15.5.1997

Viðskipatmenntun á 21. öld

Hver mótar viðskiptamenntun 21. aldar?
Erindi Björns Bjarnasonar menntamálaráðherra
á aðalfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga
15. maí í Þingholti, Hótel Holti.

Sú hugmynd er lífseig meðal okkar Íslendinga, að skólastarfsemi eigi að vera í höndum opinberra aðila og undir forsjá þeirra eða beinlínis á vegum ríkisins. Ég var minntur á þetta, þegar ég var beðinn um að tala hér á þessum fundi í dag. Lagt var til, að ræða mín bæri fyrirsögnina: Viðskiptamenntun 21. aldar.

Hvers vegna vakti þetta mig sérstaklega til umhugsunar? Jú, vegna þess að ég er einfaldlega þeirrar skoðunar, að hvorki menntamálaráðherra né embættismenn innan menntamálaráðuneytisins eigi að ákveða inntak þessarar menntunar eða annarrar háskólamenntunar á 21. öldinni. Þess vegna kaus ég, að fyrirsögn ræðunnar væri: Hver mótar viðskiptamenntun 21. aldar? Vil ég leitast við að svara þeirri spurningu og þakka fyrir, að mér skyldi boðið að koma sjónarmiðum á framfæri á þessum fundi.


*

Um þessar mundir fer fram umfangsmikið starf, sem miðar að því að setja grunnskólanum og framhaldsskólanum nýjar námskrár. Er þetta í fyrsta sinn, sem tækifæri gefst til þess að vinna að námskrárgerð þessara tveggja mikilvægu skólastiga samtímis og í samfellu. Er ég ekki í nokkrum vafa um, að það eitt eigi eftir að styrkja innviði skólastarfsins og gera það markvissara.

Lögum samkvæmt er það beinlínis skylda menntamálaráðherra að setja aðalnámskrár fyrir þessa skóla. Hann hefur hins vegar engar sambærilegar skyldur gagnvart háskólastiginu, en þar fer fram sú kennsla, sem ræður inntaki í viðskiptamenntun á 21. öldinni og er tilefni fundar okkar hér í dag.

Sumum kann að vísu að þykja of fast að orði kveðið, þegar þessu er slegið föstu, því að viðskiptamenntun eigi ekki síður heima á grunn- og framhaldsskólastigi, einkum ef hún er skilgreind á þann veg, að í henni felist að læra að kunna fótum sínum forráð fjárhagslega og takast á við dagleg úrlausnarefni, sem í vaxandi mæli snúast um viðskiptaleg málefni. Ég á von á því að hinar nýju námskrár taki mið af nýjum kröfum á þessu sviði. Einnig er ljóst, að með betri skilgreiningu á starfsbrautum og starfsnámi mun hið almenna framhaldsskólakerfi þjóna viðskiptum og kaupsýslu betur en til þessa. Nægir þessu til sönnunar að nefna viðleitni í hinum nýja Borgarholtsskóla hér í Reykjavík, sem er nú að ljúka sínu fyrsta starfsári.


*

Hér mun ég því ræða um viðskiptamenntun á háskólastigi.

Í frumvarpi til laga um háskóla sem nú liggur fyrir á Alþingi er gert ráð fyrir að heildarlöggjöf um háskóla geymi einungis einfaldar meginreglur um starfsemi skólanna. Starfsrammi hvers skóla verði endurskoðaður og einfaldaður í samræmi við hina nýju heildarlöggjöf en allar nánari útfærslur á starfi skólanna verði að finna í sérlögum, reglugerð og starfsreglum hvers þeirra. Í frumvarpinu er lagt til að sjálfstæði háskóla verði eflt og ábyrgð þeirra aukin. Menntamálaráðherra verði heimilað að setja sérstakar reglur um ytra og innra gæðaeftirlit með starfsemi skólanna en jafnframt að skólarnir sjálfir sinni virkara gæðaeftirliti með eigin starfsemi.

Aðalatriði er að samkvæmt frumvarpinu eiga háskólarnir sjálfir að bera meginábyrgð á starfsemi sinni en hlutverk menntamálaráðuneytisins verður fyrst og fremst að fylgjast með því að skólarnir framfylgi þeim áætlunum, sem þeir hafa sett sér og að þeir uppfylli þær kröfur, sem þeir gera til kennslunnar. Eins og skýrt hefur verið frá í fréttum varð að samkomulagi innan menntamálanefndar Alþingis og í góðri sátt við mig, að háskólafrumvarpið yrði ekki afgreitt af þinginu fyrr en næsta haust, enda var frá upphafi gert ráð fyrir, að lögin tækju ekki gildi fyrr en 1. janúar 1998.


*

Í samræmi við ákvæði í frumvarpinu og fyrri ákvarðanir mun menntamálaráðuneytið í vaxandi mæli beita alþjóðlega viðurkenndum aðferðum til að meta kennslu og rannsóknir í háskólum. Fyrsta matið af þessu tagi hér á landi, sem nær til fleiri en eins skóla, tók til viðskipta- og rekstrarfræði við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri, Samvinnuháskólann á Bifröst og Tækniskóla Íslands. Það hófst í árslok 1995 og lauk formlega með blaðamannafundi 11. apríl síðastliðinn.

Hér er ekki tilefni til að ræða aðferðina við matið. Hitt skiptir meiru að velta fyrir sér, hvaða lærdóm við getum dregið af því. Þarna var í fyrsta sinn skyggnst inn í skólana og grandskoðað, hvernig þeir standa að kennslu í viðskipta- og rekstrarfræðum.

Markmið með matinu var að: Greina sterkar og veikar hliðar viðskipta- og rekstrarfræðimenntunar hér á landi. Gera tillögur um áherslur og úrbætur í menntun á þessu sviði. Afla kerfisbundinna upplýsinga um viðskipta- og rekstrarfræðimenntun hér á landi, sem auðveldi samanburð við önnur lönd. Þróa matsaðferðir fyrir háskólamenntun.

Matið felur ekki í sér samanburð á stofnunum eða röðun þeirra eftir gæðum. Háskólastofnanir hér á landi eru margbreytilegar og hafa ólíka stefnu og markmið og í úttekt á þeim felst því fyrst og fremst mat á því hversu vel skólarnir ná markmiðum sínum.

Helstu niðurstöður voru meðal annars þær, að mikið starf hafi verið unnið við uppbyggingu og endurskipulagningu viðskipta- og rekstrarfræðináms undanfarin ár og hafi allir skólar, sem veita þessa menntun, nýlega tekið upp þriggja ára BS-nám. Ekki hafi þó verið hugað nægilega vel að verkaskiptingu á milli skóla og möguleikum þeirra til sérhæfingar eða samvinnu, t.d. hvað varðar nám í upplýsinga- og tölvutækni og rannsóknatengt nám. Enn brýnna sé að huga að slíkri stefnumótun en áður þar sem hafinn sé undirbúningur að stofnun nýs verslunarháskóla á vegum Verzlunarskóla Íslands.

Brottfall nemenda sé of mikið, sérstaklega við viðskiptaskor Háskóla Íslands en það leiði til sóunar fjármuna og tíma nemenda og kennara. Gera þurfi viðskiptaskor kleift að takmarka inngöngu nýrra nemenda og draga þannig úr brottfalli.

Efla þurfi sérstaklega nám í upplýsinga- og tölvutækni og nám á sviði fjármála, sölu- og markaðsfræða.

Skortur sé á íslensku efni til kennslu í viðskipta- og rekstrarfræði. Auka þurfi rannsóknir á íslensku atvinnulífi, þar sem íslensk sérkenni séu dregin fram og greindar leiðir til að draga úr þessum skorti á íslensku námsefni. Rannsóknir þurfi þó ekki að fara fram við alla skólana, heldur beri að byggja upp sterkar rannsóknaeiningar og miðla þaðan rannsóknaniðurstöðum.

Erfitt sé að fá hæfa kennara til kennslu í viðskipta- og rekstrarfræði. Huga þurfi að því að gera kennslustofnanir á sviði viðskipta- og rekstrarfræði betur samkeppnisfærar við atvinnufyrirtæki um kjör og aðbúnað fyrir starfsfólk.

Fjöldi nemenda á hvern kennara í skólum sem bjóða viðskipta- og rekstrarfræðimenntun sé misjafn eftir skólum og einnig sé kostnaður á hvern nemanda misjafn. Stuðla þurfi að meiri jöfnuði á milli skóla að þessu leyti.


*

Þetta eru hinar almennu niðurstöður, sem dregnar eru fram af stýrihópi matsins. Þegar ég las úttektina á náminu á skólunum fjórum kom mér mest á óvart, hvað þar er sagt um stærsta skólann, sem hefur auk þess staðið lengst að viðskiptamenntun, það er Háskóla Íslands. Staldraði ég ekki síst við það, sem segir í skýrslu svonefnds ytri matshóps, sem mat réttmæti og áreiðanleika þeirra niðurstaðna, sem eru settar fram í sjálfmatsskýrslum skólanna. Meginniðurstöður ytri matshópsins um viðskiptaskor Háskóla Íslands eru þessar:

Viðskiptaskor byggir á áratuga hefð í kennslu viðskiptafræða og býður upp á mjög fjölbreytt úrval námskeiða á þessu sviði. Viðskiptafræðingar frá H.Í. hafa sterka stöðu í atvinnulífinu og hafa margir staðið sig vel í framhaldsnámi erlendis. Matshópur telur þó að hægt sé að gera enn betur ef skorinni og Háskólanum tekst að ráða fram úr nokkrum erfiðum úrlausnarefnum.

Að mati ytri matshóps felst meginorsök þeirra vandamála sem viðskiptaskor glímir við í þeim höftum sem á henni hvíla sem deild í Háskóla Íslands.

Skorinni er óheimilt að velja úr hópi umsækjenda eða setja inngönguskilyrði. Margir hefja námið á röngum forsendum. Þetta leiðir til sóunar á fjármunum hins opinbera og ekki síst tíma þeirra sem ef til vill hefðu átt að fara annað. Það er ógerlegt að veita öllum þeim sem hefja námið viðunandi þjónustu.

Skorin þarf að geta valið úr umsækjendum, innheimt námsgjöld, aflað sér sértekna í atvinnulífinu og verið samkeppnishæf við atvinnulífið í launakjörum.

Verði þessum hömlum ekki aflétt er hætt við að viðskiptaskor verði undir í samkeppni við sjálfstæða skóla sem kenna myndu sambærilegt námsefni á höfuðborgarsvæðinu.


*

Ef litið er á þessar athugasemdir og þær skoðaðar í samhengi við frumvarpið til laga um háskóla, sést, að sé rétt á málum haldið á háskólalöggjöfin alls ekki að hindra umbætur á þeim sviðum, sem þarna eru talin til veikleika. Þvert á móti veitir löggjöfin svigrúm til að bregðast við á nýjum forsendum.

Samkvæmt frumvarpinu verður háskólum heimilað að setja inntökuskilyrði. Frumvarpið bannar ekki heldur, að innheimt séu námsgjöld. Þá er öflun sértekna ekki bönnuð. Á hinn bóginn er hvorki gert ráð fyrir því, að viðskiptaskor losni úr tengslum við Háskóla Íslands né starfsmenn hennar hætti að þiggja laun samkvæmt reglum um opinbera starfsmenn.

Lagasetning um háskólastigið er tvíþætt. Í fyrsta lagi eru hin almennu viðmið í heildarlöggjöfinni. Tillögur liggja nú fyrir um þau. Í öðru lagi er lagasetning um einstaka skóla. Þar held ég, að erfiðast verði að taka á málefnum Háskóla Íslands. Innan hans eru ýmsir með róttækar hugmyndir um gjörbreytt skipulag, sem miðar einmitt að auknu sjálfstæði deilda. Má færa fyrir því rök, að skilgreina ætti einstakar deildir sem sjálfstæða skóla, sem þróuðust á eigin forsendum en ekki á forsendum háskólasamfélagsins svonefnda, eins og það er nú skilgreint af Háskóla Íslands. Að leita að samnefnara skoðana í háskólasamfélaginu hvetur því miður hvorki til hraða né róttækni.

Á hinn bóginn er það ekki síst með vísan til hinna tilvitnuðu orða úr skýrslu ytri matshópsins, sem ég hef sagt, að þessi úttekt sannfæri mig um, að verslunar- eða viðskiptaháskóli á vegum Verslunarskóla Íslands eigi fullan rétt á sér. Þar held ég, að einkaaðili geti veitt góða menntun með hagkvæmum hætti og án þess að þurfa að glíma við þau “höft", sem því fylgir að vera deild í Háskóla Íslands, svo að vitnað sé í skýrsluna. Ég bendi jafnframt á þá staðreynd, að Samvinnuháskólinn á Bifröst er eini einkaskólinn af þeim fjórum, sem voru metnir, og þar þykir ekki ástæða til að gera athugasemdir vegna launakjara kennara. Þar virðist tækjakostur einnig bestur.

*
Á öðrum vettvangi hef ég lýst þeim almennu áhyggjum, að ríkisreknir skólar dragist óhjákvæmilega aftur úr einkaskólum, ef beinlínis sé bannað að leita leiða til að fjármagna kennslustarf innan þeirra með öðrum hætti en úr ríkissjóði. Menntun er besta fjárfestingin fyrir þjóðfélagið í heild. Hún er það ekki síður fyrir einstaklinga. Á að banna þeim að festa fé í eigin menntun, aðeins vegna þess að ríkið rekur skólana?

Í Háskóla Íslands verða menn að koma sér saman um skiptingu heildarfjárveitingar ríkisins. Hvorki menntamálaráðuneytið né Alþingi gera tillögur um það, hvernig fjármunum skuli skipt milli einstakra deila. Innan skólans hefur um nokkurra missera skeið verið tekist á um það, hvernig haga skuli reiknilíkani um fjárstreymi til skólans og innan hans. Út á við heyrist helst um þetta líkan, að það vanti tugi ef ekki hundruð milljóna króna úr ríkissjóði vegna þess. Um hitt er minna talað, að líkanið hefur alls ekki verið fullsmíðað vegna ágreinings innan skólans um skiptingu fjár milli deilda og skora. Á meðan háskólasamfélagið hefur ekki komist að niðurstöðu er ástæðulaust fyrir ríkisvaldið að viðurkenna líkanið af sinni hálfu.

Ég nefni þetta hér til að árétta þá skoðun mína, að frumkvæði og forræði er og á að vera í höndum háskólanna. Þetta á í senn við um faglega hlið mála og fjárveitingar til einstakra námsbrauta.


*

Síðan úttekin á viðskipta- og rekstrarfræðináminu lá fyrir hinn 11. apríl slíðastlinn hefur verið farið yfir hana innan menntamálaráðuneytisins. Þar hafa nú verið teknar ákvarðanir um næstu skref í málinu.

Í frumvarpi til laga um háskóla er tekið á þeim atriðum, sem lúta að inntökuskilyrðum og námsgráðum á háskólastigi. Í samningum um fjárveitingar til einstakra skóla er hugað að hlutfalli nemenda og kennara. Um kjör kennara er samið í kjarasamaningum. En þessi fjögur atriði snerta stjórnvöld sérstaklega samkvæmt úttektinni.

Önnur atriði eins og sérhæfing skóla, efling og samhæfing rannsókna, skortur á íslensku efni til kennslu, aukin áhersla á efni úr atvinnulífinu, áhersla á upplýsinga- og tölvutækni og brottfall nemenda eru öll þess eðlis, að skólarnir sjálfir verða að taka á þeim og vinna að úrbótum.

Menntamálaráðuneytið hefur nú ritað skólunum fjórum og lagt fyrir þá að taka á einstökum úrlausnarefnum og gera ráðuneytinu grein fyrir afstöðu sinni fyrir 30. september næstkomandi. Til fróðleiks ætla ég að lesa bréfið, sem sent hefur verið til Háskóla Íslands:

“Í skýrslum ytri matshóps og stýrihóps vegna úttektar á viðskipta- og rekstrarfræðimenntun koma fram athugasemdir um menntun á þessu sviði almennt og einnig um nám í einstökum skólum. Athugsemdir sem snerta viðskipta- og rekstrarfræðimenntun almennt eru helstar þær að verkaskipting og sérhæfing skóla mætti vera meiri. Einnig er bent á að efla þurfi og samhæfa rannsóknir innan greinarinnar og nýta niðurstöður rannsókna til þess að auka hlut íslensks efnis og dæma úr íslensku atvinnulífi í kennslu. Ráðuneytið óskar þess hér með að þeir skólar sem veita viðskipta- og rekstrarfræðimenntun á háskólastigi ræði saman um þessi atriði og skili sameiginlegum tillögum til ráðuneytisins um verkaskiptingu og eflingu rannsókna fyrir 30. september nk.

Í úttektinni koma einnig fram eftirfarandi athugasemdir við nám í viðskiptafræði við viðskiptaskor Háskóla Íslands:
1. Stefna greinarinnar varðandi námsgráður er ekki skýr. Nýverið hefur verið tekið upp BS-nám og MS-nám hefst næsta haust. Ekki er ljóst hvað verður um cand.oceon. námið við þessar nýju aðstæður.
2. Háskóli Íslands er megin rannsóknarstofnunin á sviði viðskipta- og rekstrarfræða. Athuga þarf hvernig því hlutverki verði betur sinnt.
3. Brottfall nemenda er hátt og lögð er áhersla á að viðskiptaskor geti takmarkað ingöngu nýrra nemenda.
4. Fyrirlestrar eru of ríkjandi í kennslu í fyrri hluta námsins og ekki nægileg áhersla á hagnýt verkefni.
5. Niðurstöðum kennslumats hefur ekki verið fylgt nægjanlega vel eftir.

Óskar ráðuneytið eftir því að viðskiptaskor geri því grein fyrir afstöðu sinni til þessara athugasemda fyrir 30. september nk."

Ég tel, að þetta bréf svari best spurningunni um það, hver mótar viðskiptamenntun 21. aldarinnar. Skólarnir stýra sjálfir ferðinni og þeir eiga í senn að láta rannsóknir og náin samskipti við þjóðlífið ráða miklu um, hvert haldið er. Hlutverk stjórnvalda er að skapa starfsramma, sem veitir svigrúm, setur markmið, gerir kröfur og knýr á um að starfað sé undir aga. Aðeins á þann veg eru nemendur búnir undir það með réttum hætti að takast á við ögrandi verkefni í opnu samfélagi, sem mótast af metnaðarfullri samkeppni á alþjóðlegum forsendum.


*

Hinar alþjóðlegu samkeppniskröfur setja æ meiri svip á íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Menntunarstig þjóðarinnar ræður því, hvernig okkur vegnar í þessari samkeppni. Kröfurnar til þeirra, sem standa að rekstri fyrirtækja aukast en minnka ekki.

Atvinnulífið á að gera strangar kröfur til menntunar starfsmanna sinna og þar með til menntastofnana. Ég er þeirrar skoðunar, að tengsl séu á milli metnaðarleysis á vinnumarkaði og innan skóla. Námið endurspegli oft þessa neikvæðu þætti í umhverfi sínu.

Háskólanám á Íslandi nýtist hinu almenna atvinnulífi illa, ef litið er til þess, hvert þeir leita, sem ljúka slíku námi. Rannsóknir Stefáns Ólafssonar prófessors sýna, að tæplega 60% háskólamenntaðra Íslendinga starfa hjá hinu opinbera, þar af rúmlega 73% háskólamenntaðra kvenna og rúmlega 44% karla. Má spyrja, hvort hið opinbera geri strangari menntunarkröfur en tíðkast á hinum almenna vinnumarkaði. Það er til dæmis tiltölulega nýlega, sem eigendur útgerða sáu hag sínum betur borgið með því að ráða viðskiptamenntaða menn til starfa hjá sér. Háskólamenntaðir menn í fiskvinnslu eru innan við 1% af starfsmönnum þar.

Á háskólastiginu er um helmingur nemenda í heimspekideild og félagsvísindadeild. Konur eru meirihluti námsmanna og þær ljúka fremur BA-prófi en BS-prófi. Áhugi á raungreinum fer minnkandi. Þeir, sem bera hag verkfræði fyrir brjósti, hafa miklar áhyggjur af framtíð þess náms hér á landi vegna skorts á nemendum. Góð þekking þjóða í tækni og raungreinum er talin ýta mjög undir nýsköpun. Þessi þróun á háskólastiginu er því töluvert áhyggjuefni.

Er þá komið að lokum máls míns.

Ég tel, að viðskiptamenntun 21. aldar eigi að mótast af kröfum líðandi stundar án þess að dregið sé úr faglegum metnaði og áherslum á þau vinnubrögð og þekkingaratriði, sem eru sígild og í raun algild. Ákvarðanir um inntak námsins eiga að vera í höndum þeirra, sem bera ábyrgð á stjórn háskóla. Ég sé fyrir mér fleiri en einn háskóla, þar sem unnt er að stunda viðskiptamenntun. Milli skólanna ríki í senn samkeppni og verkaskipting, þar sem Háskóli Íslands bjóði fræðilegasta námið í tengslum við víðtækasta rannsóknastarfið.

Alþjóðlegt samstarf háskóla mun aukast og einnig fjarnám. Háskólar á Íslandi munu ekki einungis keppa innbyrðis um nemendur búsetta hér á landi, þeir munu einnig keppa við háskóla erlendis um þessa sömu nemendur. Íslenskir háskólar verða þess vegna að taka þátt í alþjóðasamkeppni með fjarnámi og leggja sig fram um að þróa námsefni, sem hefur alþjóðlega skírskotun en byggist á innlendum rannsóknum og til dæmis rekstri fyrirtækja við okkar sérstæðu og að ýmsu leyti harðbýlu aðstæður. Hvers vegna skyldu viðskiptafræðilegar eða hagfræðilegar lausnir hér ekki nýtast á fræðilegum forsendum á alþjóðavettvangi?

Góðir áheyendur!

Vonandi skynjið þið, að ég tel marga kosti og góð tækifæri til að þróa hér viðskiptamenntun á 21. öldinni. Höfuðatriði er, að menn bíði ekki eftir skrifborðslausnum embættismanna í ráðuneyti, heldur verði um eðlileg viðbrögð skóla við áreiti frá atvinnulífi og alþjóðlegum kröfum að ræða án þess að fræðilegum metnaði sé fórnað.