13.9.1996

Foreldraþing Heimilis og skóla

Foreldraþing Heimilis og skóla
Seltjarnarnesi 13. september 1996

Oft hefur verið sagt að eitt af vandamálunum í skólakerfinu sé að ábyrgð á menntun barna sé velt á milli kennara sem hafa of mikið að gera og foreldra sem aldrei eru heima! Hafi þetta einhvern tímann verið rétt þá er ég fullviss um að sannleiksgildi þessara orða fer þverrandi. Menntun nýtur meiri viðurkenningar nú en áður, skólastarf er metnaðarfyllra og foreldrar sýna menntun barna sinna mikinn áhuga.

Með flutningi grunnskólans til sveitarfélaganna hefur hlutverk foreldra gagnvart skólanum tekið á sig nýja mynd. Þar vísa ég ekki aðeins til nýrra laga um grunnskólann og ákvæða þar um hlut foreldra heldur einnig þeirrar staðreyndar, að með flutningnum var valdinu dreift. Skólarnir standa nú stjórnarfarslega nær borgurunum en áður. Þeir eiga því að geta haft meira um þá að segja. Ég tel, að það sé röng hugsun, að skólum sé fyrir bestu að starfa alfarið á eigin forsendum og án tengsla við nánasta umhverfi sitt, foreldrana. Þvert á móti er öflugt foreldrastarf í tengslum við skóla til þess fallið að styrkja skólann á allan hátt.

Foreldrar bera höfuðábyrgð á börnum sínum og þótt skólinn ásamt fjölskyldunni sé mikilvægasti mótunaraðili barnsins getur hann aldrei tekið á sig að fullu uppeldisstarf foreldra og fjölskyldna. Foreldrar eru ásamt nemendum stærsti hagsmunahópur sem skólakerfið þjónar og því rétt og eðlilegt að þeir hafi áhrif á það mikilvæga starf sem fram fer í skólum. Grunnskólinn er vinnustaður nemenda í 10 ár og þótt lög og reglugerðir eigi að tryggja að samskipti nemenda og kennara og allur aðbúnaður í skólum eigi að vera þannig að börnunum líði sem best má oft gera betur. Foreldrar eru þeir aðilar sem ef til vill verða þess fyrst varir ef börnunum líður illa í skólunum einhverra hluta vegna eða ef vinnuálag er of mikið og eru þess vegna betur í stakk búnir en t.d. fræðsluyfirvöld, sem óneitanlega eru fjarlægari daglegri starfsemi skólanna, til að gera skólanum viðvart og koma með tillögur til úrbóta. Foreldrar gera kröfur um að börn þeirra hljóti góða grunnmenntun og er eðlilegt að þeir fylgist vel með því starfi sem fram fer í skólum, komi með tillögur og leiti leiða til lausna í samvinnu við starfsfólk skólanna þegar eitthvað bjátar á. Gott samstarf heimila og skóla er ein forsenda þess að skólaganga barnanna skili sem bestum árangri á hverjum tíma. Mikilvægt er að foreldrar og skóli séu samstíga í þeim skilaboðum sem nemendur fá t.d. varðandi heimavinnu, útivistarreglur, umgengni og aga. Það veitir nemendum öryggi og stuðlar að betra skólastarfi sem skilar af sér heilsteyptum og ábyrgum einstaklingum.

Skólarnir verða einnig að koma til móts við þarfir foreldranna. Í flestum tilvikum eru báðir foreldrar útivinnandi og vinnudagurinn er langur. Þar sem eitt foreldri sér um umönnun barnanna er ástandið oftast verra. Heilsdagsskólinn er mikilvægt skref í þá átt að bæta öryggi barnanna og velferð fjölskyldunnar. Einnig þarf að huga að lausnum fyrir yngstu börnin þegar löng frí eru í skólunum, svo sem jólafrí og sumarleyfi.

Heildarsamtök foreldra eru afar mikilvægur vettvangur við stefnumótun foreldra í málefnum skóla, miðlun upplýsinga og fræðslu til foreldraráða og foreldrafélaga, sem ráðgjafaraðili fyrir foreldra almennt og samráðs- og samræmingaraðili allra foreldraráða á landinu. Þá eru landssamtök foreldra sameiginlegur málsvari foreldra gagnvart stjórnvöldum sem fylgjast með því að lögum og reglugerðum um skólahald sé fylgt.

Með þetta í huga er mér sérstakt fagnaðarefni að fá tækifæri til að ávarpa ykkur fulltrúa á Foreldraþingi 1996. Vil ég leitast við að svara nokkrum spurningum, sem hljóta að verða til umræðu hér á þessu þingi ykkar.

Þar má fyrst nefna, hvernig foreldrar og félög þeirra geta veitt sveitarstjórnum aðhald og stuðning til að efla skólastarfið.

Samkvæmt 13. gr. grunnskólalaga eiga foreldrar ásamt kennurum og skólastjórum rétt til setu á fundum skólanefndar með málfrelsi og tillögurétti. Foreldrar eða samtök foreldra í skólahverfinu eiga að kjósa einn úr sínum hópi til að starfa með skólanefnd og einn varamann. Mikilvægt er að foreldrar nýti sér þennan rétt og kynni sjónarmið sín varðandi atriði eins og skipulag náms og kennslu, rekstur skólans, byggingaframkvæmdir t.d. í sambandi við einsetningu skólans og skólaakstur ef um hann er að ræða fyrir skólanefnd, sem í umboði sveitarstjórnar fer með málefni grunnskóla eftir því sem lög og reglugerðir ákveða.

Í 14. gr. laganna er kveðið á um að skólastjóri skuli a.m.k. tvisvar á ári boða til sameiginlegs fundar kennararáðs, foreldraráðs og nemendaráðs til að veita upplýsingar um skólastarfið og fjalla um málefni þessara ráða.

Í 15. gr. laganna segir að foreldrar barna í grunnskóla geti ákveðið að stofna samtök foreldra við skólann í þeim tilgangi að styðja skólastarfið og efla tengsl heimila og skóla. Foreldrafélög hafa verið vettvangur foreldra til að ræða málefni skólans og barna sinna og til að vinna að ýmsum hagsmunamálum skólans. Foreldrafélög hafa sinnt ýmsum málum varðandi skólahald á undanförnum árum, oft með frábærum árangri. Skv. 16. gr. grunnskólalaga á foreldraráð hvers skóla að veita skólanefnd umsögn um skólanámskrá og aðrar áætlanir varðandi skólahaldið. Einnig getur foreldraráð eða foreldrafélag valið að snúa sér beint til sveitarstjórnar með einstök málefni sem snerta skólann.

Þessi ákvæði laganna eru ætluð til þess að tryggja rétt foreldra til að hafa áhrif skipulag skólastarfs, veita skólum og skólanefndum aðhald og stuðning og til að stuðla að umbótum í skólastarfi.

Ekki er óeðlilegt, að foreldrar spyrji, að hvaða þáttum skólastarfs þeir og félög þeirra eigi að beina sjónum sínum innan sveitarfélags og á landsvísu.

Ákvæði um foreldraráð í 16. gr. grunnskólalaga var fyrst og fremst hugsað til að gefa foreldrum formlegan vettvang til að koma sjónarmiðum sínum t.d. varðandi innihald og áherslur í skólastarfinu og skipulagi skólahalds á framfæri við stjórn skólans, bæði innan skólans og gagnvart skólanefnd og sveitarstjórn. Lagaákvæðið gerir t.d. ráð fyrir að foreldraráð gefi umsögn um skólanámskrá skólans, en í skólanámskrá eiga einmitt að koma fram atriði eins og skipulag náms og kennslu, skólareglur, öryggismál, skólatími, skóladagatal og námsmat svo eitthvað sé nefnt. Foreldraráð eiga jafnframt að geta lagt sitt til málanna þegar verið er skipuleggja breytingar og viðhald á skólabyggingum. Fræðsluyfirvöld vænta þess að með þessu fyrirkomulagi skapist grundvöllur fyrir gagnkvæman skilning, traust, samábyrgð og góða samvinnu milli foreldra og skólamanna um skólahald í landinu sem leiði til farsællra skólastarfs en ella.

Menntamálaráðuneytið gerði könnun sl. vor á starfsemi foreldraráða. Nú hafa um 150 skólar af 208 svarað og af þeim hafa 123 þegar stofnað foreldraráð. Gengið hefur verið eftir svörum frá þeim skólum, sem hafa ekki sinnt þessu erindi.

Mikilvægt er að þess sé gætt að skólastarf fullnægi ákveðnum lágmarkskröfum og að gripið sé til viðeigandi ráðstafana ef þróun mála gefur tilefni til.

Samkvæmt grunnskólalögum hefur menntamálaráðuneytið eftirlitsskyldum að gegna og er þetta hlutverk í stórum dráttum þríþætt, þ.e. öflun og miðlun upplýsinga, úttektir og mat á skólastarfi og framkvæmd samræmdra prófa í 4., 7. og 10. bekk grunnskóla.

Stjórnun skólamála grundvallast að verulegu leyti á kerfisbundinni upplýsingaöflun og miðlun upplýsinga til hlutaðeigandi aðila. Því þurfa fræðsluyfirvöld á markvissan hátt að afla sér áreiðanlegra upplýsinga um skólastarf til þess að geta sinnt því eftirlits- og þróunarhlutverki sem þeim er ætlað samkvæmt grunnskólalögum, m.a. til að grípa inn í ef ekki er farið að lögum og reglugerðum. Ef úttekt á starfi einstakra skóla eða áreiðanleg upplýsingaöflun gefur til kynna að ekki sé unnið samkvæmt lögum og reglugerðum er það skylda ráðuneytisins að koma þeim upplýsingum á framfæri við viðkomandi sveitarstjórn og óska eftir tillögum til úrbóta hið allra fyrsta. Slíkar tillögur þurfa að innhalda bæði tíma- og framkvæmdaáætlun. Í kjölfarið mætti birta niðurstöður úr úttektum, prófum og úrvinnslu upplýsinga. Það gæti virkað sem öflugt aðhalds- og eftirlitstæki.

Grunnskólalögin gera ráð fyrir stóraukinni upplýsingamiðlun um skólastarf, bæði um grunnskólakerfið í heild og um skólahald í einstökum sveitarfélögum og endurspegla því mikla trú á mátt upplýsinga sem aðhalds- og gæðastjórnunartæki í skólum.

Innan skamms kemur út á vegum menntamálaráðuneytisins tölfræðihandbók um mennta- og menningarmál. Þar má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar um skólastarf í landinu og samanburð við stöðuna í öðrum löndum. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt rit er gefið út hér á landi og verður það vonandi til að efla faglega umræðu um skólamál og auðvelda foreldrum þátttöku í henni.

Um þessar mundir er ráðuneytið að hrinda af stað markvissri endurskoðun á námskrám grunn- og framhaldsskóla. Verður það verk unnið samkvæmt nákvæmri tíma- og verkáætlun. Hafa fyrstu starfsmennirnir þegar verið ráðnir, en sérstök verkefnisstjórn starfar innan ráðuneytisins og er Jónmundur Guðmarsson verkefnisstjóri.

Við þetta mikla starf verður á næstu tveimur árum leitað samráðs og umsagnar fag- og hagsmunaaðila, m.a. foreldra, kennara, skólastjóra og fulltrúa launþega og vinnuveitenda. Vænti ég góðs samstarfs við samtök foreldra í þessu máli því brýnt er að tekið verði tillit til sjónarmiða allra hagsmunaaðila þannig að sem best sátt takist um nýjar aðalnámskrár grunn- og framhaldsskóla.

Kröfur almennings, atvinnulífs og stjórnvalda um gæði skólastarfs munu fara vaxandi. Með nýrri námskrá eigum við að setja kröfur sem jafnast á við það besta á heimsmælikvarða. Nemendum og kennurum verður að vera ljóst að hverju er stefnt í skólastarfinu. Námsgögn þurfa að vera í góðu samræmi við námsmarkmið og kennsluaðferðir verða að vera fjölbreyttar og taka til dæmis mið af þeim tæknibúnaði, sem til boða stendur. Virkt samstarf heimila og skóla og heimila og fræðsluyfirvalda stuðlar einnig að auknum gæðum í skólastarfi, t.d. með gagnkvæmri upplýsingamiðlun og aðhaldi foreldra. Góð grunnmenntun kennara og endurmenntun, sem skipulögð er í samræmi við þarfir skólanna, skiptir einnig sköpum við að tryggja stöðug gæði í skólastarfi. Reglubundið ytra og innra mat á skólastarfi, t.d. úttektir á skólum og markviss notkun prófa er liður í upplýsingaöflun fræðsluyfirvalda um árangur skólastarfs. Því er mikilvægt að efla mat á skólakerfinu og einstökum þáttum þess til þess að afla áreiðanlegra upplýsinga um atriði eins og námsárangur og námsferil nemenda, kennsluhætti og áhrif þeirra á námsárangur, gæðastjórnun í skólum, samskipti í skólum og tengsl heimila og skóla. Síðast en ekki síst er brýnt að efla rannsóknir á sviði skólamála.

Góðir áheyrendur.

Hér hef ég drepið á nokkur atriði, sem meðal annars snerta hlut foreldra í skólastarfi. Vona ég, að þið hafið einhver not af þessum hugleiðingum í þingstörfum ykkar. Um leið og ég óska ykkur velgengni í þeim, býð ég ykkur öllum að koma til menntaþings, sem menntamálaráðuneytið boðar til í Háskólabíói og Þjóðarbókhlöðu laugardaginn 5. október næstkomandi. Þar eigið þið að geta kynnst því, að í íslenskum skólum fer fram metnaðarfullt starf og þar er margt á döfinni, sem kemur á óvart.