu á gömlum vinnubrögðum. Oft veltur varðveisla menningararfsins á þessari kunnáttu. Nægir þar að nefna rétt vinnubrögð við viðgerð og varðveislu gamalla húsa. Skilningur á þessu er að aukast. Til marks um það má nefna, að í einum framhaldskólanna eru nemendur á trésmíðabraut látnir skoða gömul hús og þeim kennt að gömlu húsin kalla á önnur vinnubrögð en nýsmíðin.

Þegar litið er til skólanna með handverk í huga, verða mörkin oft óglögg á milli listnáms annars vegar og iðnnáms hins vegar. Hvar á til dæmis að flokka tréskurð? Er hann löggilt iðngrein eða á að kenna hann sem listgrein í skólum? Ég hallast að hinu síðarnefnda, því að þar með yrði einnig stuðlað að námi af þessu tagi víðar en ella. Þá gæti skólakerfið betur komið til móts við vaxandi áhuga á tréskurði, sem birtist meðal annars í því, að nær 200 manns hafa gengið í Félag áhugamanna um tréskurð, sem stofnað var á þessu ári.

Áhugi á námi í hönnun er mikill hér á landi og er nú unnt að stunda það á fleiri en einum stað. Nokkur vandi hefur skapast vegna þess, að námið hefur ekki enn náð að þróast með þeim hætti, að það sé lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna. Þau sannindi mega ekki gleymast, að langt og strangt nám innan sem utan skóla er að baki vel hannaðs og unnins hlutar og því aðeins nær handverk að blómstra að menn nálgist viðfangsefni sitt af metnaði.

Fræðsla um handverk er síður en svo aðeins veitt innan hinna hefðbundnu skóla. Framlag áhugamanna eins og ykkar er einnig ómetanlegt í þessu tilliti. Hvatnig frá ykkur er oft kveikja að því, að skólarnir fara af stað með eitthvert handverksnám. Vil ég eindregið hvetja ykkur til að knýja dyra hjá skólunum og stofna til samstarfs við þá, þar sem þess er kostur. Umræður um stöðu framhaldsskólanna á landsbyggðinni gefa ekki rétta mynd, ef menn ætla, að þeir verði ekki áfram í stakk búnir til að veita hæfilega þjónustu í byggðarlögum sínum eða taka þátt í farskólum og fullorðinsfræðslu.

Góðir áheyrendur!

Ég skipaði í febrúar síðastliðnum nefnd til þess að gera tillögur um með hvaða hætti megi standa að stofnun listiðnaðar- og hönnunarsafns. Hefur hún starfað síðan undir formennsku Stefáns Snæbjörnssonar, deildarsérfræðings í menntamálaráðuneytinu.

Nefndin á samkvæmt erindisbréfi sínu

- að skilgreina hlutverk og viðfangsefni hönnunarsafns og þörfina á því að koma slíku safni á fót,

- að gera tillögur um rekstraraðila og hvers konar rekstrarform slíkt safn ætti að hafa,

- semja drög að stofnskrá og gera tillögur um hvernig standa eigi að uppbyggingu safnsins í byrjun.

Nefndinni er einnig ætlað að leggja fram kostnaðaráætlun og gera tillögur um hvernig standa eigi að fjármögnun safnsins.

Nefndin er enn að störfum. Á grundvelli tillagna hennar ætti að vera unnt að taka ákvarðanir um næstu skref í þessu mikilsverða máli. Blómleg starfsemi samtaka ykkar og áhuginn á þeim sýningum, sem þið og aðrir hafa efnt til á íslensku handverki, sýna, að hönnunarsafn á erindi til okkar Íslendinga. Brýnt er, að til alls undirbúnings þess verði vandað, svo að safnið beri vott um þá alúð, sem nauðsynleg er til að vinna gott handverk.

Ég óska ykkur velfarnaðar í störfum og ítreka þakkir mínar fyrir að fá tækifæri til að taka hér til máls.